Metnaðarfull innlend dagskrá í vetur

Þórhallur Gunnarsson Það er óhætt að segja að það stefni í metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð hjá Ríkissjónvarpinu í vetur. Þórhallur Gunnarsson, yfirmaður Sjónvarpsins, hefur kynnt vetrardagskrá sem virðist með því besta sem sést hefur hérlendis, altént stefnir í nýja tíma hjá ríkisrisanum. Lengi hefur verið talað um að metnaðarleysi hafi einkennt vetrardagskrá Sjónvarpsins en það eru litlar líkur á að það heyrist nú, þar sem stefnir í innlent efni við hæfi flestra.

Í Morgunblaðinu í dag er farið yfir hvað sé framundan og greinilegt að þeir sem vilja njóta skammdegiskvölds við sjónvarpið verða ekki sviknir. Virðist einvalalið vera við stjórnvölinn á öllum póstum og þættirnir fjölbreyttir. Silfur Egils er auðvitað að fara yfir til Ríkissjónvarpsins frá og með þingbyrjun og Egill Helgason mun stýra nýjum bókmenntaþætti. Nýr lista- og menningarþáttur undir stjórn Þorsteins J. hefst bráðlega, spurningakeppni verður um allt land á milli sveitarfélaganna, veglegur laugardagsþáttur með Eurovision-brag og leiknar sjónvarpsþáttaseríur.

Það sem verður mest spennandi að sjá er hvort að endursýna eigi meira af gömlu efni. Það er öllum ljóst að Sjónvarpið á veglegt safn af úrvalsefni og væri ekki verra að fá að sjá eitthvað af því, t.d. gömul leikrit, viðtöl og skemmtiþætti. Það er öllum ljóst að lykilatriði þess að ríkið reki sjónvarp sé hvort að þar sé innlend dagskrárgerð og innlent efni af ýmsu tagi áberandi. Það virðist vera að með vetrardagskrá Sjónvarpsins sé ný stefna mörkuð og afgerandi meira af innlendu efni. Það er því verið virkilega að marka það mun frekar sem sjónvarp allra landsmanna með því.

Persónulega hlakkar mér mjög til að sjá bókmenntaþátt Egils Helgasonar. Það er þörf á svona þætti og mikilvægt að hlúa vel að bókmenntaumfjöllun og væntanlega verður þetta áhugaverður þáttur með góðum bókapælingum af ýmsu tagi. Það verður fróðlegt að sjá Silfur Egils á nýjum vettvangi og ekki síður nýjan lista- og menningarþátt. Ætla rétt að vona að þar fáum við vandaða kvikmyndaumfjöllun, en hún hefur verið af einum of skornum skammti undanfarin ár.

Fyrst og fremst virðist spennandi vetur framundan og áhugavert að sjá hversu vel einkareknu stöðvunum gangi að keppa við ríkisrekna risann sem virðist hafa nóg af peningum til að stokka upp sín mál og gera vandaða dagskrá.


mbl.is Innlend dagskrárgerð efld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ibba Sig.

Það er gott mál að Rúv ætli loks að setja smá trukk í innlendu dagskrárgerðina, hún er kjarni þessarar stofnunar en hefur verið illa fjársvelt lengur en ég kæri mig um að muna. Velti því samt fyrir mér hvaðan allir þessir peningar sem stofnunin virðist hafa úr að spila núna koma. 

En varðandi endursýningar á leiknu efni. Ég hugsa að þér verði ekki að ósk þinni með það.  Endursýningar eru gífurlega dýrar vegna samninga við leikara. Þeir þurfa nefnilega að fá sitt þegar efni er endursýnt og hefur það verið helsti steinn í götu þess að sjónvarpið endursýni helling af skemmtilegu efni.  

Ibba Sig., 20.8.2007 kl. 15:33

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, ég veit að það er dýrt að endursýna leikið efni. Það var reyndar gert svolítið af því í dagskrárstjóratíð Sigurðar G. Valgeirssonar en rann svo niður aftur. En það væri gaman að endursýna gamla viðtalsþætti og skemmtiþætti og fleira sem gaman er af. RÚV er ríkt af efni sem sjaldan sést svo aftur. Margir gullmolar þar. En þetta eru nýjir tímar hjá RÚV og fróðlegt að sjá hversu dýr pakkinn verði.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 20.8.2007 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband