Færsluflokkur: Kvikmyndir

Eðalræma eins og þær gerast bestar

North by NorthwestÞað eru um tveir áratugir síðan að ég sá fyrst úrvalsmyndina North by Northwest, eftir meistara kvikmyndasögunnar Sir Alfred Hitchcock. Hún hefur alla tíð verið ein af uppáhaldskvikmyndum mínum - sannkallað meistaraverk sem stendur fyrir sínu enn í dag. Ég ákvað að horfa á hana í kvöld, það er orðið mjög langt síðan að ég missti töluna á það hversu oft ég hef séð hana. Hún verður alltaf betri í hvert skiptið sem ég horfi á hana, óaðfinnanleg snilld.

Cary Grant fer þar á kostum í hlutverki Roger Thornhill sem er hundeltur um gjörvöll Bandaríkin án þess að vita gjörla hvaðan á sig stendur veðrið. Thornhill er enn einn Hitchcock-sakleysinginn er lendir í kringumstæðum sem hann hefur engin tök á sjálfur en leggur á einhvern skemmtilegasta flótta kvikmyndasögunnar með mörgum frægum senum eins og þeirri þegar flugvélin ræðst á Grant úti á sléttunni og hápunktinum í blálokin innan um forsetahausana á Rushmore-fjalli.

Cary Grant var að mínu mati aldrei betri og öflugri en í þessari mynd (hápunktur glæsilegs leikaraferils) og þetta er um leið ein af allra bestu myndum Hitch, sem sló fáar feilnótur á sínum ferli. Psycho er þó sú mynd Hitch sem mest áhrif hefur haft á mig. Þar er með snilldarbrag hrært í áhorfendanum, án blóðs og hryllings en með því að fara í undirmeðvitundina. Þar er hryllingurinn fenginn fram með klippingum og áhrifstónlist. Snilldin ein.

Það er sennilega til að æra óstöðugan að ætla að lýsa myndinni í smáatriðum. Það er aðeins hægt að sjá hana til að meta hana sem það meistaraverk er hún er. Ég er miklu meiri kvikmyndafíkill en nokkru sinni áhugamaður um stjórnmál. Hef skrifað mikið um kvikmyndir og stúderað formið mikið.

Ég held að enginn kvikmyndagerðarmaður hafi sennilega haft meiri áhrif á mig en Hitchcock. Gríðarlega vel gerðar myndir sem hann skildi eftir sig og þær tala sínu máli enn í dag - eru órjúfanlegur hluti kvikmyndasögunnar. Hver er uppáhalds Hitchcock-myndin þín?

Casino Royale

James Bond (Daniel Craig) Það er alltaf mikil tilhlökkun sem fylgir því þegar að nýr leikari markar sín fyrstu skref í hlutverki njósnarans James Bond. Þeir leikarar sem hafa túlkað hann hafa ávallt fært hlutverkinu nýja dýpt og nýjan grundvöll. Það gerist nú ennfremur. Nú sjáum við hinsvegar gjörólíkan Bond frá því sem við eigum að venjast. Nýjar og áhugaverðar hliðar fylgja þessari mynd að svo mörgu leyti. Casino Royale verður því vendipunktur í sögu Bond-myndanna að mínu mati.

Í þessari mynd er leitað aftur til upphafsins og grunnhliðanna sem skópu höfuðþætti frægðar myndanna um James Bond. Á síðustu árum hafði grunnur Bond-þemans veikst verulega að mínu mati. Vélkenndi hasarinn og verksmiðjutaktarnir voru orðnir verulega þreytulegir. Söguþráðurinn varð óraunverulegur og eiginlega óspennandi, allt að því fjarstæðukenndur. Þetta sást einna best í síðustu mynd, Die Another Day, árið 2002, sem fór eiginlega skrefið langt inn í óraunveruleika og fjarstæðukenndan grunn. Ekki bjartasta stund James Bond það.

Daniel Craig er nú orðinn James Bond í stað Pierce Brosnan. Valið á Craig var gríðarlega umdeilt og aðdáendun myndanna um allan heim var skapi næst að sniðganga hann í hlutverkinu. Efasemdarraddirnar dempuðust þegar að trailerinn kom fyrir sjónir almennings og þessi mynd slekkur allar efasemdir að fullu. Mér finnst þetta besta Bond-myndin í tæpa fjóra áratugi, það er mjög einfalt mál. Aðeins allra fyrstu myndirnar standast þessari snúning. Það mun ekkert breyta þeirri afstöðu minni að grunnur Bond sé byggður á persónu Sir Sean Connery í hlutverkinu. Þar liggur grunnur alls þess sem síðar kom. Það er kristaltært alveg í mínum huga.

Mínar uppáhaldsmyndir í þessari seríu eru og hafa verið From Russia with Love og Goldfinger. Auk þeirra stendur On Her Majesty´s Secret Service. Fyrir nokkrum vikum hefði mér sennilega varla órað fyrir að ég myndi segja að Daniel Craig myndi toppa bæði Roger Moore og Pierce Brosnan í hlutverkinu en sú er nú orðin raunin. Mér finnst Craig flottur í túlkun sinni. Hann færir okkur kærkomið fortíðarskot inn í heim James Bond. Það var sú hlið sem var að mestu horfin sem birtist okkur aftur hér. Mér fannst þetta stórfengleg mynd að öllu leyti. Sem mikill Bond-áhugamaður er ég því alsæll með allar hliðar myndarinnar. Það er engin feilnóta slegin í allri myndinni.

Það er enginn vafi í huga neins að Daniel Craig er kominn til að vera í hlutverki James Bond. Hann hefur endurbyggt arfleifð fallegasta hluta þessarar kvikmyndaraðar og gefið okkur heilsteyptan grundvöll í persónuna. Það er mjög mikið gleðiefni. Ég verð þó að viðurkenna að ég sé eftir Pierce Brosnan úr hlutverki James Bond. Mér fannst hann standa sig vel, en það sem klikkaði undir lokin á hans tíma í hlutverkinu var aðbúnaðurinn utan um allan pakkann. Handritin voru afspyrnuslæm og gervihliðin tók öll völd umfram það sem eðlilegt var. Því fór sem fór. En ég sé eftir Brosnan. En Craig tekur við af miklum krafti og hann lofar svo sannarlega góðu.

Í heildina vonast ég eftir jafn góðu í næstu myndum og var í Casino Royale. Ég skemmti mér í gærkvöldi og horfði á hina gömlu Casino Royale frá 1967, með Peter Sellers, David Niven og Woody Allen. Skemmtilega steikt mynd að öllu leyti. Gaman að sjá hana áður en skrifað er um Casino Royale anno 2006. Þessar myndir eiga fátt sameiginlegt nema að þungamiðja þeirra beggja er James Bond. Skemmtilega ólíkar myndir, báðar ómissandi á sinn skemmtilega hátt. Ég ætla nú næstu vikurnar að leggjast aftur yfir James Bond-safnið mitt og horfa á bestu myndirnar og upplifa þær aftur í ró og næði desember-mánaðar. Kærkomið það.

En Casino Royale byggir upp aftur grunn þess besta sem hefur einkennt James Bond-seríuna og við höldum aftur til upphafsins með stæl. Back to basics - það líkar mér. Sem Bond-fíkill segi ég og skrifa; meira svona!

mbl.is Roger Moore leikur í íslenskri auglýsingu á vegum UNICEF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörgæsirnar skáka enn James Bond

Happy Feet Fyrir viku skrifaði ég um að mörgæsateiknimyndin Happy Feet hefði hlotið meiri aðsókn vestanhafs en Casino Royale, nýjasta James Bond myndin. Það gerðist aftur um þessa helgina. Sigurför mörgæsanna heldur því áfram, merkilegt nokk. Fannst það mjög húmorískt að sjá frétt um þetta fyrir viku og enn merkilegt að þessi mynd haldi út aðra viku í baráttu við njósnara hennar hátignar.

Mundi það akkúrat í dag að ég á enn eftir að skrifa um þessa glæsilegu kvikmynd. Síðasta vikan var mjög annasöm hjá mér, en nú eru þær annir að baki og annað tekur við. Nú er pólitíkin komin í jólafrí hjá mér, utan líflegra skrifa hér. Nú fer desember að skella á, og þá hefur maður nægan tíma til að njóta góðra kvikmynda, bóka og notalegrar tilveru, algjörlega laus við stjórnmálavafstur.

Ég ætla því að skrifa á morgun um Casino Royale og fara yfir skoðanir mínar á henni, hefði átt að vera búinn að því fyrir löngu, enda fór ég á hana strax fyrsta daginn í bíói hérna, en ekki enn sest niður til að skrifa almennilega umsögn um hana. Bæti úr því hið snarasta. Er svo að hugsa um að rifja upp allar Bondmyndirnar næstu vikurnar, en ég á þær allar. Er ekkert rosalega langt síðan ég sá sumar, en nokkrar eru eftirminnilegri en aðrar og ég vil endilega rifja þær betur upp.

Þessi mynd er í grunninn séð gamaldags útgáfa af Bond. Heillaði mig mjög mikið og mér finnst þetta besta Bond-myndin frá On Her Majesty´s Secret Service og elstu myndunum, þeim klassískustu, sem skörtuðu Sir Sean Connery. Bestu myndirnar eru og verða From Russia with Love og Goldfinger. En þessi er ekki mjög fjarri þeim. Hver er uppáhaldsmyndin þín?

mbl.is Dansandi mörgæsir vinsælar í kvikmyndahúsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borat

Borat Kvikmyndin um frettamanninn líflega Borat hefur heldur betur farið sigurför um heiminn. Hún er þó umdeild, sumum líst ekki vel á, en öðrum líkar betur við hana og telja hana vel gerða og líflega. Fór og sá hana í bíó hér á Akureyri fyrir nokkrum vikum og fannst hún flott. Lifandi og hressileg.

Nú eru að spretta upp málaferli vegna myndarinnar, eins og fram hefur komið á fréttavefsíðum, t.d. fréttinni hér fyrir neðan. Er þar um að ræða að tveir Rúmenar sem komu fram í myndinni krefja kvikmyndaverið 20th Century Fox um skaðabætur upp á 30 milljónir dala.

Það verður seint sagt um Sacha Baron Cohen að hann sé ekki umdeildur og svo mikið er víst að túlkun hans er kostuleg og viðtölin sprenghlægileg.

mbl.is Rúmenar í mál við 20th Century Fox vegna myndarinnar um Borat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Robert Altman látinn

Robert Altman Robert Altman, leikstjórinn goðsagnakenndi, er látinn í Los Angeles, 81 árs að aldri. Leikstjóraferill Altmans var stórglæsilegur og hann gerði á löngum ferli kvikmyndir á borð við MASH, Gosford Park, The Player og Prét-á-Porter. Meistaraverkið á ferlinum hans var hinsvegar Nashville, stórfengleg kvikmynd sem setti mark sitt á kvikmyndamenningu áttunda áratugarins og er enn í dag besti vitnisburðurinn um snilld Altmans.

Það fór því miður aldrei svo að Robert Altman hlyti leikstjóraóskarinn, merkustu leikstjóraverðlaunin í kvikmyndabransanum, fyrir myndir sínar. Þar var hann í flokki með meisturunum Sir Alfred Hitchcock og Stanley Kubrick, svo aðeins nokkrir merkir snillingar séu nefndir. Fyrr á þessu ári hlaut Altman loksins verðskuldaðan heiður frá bandarísku kvikmyndaakademíunni; sjálfan heiðursóskarinn. Það var sigurstund þessa umdeilda en virta leikstjóra í Hollywood.

Við það tilefni flutti Altman flotta og snjalla þakkarræðu. Fáum hefði órað fyrir að það yrði lokakveðja leikstjórans til kvikmyndaheimsins. Nokkrum vikum síðar var kvikmyndin A Prairie Home Companion frumsýnd. Hún varð svanasöngur hans í kvikmyndabransanum.

Að baki er merkur ferill og allir unnendur meistaraverka kvikmyndasögunnar minnast Altmans með virðingu. Hann var einn meistaranna í kvikmyndabransanum.

Umfjöllun imbd.com um feril Altmans
Umfjöllun CNN um andlát Robert Altman

mbl.is Robert Altman látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörgæsir skáka James Bond

James Bond (Daniel Craig)Ég verð að viðurkenna að ég fékk vænt hláturskast þegar að ég sá að mörgæsateiknimyndin Happy Feet hafi hlotið meiri aðsókn vestanhafs en Casino Royale, nýjasta James Bond myndin, um helgina. Mörgæsirnar höluðu inn tæpum tveim milljónum dala meira en hágæðanjósnarinn sjálfur. Heldur betur frétt það. Sýnist þó að Bond sé allavega að hala meira inn nú vestra en var þegar að síðasta mynd, Die Another Day, var frumsýnd fyrir fjórum árum.

Fór annars á föstudaginn og sá Casino Royale og hafði virkilega gaman af. Þetta er flott spennumynd, gamaldags Bond-mynd með öllum þeim fléttum sem nauðsynlegar eru. Finnst þetta besta Bond-myndin til fjölda ára. Fólk var orðið svolítið leitt á niðursoðna ýkta hasarnum sem var alltof feik ýktur. Nú fáum við gamaldags versíón af Bond, kærkomin útgáfa það. Finnst Daniel Craig fara vel af stað í þessu hlutverki og marka sér gott upphaf þar. Mjög gott mál. Skrifa meira um þessa mynd hér á morgun, þegar ég hef meiri tíma.

Var að horfa á Spaugstofuna á netinu. Missti af henni í gær. Þar fóru þeir heldur betur á kostum og gerðu góðlátlegt grín af Árna Johnsen og þar var allt fært í Bond-búning. Vel gert grín og ég hafði mjög gaman af þessu. Skemmtilegt hugmyndaflugið í Spaugstofumönnum eins og venjulega. Flottur þáttur. Hápunkturinn var þegar að heitum Bondmyndanna var breytt og lögin voru mjög flott með þessum breytta hætti.


mbl.is Teiknimynd um mörgæsir skákaði Bond
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að íslenska heiti kvikmynda?

Kvikmyndir

Það er fátt sem jafnast á við það að skella sér í bíó og sjá vandaðar og vel gerðar kvikmyndir. Ég fer mjög oft í bíó og hef gaman af að stúdera kvikmyndir sem listform og allar hliðar þeirra. Seinustu vikurnar hefur verið nóg af góðum myndum í bíó og því hef ég oft skellt mér og kíkt á þær nýjustu.

Það er mikið talað um hvort íslenska eigi heiti kvikmynda. Er menntamálaráðherra nú að tala fyrir því að íslenska eigi heitin. Stefnt er að því sérstaklega á morgun vegna dags hinnar íslensku tungu. Ég hef mjög lítið spáð í þessu svosem. Ég fer í bíó alveg sama hvort er. Það skiptir litlu máli í raun að mínu mati. The Departed er alveg jafngóð hvort sem hún er presenteruð sem slík eða Hinir framliðnu, sem væri væntanlega íslenskaða heitið annars.

Ég skil að málverndarsinnar geri mál úr þessu. En hvernig sem fer munum við alltaf kalla The Departed, meistaraverk Martin Scorsese, (sem er ein vinsælasta myndin í bíó þessar vikurnar) því nafni sama hvort hún er auglýst þannig eður ei. Þetta er kynningarheiti myndarinnar á veraldarvísu. Þannig að ég skil ekki þessa umræðu alveg. En ef þetta róar einhverja málverndarsinna er mér svosem alveg sama. Ég kalla myndir ávallt sínu heiti, alltsvo hið erlenda, enda er það heiti myndarinnar á heimsvísu.


mbl.is Titlar erlendra kvikmynda þýddir í tilefni af degi íslenskrar tungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

James Bond snýr aftur í Casino Royale

Casino Royale Ég er búinn að tryggja mér miða í forsýningu á Casino Royale síðar í vikunni. Þar snýr 007 - njósnari hennar hátignar - aftur í 21. kvikmyndinni um ævintýri njósnarans margþekkta, sögupersónu Ian Fleming. Nú er Pierce Brosnan, sem túlkaði hann í tæpan áratug, horfinn á braut og nýr leikari, Daniel Craig, hefur tekið við hlutverkinu. Það er greinilegt að ýmsar breytingar eru í farvatninu í þessari mynd og verður fróðlegt að sjá myndina síðar í vikunni.

Mikið hefur verið deilt um Daniel Craig sem James Bond og sitt sýnist hverjum, eins og ávallt. Mörgum finnst hann stílbrot í hlutverkið í langri sögu Bond-myndanna, en hann mun væntanlega koma með sinn stíl og eðlilegt er að breytt sé um nú. Ég hef alla tíð verið gríðarlegur Bond-aðdáandi. Ég á allar myndirnar 20 sem gerðar hafa verið og er fíkill í spennu og hasar myndanna. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og við viljum auðvitað engar drastískar breytingar frá þessum höfuðreglum.

James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni. Það jafnast sjaldan neitt á við það að fá sér popp og kók og hverfa inn í hugarheim sagnanna. Uppáhaldið mitt í þessum myndaflokki er og hefur alla tíð verið Goldfinger frá árinu 1964. Þvílík dúndurmynd, alveg klassi. Sean Connery er og hefur alla tíð verið minn uppáhaldsBond og sá sem bæði skapaði hlutverkið á hvíta tjaldinu og markaði fyrstu og mikilvægustu sporin í hlutverkinu.

Annars hlakka ég svo sannarlega til að sjá nýjustu myndina. Ég held að þessi skothelda blanda af spennu, hasar og gríni klikki aldrei.

mbl.is Englandsdrottning væntanleg á heimsfrumsýningu Casino Royale
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

James Bond snýr aftur á hvíta tjaldið

Daniel Craig007 - njósnari hennar hátignar, snýr bráðlega aftur í 21. myndinni - Casino Royale. Nú er Pierce Brosnan horfinn á braut og nýr leikari, Daniel Craig, verður bráðlega kynntur til sögunnar í hlutverkinu. Mér skilst að einhverjar breytingar séu í farvatninu í þessari mynd en margt haldi sér. Mikið hefur verið deilt um Daniel Craig sem James Bond og sitt sýnist hverjum, eins og ávallt. Mörgum finnst hann stílbrot í hlutverkið í langri sögu Bond-myndanna, en hann mun væntanlega koma með sinn stíl og eðlilegt er að breytt sé um nú.

Ég hef alla tíð verið gríðarlegur Bond-aðdáandi. Ég á allar myndirnar 20 sem gerðar hafa verið og er fíkill í spennu og hasar myndanna. Hraðskreiðir bílar, stórhættuleg og seiðandi glæpakvendi, banvænir bardagasnillingar og forríkir glæpamenn eru auðvitað stór þáttur í hverri Bond-mynd og við viljum auðvitað engar drastískar breytingar frá þessum höfuðreglum. James Bond, þarf varla að kynna fyrir nokkru mannsbarni. Í fjóra áratugi hefur þessi lífseigi kvennabósi skemmt bíógestum um allan heim með hnyttnum tilsvörum og fáguðu skopskyni.

Það jafnast sjaldan neitt á við það að fá sér popp og kók og hverfa inn í hugarheim sagnanna. Uppáhaldið mitt í þessum myndaflokki er og hefur alla tíð verið Goldfinger frá árinu 1964. Þvílík dúndurmynd, alveg klassi. Sean Connery er og hefur alla tíð verið minn uppáhaldsBond og sá sem bæði skapaði hlutverkið á hvíta tjaldinu og markaði fyrstu og mikilvægustu sporin í hlutverkinu. Annars hlakka ég svo sannarlega til að sjá nýjustu myndina. Ég held að fullyrða megi að ég verði einn af þeim fyrstu sem skelli sér á hana hér. Enda held ég að þessi skothelda blanda af spennu, hasar og gríni klikki aldrei.

Annars gæti svo sannarlega vel verið að maður rifji upp Bond-taktana í kvöld og skelli góðri Bond-mynd í tækið. Það er alltof langt síðan að ég hef einmitt horft á uppáhaldsmyndirnar mínar í seríunni; Goldfinger og The Spy Who Loved Me (með Roger Moore). Þessar myndir klikka svo sannarlega aldrei. Hver er annars uppáhaldsmyndin þín? Hafirðu skoðun á því, láttu endilega í þér heyra hér!

mbl.is Craig sár og reiður vegna persónulegra aðdróttana í sinn garð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilnefningar til Edduverðlaunanna kynntar

Edduverðlaunin Tilnefningar til Edduverðlaunanna, íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunanna, voru kynntar formlega í dag. Ég er mikill kvikmyndaáhugamaður og hef því sérstaklega gaman alltaf af kvikmyndaverðlaunum. Ég er einn þeirra sem bíð ár hvert eftir Óskarnum, tilnefningum og pælingum um þær með miklum áhuga, og met mikils allt andrúmsloftið í kringum spádóma um góðar kvikmyndir, leikframmistöður og tæknilegar hliðar hinnar flottu kvikmyndar. Ég bíð allavega spenntur eftir Óskarnum þann 5. mars.

Ég mun því fylgjast með Eddunni af áhuga. Sýnist stefnu í óvenju spennandi kapphlaup um ýmis verðlaun þetta árið. Tilnefndar sem bestu myndir eru t.d. Blóðbönd, Börn og Mýrin, allt toppkvikmyndir að mínu mati. Best þeirra er þó hiklaust Mýrin, eins og ég hef farið yfir hér á vefnum var það mynd sem algjörlega heillaði mig, gríðarlega vel gerð, leikin og með brill heildarramma. Fannst merkilegt að hvorki Theódór né Þórunn Magnea voru tilnefnd fyrir leik sinn í Mýrinni, svo var greinilega ekki munað eftir Ágústu Evu.

Finnst reyndar verulega hallærislegt hjá þeim sem sjá um verðlaunin að hafa saman frammistöður karla og kvenna í leikaraflokkunum í aðal- og aukahlutverki. Það er svona frekar dapurt að mínu mati og vert mikillar umhugsunar. En ég tel að þetta geti verið óvenjuspennandi núna. Sérstaklega finnst mér gleðiefni að Jón Ársæll er tilnefndur enn eitt árið fyrir Sjálfstætt fólk, en mér finnst sá þáttur bera af í íslensku sjónvarpi og hann fær væntanlega verðlaunin enn eitt árið, ef allt eðlilegt er.

Bendi annars á tilnefningarnar hér með.

mbl.is Börn með átta tilnefningar til Edduverðlaunanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband