Hver á að bera ábyrgðina á ferjuklúðrinu?

Kristján Þór Júlíusson Mikið hefur verið rætt og ritað um klúðrið vegna Grímseyjarferjunnar sem opinberast hefur vel í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í kvöld ræddu Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, málið í Kastljósi. Það var fróðlegt spjall og margir góðir punktar sem þar komu fram. Það blasir við öllum sem hafa lesið skýrsluna að einhver verður að axla ábyrgð í málinu. Deilt er um hvort sú ábyrgð eigi að verða pólitísk á endanum og þeir sem leiddu starf fagráðuneytis að bera ábyrgð á klúðrinu.

Mér fannst Kristján Þór tjá sig mjög vel um þetta mál í Kastljósi og er sammála því sem hann sagði þar. Það er alveg ljóst að klúðrið er svo mikið að enginn hluti þessa máls verður varinn með sannfærandi hætti. Um er að ræða klúður sem á að verða lexía til framtíðar litið. Kristján Þór sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi hefur aldrei varið verklagið í málefnum þessarar ferju og byrjar auðvitað ekki á því nýkominn á þing fyrir þetta kjördæmi. Það er vandséð að stjórnmálamenn héðan geti tekið þátt í því að verja þá óráðsíu og rugl sem hefur fylgt ákvörðunum varðandi þessa ferju.

Þau ummæli Kristjáns Þórs í þættinum að allir sem komu nálægt þessu máli beri ábyrgð á því vekja mikla athygli. Ég tel að þau séu rétt. Það er mikilvægt að allt málið verði skýrt enn frekar og öll spil lögð á borðið. Annað er ekki valkostur á þessu stigi. Alvarlegasti hluti málsins er án nokkurs vafa að samgöngu- og fjármálaráðuneyti, ásamt Vegagerðinni, gerðu með sér samkomulag um að fjármagna kaup á þessum dalli, sem á víst að kallast ferja, og endurbæturnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar. Það er ljóst að þarna er farið gegn ákvæðum fjárreiðulaga. Þetta er ekki góð stjórnsýsla. Áfellisdómurinn blasir við og það þarf að skýra hver eigi að bera ábyrgð á klúðrinu, enda ekki annað valkostur í stöðunni.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, hefur ekki tjáð sig um málið. Staða hans er ekki góð í málinu. Velt er fyrir sér pólitískri ábyrgð hans. Ferjan var keypt í ráðherratíð hans og málið gerjaðist á þeim tíma. Ábyrgð Vegagerðarinnar hefur verið viðurkennd af vegamálastjóra en það verður ekki síður litið til þeirra sem voru kjörnir fulltrúar í fagráðuneytum. Eins og flestir vita starfar Ríkisendurskoðun á vegum Alþingis. Það verður velt fyrir sér stöðu Sturlu sem forseta Alþingis komist Ríkisendurskoðun á einhverju stigi að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hafi brugðist í málinu. Það er ómögulegt annað en að upplýsa lykilpunkta þessa máls.

Yfirlýsing Ragnhildar Hjaltadóttur, ráðuneytisstjóra, um þetta mál hefur vakið athygli. Þar er talað um að tekið verði með viðeigandi á augljósum brotum á verklagsreglum samgönguráðuneytisins. Það er öllum ljóst að það er grunnmál í þessu klúðri öllu. Einhver verður að bera ábyrgðina, jafnvel hina pólitísku. Undirbúningur alls í þessu ferjumáli virðist hafa verið allsherjar hörmung. Margt af því sem að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sett fram í málinu þarf að athuga og ég er sammála sérstaklega því að stokka verði upp alla ferla mála af þessu tagi. Til dæmis á auðvitað að bjóða svona verkefni út.

Þetta mál er fyrsta flokks dæmi um það hvernig á ekki að vinna hlutina. En til þess að menn læri af því þarf að gera það upp með öllu því sem til þarf.

mbl.is Verklagsreglur samgönguráðuneytisins brotnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Ég þekki ekki, frá stjórnskipulegu sjónarmiði, hver ber endanlega ábyrgð á svona klúðri. En engu að síður tel ég að þrátt fyrir aðkomu skipaverkfræðings sem greinilega var úti að aka við álitsgjöf, og þrátt fyrir að þetta eigi heima hjá Vegagerðinni (galið sem það nú er) þá hljóti endanleg ábyrgð að liggja hjá ráðuneyti samgöngumála og forsvarsmanni þess - samgönguráðherra.

Það kemur ekki á óvart að Sturla Böðvarsson tjái sig lítið um málið, hann veit sem er að verði framkvæmd stjórnsýsluúttekt á þessu máli munu bönd ábyrgðar berast að honum; svo mikið blasir við.

Það væri ánægjulegt að sjá almennilega tekið á málum eftir svona gegndarlausa óráðsíu og dómgreindarleysi með peninga skattgreiðenda, en satt að segja á ég takmarkaða von á því. Því miður.

Jón Agnar Ólason, 16.8.2007 kl. 09:40

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég var svo undrandi þegar viðtalið var við Vegamálastjórann. Hann var svo opinn og hreinn fyrir þessu öllu, viðurkenndi öll mistök og allt það, slakur á kantinum og þægilegast maður að horfa á, en einhvernvegin fékk ég þá tilfinningu og mörgum  sem í þessu stóðu sé í rauninni skít sama, örugglega rangt mat hjá mér en samt, svona tilfinning sem ég fékk. Það blæðir svo sem engum fyrir þetta nema okkur sem borgum brúsann og helv. klúður að Grímseyjingar hafi ekki betri samgöngur, hef nú alltaf litið á það sem forgangsmál að þeir ættu hægtu um vik að komast á land. Eyjamenn eru mun betur settir þó svo þeir séu ekki ánægðir. Kær kveðja norður.

Ásdís Sigurðardóttir, 16.8.2007 kl. 11:32

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hver á að bera ábygðina á ferjuklúðrinu, spyr Stefán Friðrik Stefánsson. Svarið liggur í augum uppi. Auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn, sem Stefán Friðrik fyrirspyrjandi styður með ráðum og dáð af öllu afli sínu og öllu hjarta sínu.

Jóhannes Ragnarsson, 16.8.2007 kl. 15:04

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur fyrir kommentin Jón Agnar, Ásdís og Kristinn. Kristinn sem fyrrum þingmaður þekkir starfsumhverfið þar og því met ég innlegg hans mikils. Er sammála honum að mjög miklu leyti. Þarft og gott komment.

Vil benda Jóhannesi að Sjálfstæðisflokkurinn ber ekki ábyrgð á þessu máli. Hinsvegar hef ég tekið það algjörlega afgerandi fram að þeir sem beri ábyrgð á þessu máli verði að gjalda fyrir það. Það verður að upplýsa málið algjörlega. Ég sem íbúi í Eyjafirði og góðvinur Grímseyinga krefst þess að þeir taki pokann sinn sem héldu svo illa á málum. Það er algjörlega ljóst. Held að enginn hér í Eyjafirði verji þetta rugl.

Stefán Friðrik Stefánsson, 16.8.2007 kl. 20:14

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það ver auðvitað enginn þetta rugl, en ég bara spyr: afhverju eiga ráðherrar,  þingmenn eða nefndir að bera ábyrgð? Þeim sem málið er næst, þ.e. Vegagerðin, sem hefur alla þræði í hendi sér, ber að sjálfsögðu ábyrgð á þessu. Vegamálastjóri, sem áður var vara-vegamálastjóri og tók við af Helga Hallgrímssyni þegar hann lét af störfum, á að vera ábyrgur, en ekki áskrifandi að launaumslaginu sínu.

 Reyndar tíðkast það víðast erlendis að yfirmaður tiltekinna málaflokka í stjórnsýslupólitíknni, ber ábyrgðina og segir vanalega af sér ef undirmenn þeirra fremja embættisafglöp, en hvað á Sturla að gera? Segja af sér þingmennsku?

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2007 kl. 00:10

6 Smámynd: Hjalti Garðarsson

Já, hún ríður ekki við einteyming bölsýni flestra Íslendinga.  Aumingja Stulli Bö má ekki gera smá mistök, þá fer grátkórinn af stað.  Ekki er ég neitt óánægður með þetta klúður hans með þetta litla ferjuhorn.  Hins vegar er ég mjög þakklátur því, að Stulli Bö var ekki látinn kaupa SKEMMTIFERÐASKIP.  Þá fyrst hefði farið að syrta í álinn!

Hjalti Garðarsson, 18.8.2007 kl. 14:08

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka viðbótarpælingar. Gaman að lesa þær. Heilt yfir þarf að rannsaka þetta mál bara og opna allar hliðar þess. Einfalt mál í sjálfu sér. Eins og staðan er í dag get ég ekki séð annað en að vegamálastjóri í það minnsta verði að segja af sér og stend við það mat mitt. Klúðrið þar innanborðs er ótrúlega stórt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband