Elvis Presley minnst

Elvis Presley Þess er minnst í dag að þrír áratugir eru liðnir frá andláti Elvis Presley, eins eftirminnilegasta tónlistarmanns frá suðurríkjum Bandaríkjanna. Það fer ekki á milli mála að Presley var einn áhrifamesti tónlistarmaður 20. aldarinnar. Áhrif hans voru mikil og hann átti fjöldamarga lykilsmelli sem halda minningu hans á lofti enn í dag. Presley er í huga margra hinn eini sanni kóngur tónlistarsögunnar og hans er enn minnst af aðdáendum um allan heim.

Alla tíð hef ég metið tónlist Presleys mikils. Hann er þó varla uppáhaldstónlistarmaðurinn minn í gegnum tíðina en engu síður hefur alltaf verið ofarlega á blaði, enda er sess hans í tónlistinni óumdeilanlegur. Það er virkilega notalegt að hlusta á lög hans. Presley hafði virkilega öfluga söngrödd sem lengi verður minnst en hann gat beitt henni gríðarlega vel. Hann var áhrifavaldur í tónlistinni á sjötta áratugnum og markaði skref í bransanum, hafði líka mikil áhrif á þá sem voru að feta sín fyrstu skref árin sem hann varð frægastur, fyrir 1965.

Þeir eru fáir tónlistarmennirnir sem hafa orðið áhrifameiri í seinni tíð út fyrir gröf og dauða en Elvis Presley. Lítið lát hefur orðið í raun á vinsældum hans. Tónlistarmenn hafa sungið dúetta með honum löngu eftir andlát hans og endurútgáfur á lögum hans með hinum ýmsu tónlistarmönnum seinni tíma eru orðnar óteljandi. Frægt varð þegar að Celine Dion tók eftirminnilegan dúett með Presley á laginu If I Can Dream, sem samið og flutt var árið 1968, árið sem Celine fæddist, í Idol-keppninni bandarísku á síðasta ári. Það þótti sláandi flott atriði þar sem tæknin naut sín til fulls.

Það hefur komið fram opinberlega að Lisa Marie, einkabarn Presleys, ætli sér að syngja dúett með föður sínum. Það er vel til fundið. Lisa Marie var ekki orðin tíu ára gömul þegar að faðir hennar dó og fékk því aldrei að syngja með honum á sviði. Það verður áhugavert að heyra þau syngja saman, vonandi eitthvað gott lag.

Lengi hefur verið deilt um það hvort Elvis Presley hafi dáið 16. ágúst 1977. Það leikur víst lítill vafi á að svo hafi verið þó að hörðustu aðdáendur kóngsins neiti því staðfastlega. En minning eins eftirminnilegasta söngvara tónlistarsögunnar lifir, rétt eins og sést vel nú þrem áratugum eftir dauða hans.

Það eru nokkur góð lög með Elvis Presley í tónlistarspilaranum hér á síðunni.

mbl.is Þrjátíu ár frá andláti Elvis Presley
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir tengilinn. Fín umfjöllun.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband