Færsluflokkur: Kvikmyndir
26.2.2007 | 02:40
Alan Arkin hlýtur aukaleikaraóskarinn
Aukaleikaraflokkurinn var ansi jafn þetta árið. Margir höfðu spáð Eddie Murphy sigri fyrir túlkun sína á soul-söngvaranum í Dreamgirls og Jackie Earle Haley fyrir hlutverk Ronnies í Little Children. Í spá minni í kvöld taldi ég að Murphy myndi vinna vegna þess að straumar fyrri hátíða myndu færa honum sigur. Innst inni vildi ég að Arkin tæki þetta og svo fór að lokum. Mjög gott mál - Arkin á skilið óskarinn eftir sinn langa og góða feril.
Ég man fyrst eftir Arkin í Edward Scissorhands þar sem hann túlkaði Alan árið 1990. Frábær mynd. Síðar kynnti ég mér þær myndir sem hann var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir og spannaði helstu myndir hans lið fyrir lið. Túlkun hans á afanum í Little Miss Sunshine er án vafa toppurinn á hans ferli og því viðeigandi að hann fari með óskarinn fyrir túlkun sína í henni.
Það er spenna yfir óskarsverðlaunaafhendingunni. Nú eykst spennan sífellt og fleiri stórir flokkar eru framundan. Mesta spennan er þó yfir því hverjir fagna undir lok hátíðarinnar; hvaða kvikmynd verði verðlaunuð sem sú besta á árinu 2006. Það verður gaman að sjá hulunni svipt af því senn.
25.2.2007 | 23:55
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2007
Óskarsverðlaunin verða afhent í 79. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.
Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég hef verið kvikmyndaáhugamaður allt mitt líf, dýrkað kvikmyndir sem ástríðu og lífsins áhugamál og fylgst alla tíð vel með Óskarnum.
Þetta verður vonandi spennandi og góð nótt.
Kvikmynd ársins
Babel
The Departed
Letters from Iwo Jima
Little Miss Sunshine
The Queen
Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Babel er næm og gríðarlega vönduð fléttumynd, sem fléttist með flottum hætti saman - mynd sem fangar huga áhorfandans. The Departed er stórfengleg eðalmynd frá meistara Martin Scorsese. Little Miss Sunshine er hrífandi mynd, skartar frábærum leik og næmri sýn á líf ósköp venjulegrar fjölskyldu. Letters from Iwo Jima er öflug stríðsmynd með mikla fyllingu sem fjallar um ólíkt fólk í viðjum stríðsátaka og örlög þess. The Queen er svo vönduð sýn á örlagaríka kreppu á valdaferli Elísabetar II Englandsdrottningar - lýsir vel atburðarás eftirleiks dauða Díönu, prinsessu af Wales, fyrir þjóð í sorg og drottningu á krossgötum.
Spá: Þetta er einn jafnasti kvikmyndaflokkurinn í um þrjá áratugi. Allar myndirnar eru góðar og verðskulda sigur. Það er engin ein mynd með afgerandi forskot. Þær geta allar í raun unnið, þó líklega sé The Queen í mestri fjarlægð frá því. Ég tel að slagurinn standi þó á milli Babel og The Departed. Ég tel líklegra að sú síðarnefnda fái verðlaunin. Mér finnst hún best þessara mynda og vona að hún muni heilla hjarta akademíunnar með sama hætti og var í mínu tilfelli.
Leikstjóri ársins
Clint Eastwood - Letters from Iwo Jima
Stephen Frears - The Queen
Paul Greengrass - United 93
Alejandro González Iñárritu - Babel
Martin Scorsese - The Departed
Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2006. Clint Eastwood er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin; hefur hlotið þau tvisvar - fyrir Unforgiven árið 1992 og Million Dollar Baby árið 2004. Hann leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins - mynd sem skilur mikið eftir sig og heillar áhorfandann. Stephen Frears á skilið tilnefningu fyrir frábært verk sitt í The Queen, sem er raunsönn lýsing á örlagaríkum viðburðum í breskri sögu fyrir þjóð og drottningu. Paul Greengrass gerði United 93 stórbrotna og algjörlega ógleymanlega. Alejandro González Iñárritu færði á hvíta tjaldið litríka og fallega fléttumynd - heilsteypta og vandaða. Meistari Martin Scorsese bætti svo enn einni rósinni í sitt fallega safn með flottri mafíumynd - mynd með öllum pakkanum.
Spá: Það er enginn vafi á því í mínum huga að allir eiga þessir menn skilið að fá virðingu fyrir verk sín. Allar eru þær í hágæðaklassa. Þó stendur Martin Scorsese algjörlega upp úr fyrir sína góðu mynd í mínum huga. Hann hlýtur hér sjöttu leikstjóratilnefningu sína. Hann hefur aldrei hlotið óskarinn. Er með ólíkindum að þessi snillingur hafi ekki hlotið gullna kallinn fyrir myndir eins og Raging Bull, The Aviator og Goodfellas. Til skammar fyrir akademíuna. Það er fyrir löngu kominn tími til að heiðra hann og framlag hans til leiklistar í sögu kvikmyndanna. Ég ætla rétt að vona að akademían noti þetta tækifæri nú og heiðri meistara Scorsese. Allt annað er hreinn skandall.
Leikari í aðalhlutverki
Leonardo DiCaprio - Blood Diamond
Ryan Gosling - Half Nelson
Peter O'Toole - Venus
Will Smith - The Pursuit of Happyness
Forest Whitaker - The Last King of Scotland
Fimm flottir aðalleikarar þarna á ferð. Enginn þeirra hefur áður hlotið verðlaunin. Leonardo DiCaprio á eina bestu stund ferils síns í Blood Diamond. Flott mynd og glæsileg túlkun. Ryan Gosling er sagður brillera í flottu hlutverki í Half Nelson. Peter O´Toole fær nú sína áttundu aðalleikaratilnefningu; að þessu sinni fyrir að leika gamla vitringinn í Venus. Alveg yndislegt kombakk. Hann vann ekki fyrir ógleymanlegar túlkun í Lawrence of Arabia, The Ruling Class, The Lion in Winter og Becket. Hvað gerist nú? Will Smith kom mér mjög á óvart með glæsilegri túlkun sinni í hinni glæsilegu The Pursuit of Happyness, þar sem hann fer á kostum við hlið sonar síns. Forest Whitaker á leiksigur ferilsins í hlutverki Idi Amin, einræðisherrans frá Úganda.
Spá: Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Þeir eiga allir séns á að vinna að mínu mati. Ætti ég að velja myndi Peter O´Toole loksins fá verðlaunin. Hans tími er fyrir löngu kominn. Hann hefur á glæsilegum ferli lífgar svo um munar upp á kvikmyndamenninguna. Án vafa er keppnin milli hans og Whitaker sem er alveg stórfenglegur í sinni rullu - verður hinn alræmdi einræðisherra í einu vetfangi með brilljans. Tel að Whitaker hafi afgerandi forskot og að hann muni vinna. Hann hefur oft verið sniðgenginn áður og á þetta vel skilið. En það á O´Toole mun frekar eiginlega.
Leikkona í aðalhlutverki
Penélope Cruz - Volver
Judi Dench - Notes on a Scandal
Helen Mirren - The Queen
Meryl Streep - The Devil Wears Prada
Kate Winslet - Little Children
Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Judi Dench og Meryl Streep hafa hlotið verðlaunin áður. Dame Judi hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu I Englandsdrottningu í Shakespeare in Love og Meryl fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer og Sophie´s Choice. Judi Dench er sem ávallt fyrr stórbrotin og óviðjafnanleg - geislandi leikframmistaða. Helen Mirren vinnur leiksigur ferils síns í The Queen og er hreinlega stórkostleg í erfiðri rullu; það útheimtir kraft og kjark að leggja í að leika drottninguna sína, konu sem enn er við völd. Hún gerir það með brilljans. Það geislar af Kate Winslet í hlutverki sínu í Little Children. Meryl geislar í hlutverki sínu í The Devil Wears Prada - þvílíkt skass! Penelope Cruz brillerar í Volver - leiksigur hennar á flottum ferli.
Spá: Glæsilegur hópur leikkvenna - þrjár breskar eðalkonur sem þarna eru í fremsta flokki. Kate og Judi eru brilljans í sínum myndum. Meryl er alltaf flott og Penelope var yndisleg í sinni rullu. En það stenst engin þeirra snúning við Helen Mirren. Hún er drottning þessa leikkvennaflokks þetta árið og mun vinna. Það er enginn vafi á því í mínum huga. Túlkun hennar á Elísabetu II í The Queen er svo stórfengleg að ekkert fær það toppað. Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í The Madness of King George og Gosford Park. En nú er stundin komin. Enginn vafi á því. Þetta verður kvöldið hennar Helen Mirren.
Leikari í aukahlutverki
Alan Arkin - Little Miss Sunshine
Jackie Earle Haley - Little Children
Djimon Hounsou - Blood Diamond
Eddie Murphy - Dreamgirls
Mark Wahlberg - The Departed
Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Enginn þeirra hefur unnið verðlaunin. Alan Arkin er sem ávallt fyrr listagóður og á flotta endurkomu á hvíta tjaldið í Little Miss Sunshine. Yndisleg túlkun hans á afanum er einn helsti aðall góðrar myndar. Jackie Earle Haley er yndislega góður í Little Children - þvílíkur leiksigur! Í Dreamgirls fer Eddie Murphy á kostum sem soul-söngvarinn - hans besta á gloppóttum ferli og hann skilar sínu listavel. Djimon Hounsou var glæsilegur í Blood Diamond og fær verðskulda tilnefningu. Mark Wahlberg er einn af hjartaknúsurum kvikmyndaheimsins í dag og hefur lengi brætt hjarta kvennanna. Í mafíumyndinni The Departed á hann sína bestu stund á ferlinum. Flott mynd - glæsileg túlkun.
Spá: Allir verðskulda þessir frábæru leikarar heiður fyrir sitt verk. Að mínu mati stendur þó baráttan fyrst og fremst á milli þeirra Murphy, Haley og Arkin. Satt best að segja er mér erfitt að gera upp á milli þeirra. Helst vildi ég að þeir allir fengju verðlaunin. Að mínu mati var Haley alveg rosalega flottur í Little Children og fara vel frá erfiðu og krefjandi hlutverki - hann náði allavega að heilla mig. Aftur á móti var Murphy alveg að brillera í sinni rullu í Dreamgirls. Mér hefur aldrei fundist Arkin hafa náð hærra í túlkun í kvikmynd. Afinn var algjör brilljans í hans túlkun - Arkin er alltaf flottur. Ég tel að Murphy muni vinna en myndi helst vilja að Arkin tæki þetta.
Leikkona í aukahlutverki
Adriana Barraza - Babel
Cate Blanchett - Notes on a Scandal
Abigail Breslin - Little Miss Sunshine
Jennifer Hudson - Dreamgirls
Rinko Kikuchi - Babel
Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum góðu kvikmyndum. Aðeins Cate Blanchett hefur unnið verðlaunin áður. Hún vann óskarinn fyrir túlkun sína á Katharine Hepburn í hinni litríku The Aviator fyrir tveim árum. Adriana Barraza var að mínu mati alveg glettilega góð í kvikmyndinni Babel - lagði allt sitt í hlutverkið og gott betur en það og á tilnefninguna svo sannarlega skilið. Blanchett stóð sig vel eins og ávallt í Notes on a Scandal og var yndisleg. Abigail Breslin brillerar í Little Miss Sunshine - lítil stjarna stórrar myndar. Minnir mig á flottan leiksigur Tatum í Paper Moon í denn. Jennifer Hudson vinnur sannkallaðan leiksigur í krefjandi hlutverki í Dreamgirls. Rinko Kikuchi var svo heillandi og eftirminnileg í Babel - listilega flott túlkun.
Spá: Allar eru þessar leikkonur alveg frábærar og skara satt best að segja algjörlega fram úr á sviði leiklistar í sínum myndum. Þó er enginn vafi á því í mínum huga að Jennifer Hudson ber algjörlega af. Hún allavega hitti mig í hjartastað með næmri og eftirminnilegri túlkun sinni á Effie White. Þvílíkur söngur og þvílík leikframmistaða konu sem aldrei fyrr hefur í raun leikið í stórmynd. Brilljans í sinni allra bestu mynd. Jennifer gjörsamlega brillerar með þessari túlkun sinni og hún er að mínu mati hjarta og sál þessarar stórbrotnu myndar. Það kemur ekkert annað til greina í mínum huga en að hún vinni þessi verðlaun. Ætla ég svo sannarlega að vona að svo fari. Hún ber af sem gull af eiri að mínu mati.
Góða skemmtun í nótt!
Kvikmyndir | Breytt 26.2.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 17:30
Fær Martin Scorsese óskarinn um helgina?
Nú hefur hann fengið sjöttu tilnefninguna fyrir The Departed, sem er án nokkurs vafa ein besta kvikmynd ársins 2006. Algjört meistaraverk svo vægt sé til orða tekið. Mér finnst það fyrir löngu orðinn ljótur blettur á bandarísku kvikmyndaakademíunni hvernig þeir hafa sniðgengið Scorsese og kvikmyndir hans. Ég hélt að hann myndi fá verðlaunin fyrir tveim árum, fyrir The Aviator, en þá fóru verðlaunin til Clint Eastwood. Taldi ég að hann fengi verðlaunin bæði fyrir myndina, svo og glæsilegt framlag til sögu kvikmyndanna. Svo fór ekki.
Martin Scorsese hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Það mun verða kvikmyndabransanum til vansa fái hann ekki Óskarinn að þessu sinni og það hlýtur að verða að nú sé komið að því. Það er því ekki undarlegt að vinir hans og velunnarar hafi unnið vel að sigri hans nú. Sumarið 2003 skrifaði ég ítarlegan pistil um leikstjóraferil og ævi Scorsese og ég bendi á hann hér með.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.2.2007 | 15:43
Saga af verulega langdreginni kvikmynd
Þetta er myndin þar sem Burton og Taylor kynntust.... og urðu ekki síður ástfangin upp fyrir haus en Kleópatra og Markús Antoníus urðu forðum daga. Ástarsamband þeirra við gerð myndarinnar var mjög í kastljósi fjölmiðla og þótti hneykslanlegt þar sem bæði voru gift. Varð ekki síðra drama en í tilfelli Brad Pitt og Angelinu Jolie áratugum síðar er þau féllu hvort fyrir öðru við tökur á hasarbombunni Mr. and Mrs. Smith. Líf Burton og Taylor var stormasamt... þau voru bæði mikið skapfólk og tóku ófáar snerrurnar. Þau giftust tvisvar hvorki meira né minna... en voru vinir allt til æviloka Burtons árið 1984.
Richard Burton og Elizabeth Taylor léku ekki aðeins saman í Kleópötru. Besta kvikmynd þeirra beggja var hin dramatíska og upptendraða Who´s afraid of Virginia Woolf? Klassi í sinni allra bestu mynd. Sá myndina um daginn eftir alltof langt hlé og rifjaði upp hversu mikil þruma mér fannst hún fyrst er ég sá fyrir um 15 árum. Eldtungur ganga á milli hjónanna sem þau leika og myndin fer upp og niður allan tilfinningaskalann. Þetta er besta kvikmynd leikferils Taylors, þó margar séu þær góðar, og þetta er ein besta stund Burtons á leikferli hans. Elizabeth Taylor fékk sinn seinni óskar fyrir hana, en Burton vann mörgum að óvörum ekki. Bandaríska kvikmyndaakademían heiðraði Burton aldrei fyrir leik þrátt fyrir margar stórmyndir á ferlinum.
Sá síðast Kleópötru fyrir einum þrem árum, lá þá heima í veikindakasti og ákvað að lina þjáningarnar með verkjalyfi á borð við myndina. Sofnaði yfir henni í leðurstólnum í stofunni heima sem var notalegt. Margir kaflar myndarinnar eru flottir en heildarmyndin er skelfileg. Burton og Taylor voru bæði myndarleg. Í myndinni voru þau túlkuð sem glæsilegt fólk, enda hefði myndin sjálfsagt orðið enn meira sögulegt flopp en það á endanum varð hefðu tveir minnimáttaleikarar með stuttan leikferil túlkað þau.
Ef marka má myntina sem sagt er frá í fréttinni að neðan voru Kleópatra og Markús Antoníus ekkert myndarfólk, allavega fjarri því að þau séu lík þeim sem léku þau aldaröðum síðar í dýrustu....en floppaðasta stórvirki kvikmyndasögunnar. Get ekki sagt að ég sé hissa, í sannleika sagt.
Myntin sýnir ljótan sannleika um Kleópötru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2007 | 18:08
Sögulegar vendingar hjá Óskarsverðlaununum
Meryl Streep er tilnefnd í fjórtánda skiptið fyrir kvikmyndaleik, fyrir The Devil Wears Prada - enginn leikari í sögu verðlaunanna hefur hlotið fleiri. Hún sló met Katharine Hepburn, sem hlaut tólf, er hún var tilnefnd fyrir Adaptation árið 2003. Verulega athygli mína vekur að Jack Nicholson var ekki tilnefndur fyrir The Departed, en tilnefning hans hefði jafnað frægt fyrrnefnt met Kate Hepburn, en Nicholson hefur hlotið óskarinn þrisvar (oftast karlleikara) og verið tilnefndur ellefu sinnum, sem er það mesta í tilfelli karlleikara í 80 ára sögu akademíunnar.
Ýmislegt annað vekur mikla athygli. Merkilegt er að þrír blökkuleikarar; Forest Whitaker, Jennifer Hudson og Eddie Murphy, eigi raunhæfa möguleika á leikverðlaunum, en öll eru þau nú talin sigurstranglegust í sínum flokkum. Það yrði vissulega magnþrungið ef Eddie Murphy fengi uppreisn æru sem leikari eftir floppkenndan feril síðustu ára og fengi Óskarinn. Flestir þekkja hann fyrir smelli á borð við Beverly Hills Cop, Trading Places og 48 Hours. Sigur fyrir dramaframmistöðu hans sem soul-söngvarans í Dreamgirls myndi blása lífi í feril hans. Sigur Hudson yrði líka merkilegur í ljósi þess að henni mistókst að sigra Idolið árið 2004. Öllum er ljóst að hún er nú orðin víðþekkt stjarna.
Auk þessa eru þrjár breskar leikkonur tilnefndar í flokki aðalleikkvenna; Dame Judi Dench, Dame Helen Mirren og Kate Winslet. Flestir hafa talið Mirren nær örugga með sigur í The Queen, fyrir túlkun sína á Elísabet II Englandsdrottningu. Fjöldi leikkvenna frá Bretlandi gæti styrkt stöðu Meryl Streep og Penelope Cruz, sem fær tilnefningu fyrir Volver. Það er svo sannarlega sjaldgæft að leikkona í mynd án ensks tals fái tilnefningu. Margir hafa reyndar lengi beðið eftir að Cruz fái þennan heiður - eflaust mikil gleði á Spáni með það að Cruz sé tilnefnd fyrir túlkun sína í þessari mynd meistara Almodovars. Það yrði merkilegt ef Streep myndi vinna. Það yrði í þriðja skiptið; hefur unnið fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer og Sophie´s Choice. En flestir veðja á Mirren.
Peter O´Toole fær nú sína áttundu aðalleikaratilnefningu; að þessu sinni fyrir að leika gamla vitringinn í Venus. Yndislegt kombakk segja gagnrýnendur. O´Toole hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, fágaður og flottur breskur leikari með mikla nærveru. Hann hefur aldrei unnið; fékk ekki verðlaunin fyrir óglemanlegar leikframmistöður í Lawrence of Arabia, The Ruling Class, The Lion in Winter og Becket. Hann fékk fyrir fjórum árum heiðursverðlaun þegar að flestir töldu fullreynt með að hann ynni þau á annan hátt. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú. Hann hlýtur að teljast sigurstranglegur, en sennilega er Forest Whitaker nær sigri fyrir glæsilega túlkun á Idi Amin, einræðisherranum frá Úganda í The Last King of Scotland. Þetta verður á milli þeirra.
Það stefnir í spennandi verðlaunaafhendingu. Vona umfram allt að Martin Scorsese fái núna loks leikstjóraóskarinn. Fyrst að Bill Condon er ekki tilnefndur fyrir Dreamgirls, eins ótrúlegt og það hljómar, hlýtur Scorsese að vinna. Alejandro González Iñárritu er vissulega líklegur til að geta átt séns á þessu fyrir Babel en fái meistarinn frá New York ekki óskar núna er æði líklegt að hann vinni aldrei. Hann hefur aldrei unnið; verið tilnefndur fyrir Raging Bull, Goodfellas og Aviator svo fátt eitt sé nefnt. Skandall ef hann fær ekki styttuna núna. Enn og aftur er Eastwood tilnefndur, en hann hefur unnið tvisvar svo að ekki fær hann verðlaunin fyrir Letters from Iwo Jima.
Bendi annars á tilnefningarnar svo að lesendur geti kynnt sér þær betur. Á eftir að pæla enn meira í þessu síðar. Fróðlegt hvernig fer og ég á eftir að rita meira um þetta. Er reyndar enn að meðtaka það að Dreamgirls fái þennan mikla heiður frá akademíunni og sé svo samhliða þeim heiðri snubbuð um bæði kvikmynda- og leikstjóratilnefningu. Sögulegt er það - sannkallaður súrsætur heiður. En meira um þetta síðar. :)
Dreamgirls fær flestar Óskarstilnefningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2007 | 12:36
James Bond loksins leyfður í Kína
Segir þetta meira en mörg orð um forræðishyggju stjórnvalda í Peking. Fyrir nokkrum mánuðum bönnuðu stjórnvöld þar sýningu á mynd meistara Martin Scorsese, The Departed, þar. Allar myndir eru síaðar fyrir almenning. Myndir sem þykja boða óæskileg áhrif eru bannaðar og fá ekki dreifingu af neinu tagi í landinu. Ekki er óalgengt að jafnvel þekktar myndir, t.d. með óskarsverðlaunastimpli eða aðrar víðfrægar myndir, sé haldið frá kínverskum almenningi.
Það fylgir sögunni að forsvarsmenn Sony Pictures í Kína séu alsælir að þurfa ekki að klippa myndina til að hún fáist sýnd. Þvílíkur molbúaháttur hjá kínverskum stjórnvöldum, nú sem fyrr.
Casino Royale fyrsta Bond-myndin sem sýnd verður í Kína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2007 | 11:49
Verður Helen Mirren drottning Óskarsins?
Sögusvið myndarinnar eru hinir örlagaríku dagar í september 1997 í kjölfar andláts Díönu, prinsessu af Wales, í bílslysi í París. Þeir dagar voru áhrifaríkir fyrir drottninguna, sem mætti þá í fyrsta skipti alvöru mótspyrnu landsmanna, sem vildi að hún sýndi minningu Díönu virðingu. Mér fannst kvikmyndin Queen vera alveg gríðarlega góð. Áhrifarík og sterk mynd, gríðarlega vel leikin fyrst og fremst. Hún væri ekkert án leikframmistöðu Helen Mirren sem er þungamiðja myndarinnar. Reyndar var ég um daginn að kaupa mér myndina en hún er nú komin út á DVD.
Það er svo sannarlega kominn tími til að Helen Mirren fái óskarinn. Hún er ein besta leikkona Breta og hefur verið það til fjölda ára. Frammistaða hennar í hlutverki Jane Tennison í sjónvarpsmyndunum Prime Suspect voru sennilega það fyrsta sem ég sá með henni. Þeir þættir voru hreinræktuð snilld og ég horfi á þá reglulega, með því allra besta úr bresku sjónvarpi (ef Morse og Taggart (McManus) er meðtalið). Nýlega var síðasti hlutinn um Tennison sýndur á Stöð 2 og missti ég ekki af honum. Sennilega sá besti í röðinni í háa herrans tíð.
Það var nokkur skaði að Helen Mirren skyldi ekki vinna óskarinn fyrir túlkun sína í hlutverki Charlotte drottningar árið 1994 í hinni stórfenglegu The Madness of King George. Ég horfði einmitt nýlega aftur á þessa eðalmynd. Sir Nigel Hawthorne (sem sló í gegn sem ráðuneytisstjórinn útsjónarsami í Yes Minister og Yes Prime Minister) átti þar leik ferilsins sem hinn örlítið klikkaði kóngur. Samleikur þeirra var hreinasta unun og þessi mynd hefur fyrir löngu öðlast góðan sess í kvikmyndahillunni minni.
Ekki var Mirren síðri í Gosford Park, Robert Altmans, árið 2001. Þá átti hún auðvitað að fá óskarinn fyrir hina eftirminnilegu túlkun á ráðskonunni "fullkomnu" Frú Wilson. Þessar myndir klikka aldrei. En nú er væntanlega komið að sigurstund Helen Mirren í Los Angeles. Það hefur unnið gegn henni hingað til að vera bresk og með aðrar rætur í Hollywood en bandarískar leikkonur sem þar hafa hirt verðlaunin í bæði skiptin sem hún var tilnefnd áður.
Það má mikið vera að ef Helen Mirren fer ekki létt með að fá óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu drottningu, sem allir kvikmyndagagnrýndur hafa lofsungið síðustu mánuðina. Þar var ekki feilnóta slegin á neinu stigi. Verður allavega fróðlegt að sjá tilnefningarnar í dag.
16.1.2007 | 19:47
Konungleg stemmning á Golden Globe
Það var konungleg stemmning í Los Angeles í gærkvöldi þegar að Golden-Globe voru afhent í 64. skiptið. Stjarna kvöldsins var breska leikkonan Dame Helen Mirren sem hlaut tvö leikverðlaun fyrir túlkun sína á tveim kjarnakonum í sögu breska konungsveldisins; Elizabeth I, í samnefndri sjónvarpsmynd sem fjallar um efri ár drottningarinnar sem ríkti árin 1558-1603, og Elizabeth II, þar sem hún túlkar drottninguna sem ríkt hefur frá árinu 1952 í kvikmyndinni The Queen, sem lýsir eftirmála dauða Díönu, prinsessu af Wales, í Frakklandi í september 1997.
Mörgum að óvörum hlaut kvikmyndin Babel verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins. Hún var tilnefnd til sjö verðlauna, en hlaut aðeins þessi einu, sem eru þýðingarmikil enda marka hana sem sterkt óskarsverðlaunaefni. Söngvamyndin Dreamgirls hlaut verðlaunin sem besta gaman/söngvamynd ársins og ennfremur fyrir leikara í aukahlutverkum; Eddie Murphy og Jennifer Hudson. Murphy, sem þótti hafa dalað sem leikari að undanförnu, á þar öfluga endurkomu og er orðaður við óskarinn og hin lítt þekkta Idol-stjarna (vann ekki árið 2004) Hudson slær í gegn sem eitt mesta nýstirni undanfarinna ára.
Leikarinn Forest Whitaker hlaut verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki í dramatískri kvikmynd fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í Úganda. Er Whitaker orðaður við óskarinn, enda þykir hann eiga stjörnuleik í myndinni. Eins og fyrr segir vann Helen Mirren verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í dramatískri mynd. Leikkonan Meryl Streep vann verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki kvenna í gaman/söngvamynd í myndinni The Devil Wears Prada þar sem hún fer á hlutverkum í hlutverki kuldalega tískuritstjórans Miröndu Priestley. Sacha Baron Cohen hlaut verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki í gaman/söngvamynd fyrir sprenghlægilega túlkun sína á hinum kostulega Borat.
Mörgum að óvörum tókst kvikmyndinni The Departed ekki að hljóta verðlaunin sem besta dramatíska kvikmynd ársins, né tókst leikurunum Leonardo DiCaprio, Mark Wahlberg og Jack Nicholson að vinna verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni. Hinsvegar tókst leikstjóranum Martin Scorsese að hljóta gullhnöttinn fyrir leikstjórn sína. Scorsese hefur oft verið tilnefndur en aðeins einu sinni unnið; fyrir fjórum árum, árið 2003, fyrir kvikmyndina Gangs of New York. Scorsese er nú orðaður við leikstjóraóskarinn og DGA-leikstjóraverðlaunin sem afhent eru skömmu fyrir afhendingu óskarsverðlaunanna. Scorsese hefur aldrei hlotið óskarinn á löngum leikstjóraferli og þykir mörgum vera kominn tími.
Kvikmynd Clint Eastwood, Letters from Iwo Jima, hlaut verðlaunin sem besta erlenda mynd ársins. Eastwood var tilnefndur fyrir leikstjórn sína í henni og Flags of Our Fathers (sem var að stórum hluta tekin hérlendis). Kvikmyndin The Queen var verðlaunuð fyrir besta kvikmyndahandrit ársins. Í myndinni er lýst eftirmála dauða Díönu prinsessu, fyrir tæpum áratug, er hún var syrgð um allan heim. Krafa fólksins var að drottningin sýndi henni virðingu og þrýstingurinn neyddi hana til þess. Atburðunum er lýst með lágstemmdum og hlutlausum hætti með gríðarlega góðum hætti og handritið er einn megingrunnur myndarinnar, utan leiksins. Lag Prince í kvikmyndinni Happy Feet var valið kvikmyndalag ársins.
Elizabeth I var valin besta sjónvarpsmynd ársins og aðalleikkona myndarinnar Dame Helen Mirren valin besta leikkonan í sjónvarpsmynd. Bill Nighy var valinn besti leikarinn í sjónvarpsmynd fyrir leik sinn í Gideon´s Daughter. Ugly Betty var valin besta gamanþáttaröðin í sjónvarpi og aðalleikkona þáttanna, America Ferrera, var valin besta leikkonan í gamanþætti. Alec Baldwin var valinn besti leikarinn í gamanþætti fyrir 30 Rock. Grey´s Anatomy var valinn besti dramatíski þátturinn í sjónvarpi. Hugh Laurie var valinn besti leikarinn í dramaþætti fyrir leik sinn í House og Kyra Sedgwick besta leikkonan fyrir Closer. Aukaleikarar í sjónvarpi voru valdir Jeremy Irons fyrir Elizabeth I og Emily Blunt fyrir Gideon´s Daughter.
Leikarinn og leikstjórinn Warren Beatty hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til kvikmynda sem litríkur leikari og stórtækur leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi. Hann flutti gríðarlega góða þakkarræðu er hann tók við verðlaununum. Beatty alltaf góður. Sem minnir mig á að ég verð að fara að rifja upp kynnin af mynd hans, Bonnie and Clyde, frá árinu 1967, þar sem hann lék á móti Faye Dunaway, og bestu kvikmyndinni sem hann gerði sjálfur, Reds, árið 1981. Umdeild en ógleymanleg kvikmynd um ævi John Reed, sem hann hlaut leikstjóraóskarinn fyrir árið 1982.
Kvikmyndahluti Golden Globe gefur oft vísbendingar um Óskarsverðlaunin sem afhent eru í febrúarlok, en tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar í næstu viku. Valdir partar af verðlaunaafhendingunni verða sýndir á Stöð 2 í kvöld - hvet alla sem ekki gátu skiljanlega vakið í nótt að horfa á þá það helsta sem uppúr stóð eftir kvöldið. Það er ljóst að fjöldi góðra mynda eru á leiðinni upp á skerið og nóg af úrvalsefni fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk að sjá - sérstaklega hlakkar mér til að sjá Babel og Dreamgirls, svo fátt eitt sé nefnt.
Allar upplýsingar um Golden Globe 2007
Babel og Dreamgirls valdar bestu myndirnar á Golden Globe hátíðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2007 | 21:44
Golden Globe-verðlaunin afhent í nótt
Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvaða myndir fái Gullhnöttinn. Kvikmynd Alejandro González Iñárritu, Babel, hlaut flestar tilnefningar, eða sjö, einni fleiri en The Departed í leikstjórn Martin Scorsese. Clint Eastwood er með tvær leikstjóratilnefningar; fyrir Flags of our Fathers og Letters From Iwo Jima, en hvorug þeirra var þó tilnefnd sem besta kvikmyndin í flokki dramatískra kvikmynda. Breska leikkonan Helen Mirren er tilnefnd til þriggja leikverðlauna og virðist nær örugg um sigur í dramaflokknum fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu.
Kvikmyndin Dreamgirls hefur verið að fá mikið lof vestanhafs og er tilnefnd til fimm verðlauna; þ.á.m. sem besta myndin í flokki gamanmynda og söngleikja, fyrir leik Eddie Murphy, Beyonce og svo auðvitað Jennifer Hudson, sem þykir senuþjófur myndarinnar og er nær örugg um sigur í sínum flokki. Hudson féll úr keppni í American Idol árið 2004 en er nú þegar orðin frægari en allir keppendurnir sem urðu fyrir ofan hana í keppninni. Kvikmyndin Borat er tilnefnd í flokki gamanmynda og söngleikja og Sacha Baron Cohen er tilnefndur sem besti leikari í þeim flokki. Góð tíðindi það. Kvikmyndin Little Miss Sunshine er svo með fjölda tilnefninga og aðalleikkona myndarinnar, Toni Collette, hlaut tvær leiktilnefningar.
Leonardo DiCaprio er tilnefndur fyrir tvö hlutverk í dramaflokknum; í Blood Diamond og The Departed. Flest þykir þó benda til að Forest Whitaker vinni verðlaunin fyrir frábæra túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland. Gamla brýnið Peter O'Toole fær tilnefningu fyrir comeback-ið sitt í myndinni Venus og fróðlegt verður að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu síðar í þessum mánuði, en óskarsverðlaunatilnefningar verða kynntar eftir rúma viku, þann 23. janúar nk. Hann hefur enda eins og flestir vita hlotið átta óskarstilnefningar nú þegar en aldrei unnið. Hann fékk hinsvegar heiðursóskar árið 2003. Warren Beatty mun fá Cecil B. DeMille-heiðursverðlaunin á Golden Globe í nótt, fyrir sinn langa leikara- og leikstjóraferil.
Bendi annars á tilnefningar til Golden-Globe verðlaunanna og hvet sem flesta til að fylgjast með þessu. Alltaf gaman af kvikmyndaverðlaununum. Svo má heldur ekki gleyma að sjónvarpið er verðlaunað líka og margt athyglisvert í þeim flokkum, þó ég fari ekki yfir það hér. Væri gott að heyra í lesendum með það hvernig þeir telja að verðlaunin fari hafi þeir á því skoðun hér. Ég tel að Dreamgirls og The Departed fái myndaverðlaunin og Scorsese leikstjóraverðlaunin. Ég vona að þetta verði loksins árið hans Scorsese.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2007 | 14:02
Back to the Future
Ég fann semsagt hjá mér þörf að kaupa safnið og rifja myndirnar upp. Það var alveg gríðarlega nostalgíuleg upplifun að mörgu leyti. Ég var t.d. að sjá aðra myndina í flokknum í fyrsta skiptið í heilan áratug. Skemmtilegast fannst mér að upplifa þriðju myndina aftur, en hún var enn betri en mig minnti. Sú fyrsta er þó þeirra allra best og eldist best. Í raun má segja að pakkinn allur hafi elst furðanlega vel og standist tímans tönn með sóma. Þó verð ég að viðurkenna að framtíðarsýn annarrar myndarinnar á árið 2015 lítur furðulega út með árið handan við hornið.
Ég hef alltaf verið hrifinn af ævintýramyndum með vott af raunveruleika. Þó fíla ég Star Wars-safnið mjög vel og hafði gaman af að upplifa það aftur á DVD fyrir nokkrum árum. Sama var með Indiana Jones. Allt eru þetta myndir sem eru klassíker, hver á sinn hátt vissulega. Back to the future er svona hluti af eighties-fílingnum finnst mér. Ég datt alveg um leið inn í gamla tíma er ég sá fyrstu myndina rétt fyrir áramótin og á nýársdag var gaman að gleyma skaupinu og njóta myndar tvö, sem er skemmtilega flippuð. Þriðja myndin er klassíker ástarsaga, hugljúf og yndisleg. Allt eðalmyndir.
Það var gaman að rifja þær upp. Maður er ekki kvikmyndafikill fyrir ekki neitt sko.