Saga af verulega langdreginni kvikmynd

Richard Burton og Elizabeth Taylor í Kleópötru Einhver langdregnasta kvikmynd sem ég hef nokkru sinni séð er myndin um Kleópötru. Hún er fjórir klukkutímar að lengd og rennur mjög hægt í gegn en er stórbrotin... fallegt landslag og mikilfenglegir myndarammar prýða hana. Elizabeth Taylor er þar svo sannarlega unaðslega góð í hlutverki Kleópötru sjálfrar og átti þar einn hápunkta síns glæsilega leikferils. Richard Burton og Rex Harrison eru svo eftirminnilegir í myndinni sem menn lífs hennar; Markús Antoníus og Júlíus Sesar.

Þetta er myndin þar sem Burton og Taylor kynntust.... og urðu ekki síður ástfangin upp fyrir haus en Kleópatra og Markús Antoníus urðu forðum daga. Ástarsamband þeirra við gerð myndarinnar var mjög í kastljósi fjölmiðla og þótti hneykslanlegt þar sem bæði voru gift. Varð ekki síðra drama en í tilfelli Brad Pitt og Angelinu Jolie áratugum síðar er þau féllu hvort fyrir öðru við tökur á hasarbombunni Mr. and Mrs. Smith. Líf Burton og Taylor var stormasamt... þau voru bæði mikið skapfólk og tóku ófáar snerrurnar. Þau giftust tvisvar hvorki meira né minna... en voru vinir allt til æviloka Burtons árið 1984.

Richard Burton og Elizabeth Taylor léku ekki aðeins saman í Kleópötru. Besta kvikmynd þeirra beggja var hin dramatíska og upptendraða Who´s afraid of Virginia Woolf? Klassi í sinni allra bestu mynd. Sá myndina um daginn eftir alltof langt hlé og rifjaði upp hversu mikil þruma mér fannst hún fyrst er ég sá fyrir um 15 árum. Eldtungur ganga á milli hjónanna sem þau leika og myndin fer upp og niður allan tilfinningaskalann. Þetta er besta kvikmynd leikferils Taylors, þó margar séu þær góðar, og þetta er ein besta stund Burtons á leikferli hans. Elizabeth Taylor fékk sinn seinni óskar fyrir hana, en Burton vann mörgum að óvörum ekki. Bandaríska kvikmyndaakademían heiðraði Burton aldrei fyrir leik þrátt fyrir margar stórmyndir á ferlinum.

Sá síðast Kleópötru fyrir einum þrem árum, lá þá heima í veikindakasti og ákvað að lina þjáningarnar með verkjalyfi á borð við myndina. Sofnaði yfir henni í leðurstólnum í stofunni heima sem var notalegt. Margir kaflar myndarinnar eru flottir en heildarmyndin er skelfileg. Burton og Taylor voru bæði myndarleg. Í myndinni voru þau túlkuð sem glæsilegt fólk, enda hefði myndin sjálfsagt orðið enn meira sögulegt flopp en það á endanum varð hefðu tveir minnimáttaleikarar með stuttan leikferil túlkað þau.

Ef marka má myntina sem sagt er frá í fréttinni að neðan voru Kleópatra og Markús Antoníus ekkert myndarfólk, allavega fjarri því að þau séu lík þeim sem léku þau aldaröðum síðar í dýrustu....en floppaðasta stórvirki kvikmyndasögunnar. Get ekki sagt að ég sé hissa, í sannleika sagt.

mbl.is Myntin sýnir ljótan sannleika um Kleópötru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband