Sambandsþyngsli í kastljósi fjölmiðla í Hollywood

Joanne Woodward og Paul Newman Það líður varla sá dagur að sögur berist af ástarsamböndum leikara í Hollywood, sambandsvandræðum og eða hjónaskilnuðum þar. Það hefur lengi verið svo að ástarblossinn kviknar og slökknar á víxl í kvikmyndaborginni Los Angeles og ófáar eru sögurnar af því öllu. Það eru þó fá sambönd sem þola til lengdar þunga frægðarinnar og þau eru mun fleiri samböndin sem hafa slitnað í kastljósi fjölmiðlanna rétt eins og þau hófust þannig.

Held að það ástarsamband Hollywood sem hafi lifað einna lengst í gegnum ólgusjói fjölmiðlaathyglinnar sé samband leikaranna Paul Newman og Joanne Woodward. Þau kynntust fyrir hálfri öld við gerð kvikmyndarinnar The Long Hot Summer, sem er nú til dags helst minnst fyrir ástarblossann sem kviknaði milli aðalleikaranna frekar en frábærleika sinn. Þau giftust árið 1958, nokkrum vikum áður en Joanne hlaut óskarinn fyrir fræga og margflókna túlkun sína á Eve White í The Three Faces of Eve.

Paul Newman telst einn þekktasti leikari sinnar kynslóðar. Hann varð þó að bíða í þrjá áratugi lengur en eiginkona sín eftir óskarnum, en hann vann óskarinn seint og um síðir fyrir túlkun sína á Eddie Felson í framhaldsmynd The Hustler, The Color of Money, árið 1987, hafandi tapað sjö sinnum í röð áður. Á sömu hátíð fékk hann ennfremur heiðursóskarinn og fékk mannúðarverðlaun akademíunnar innan við áratug síðar, en verk hans á þeim vettvangi hafa verið fræg. Eins og flestum er væntanlega kunnugt hefur hann gefið stærsta hluta ágóðans fyrir matvæli í sínu nafni til mannúðarmála.

Það hefur jafnan verið sagt að Joanne Woodward hafi fórnað leikferli sínum fyrir sambúðina með Paul Newman. Hún var talin sterk leikkona á sínum tíma, hélt áfram leik en fórnaði mjög miklu fyrir heimili sitt og fjölskyldulíf. Hún lék í nokkrum stórmyndum eftir 1960 en hefur haldið sig til hlés síðustu árin. Hún lék á móti eiginmanni sínum í fjölda góðra mynda þó sennilega sé samleikur þeirra í Mr. and Mrs. Bridge fyrir tæpum tveim áratugum eftirminnilegastur að mínu mati. Fyrir þá mynd fékk Woodward óskarsverðlaunatilnefningu en tapaði fyrir Kathy Bates sem átti rafmagnaðan stórleik í Misery.

En það hafa ekki öll sambönd verið jafnfarsælt og það sem Newman og Woodward byggðu upp. Flestir muna eftir fjölmiðlavænu sambandi Tom Cruise og Nicole Kidman sem flestir töldu skothelt í gegn. Það sprakk í loft upp með hvössum fjölmiðlayfirlýsingum árið 2001, ári eftir að þau brostu í gegnum tárin saman þegar að Tom Cruise tapaði óskarnum enn eina ferðina, þá fyrir Sir Michael Caine. Síðan hefur Nicole Kidman orðið mun sterkari leikkona en Tom Cruise sem hefur sigið nokkuð, en Kidman tókst fyrir nokkrum árum að vinna óskarinn, sem var markmið Cruise með mjög áberandi hætti.

Svo er auðvitað samband Ethan Hawke og Umu Thurman sem getið er í meðfylgjandi frétt. Það hélst saman mjög lengi vegna þess að þau sinntu saman heimilinu og héldu saman hópinn, fóru saman á tökustaði og voru eitt. Það sprakk þó að lokum vegna ytri fjölmiðlaþunga og framavona beggja. Lítill vafi leikur þó á því að Uma Thurman var sterkari leikarinn í sambandinu og Hawke vildi ekki fórna sér fyrir þann feril. Sama gerðist hjá Reese Witherspoon og Ryan Phillippe fyrir nokkrum mánuðum, þó framhjáhald hafi vissulega spilað inn í. Eftir að Witherspoon fékk óskarinn féll Phillippe endanlega í skugga hennar.

Veröldin í þessum bransa athygli og stjörnuglampa er oft skondin. En það er þó sammerkt með mörgum þar að samböndin sem verða til vilja oft deyja í sama glampa. Það er kannski ekki undarlegt þegar að sambandið endar sem átakapóll um athygli og hvort fái stærri skerf af glampanum sem í spilinu er.

mbl.is Framinn varð hjónabandinu að falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband