Færsluflokkur: Kvikmyndir
10.1.2007 | 16:16
Carlo hennar Sophiu Loren deyr
Carlo Ponti er látinn. Í hálfa öld var þessi heimsþekkti kvikmyndagerðarmaður mun frekar þekktur fyrir að vera Carlo hennar Sophiu Loren en annað. Sophia Loren er ein eftirminnilegasta leikkona kvikmyndasögunnar og án nokkurs vafa þekktasta kvikmyndaleikkona Evrópu síðustu áratugina. Líf hennar og Carlo Ponti hefur verið í miðpunkti slúðurblaða og umtals almennings allt frá fyrsta degi. Þau voru gift í fimm áratugi, giftust þegar að Sophia var 23 ára gömul og hann var 22 árum eldri en hún.
Svo sannarlega umdeild sambúð og hjónaband og það var í kastljósi fjölmiðla nær alla tíð vegna aldursmunar og að því er flestum fannst ólíks bakgrunns þeirra. Það hefur alla tíð vakið athygli að Sophia valdi frekar að giftast Ponti en taka saman við leikarann heimsþekkta Cary Grant, en öllum hefur verið ljóst að hún var stóra ást ævi hans. Ástaratlot þeirra og umdeilt samband var lengi eitt óljósasta ástarsamband kvikmyndasögunnar. Sjálf talaði hún opinskátt um þessa hluti í viðtali fyrir nokkrum árum og sagði þá að mjög litlu hefði munað að þau hefðu tekið saman.
Allir sem sjá kvikmyndina Houseboat nokkru sinni sjá þar chemistry-ið á milli Sophiu og Cary. Ekki aðeins er það ein besta mynd beggja heldur leikur enginn vafi á því að sambandið var meira en bara sýndarmennska tveggja leikara í kvikmynd. Persónulega hef ég alla tíð metið Sophiu Loren mjög mikils. Stórfengleg óskarsverðlaunaframmistaða hennar í kvikmyndinni La Ciociara (Two Women) færði henni endanlega frægð og stöðu í kvikmyndabransanum og telst hennar besta stund í kvikmyndum. Ein sterkasta túlkun leikkonu í kvikmyndasögunni og hún varð fyrsta (enn sú eina) leikkonan sem hlaut óskarinn fyrir að tjá sig á öðru máli en ensku.
Fyrir reyndar aðeins nokkrum dögum sá ég enn og aftur eina litríkustu mynd hennar. Ieri, Oggi, Domani (Yesterday, Today, and Tomorrow) er ein sterkasta ítalska mynd sem ég hef séð utan Cinema Paradiso, Fellini-myndanna og El Ciociara. Þar leikur Sophia þrjú hlutverk og á gríðarlega flottan samleik með Marcello Mastroianni, sem í áratugi var einn besti leikari Ítala og mikill persónulegur vinur Sophiu og þau léku oft saman á löngum ferli. Þrjár flottar sögur um þrjú pör sem þau túlka öll. Alltaf hægt að hlæja að henni og hún er eilífur gleðigjafi.
Sophia Loren hefur alla tíð verið áberandi í kvikmyndaheiminum og í dægurtali almennt, enda verið áberandi á mörgum vettvöngum, utan leiklistar var hún þekkt fyrir matseld og ilmvötnin sín svo fátt eitt sé nefnt. Litrík ævi er sennilega rétta orðið yfir ævi hennar og Carlo Ponti. Ponti var áberandi kvikmyndaframleiðandi á löngum starfsferli. Sennilega er La Strada (mynd Fellinis) eftirminnilegust þeirra mynda sem hann kom að, en sú mynd hlýtur að teljast ein besta mynd Ítala í áratugi.
Carlo Ponti látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2007 | 00:22
Dr. Hannibal Lecter snýr aftur
Hannibal er einhver óhugnanlegasta en um leið áhugaverðasta persóna spennubókmenntanna, þrátt fyrir sturlunina er hann enda fágaður fagurkeri. Nú er væntanleg ný kvikmynd byggð á skáldsögu eftir Harris vestanhafs, Hannibal Rising, sem á að gerast frá því að Hannibal er sex ára og enda er hann er um tvítugt. Í raun lýsir bókin þeim sálrænu breytingum sem urðu á honum sem mörkuðu ævi hans og örlög.
Ég á fyrri myndirnar um Hannibal; The Silence of the Lambs, Hannibal og Red Dragon. Allar þrjár hafa verið kvikmyndaðar. Fá orð þarf að hafa um fyrstnefndu myndina. Hún sló eftirminnilega í gegn árið 1991 og hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leik Hopkins og Jodie Foster í hlutverki alríkiskonunnar Clarice Starling, leikstjórn og handrit. Hún er aðeins þriðja myndin í sögu Óskarsverðlaunanna sem hlaut öll fimm aðalverðlaunin. Stórfengleg kvikmynd sem fangar áhorfandann algjörlega. Samleikur Hopkins og Foster var dýnamískur og myndin er fyrir margt löngu orðin klassík í kvikmyndasögunni.
Sálrænn þriller af bestu gerð og hann yfirtekur huga og hjarta áhorfandans alveg gjörsamlega. Stærsta afrek Hopkins sem leikara á löngum leikferli er að hafa tekist að færa okkur svo yngri Hannibal í myndinni Red Dragon árið 2002 (á að gerast mun fyrr) en þann sem hann túlkaði í Lömbunum með svo eftirminnilegum hætti. Auk þessara tveggja mynda er kvikmyndin Hannibal, sem var gerð ári á undan Red Dragon. Þar er sagan sögð eftir Lömbin. Sterk mynd að mörgu leyti en stendur hinum að mörgu leyti að baki. Hún er samt gríðarlega fáguð og færir okkur aðra sýn á karakterinn.
Hannibal er margflókinn karakter í lýsingu Thomas Harris, allt að því skelfilega brenglaður einstaklingur sem hefur á sér blæ fágaðs veraldarmanns. Fyndin blanda. Hopkins gerði honum alveg frábær skil í þessum myndum. Þetta er hlutverk leikferils Hopkins. Það voru merkileg örlög þessa gamalgróna Shakespeare-leikara að enda í hlutverki víðsjárverðrar mannætu. Ótrúlega sterkur karakter-leikari. Hlakkar til að sjá myndina og sjá meira af ævi Hannibals. Einn veigamesti þátturinn sem hefur vantað í þessa margflóknu sögu er kaflinn um uppvaxtarár Hannibals. Allir sem lesið hafa bækurnar hafa séð hversu miklu meira brútal Hannibal er í bókunum en í myndunum.
Ég eins og svo margir aðrir sá fyrst karakterinn í kvikmyndinni árið 1991 en las svo bókina. Það er gengið mun lengra þar og þær eru óvægnar lýsingar á sálarástandi Hannibals og hversu vægðarlaus hann var. Þessi mynd mun sýna okkur betur úr hverju hann er gerður sálarlega, hverjar voru aðstæður hans í æsku og hvernig hann varð þessi sálarháski sem hann að lokum varð. Þetta er enda svona svipað og að reka það hvernig að Svarthöfði varð að skepnu.
En þetta minnir mig á það að ég verð að fara að horfa aftur á The Silence of the Lambs. Mér finnst sú mynd alltaf stingandi skemmtileg.
Ný mynd um Hannibal Lecter væntanleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 20:47
Yndislegar jólamyndir
Um jólin er svo sannarlega viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna og eða bara létta og kæta hugarþelið. Nokkrar þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.
Kvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Sextug eðalmynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð.
Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.
Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2006 og 1946, fyrir sex áratugum er hún var frumsýnd. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur á jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.
Ein besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood, Maureen O'Hara og Thelmu Ritter í aðalhlutverkum.
Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.
Ein af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir þrem árum. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu.
Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!
Jólin verða ekki fullkomnuð fyrr en horft hefur verið á hinar ómótstæðilegu Home Alone I og II. Frábærar jólamyndir. Kevin McAllister er fyrir hin mestu mistök skilinn eftir einn heima á meðan að fjölskyldan er á leið í jólaleyfi til Parísar. Á meðan reyna tveir misheppnaðir þjófar sig að gera sig heimakomna heima hjá Kevin og stela þar öllu steini léttara. Kevin grípur til varna og reynir allt sem hann getur til að bjarga heimili sínu frá þjófunum. Sprenghlægileg og flott. Myndin sem gerði Macaulay Culkin að stjörnu. Joe Pesci og Daniel Stern eiga stórleik sem þjófarnir.
Í Home Alone gerist hið sama að fjölskyldan gleymir Kevin, en í þetta skiptið verður hún viðskila við hann í flugstöðinni þar sem þau eru á leið til Hawaii í jólaleyfi. Kevin tekur vitlausa vél og endar í New York, borg háhýsanna. Hann tékkar sig þar inn á Plaza, með öllum þeim mögnuðu tækifærum sem því fylgir. Á leið um borgina hittir hann þjófana sem reyndu allt sem þeir gátu til að ræna heimilið hans, en þeir eru þá sloppnir úr fangelsi. Þeir eiga harma að hefna gegn Kevin, sem ver sig með kjafti og klóm. Frábær kvikmynd. Culkin, Pesci og Stern í toppformi en senuþjófurinn er óskarsverðlaunaleikkonan Brenda Fricker í hlutverki hinnar kærleiksríku dúfnakonu. Báðar ómissandi um jólin.
Fastur hluti jólanna er svo auðvitað að sjá National Lampoon´s Christmas Vacation. Chevy Chase leikur fullkomnunarsinnann Clark Griswold enn eina ferðina. Að þessu sinni ætlar hann að gera fullkomnustu jól fjölskyldunnar fyrr og síðar að veruleika. Hann telur sig eiga von á hnausþykkum jólabónus sem kengur er í og leggur allt sitt í að skreyta húsið og gera allt sem best er nokkur möguleiki er að tryggja. Allt fer hinsvegar úrskeiðis sem getur mögulega gert það. Hápunkti nær það þegar að bróðir Clarks mætir með fjölskylduna og þá fyrst fer sælan að fara í vaskinn.
Þessi mynd er pottþétt. Gott dæmi um að plana ekki of mikið jólin að hætti fullkomnunar, heldur njóta þess sem maður á og gera gott úr lífinu. En þessi verður aldrei léleg. Sérstaklega fannst mér hún frábær þegar að ég dró hana fram nú skömmu eftir helgina. Fór endanlega í ekta gott jólaskap. Það ættu allir að geta hlegið frá sér allt vit og forpokaða skammdegisfýlu yfir þessari mögnuðu mynd.
Fleiri myndir mætti nefna t.d. Elf, Meet me in St. Louis (þar sem Judy Garland söng allra fyrst hið ódauðlega Have Yourself a Merry Little Christmas), Die Hard I og II (sem báðar gerast á jólahátíð), Scrooge, A Christmas Story, How the Grinch Stole Christmas (1966-útgáfan), A Charlie Brown Christmas, A Christmas Carol, The Santa Clause, Frosty the Snowman, Surviving Christmas, The Shop Around the Corner (jamm vissulega ekki jólamynd en jólaandinn í lok myndarinnar er óviðjafnanlegur), The Ref, White Christmas, The Nightmare Before Christmas og Family Man.
Ef þið eigið uppáhaldsjólamynd, endilega kommenta þá hér með þær.
Vonandi eigið þið annars góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Það er nóg af góðum myndum um jólin í bíó. Meðal þess sem verður sýnt er auðvitað íslenska kvikmyndin Köld slóð. Hana ætla ég svo sannarlega að sjá. Nóg af úrvalsefni er allavega í boði í kvikmyndahúsunum. Gott úrval kvikmynda og þátta verður svo í sjónvarpi yfir jólin.
21.12.2006 | 13:11
Björn Bjarnason vildi leika á móti Penelope Cruz
Þar segist Björn aðspurður helst myndu vilja leika á móti spænsku leikkonunni Penelope Cruz ef hann mætti velja sér kvikmynd til að leika í, söguþráðinn, leikstjórann og leikara með sér. Nefnir hann Cruz og Baltasar Kormák og myndin yrði spennumynd með sagnfræðilegu ívafi. Við Björn erum mjög sammála um kvikmyndir þykir mér heilt yfir. Hann nefnir Marlon Brando, sem mestu kvikmyndastjörnuna í kvikmyndasögunni og telur dr. Hannibal Lecter mesta skúrkinn. Hefur þetta lengi verið mitt mat líka.
Björn segir að þýska úrvalsmyndin Der Untergang hafi haft mest áhrif á hann í bíó og hann telur Pál í Englum alheimsins uppáhalds íslensku kvikmyndapersónuna. Hann telur Marge Gunderson (í túlkun Frances McDormand) mestu hetjuna á hvíta tjaldinu og minnist á að versta mynd sem hann hafi séð hafi verið mynd með Steven Seagal. Þar er ég svo sannarlega sammála honum. Mér finnst þetta skemmtilegur spurningaflokkur hjá Fréttablaðinu.
Kvikmyndaáhugamenn eru margir og mjög ólíkir og fínt að skyggnast svona inn í kvikmyndapælingar þeirra. Ég verð þó að viðurkenna að ég taldi að John McClane í ógleymanlegri túlkun Bruce Willis í Die Hard-seríunni væri mesta hetja hvíta tjaldsins að hans mati og kom valið því á Marge skemmtilega á óvart. En gaman af þessu.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2006 | 14:31
Tímabært að Martin Scorsese fái óskarinn
Nú stefnir í að hann fái sjöttu tilnefninguna, nú fyrir The Departed, sem er án nokkurs vafa ein besta kvikmynd ársins 2006. Algjört meistaraverk svo vægt sé til orða tekið. Mér finnst það fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig þeir hafa sniðgengið Scorsese og kvikmyndir hans. Ég hélt í fyrra að hann myndi fá óskarinn fyrir The Aviator, en þá fóru verðlaunin til Clint Eastwood. Taldi ég að hann fengi verðlaunin bæði fyrir myndina, svo og glæsilegt framlag til sögu kvikmyndanna. Svo fór ekki.
Martin Scorsese hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Það mun verða kvikmyndabransanum til vansa fái hann ekki Óskarinn að þessu sinni og það hlýtur að verða að nú sé komið að því. Það er því ekki undarlegt að vinir hans og velunnarar séu farnir að vinna að því að nú komi að því. Sumarið 2003 skrifaði ég ítarlegan pistil um leikstjóraferil og ævi Scorsese og ég bendi á hann hér með.
Matt Damon: Löngu orðið tímabært að Scorsese hljóti Óskarinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2006 | 22:22
Spennandi tímar framundan fyrir bíófíklana
Þessi árstími og fyrstu mánuðir ársins eru oftast nær besti tími ársins í bíó, en þá koma Óskarsverðlaunamyndirnar og helsta gæðaefnið á hverju ári. Sérstaklega hlakkar mér til að sjá myndir á borð við Dreamgirls (kvikmynd Bill Condon) sem sögð er alveg virkilega góð og hefur hlotið mikið lof kvikmyndagagnrýnenda sérstaklega fyrir góðan leik Jennifer Hudson og Eddie Murphy, Little Children (kvikmynd Todd Field) með Kate Winslet og Jennifer Connelly, Bobby (kvikmynd leikarans Emilio Estevez) sem lýsir atburðunum á Ambassador hótelinu 5. júní 1968 - daginn sem Bobby Kennedy var myrtur, og Little Miss Sunshine með Toni Collette.
Það sem kom mér mest í opna skjöldu með Golden Globe var að Babel skyldi verða tilnefnd til fleiri verðlauna en The Departed. Ég hef heyrt mikið um það að Babel sé reyndar gríðarlega sterk og öflug kvikmynd, sem jafnvel geti komið á óvart á Óskarnum. Babel er leikstýrð af Alejandro González Iñárritu og skartar Brad Pitt og óskarsverðlaunaleikkonunni Cate Blanchett, sem hlaut Óskarinn árið 2005 fyrir The Aviator. Þessi mynd er að mér skilst alveg fullkomin og með allan pakkann. Kemur líka úr nokkuð óvæntri átt, enda áttu menn ekki von á henni svona sterkri í verðlaunapakkann eins og raun ber vitni. Sérstaklega lofa menn leik Brad Pitt í henni og hann sýni þar sitt allra besta til þessa í leik. Þetta er allavega mynd sem ég ætla mér að sjá.
Önnur mynd sem ég tel lofa góðu og verða sigursæla er The Last King of Scotland, en þar leikur Forest Whitaker sjálfan Idi Amin, fyrrum harðstjóra í Úganda, víst með svo miklum bravör að farið er að slá því föstu að hann fái bæði Golden Globe og Óskarinn. Hún er víst sögð allt í senn heillandi, óvægin, magnþrungin og blóðug. Þetta er mynd sem mun klárlega verða vinsæl í bíó er á klakann kemur. Whitaker hefði fyrir löngu átt að verðlauna fyrir sínar góðu leikframmistöður, t.d. fannst mér hann mjög góður í hlutverki Jody í The Crying Game, kvikmyndaperlu írska leikstjórans Neil Jordan. Svo ætla ég hiklaust að sjá Blood Diamond, en þar sýnir Leonardo DiCaprio víst ekki síðri snilldartakta en í The Departed.
Peter O´Toole á glæsilegt comeback skilst manni í myndinni Venus, og það er mynd sem ég verð að sjá sem mikill aðdáandi kvikmynda þessa 75 ára leikara. O´Toole er tilnefndur til Golden Globe og fær væntanlega Óskarstilnefningu. Hann hefur þegar hlotið átta slíkar á löngum og glæsilegum leikferli, en aldrei unnið. Hann hlaut heiðursóskarinn árið 2003 og þáði hann með þeim orðum að hann hefði nú helst viljað fá þann gyllta með öðrum hætti. O´Toole mun víst tjá karakterinn sinn í myndinni, Maurice, með miklum glæsibrag og spurning hvort hann fái loks aðalleikaraóskar eftir langa og stranga bið. Það er reyndar með ólíkindum að hann fékk ekki verðlaunin fyrir Lawrence of Arabia eða The Ruling Class.
Spænski leikstjórinn Pedro Almodovar er mikill snillingur. Hann hefur nokkrum sinnum hlotið óskarinn og Golden Globe, bæði fyrir myndir sínar og kvikmyndahandrit. Nú kemur frá honum enn ein eðalmyndin að manni skilst, Volver. Þar mun Penolope Cruz eiga mikinn stórleik og hún nokkuð trygg með óskarstilnefningu. Sem mikill aðdáandi kvikmynda Almodovars er bókað að ég sjái auðvitað Volver. Dame Judi Dench er enn einu sinni tilnefnd, nú fyrir leik sinn í kvikmyndinni Notes on a Scandal, þar sem hún leikur með Cate Blanchett. Enn ein myndin á listann. Maggie Gyllenhaal mun eiga stjörnuleik í kvikmynd sem ber heitið SherryBaby, hef heyrt vel talað um myndina og leik hennar. Nauðsynlegt að sjá hana.
Áður hef ég hér fjallað um kvikmyndina The Queen, en ég tel að Helen Mirren fái óskarinn fyrir að leika Elísabetu II drottningu. Hún hefur verið í bíó og kemur væntanlega fyrr en síðar á kvikmyndaleigurnar. En lengi má telja upp. Margar eðalmyndir á leiðinni og spennandi tími framundan eftir jólin í bíói hjá okkur kvikmyndafíklunum. Ef þið hafið fleiri myndir í pottinn en þessar er velkomið að bæta við og fara betur yfir þetta allt.
Ólíklegt að Eastwood og DiCaprio fá tvöföld Óskarsverðlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2006 | 17:09
Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna kynntar
Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine fékk fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.
Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu í janúar. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe þetta árið.
Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna. Verðlaunin verða afhent í 64. skipti í Los Angeles þann 15. janúar nk.
Babel með flestar tilnefningar til Golden Globe verðlauna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2006 | 21:52
Peter Boyle látinn
Persónulega fannst mér hann bestur í sínu fyrsta stjörnuhlutverki, sem skrímslið í eðalmynd Mel Brooks Young Frankenstein. Það er stórfengleg kvikmynd sem ég passa mig á að sjá reglulega, enda með betri myndum Brooks, sem ég hef alltaf haft virkilegt dálæti á. Húmor hans og myndir hitta alltaf í mark. The Young Frankenstein hefði ekki orðið nema svipur hjá sjón án Boyle og svo auðvitað Gene Wilder og Marty Feldman sem áttu þar ekki síðri stórleik. Hans fyrsta var reyndar Joe árið 1970 og hún er enn í dag mjög góð.
Peter Boyle átti svo auðvitað stjörnuleik í kvikmyndinni The Candidate árið 1972, en þar lék hann Marvin Lucas, kosningastjóra forsetaframbjóðandans Bill McKay (sem leikinn var af Robert Redford). Rock solid eðalmynd sem vert er að mæla með og þeir sem hafa áhuga á pólitískum fléttum og pælingum verða svo sannarlega að sjá hana. Ekki má svo gleyma tímamótamyndinni Taxi Driver frá árinu 1976 en þar lék Boyle leigubílstjóra og félaga Travis Bickle (meistaraleg túlkun hjá Robert De Niro). Það verður enginn kvikmyndaáhugamaður að fullu fyrr en hann hefur sest niður og horft á þá snilld sem Taxi Driver er.
Ekki má gleyma Johnny Dangerously, einni af þessum gamanmyndum sem allir verða að sjá, en þar fór Boyle á kostum sem gengisforinginn svipmikli Jocko Dundee. Í Malcolm X (sögu blökkumannaleiðtogans sem var myrtur árið 1965 en í myndinni túlkaður stórfenglega af Denzel Washington) lék hann lítið en eftirminnilegt hlutverk kapteins Green. Hann var svo auðvitað réttur maður á réttum stað í The Santa Clause árið 1994 sem Herra Whittle. Ox Callaghan gleymist engum í túlkun Boyle sem séð hafa While You Were Sleeping og Boyle var flottur sem Buck Grotowski í Monster´s Ball. Svona mætti lengi telja er litið er yfir feril hans.
Síðast en ekki síst verður að telja upp túlkun hans á Clyde Bruckman, sem setti svip sinn á hina frábæru sjónvarpsþætti The X-Files, en Boyle fékk Emmy fyrir þá túlkun sína. Peter Boyle kvæntist Loraine Alterman árið 1977. Hún var blaðamaður á tónlistartímaritinu Rolling Stone er þau kynntust. Í gegnum hana kynntist Boyle hjónunum Yoko Ono og John Lennon. Lennon varð svaramaður Boyles í brúðkaupi hans og Alterman árið 1977 og vinskapur þeirra var mjög mikill, allt þar til yfir lauk, en 26 ár eru nú liðin frá því að Lennon var myrtur í New York. Boyle og Alterman áttu tvær dætur.
Boyle var mjög heilsulaus í seinni tíð. Hann fékk heilablóðfall árið 1990 og missti þá málið í nokkra mánuði. Hann byggði sig upp í að leika aftur. Árið 1999, við tökur á Everybody Loves Raymond, fékk hann hjartaáfall en hélt aftur til starfa við þættina eftir stutta sjúkrahúslegu. Nýlega greindist Boyle með beinmergskrabbamein en hann lék allt fram í andlátið.
Leikarinn Peter Boyle látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2006 | 12:03
Sterk staða hjá James Bond og Mýrinni
Kvikmyndin Mýrin, í leikstjórn Baltasar Kormáks og eftir sögu Arnaldar Indriðasonar, er enn á topplistanum, þrem mánuðum eftir frumsýningu. Nú hafa 80.000 manns séð myndina og hún er orðin ein af vinsælustu íslensku kvikmyndunum. Það er greinilegt að landsmenn eru hrifnir af því að sögur Arnaldar verði kvikmyndaðar. Skýr skilaboð eru allavega í aðsókninni á Mýrina, enda er hún vinsælasta kvikmynd ársins í íslenskum kvikmyndahúsum.
James Bond fer hvergi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.12.2006 | 22:34
Fær Helen Mirren óskarinn?
Mér fannst kvikmyndin Queen vera alveg gríðarlega góð. Áhrifarík og sterk mynd, gríðarlega vel leikin fyrst og fremst. Hún væri ekkert án leikframmistöðu Helen Mirren sem er þungamiðja myndarinnar. Það er svo sannarlega kominn tími til að Helen Mirren fái óskarinn. Hún er ein besta leikkona Breta og hefur verið það til fjölda ára. Frammistaða hennar í hlutverki Jane Tennison í sjónvarpsmyndunum Prime Suspect voru sennilega það fyrsta sem ég sá með henni. Þeir þættir voru hreinræktuð snilld og ég horfi á þá reglulega, með því allra besta úr bresku sjónvarpi (ef Morse og Taggart (McManus) er meðtalin).
Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í hlutverki Charlotte drottningar árið 1994 í hinni stórfenglegu The Madness of King George. Ég horfði einmitt aftur um helgina á þessa eðalmynd. Sir Nigel Hawthorne (sem sló í gegn sem ráðuneytisstjórinn útsjónarsami í Yes Minister og Yes Prime Minister) átti þar leik ferilsins sem hinn örlítið klikkaði kóngur. Samleikur þeirra var hreinasta unun og þessi mynd hefur fyrir löngu öðlast góðan sess í kvikmyndahillunni minni. Ekki var Mirren síðri í Gosford Park, Robert Altmans, árið 2001. Þá átti hún auðvitað að fá óskarinn fyrir hina eftirminnilegu túlkun á ráðskonunni "fullkomnu" Frú Wilson. Þessar myndir klikka aldrei.
En nú er vonandi komið að sigurstund Helen Mirren í Los Angeles. Það hefur unnið gegn henni hingað til að vera bresk og með aðrar rætur í Hollywood en bandarískar leikkonur sem þar hafa hirt verðlaunin í bæði skiptin sem hún var tilnefnd áður. Það má mikið vera að ef Helen Mirren fer ekki létt með að fá óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu drottningu, sem allir kvikmyndagagnrýndur hafa lofsungið síðustu mánuðina. Þar var ekki feilnóta slegin á neinu stigi.