Færsluflokkur: Kvikmyndir

Eðalræmur í bíó

The DepartedÞað var mjög notalegt að fara í bíó og sjá tvær úrvalsmyndir í síðustu viku. The Departed og Mýrin eru mjög ólíkar kvikmyndir en algjörar perlur, sem vert er að mæla með. Skrifaði um The Departed hér á laugardag en sú umfjöllun nokkurn veginn hvarf hér í skuggann af skrifum um prófkjör og pælingar almennt um stjórnmál. Ég bendi því hér á tengla á umfjallanir mínar á The Departed og Mýrinni.

Mýrin
The Departed

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er mikill kvikmyndaáhugamaður. Það er mjög ánægjulegt að sjá skrif hans um The Departed á vef hans nú í dag, en hann fór væntanlega á hana nú í dag. Það er alltaf gaman að lesa skrif Björns en sérstaklega áhugavert að sjá hann skrifa um kvikmyndir. Við erum greinilega sammála um myndina. The Departed er besta mynd Scorsese í um tvo áratugi, eða síðan að Goodfellas var gerð árið 1990.

Hvet því alla til að skella sér í bíó og sjá þessa úrvalsmynd.


Rætt um að kvikmynda Gladiator 2

Gladiator

Gladiator er ein öflugasta kvikmynd síðustu ára og hlaut fimm óskarsverðlaun árið 2001, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2000 og fyrir leik Russell Crowe á hershöfðingjanum og skylmingaþrælnum Maximus. Þetta mikla epíska stórvirki endurvakti aftur gerð kvikmynda sem gerast á tímum Rómarveldis, en þessi gerð kvikmynda var í mikilli tísku fyrir nokkrum áratugum og voru í raun táknmynd gullaldarára kvikmyndasögu Hollywood. Nægir þar að nefna óskarsverðlaunamyndina Ben-Hur, Spartacus, The Ten Commandments, Cleopötru og The Robe.

Þessi mynd setti nokkurn tón, en þegar að hún hlaut óskarinn hafði mynd af þessum toga ekki hlotið meiri upphefð frá tímum Ben-Hur, sem fékk ellefu óskara árið 1960. Ridley Scott tókst vel upp í gerð myndarinnar, sérstaklega var tæknihliðin stórfengleg, sviðsetningin af hinu forna Colosseum tókst meistaralega vel; það er ótrúlegt hvað þeir komust nálægt hinu glæsta útliti Rómar og Colosseum til forna. Þeir unnu mikið afrek sem stóðu að listrænni leikstjórn myndarinnar og skylmingaratriðin voru gríðarlega vel gerð. Í heildina var myndin veisla fyrir augað.

Allir sem sáu myndina verða væntanlega nokkuð hissa að sjá fréttir af því núna að Russell Crowe vilji endurvekja óskarsverðlaunarulluna sína (Maximus) einkum í ljósi þess að söguhetjan lést í fyrrnefndri mynd. Það er því rétt sem sagt er í þessari frétt að varla verður það gert nema að hann snúi aftur sem afturganga eftir sögulok myndarinnar eða lýst verði aðdraganda þess sem gerðist í Gladiator. Skil ég reyndar Crowe vel að vilja leika Maximus aftur, enda er þetta það hlutverk sem færði honum eftirsóttustu leikaraverðlaun heims.

En svo á móti kemur hvort það sé hægt að gera raunhæfa framhaldsmynd um Maximus. Það hefur oft verið gríðarlega áhættusamt að feta á þessa braut. Sumar sögur verða ekki sagðar nema einu sinni. Reyndar tókst Anthony Hopkins að endurvekja dr. Hannibal Lecter (óskarshlutverk sitt) áratug eftir hina vel heppnuðu The Silence of the Lambs, en oftast nær er þetta frekar tvíeggjað sverð. Verður fróðlegt að sjá hvort framhaldsmynd verði í raun gerð.


mbl.is Russell Crowe langar til að gera Gladiator 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Departed

The Departed

Það er ekkert sem er eins notalegt fyrir sannan kvikmyndaunnanda og að sjá meistaraverk, kvikmynd sem er að öllu leyti nær fullkomin. Það er notalegt að sjá tvær svona myndir í bíó á innan við viku. Ég heillaðist enda mjög í byrjun vikunnar við að sjá Mýrina. Það var mjög notalegt að fara í bíó í gærkvöldi og sjá kvikmyndina The Departed, nýjustu úrvalsmynd Martin Scorsese. Ég hika ekki við að segja að hér er um að ræða bestu kvikmynd hans í háa herrans tíð, allt frá dögum Goodfellas, sem er ein þeirra kvikmynda sem mótuðu mig og sennilega okkur öll sem metum kvikmyndalistina mikils. Það var sannkölluð eðalmynd, sem mótaði kvikmyndasöguna.

The Departed er ein besta kvikmynd ársins, það sem af er liðið hið minnsta. Þetta er enn ein snilldin á leikstjóraferli Scorsese. Ég hafði virkilega gaman af þessari mynd og naut hennar, hafði lengi beðið eftir henni, vissi að hún væri virkilega góð og lofuð víða um heim. Hún stendur svo sannarlega undir öllum væntingum. Þegar er talað um fjölda óskarstilnefninga og margir telja hana eina bestu mynd leikstjórans. Ég tek undir það lof, hef lengi verið aðdáandi mynda hans, á þær flestar og met mikils. Þessi er meðal bestu kvikmynda Scorsese. Hinsvegar eru Raging Bull og Goodfellas algjörar uppáhaldsmyndir mínar af hans verkum.

Myndin er mjög þéttur og vandaður pakki. Þetta er eðalmynd, sem hentar sérstaklega vel fyrir sanna kvikmyndaunnendur. Það eru verulega fáir veikleikar sem ég finn að við þessa mynd þegar yfir heildina er litið. Allt virkar vel og smellur vel saman að mínu mati; heildarmyndin, leikur, handrit, tónlist og umbúnaður. Um er að ræða sameiningu allra þátta í glæsilega kvikmynd, sem telst framúrskarandi. Fáum leikstjórum hefur tekist betur en Martin Scorsese að fanga athygli kvikmyndaunnenda og jafnframt að ná fram því allra besta frá leikurum sínum, oftar en ekki hafa leikframmistöður í myndum hans hlotið óskarsverðlaunatilnefningar.

Sterkasti þáttur myndarinnar er einmitt leikurinn. Það er aðall leikstjórans að nostra við leikara sína og vinna vel með þeim. Það tekst í þessari mynd svo um munar. Allir leikarar skila glæsilegri leikframmistöðu. Meistari Jack Nicholson er auðvitað fremstur í þeim flokki, en hann gerir allar senur sem hann leikur í algjörlega að sínum. Nicholson er einn besti leikari sinnar kynslóðar og bætir enn einni flottri túlkuninni í safnið þarna. Matt Damon og Leonardo DiCaprio eru mjög góðir í túlkun sinni á Billy og Colin. Þeir fara vel með sitt. Svo eru Martin Sheen, Ray Winstone og Alec Baldwin flottir. Vera Farmiga er senuþjófurinn í hlutverki Madolyn.

Að mínu mati er hver einasta sena í þessari mynd gulls ígildi og þetta er skemmtun frá upphafi til enda, fyrir sanna kvikmyndaunnendur. Scorsese allt að því endurmótar glæpamyndaheiminn með þessari mynd. Hún er fersk og helst í flottri keyrslu allt til enda. Allt kemst vel til skila og kvikmyndatakan er sérlega vel heppnuð, tryggir flotta keyrslu og spennu allan tímann. Þetta er sjónræn skemmtun ofan á allt annað. Þannig að ég sé fáa galla á The Departed. Hún hefur alla burði til að heilla þá sem fara að sjá hana í bíó, hvort sem þeir eru sannir unnendur kvikmynda Scorsese, eða hinna sem halda í bíó hafandi enga mynd hans séð.

Þetta er kvikmynd sem ætti að vera skemmtun fyrir þá sem vilja bæði sjá flotta mynd og hina sem meta kvikmyndalistina mjög mikils. Allt smellur vel saman og tryggir glæsilega heildarmynd og fína afþreyingu; persónugallerí, söguþráður, ofbeldi, stíll og samtöl, ofan á bara adrenalínkikk þeirra sem fíla sanna spennu í sinni bestu mynd. Þannig að ég hvet alla til að líta á hana í bíó. Þetta er mynd sem heillaði mig allavega - sannarlega eðalræma í sinni bestu mynd.

Stefnir í góða bíóhelgi

The Departed

Það stefnir í flotta og góða bíóhelgi, eins og svo oft áður. Seinustu helgar hafa verið annasamar, með kjördæmisþingi og málefnaþingi SUS, sem var skemmtun og málefnavinna í flottu blandi. En nú verða rólegheitin. Stefni að því að fylgjast vel með úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem fram fer í dag og á morgun. Það verða fróðleg úrslit, sem beðið er eftir með þónokkurri spennu. Það verður áhugavert að skrifa um og greina þau úrslit, þegar að þau taka að streyma inn af krafti er rökkvar annaðkvöld.

Stefni á að fara já í bíó í kvöld. Nú er The Departed, nýjasta mynd meistara Martin Scorsese, loksins komin í bíó og ég ætla svo sannarlega ekki að missa af henni. Hún hefur fengið rosalega flotta dóma og greinilega vel þess virði að skella sér í kvöld, fá sér svo auðvitað allt hið ekta bíófóður; popp, kók og Nóa kropp. Þarna eru þeir saman; Jack Nicholson, Leonardo DiCaprio og Matt Damon. Hefur verið mikið talað um þessa eðalmynd og orðrómurinn um slatta af óskarstilnefningum þegar kominn af stað.

Þakka annars þeim lesendum sem sendu mér komment á umfjöllun mína um kvikmyndina Mýrina. Hafði gaman af að skrifa um hana og naut hennar mjög í bíói á mánudaginn, enda er þetta stórfengleg og ekta íslensk úrvalsmynd sem vert er að mæla með. Hver veit nema að maður skelli sér hreinlega bara aftur um helgina og horfi á hana. Hún er svo sannarlega vel þess virði.

Meistaraverkið Mýrin

Ingvar E. Sigurðsson í Mýrinni

Í gærkvöldi fór ég í bíó og horfði á Mýrina, kvikmynd Baltasars Kormáks, byggða á þekktri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar. Mýrin, sem kom út árið 2000, er ein víðlesnasta íslenska skáldsaga hérlendis á síðustu árum og mikil eftirvænting verið eftir myndinni. Það er óhætt að segja að Baltasar Kormákur og hans fólk valdi unnendum bókarinnar um Erlend Sveinsson, lögreglumann, og aðstoðarfólk hans, þau Sigurð Óla og Elínborgu, ekki vonbrigðum. Vart er feiltónn í myndinni og allur umbúnaður hennar er með því besta sem þekkist. Aðall hennar er svo stórfenglegur leikur þeirra frábæru leikara sem þar fara svo sannarlega á kostum.

Á ósköp venjulegum degi í Reykjavík finnst lík tæplega sjötugs karlmanns á heimili hans í Norðurmýrinni. Morð hefur verið framið og þau Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli byrja að fara yfir fortíð mannsins lið fyrir lið. Það sem virðist vera ósköp venjulegt morðmál, ekki merkilegri en flest sakamál, vindur hægt og rólega upp á sig. Brátt koma í ljós slitrur úr stærri heildarmynd, upp rifjast gömul og gleymd saga sem enn sér ekki fyrir endann á og vísar hægt og rólega í áttinni að því hversvegna maðurinn var myrtur og hver fortíð hans var. Erlendi verður fljótlega ljóst að maðurinn var enginn engill og átti að baki sögu sem er engan veginn einföld og augljós.

Mýrin heillaði mig allt frá fyrstu stund, þegar að ég las bókina fyrir nokkrum árum. Ég las hana í gegn á einni kvöldstundu og langt fram á nóttina. Þetta var bók sem heillaði lesandann. Það hafa öll verk Arnaldar Indriðasonar gert. Þetta eru snilldarlega ritaðar sakamálasögur sem færa okkur raunsanna og heiðarlega sýn á íslenskan veruleika og mannlíf í sinni bestu og jafnframt dekkstu mynd. Hefur það verið alveg virkilega gaman að gleyma sér í sagnaheimi Arnaldar í gegnum tíðina og lesa magnaða frásögn hans á mönnum og ekki síður rannsókn á voðaverkum sem spinna upp á sig hægt og rólega, svo úr verður mósaík áhugaverðrar atburðarásar.

Kvikmyndatakan í Mýrinni er með því allra besta sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Gríðarlega vel gerðar senur og eftirminnilegustu augnablikin verða stórbrotin. Þarna er fagmannlega haldið á málum og úr verður mjög glæsilegur heildarrammi utan um meistaraverk. Tónlistin er glæsileg. Aldrei fyrr hefur karlakórsmenningu landans verið gert hærra undir höfði. Karlakórssöngur ber myndina uppi. Mér fannst það heillandi og vel til fundið að fá þennan þjóðlega og flotta ramma utan um þennan hluta myndarinnar. Sérstaklega er notalegt að heyra gömul íslensk lög í þessum búningi og lokaatriði myndarinnar er stórfenglegt. Vel gert hjá Mugison.

Leikurinn er stórfenglegur. Ingvar E. Sigurðsson glæðir persónu Erlendar Sveinssonar lífi. Hér eftir sjáum við Erlend í hans túlkun og sjáum engan annan fyrir okkur er bækurnar eru dregnar fram á dimmu vetrarkvöldi eða fögru heiðbjörtu sumarkvöldi. Fyrirfram hafði ég séð Erlend fyrir mér eldri en tel túlkun Ingvars svo vel gerða að vart verður betur gert. Hann túlkaði einmanalegt og innantómt líf hins hugula rannsóknarlögreglumanns af slíkri snilld að hér eftir verður ekki annar í hugskoti lesandans en Ingvar E. í hlutverki Erlendar. Meistaralega gert. Þessi glæsilega frammistaða færir Ingvar E. Sigurðsson endanlega í flokk allra bestu leikara landsins.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson standa sig mjög vel í túlkun sinni á Elínborgu og Sigurði Óla. Þau birtast ljóslifandi úr sögubókunum og marka sig í hlutverkunum mjög vel. Björn Hlynur er meira áberandi í myndinni og er skondið að sjá hvernig hann túlkar viðkvæmu strengina í Sigurði Óla, sem er ekki beint sami harðjaxlinn og yfirmaður hans, Erlendur. Þórunn Magnea Magnúsdóttir er alveg stórfengleg í túlkun sinni á Elínu, sem stendur mörgum áratugum eftir sorglegt fráfall systur sinnar og dóttur hennar, Auðar, enn vörð um minningu þeirra og er mjög beisk vegna örlaga þeirra. Svipmikil túlkun Þórunnar Magneu er glæsileg.

Ágústa Eva Erlendsdóttir vinnur sannkallaðan leiksigur í hlutverki nöfnu sinnar Evu Lindar Erlendsdóttur, sem er langt leidd í heim eiturlyfja og óreglu. Hún túlkar örvæntingu hennar og angist með glæsibrag. Ágústa Eva fer langt út úr heimi glæsidömunnar Silvíu Nætur og færir okkur glæsilega sorglegan heim Evu Lindar. Virkilega flott túlkun og gaman að sjá hana blómstra í krefjandi og góðu hlutverki. Söngkonan gamalreynda Guðmunda Elíasdóttir, sem lítið sem ekkert hefur sést af síðustu árin, birtist okkur glæsilega í hlutverki skagfirsku gömlu konunnar, móður Grétars. Flott sena með henni, því miður sú eina. Flott túlkun á gamalli kjarnakonu.

Theódór Júlíusson færir okkur misyndismanninn Elliða með svipmiklum hætti. Það er merkilegt að sjá Theódór sem hefur jafnan leikið dagfarsprúða og rólega menn leika þennan útúrlifaða og stórhættulega glæpamann með öllu sem til þarf. Theódór var flottur í hlutverki föðurins í Englum alheimsins en er enn flottari í þessu hlutverki, úr gagnstæðri átt. Flott túlkun, Theódór er einn af senuþjófum myndarinnar. Kristbjörg Kjeld á lágstemmd en flott augnablik í sinni túlkun. Hæst ber það í lokaatriðinu sem hún birtist í. Þorsteinn Gunnarsson birtist okkur eitt augnablik í hlutverki hins myrta og úr verður eftirminnileg sena og virkilega vel leikin af hans hálfu.

Atli Rafn Sigurðarson er dimmur og eftirminnilegur í harmrænu hlutverki Einars. Flott túlkun á manni sem er í örvilnan eftir að hafa komist að fortíð sinni, móður sinnar og síðast en ekki síst uppgötva hvers vegna dóttir hennar féll frá langt um aldur fram. Auk fyrrnefndra standa Eyvindur Erlendsson, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Þór Tulinius og Jón Sigurbjörnsson sig vel í litlum en þó þýðingarmiklum hlutverkum. Sérstaklega var gaman að sjá Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, eina örskotsstund að leika sjálfan sig í viðtali en hluti myndarinnar er auðvitað tekinn í húsnæði fyrirtækisins í Reykjavík.

Í heildina séð er Mýrin algjört meistaraverk. Glæsileg kvikmynd í alla staði. Það er ekki hægt annað en að hrósa Baltasar Kormáki fyrir flotta kvikmynd, sem hefur einfaldlega allt sem spennumynd þarf að prýða. Spenna myndarinnar snýst ekki allan tímann um lausn morðgátunnar sem slíkrar, heldur flókinnar atburðarásar sem fær sorglegan endi er yfir lýkur. Það er ekki hægt annað en hvetja landsmenn alla til að fara í bíó og sjá myndina. Virðist þjóðin öll vilja sjá söguna birtast sér ljóslifandi og má búast við að hún slái öll áhorfsmet í kvikmyndahúsum síðustu ára og gæti alveg farið að hún muni að lokum fara nærri áhorfsmeti myndarinnar Með allt á hreinu.

Mýrin er ein allra besta íslenska kvikmyndin sem ég hef séð. Ég var altént mjög ánægður og vonast svo sannarlega eftir því að framhald verði á, enda viljum við landsmenn sjá bækurnar lifna við. Þetta eru stórfenglega skrifaðar bækur og það er greinilegt að þjóðin hefur áhuga á því að þær verði kvikmyndaðar. Þessi mynd lofar allavega mjög góðu. Þetta er einn af mestu hápunktum stormasamrar íslenskrar kvikmyndasögu.

mbl.is Hátt í 16 þúsund manns hafa séð Mýrina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Exorcist mest ógnvekjandi myndin

The Exorcist

Kvikmyndin The Exorcist, í leikstjórn William Friedkin, varð efst í könnun tímaritsins Stuff um mest ógnvekjandi myndir í sögu kvikmyndasögunnar. Efstu myndirnar í könnuninni eru hver annarri ógnvænlegri og meira spennandi. Þær eru Rosemary's Baby, The Shining, Halloween, Jaws, Nightmare on Elm Street, Psycho, Candyman, Planet of the Apes og Alien. Ekki kemur valið á The Exorcist á óvart, þó ég verði að viðurkenna að Rosemary´s Baby náði meiri tökum á mér þegar að ég sá hana fyrst. Þvílík spenna. Svo er auðvitað Nightmare on Elm Street ansi grípandi.

The Exorcist hefur alla tíð verið ein mest umdeildasta kvikmynd sögunnar. Hún vakti hroll hjá kvikmyndahúsagestum árið 1973 og telst algjörlega ógleymanleg í huga þeirra sem hana hafa séð. William Friedkin, leikstjóri hennar, var einn bestu leikstjóra sinnar kynslóðar, en hann hefur t.d. leikstýrt The French Connection, sem tryggði Gene Hackman alheimsfrægð á einni nóttu. Myndin hlaut mörg verðlaun hjá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Friedkin fékk leikstjóraóskarinn, Hackman valinn leikari ársins og myndin valin sú besta á árinu 1971.

Það er hægt með svo misjöfnum hætti að vekja skelfingu hjá kvikmyndahúsagestum. Allir sem séð hafa Psycho vita að hún hefur vissa sérstöðu í þessum flokki. Þar sést lítið sem ekkert blóð. Skelfing áhorfenda er fengin með snöggum klippingum og magnaðri tónlist meistara Bernard Herrmann. Sturtuatriðið fræga með hinni sálugu Janet Leigh hefur mikla sérstöðu í kvikmyndasögunni. Í því morðatriði er þó nær ekkert blóð, heldur snöggar klippingar og drastískasta útgáfan af stefinu fræga spilað mjög snöggt. Algjör snilld.

Hef ekki séð The Exorcist merkilega lengi. Þarf að rifja hana upp enn og aftur, en ég á hana hérna heima á DVD reyndar. Þarf að líta á hana eftir helgina, þegar að ég hef góðan tíma. Hvet alla til að líta á hana og þær myndir sem voru með henni á topp 10 í þessari merkilegu könnun.


mbl.is Særingarmaðurinn mest ógnvekjandi allra kvikmynda skv. tímaritskönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köld slóð

Köld slóð

Það eru spennandi íslenskar bíóvikur framundan. Í vikunni verður Mýrin, kvikmyndaútgáfa Baltasars Kormáks á samnefndri sögu Arnaldar Indriðasonar, frumsýnd í bíó. Búast má við áhugaverðri kvikmynd, enda sagan alveg mögnuð. Í síðustu viku sá ég trailerinn úr annarri íslenskri sakamálamynd sem verður frumsýnd fyrir árslok, Kaldri slóð. Það virðist vera mjög spennandi mynd, virkar mjög fagmannlega og vel gerð. Trailerinn var æsispennandi og greinilegt að þar er sögð mjög kröftug saga sem byggir upp spennuna stig af stigi.

Það er gleðiefni að við eigum völ á tveim svona frábærum íslenskum kvikmyndum á næstunni. Hef hlakkað mjög til þess að sjá Mýrina á hvíta tjaldinu eftir að ég vissi að hún yrði kvikmynduð, og vonandi er þetta bara sú fyrsta af fjölda kvikmynda eftir sögum Arnaldar um Erlend og samstarfsfólk hans. Trailerinn að Kaldri slóð vakti svo mikla spennu eftir henni, enda held ég að þessi gerð kvikmynda hérlendis sé að blómstra.

Fyrr á árinu var svo t.d. flott sjónvarpssakamálamynd Önnu Rögnvaldsdóttur, Allir litir hafsins eru kaldir, sýnd í Ríkissjónvarpinu. Hún var mjög fagmannlega og vel gerð í alla staði og flottur leikur var einn helsti aðall hennar. Gleymir enginn t.d. kaldrifjuðum leik Helgu E. Jónsdóttur í hlutverki morðingjans í spennufléttunni og flott að sjá þessa leikkonu blómstra í krefjandi og góðu hlutverki.

En þetta verða spennandi vikur fyrir okkur bíófíklana sem eru framundan. Þessar tvær væntanlegu spennumyndir lofa allavega mjög góðu.

The Departed beint á toppinn í USA

The Departed

Það kemur ekki okkur kvikmyndaaðdáendum á óvart að nýjasta kvikmynd meistara Martin Scorsese, The Departed, fari beint á toppinn í Bandaríkjunum á opnunarhelgi. Mér skilst að þetta sé algjör dúndurmynd. Hún fær góða dóma og mikið lof kvikmyndaspekúlantanna vestanhafs. Þetta er stjörnum prýdd eðalmynd og gæti orðið öflug þegar að kemur að Óskarsverðlaununum í febrúarlok. Í aðalhlutverkum eru leikararnir Jack Nicholson, Leonardo DiCaprio, Matt Damon, Martin Sheen og Alec Baldwin. Þetta er víst topplöggumynd með rétta plottinu og er víst algjör gullmoli.

Ég hef allavega heyrt virkilega góðar sögur um þessa mynd og hlakka mjög til að sjá hana. Sumir spekingar vestanhafs eru þegar farnir að spá því að hún fái óskarinn sem besta mynd ársins 2006. Martin Scorsese er einn meistaranna í kvikmyndagerð síðustu áratuga í Hollywood. Ég skrifaði ítarlegan leikstjórapistil um Scorsese árið 2003 á vefinn kvikmyndir.com og fór þar yfir flottan leikstjóraferil hans með mínum hætti. Það er svona mín úttekt á þessum merka ferli fram til þess tíma.

Að baki eru meistaraverk á borð við Taxi Driver, Raging Bull, Goodfellas, Gangs of New York, The Aviator og Mean Streets. Það er þó svo að Martin Scorsese hefur aldrei fengið viðurkenningu frá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Hann hefur t.d. aldrei hlotið leikstjóraóskarinn. Hann hefur fimm sinnum verið tilnefndur. Töldu flestir hans stund komna hið minnsta árið 2005 en þá hlaut The Aviator flest óskarsverðlaun, en ekki í stærstu flokkunum. Clint Eastwood náði þá leikstjóraóskarnum.

Það verður spennandi að sjá þessa nýju mynd og kannski verður hún sú mynd sem loksins færir honum Óskar frænda eftir allt saman. Allavega, þessi mynd lofar góðu.

mbl.is Ný mynd Martin Scorsese beint á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The Third Man

The Third Man

Var að enda við að horfa á klassamyndina The Third Man, frá árinu 1949, með Orson Welles og Joseph Cotten, í Sjónvarpinu. Sannkölluð eðalræma því á þessu sunnudagskvöldi. Þetta er ein af þessum gömlu og góðu sem alltaf á vel við. Er alveg gríðarlega mikill aðdáandi gamalla úrvalsmynda og það er því fátt betra á svona fínu sunnudagskvöldi en að rifja upp gömlu meistaraverk kvikmyndasögunnar. Þetta er góð noir-mynd og vel leikin, mjög skemmtileg áhorfs og gríðarlega flott að öllu leyti. Ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla. Þetta var því ekta popp og kók-kvöld við imbann. Vona að Sjónvarpið færi okkur fleiri svona eðalmyndir í vetur!

Í minningu Jóns Páls

Jón Páll

Í gærkvöldi fór ég í bíó til að sjá nýja heimildarmynd um Jón Pál Sigmarsson, sem ber heitið: Þetta er ekkert mál. Jón Páll Sigmarsson var goðsögn í lifanda lífi og einn mest áberandi Íslendingur níunda áratugar 20. aldarinnar. Frægð hans var enn í miklum blóma þegar að hann varð bráðkvaddur á besta aldri í janúar 1993, þá aðeins 32 ára að aldri. Þegar að ég var að alast upp var Jón Páll sigursæll út um allan heim, margverðlaunaður fyrir hreysti sína og styrkleika. Hann varð sterkasti maður heims fjórum sinnum, sem var auðvitað glæsilegt afrek og mjög oft sterkasti maður Íslands. Hann var glæsileg landkynning fyrir Íslands hönd og telst hiklaust einn af bestu sonum landsins.

Ég leit alltaf gríðarlega mikið upp til Jóns Páls og fylgdist með afrekum hans þegar að ég var yngri. Hann var gríðarlega virtur allavega af mínum vinahópi og ég held að allir ungir Íslendingar á frægðarárum Jóns Páls minnist hans sem öflugs átrúnaðargoðs. Ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem að ég hitti Jón Pál. Það var þegar að hann var að árita plaköt á bílasýningu í Reykjavík árið 1987. Það verður reyndar aldrei sagt um mig að ég sé bílaáhugamaður en ég fór þangað gagngert, tíu ára gamall, bara því að ég vissi að hann væri þar og ég talaði heillengi við hann þennan dag.

Ég fylgdist mjög vel með sigrum Jóns Páls á þessum frægðarárum hans og ég á reyndar enn þessi nokkur plaköt sem að hann áritaði fyrir mig og ég átti reyndar eftir að hitta hann síðar á aflraunasýningu á Akureyri og svo í Reykjavík, nokkrum mánuðum áður en að hann dó. Það var öllum unnendum Jóns Páls Sigmarssonar gríðarlega mikið áfall þegar að hann dó í blóma lífsins í janúar 1993. Það voru verulega sorgleg endalok á merkum ferli. Í myndinni er ævi Jóns Páls lýst virkilega vel. Þar er farið yfir alla sigrana hans, vonbrigðin og endalokin sorglegu, sem enn sitja í mörgum sem mátu mikils frækna sigra þessa eins af bestu sonum þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að þessi mynd hafi verið gerð. Það varð að festa ævipunkta Jóns Páls, frægðarsöguna og öll ógleymanlegu augnablikin á sigurgöngu hans í eitt heilsteypt form. Mikið myndefni er til um hann og þessi saga er sett saman með mjög glæsilegum og vönduðum hætti. Minning Jóns Páls var tekin að gleymast, enda margir sem ekki upplifðu frægðarsögu hans og þekktu persónu hans - það er því gríðarlega mikilvægt að til sé þessi góða heimildarmynd um hann.

Hjalti Úrsus Árnason, vinur Jóns Páls og félagi í aflraununum, á heiður skilið fyrir þessa góðu mynd, en hann hefur gert hana með miklum myndarskap og staðið með því vörð um minningu Jóns Páls. Nú þegar er þetta orðin vinsælasta heimildarmynd Íslandssögunnar og hefur hún verið jafnvinsæl í bíó á þessu hausti og vinsælustu Hollywood-myndirnar. Það umfram allt sýnir okkur að íslenska þjóðin metur minningu Jóns Páls mikils.

Þetta er vönduð og vel gerð mynd og ég hvet alla til að fara og sjá hana. Þetta er mynd sem er gerð af líf og sál um mann sem var virtur og dáður af þjóð sinni fyrir að vera heilsteyptur fulltrúi þjóðarinnar á erlendri grundu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband