Eru Stuðmenn búnir að vera?

Stuðmenn Um fátt hefur verið meira rætt undanfarna daga en frammistöðu Stuðmanna á afmælistónleikum Kaupþings. Þeir áttu væntanlega að vera hið öfluga lokaatriði en þeir féllu mjög í skuggann af öðrum atriðum og þóttu koma með nýjungar í spilamennsku sinni sem féllu ekki í kramið. Þar komu þeir saman með athyglisverða tilraunamennsku, þ.e.a.s. sem band án gítarleikara og undirstaðan voru þrjú hljómborð og trommur.

Það er greinilegt að margir velta því fyrir sér hvort komið sé að endalokum á löngum og um margt farsælum ferli Stuðmanna, sem hefur verið starfandi með mannabreytingum allt frá árinu 1975 eða frá því að Sumar á Sýrlandi, sem var mikil tímamótaplata, kom út. Það leikur enginn vafi á því að brotthvarf Ragnhildar Gísladóttur úr Stuðmönnum árið 2005 breytti hljómsveitinni mikið og nú nýlega hefur Þórður Árnason, gítarleikari hljómsveitarinnar, yfirgefið skipið og horft í aðrar áttir. Það er því kominn losarabragur á Stuðmenn.

Það er óumdeilanlegt að lokaatriðið á tónleikunum sem áttu að vera hápunktur urðu það ekki. Hápunkturinn var atriði Bubba Morthens, þá var mesta stemmningin og allir tóku undir, og Todmobile, þar sem mikill kraftur var á sviðinu. Stuðmenn féllu í skuggann og komið var með nýjungar sem lofuðu hreinlega ekki góðu. Þeir voru að mínu mati sem skuggi hjá sjón þó vissulega sé Egill Ólafsson alltaf góður söngvari. Undirspilið var ekki til að hrópa húrra fyrir og atriðið féll að verulegu leyti. Auk þess var lagavalið engan veginn nógu gott og hefði sveitin átt að einblína frekar á þekktari lög sín einvörðungu.

Bæði voru Stuðmenn án söngkonu, en ég held að Birgitta Haukdal hafi verið með þeim sem söngkona um nokkuð skeið, og gítarleikara. Reyndar er orðið nokkuð langt síðan að ég hef farið á ball með þeim og brá svolítið við þetta atriði. Undirspilið féll og sumt annað klikkaði líka. Eftir stóð vissulega reynt band en það bar það eiginlega ekki með sér. Sem lokaatriði olli þetta sárlegum vonbrigðum og ég held að fleiri en ég séu hálffúlir vegna þess sem þarna var kynnt, nýjungar sem ég tel að feli eiginlega frekar í sér dauða sveitarinnar en margt annað.

Það er von að spurt sé: eru Stuðmenn búnir að vera? Var þetta svanasöngurinn? Framtíð Stuðmanna hlýtur að teljast stórt spurningamerki.

Þess má geta að til hliðar við Egil Ólafsson á myndinni með færslunni eru Ragnhildur og Þórður, sem bæði hafa nú hætt í Stuðmönnum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alveg hjartanlega sammála, ekki að gera sig

Res (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 20:36

2 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Stuðmenn hafa nú stundum áður verið að mati manna við dauðans dyr. Óneitanlega var þetta óvenjuflippað atriði, jafnvel fyrir stuðmenn, en mig grunar að fréttir af yfirvofandi andláti þeirra séu stórlega ýktar. Verst að ég hef yfirleitt skelfilega rangt fyrir mér með svona hluti.

Markús frá Djúpalæk, 21.8.2007 kl. 20:50

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála þér Stebbi. Og Bo var eins og viðvaningur, virkaði eins og þeir hefðu ekkert æft þetta saman.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.8.2007 kl. 20:54

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Látið nú ekki svona piltar! Fréttir Stebba af þessu andláti Stuðmanna eru stórlega ýktar. Stuðmenn hafa 99 líf eins 11 kettir!

Ég væri meira en til að taka að mér gítarleik og raddir ef það byðist. Og það eru örugglega fleiri og betri hljóðfæraleikarar/söngvarar en ég til í slaginn með þeim.

Þó að þetta flipp hafi ekki gengið upp þarna er óumdeilt að þeir eiga listamannarétt á að gera tilraunir. Mér heyrist að þeir samþykki að þessi uppákoma hafi bara ekki verið rétti staðurinn fyrir slíka tilraunastarfsemi að þessu sinni. 

Haukur Nikulásson, 21.8.2007 kl. 21:40

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin og pælingarnar.

Er ekki að spá þeim dauða en bara spyr. Ef þeir halda áfram eins og þeir gerðu á föstudag eru þeir búnir að vera. Vona þó að batni yfir þeim. Hef verið aðdáandi Stuðmanna alla tíð og skrifa ekki sem andstæðingur þeirra. Á allar þeirra plötur, báðar myndirnar og allt. Þannig að ég skrifa þessa grein sem vonsvikinn aðdáandi til fjölda ára.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.8.2007 kl. 21:45

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sendum þá á Grund, þetta er komið nóg. Maður hlustar bara á gamalt efni með þeim af disk.

Ásdís Sigurðardóttir, 21.8.2007 kl. 22:13

7 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Stefán, eru myndirnar ekki strangt til tekið þrjár? Það vantar í safnið.

Markús frá Djúpalæk, 22.8.2007 kl. 08:59

8 identicon

Er ekki kominn tími til að spyrja annarra spurninga, eins og: Er það við hæfi að klæða sig upp í stílfærðar Hitler-æsku múnderingar, syngja um Svarta-Pétur sem hengdur var upp í næsta tré til að fullnægja réttlætinu og bjóða svo Gesta-Bó upp á svið? Á það að vera fyndið?

Harpa Heimisdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 13:12

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sveinn: Stuðmenn náðu að halda áfram af krafti eftir brotthvarf Valgeirs, þó vissulega hafi margt breyst. Mér fannst brotthvarf Ragnhildar breyta talsverðu líka. En þetta er auðvitað þeirra mál. Ætla þó að vona að þeir komi aldrei fram svona aftur.

Markús: Jú, myndirnar eru þrjár. Gleymdi eina örskotsstund Í takt við tímann. Var með hugann við Með allt á hreinu og Hvíta máva, sem ég tel standa þeirri þriðju mun framar þó að lögin í Í takt við tímann séu flest góð.

Harpa: Já, það má hiklaust velta þessu fyrir sér. Annars skilst mér að Stuðmenn ætli að biðja þjóðina afsökunar á þessu prógrammi.

Vil annars taka fram vegna nafnlausra skrifa hér, sem ég fjarlægði, að ég stend við skrif mín frá föstudagskvöldinu. Mér fannst mjög gaman að sjá Björgvin og Stuðmenn saman á sviði. Atriðið í heild var gloppótt en þetta var samt merkur viðburður að sjá þá taka þetta fræga lag, lag sem ég hef reyndar alltaf metið mikils. En eins og allir sjá fer ég ekkert nánar í atriði Stuðmanna, enda brá mér nokkuð vegna atriðisins og beið með að skrifa um það. Hef verið aðdáandi Stuðmanna alla tíð og vil hafa þá eins og þeir hafa verið þekktastir fyrir að vera. Þetta var vond tilraun á óheppilegum stað. Annars tala ég ekki illa um Stuðmenn sem slíka, krafturinn í þeim er enn til staðar en þetta flipp var klúður á svo stórum tónleikum. Það er bara þannig.

Vil beina því til fólks hér að vilji það gagnrýna mig eða skrifin að koma fram undir fullu nafni. Ég hef enga þolinmæði fyrir nafnlausu blaðri.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.8.2007 kl. 13:41

10 Smámynd: Ibba Sig.

Sammála þér með þetta atriði Stuðmanna, það virkaði allavega ekki fyrir mig. En Egill er nú alltaf flottur söngvari, Bo var eins og mjóróma kettlingur við hliðina á honum. 

Gott hjá þér líka að leyfa ekki nafnlaust blaður, blaður er miklu betra þegar það er skrifað undir fullu nafni. Ekki satt Stebbi?

Ibba Sig., 22.8.2007 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband