Færsluflokkur: Kvikmyndir

Sir Sean snýr ekki aftur úr eftirlaunakyrrðinni

Harrison Ford og Sir Sean Connery Það eru nokkur ár liðin frá því að eilífðartöffarinn Sir Sean Connery hætti kvikmyndaleik eftir glæsilegan leikferil. Það eru mikil vonbrigði að hann ætli ekki að snúa aftur á hvíta tjaldið í fjórðu myndinni um Indiana Jones, sem nú er í vinnslu. Bundu aðdáendur myndanna miklar vonir við að hann sneri aftur til að leika föður fornleifafræðingsins Indys, nú 18 árum eftir hina stórfenglegu Indiana Jones and the Last Crusade, þar sem Connery og Harrison Ford áttu magnaðan samleik. Svo verður greinilega ekki.

Flestir kvikmyndaunnendur hafa talað vel um þriðju myndina í kvikmyndabálknum. Stærsti hluti myndarinnar og hinn dramatískasti var byggður á stirðbusalegu sambandi föður og sonar en restin var hreinn eltingarleikur með hvern æsilegan og glæsilegan hápunktinn á fætur öðrum. Þetta var mögnuð blanda og innkoma Connerys var toppur myndarinnar. Þó að Connery nálgist áttrætt og hafði haldið sjálfskipaður í eftirlaunakyrrðina voru vonir bundnar við að hann yrði allavega hluti fjórðu myndarinnar. Það verður fróðlegt að sjá handritið og uppbyggingu myndarinnar við þessa ákvörðun.

Það eru auðvitað mikil tíðindi svosem að Harrison Ford ætli sér að leika Indy aftur. Það eru eins og fyrr segir átján ár frá þriðju myndinni. Ford hefur elst nokkuð á frekar skömmum tíma, er allavega ekki lengur sá ferski og hressi maður sem hann var í myndunum þremur. Það er visst hættuspil að gera fjórðu myndina og ég vona að það áhættuspil sanni sig að vera farsælt með þetta einvalalið í frontinum. Það er þó áfall fyrir þá að Connery ákveði að sitja til hliðar og standi við þá ákvörðun að vera sestur í helgan stein. Vonandi verður myndin góð.

mbl.is Connery verður ekki með í fjórðu myndinni um Indiana Jones
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gordon Gekko snýr aftur tveim áratugum síðar

Michael Douglas í hlutverki Gordon GekkoÞað eru tveir áratugir liðnir frá því að Michael Douglas vann stærsta leiksigur ferilsins og hlaut óskarinn fyrir hlutverk hins vægðarlausa fjármálabraskara Gordons Gekko á Wall Street. Myndin fókuseraði meistaralega á græðgina í bissness-heiminum og hversu vægðarlaus hann er innst við kjarnann. Douglas var yndislega illkvittinn og nasty í rullunni.

Nú hefur Douglas samþykkt að leika Gordon Gekko aftur í framhaldsmynd Wall Street tveim áratugum síðar. Annars er kvikmyndin Wall Street auðvitað mjög eftirminnileg, sennilega ein sterkasta kvikmyndin séð frá þessum sjónarhól á vægðarleysi viðskiptalífsins. Ég hafði ekki séð myndina lengi er ég sá hana á kvikmyndamarkaði þar sem ég fór á. Ég nældi mér í eintak.

Það var mjög notalegt að rifja myndina upp og sjá hana aftur eftir langt hlé. Það er oft gaman að upplifa bíómyndir aftur; finna annan punkt á þeim og pæla í þeim aftur. Frábær túlkun Douglas er enn toppur myndarinnar en handritið er auðvitað bravúr alveg. Svo var auðvitað gaman að sjá byrjunina aftur; New York að vakna til lífsins og undir hljómar Frank Sinatra að syngja Fly Me to the Moon.

Það er annars verulega sjaldgæft að framhaldsmyndir gangi upp, oftar en ekki eru þær skelfilegt flopp. Ætla þó rétt að vona að þessi mynd standi vel ein og sér og skemmi ekki gömlu myndina. Annars verður að ég held gaman að sjá karakterinn Gordon Gekko aftur tveim áratugum síðar og í enn vægðarlausari heimi viðskipta nú en var árið 1987.

Einræða Gekko um græðgi er besta kvikmyndaatriði Douglas á ferlinum og því auðvitað hápunktur
Wall Street. Pjúra snilld! Læt textann flakka hér með; óborganleg sena.

The point is, ladies and gentlemen, that: Greed, for lack of a better word, is good. Greed is right; greed works. Greed clarifies, cuts through, and captures the essence of the evolutionary spirit. Greed, in all of its forms, greed for life, for money, for love, knowledge — has marked the upward surge of mankind and greed, you mark my words — will save not only Teldar Paper but that other malfunctioning corporation called the USA.

mbl.is Michael Douglas aftur í hlutverk Gordon Gekko
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stund langþráðrar viðurkenningar í Hollywood

Martin Scorsese Það var stór stund í sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar þegar að Martin Scorsese hlaut leikstjóraóskarinn fyrir tíu dögum eftir að hafa verið sniðgenginn í Hollywood í þrjá áratugi fyrir kvikmyndir sínar. Hann var utangarðsmaður glyssins í Hollywood. Hann hafði fimm sinnum verið tilnefndur, reyndar ekki verið tilnefndur fyrir frábæra kvikmynd á borð við Taxi Driver, en t.d. tapað fyrir Raging Bull og Goodfellas með áberandi hætti.

Scorsese átti heiðurinn skilið. Það vissu flestir að hann fengi verðlaunin sennilega núna, en margir voru hissa þegar að hann tapaði fyrir tveim árum fyrir The Aviator, glæsilega innsýn í ævi Howards Hughes. Það var háreist stórmynd með glamúr og glysi og margir töldu að þá myndi Hollywood falla fyrir Scorsese, sennilega var myndin markaðssett með það í huga að falla Hollywood í geð, enda var Katharine Hepburn, dálæti kvikmyndaheimsins frá árdögum, ein sögupersónan. Scorsese fór tómhentur heim, en Cate Blanchett sem lék Hepburn vann fyrir túlkun sína.

Það er kannski rétt sem margir segja að The Departed er ekki besta mynd Martin Scorsese. Mér fannst hún þó einna best af þeim fimm myndum sem voru tilnefndar með henni. Það var reyndar orðin ansi æpandi staðreynd að Scorsese hafði ekki hlotið verðlaunin. Ég var nú einn af þeim sem vonaðist eftir að The Aviator fengi óskarinn árið 2005, enda fannst mér hún betri en Million Dollar Baby, þó sú mynd sé vissulega mjög góð. Það hefði allavega orðið stórtíðindi hefði Scorsese tapað aftur nú í kapphlaupinu um óskarinn. Enda fór ekki svo. Ég fann það á mér lengi að nú ætlaði Hollywood að stíga skrefið til fulls til Scorsese, viðurkenna snilld hans í kvikmyndum. Svo fór.

Þetta var svipað móment og fyrir fjórum árum þegar að akademían steig hið stóra og áberandi skref að veita Roman Polanski leikstjóraóskarinn fyrir The Pianist. Það var mjög stór stund. Margir töldu að fortíð hans og umdeilt orðspor myndi koma í veg fyrir það. Enda mátti sjá gleðiglott á andliti Harrison Ford þegar að hann leit í umslagið. Spekingar Hollywood höfðu spáð Rob Marshall óskarnum fyrir Chicago, en sem betur fer fóru verðlaunin ekki þangað. Vonaði ég á þeirri stund að farið yrði alla leið og The Pianist hlyti óskarinn líka sem besta mynd ársins 2002, enda hiklaust í senn langbesta og stórbrotnasta myndin. Svo fór því miður ekki. Chicago vann. Það var átakanlega slappt val.

Það hefur oft gerst í gegnum áranna rás að rangir sigurvegarar hafi orðið á þessum blessuðu óskarsverðlaunum. Ég var einn þeirra sem tók bakföll af ergju þegar að Shakespeare in Love var frekar valin kvikmynd ársins 1998 en Saving Private Ryan, meistaraverk Steven Spielberg. Það var dapurt að fylgjast með því. Miramax keyptu kvikmyndaóskarinn með gylliboðum og valið var umdeilt og leiddi síðar til breytinga á valkerfinu og reglum um gjafir til meðlima í akademíunni, sem velja sigurvegarana. Sem betur fór var þó ekki komið í veg fyrir að Spielberg fengi leikstjóraóskarinn fyrir myndina. Annað slæmt val var þegar að Halle Berry vann leikkonuóskarinn fyrir Monster´s Ball.

Kvikmyndir skipta alltaf máli. Þessi mest áberandi kvikmyndahátíð sögunnar er í brennidepli árlega hjá öllum kvikmyndaspekingum. Það er því ekki sama í huga þeirra hvernig þau fara. Fyrst og fremst var þetta gleðileg óskarsverðlaunahátíð að þessu sinni fyrir þær sakir að Scorsese og Ennio Morricone fengu loksins verðlaunin. Það var löngu tímabært. Morricone er besta kvikmyndatónskáld sögunnar. Fjögur tónverk hans eru hér í spilaranum.

Helen Mirren glæsilegust allra á Óskarnum

Helen Mirren Það er nú enginn vafi að Dame Helen Mirren var glæsilegust allra á Óskarnum aðfararnótt mánudags. Það geislaði af henni í kjól sem var eins og sniðinn algjörlega fyrir hana er hún tók við Óskarnum fyrir að túlka Elísabetu II Englandsdrottningu í kvikmyndinni The Queen. Glæsileg sigurstund fyrir hana á löngum ferli. Fannst reyndar afleitt þegar að hún tapaði í bæði fyrri skiptin; fyrir The Madness of King George og Gosford Park. Hún var t.d. alveg brill sem þjónustukonan ofurfullkomna, sem reyndist síðar ekki alveg svo fullkomin, í Gosford Park.

En þessi frétt er mjög fyndin í ofanálag. Það verður ekki af Dame Helen skafið að hún þorir að tala hreint út. Þess vegna var kannski viðeigandi að hún skyldi leika kjarnakonuna Elísabetu í þessari mynd. Þær eru nefnilega innst inni nokkuð líkar týpur held ég. Ákveðnar kjarnakonur. Nú heyrist reyndar að Mirren vilji leika Camillu Parker-Bowles, eiginkonu Karls Bretaprins, sem nú er orðin hefðarkona með titilinn hertogaynja. Það yrði nú heldur dúndurstöff, pent sagt.

Les. hér: Helen Mirren wants to play Camilla

mbl.is Nærhaldið fjarri á Óskarnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konungleg stund í Hollywood - drottningar hittast

Helen MirrenÞegar að ég sá fyrst kvikmyndina The Queen í bíó var ég handviss um að Helen Mirren fengi óskarinn fyrir túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu. Hún var einfaldlega svo stórfengleg að annað gat ekki komið til greina - hún túlkaði drottninguna með bravúr og færði okkur kjarnann í persónu hennar. Elísabet II er vissulega þrjósk og hvöss í túlkun Mirren en undir niðri er þetta kona gamalgróna gilda og skyldurækni - umfram allt kona á krossgötum.

Myndin lýsir sögulegum viðburðum. Fráfall Díönu, prinsessu af Wales, í París þann 31. ágúst 1997 kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og í raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London. En það stöðvaði ekki skriðu almennings.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Helen Mirren túlkar drottningu á krossgötum. Þjóðin fylgdi ekki leiðsögn hennar. Með leiðbeiningum Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem í raun leiddi baráttu almennings fyrir því að sess Díönu yrði staðfestur af konungsfjölskyldunni, um að drottningin færi til London, mætti almenningi á götum borgarinnar og flytti sjónvarpsávarp í beinni útsendingu, bjargaði drottningin því sem bjargað varð. Með naumindum tókst drottningu að ná tökum á stöðunni. Mirren túlkar sálarástand drottningarinnar sem lenti í atburðarás sem sífellt varð verri og verri. Túlkun hennar er svo góð að unun er á að horfa og það er öllum ljóst sem sér myndina að Mirren fer inn í innsta kjarna persónu drottningar.

Helen Mirren í The QueenBesta atriði myndarinnar er hiklaust þegar að Mirren endurtúlkar allt ávarp Elísabetar II til bresku þjóðarinnar daginn fyrir útför Díönu. Þar er engin feilnóta slegin. Hún túlkar öll svipbrigði og taláherslur drottningar á réttum stöðum. Lýtalaus snilld í orðsins fyllstu merkingu. Ávarpið er tær snilld í sjálfu sér en Mirren endurleikur þessa sögulegu stund svo vel að þetta atriði eitt hefði réttlætt það að hún fengi verðlaunin. Svo lætur atriðið þar sem hún festir jeppann í ánni og bíður aðstoðar á árbakkanum engan ósnortinn. Það er eina skiptið í gegnum svo að segja alla myndina sem hin sterka kona bugast.

Elísabet II er kona sem hefur leitt heimsveldi í 55 ár. Hún hefur verið kona áhrifa. Þessi mynd sýnir okkur inn í kjarna hennar. Þetta er viðkvæmt umfjöllunarefni og þarf næmt verklag og leik til að allt gangi upp. Þarna gengur allt upp og gott betur en það. Myndin er yndisleg og Mirren vinnur stærsta leiksigur ferilsins og er loksins komin með óskarinn í sínar hendur. Það var kominn tími til. Mirren sýnir í þessari mynd hvernig gera skal hlutina. Engin feilnóta - aðeins tær snilld.

Það er afrek að geta túlkað konu sem er enn eins áberandi í heimsmyndinni og Elísabet II með jafn opinskáum hætti í raun. Hún er sennilega ein áhrifamesta kona síðustu áratuga. Það þarf kraft og kjark til að gera þetta og eiginlega auðvelt að klúðra því. Þetta er allavega mikill línudans á milli snilldar og oftúlkunar. Mirren neglir hlutverkið og gerir þetta með brilljans. Nú er talað um að Elísabet II og Helen Mirren hittist bráðlega yfir tebolla í Buckingham-höll. Hún hefur ekki enn séð myndina og mun ekki ætla sér að gera það nokkru sinni. Of vondar minningar sennilega - beisk endurupplifun.

Þetta eru tvær kjarnakonur - konur skoðana og styrkleika. Það eru eflaust flestir sem vildu vera fluga á vegg yfir tespjalli þeirra. Eitthvað segir mér þó að hin veraldarvana húsmóðir breska heimsveldisins forðist eftir fremsta megni að ræða ævi og örlög Díönu og eftirmála dauða hennar - sögusvið myndarinnar sem færði Dame Helen hlutverk ferilsins og tækifærið til að sýna snilld sína í eitt skipti fyrir öll. Styrkleiki leikkonunnar í myndinni var nefnilega um leið umfangsmesti veikleikinn á litríku æviskeiði drottningar sem hefur ríkt í áratugi.

Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár
pistill SFS - 6. febrúar 2007


mbl.is Verður Mirren boðið í te í Buckinghamhöll?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forest Whitaker hlýtur aðalleikaraóskarinn

Forest Whitaker Forest Whitaker hlaut fyrir stundu óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki fyrir frábæra túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin í The Last King of Scotland. Leikur hans er mesti aðall þessarar frábæru kvikmyndar og það er svo sannarlega vel þess virði að gera sér nú ferð í bíó og líta á hana. Þetta var fyrsta óskarsverðlaunatilnefning hans á ferlinum og sigur hans á þessari verðlaunahátíð festir Whitaker endanlega í sessi sem öflugan leikara í bransanum.

Mér hefur alltaf þótt Forest Whitaker vera frábær leikari. Sá hann fyrst svo ég man eftir í bíói í The Crying Game árið 1992. Myndin var snilld og einn stóri plús hennar var eftirminnileg túlkun Whitakers á Jody í byrjun myndarinnar. Þetta hefur fram til þessa verið besta leikframmistaða Whitakers á ferlinum en túlkun hans á Idi Amin toppar það heldur betur. Þetta er með sterkari leikframmistöðum síðustu ára, enda staðfestist það með sigri hans á nær öllum kvikmyndaverðlaunum síðustu mánaða.

Whitaker verður með þessum sigri fjórði blökkumaðurinn sem hlýtur aðalleikaraóskarinn. Fyrstur hlaut þau Sidney Poitier fyrir Lilies of the Field, árið 1964. Bíða þurfti í fjóra áratugi eftir því að blökkumaður hlyti verðlaunin að nýju. Denzel Washington hlaut þau árið 2002 fyrir túlkun sína í Training Day (sama kvöld og Poitier hlaut heiðursóskarinn). Árið 2005 hlaut Jamie Foxx svo verðlaunin fyrir túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar Ray Charles í myndinni Ray.

Tveir blökkuleikarar unnu til leikverðlauna í kvöld; Whitaker og Jennifer Hudson. Þetta er í annað skiptið sem það gerist í sögu Óskarsins en Denzel Washington og Halle Berry hlutu aðalleikaraóskarana árið 2002. Halle Berry er enn eina blökkukonan í áttatíu ára sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hlotið hefur óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki.

Martin Scorsese hlýtur leikstjóraóskarinn

Martin Scorsese Martin Scorsese hlaut rétt í þessu leikstjóraóskarinn fyrir kvikmyndina The Departed. Loksins, loksins, segi ég og eflaust flestir kvikmyndaáhugamenn um allan heim. Scorsese hefur sex sinnum verið tilnefndur til verðlaunanna en aldrei hlotið þau fyrr en nú. Hann var áður tilnefndur fyrir Raging Bull, The Last Temptation of Christ, Goodfellas, Gangs of New York og The Aviator.

Það hefði verið sannkallaður skandall hefði Scorsese ekki unnið nú. Ég man þegar að ég fyrst sá sem unglingur öll meistaraverk Scorsese. Ég heillaðist af þeirri snilld sem þessi leikstjóri hafði gert og ég dáist enn að þessari snilld þegar að ég sé myndir hans. Þetta eru mikil gleðitíðindi að loks hafi hann hlotið verðskuldaðan heiður frá akademíunni. Betra er svo sannarlega seint en aldrei.

Glæsilegt....kannski er The Departed ekki besta myndin hans, en samt, löngu verðskuldað!

Helen Mirren hlýtur aðalleikkonuóskarinn

Helen MirrenBreska leikkonan Dame Helen Mirren hlaut rétt í þessu óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á Elísabetu II Englandsdrottningu í The Queen, sem lýsir eftirmála andláts Díönu prinsessu af Wales haustið 1997; fyrir þjóð í sorg og drottningu á krossgötum. Mirren á að baki fjögurra áratuga glæsilegan leikferil og hefur tvisvar áður hlotið tilnefningu; árið 1994 fyrir The Madness of King George og árið 2002 fyrir Gosford Park.

Helen Mirren hefur farið sigurför um heiminn undanfarnar vikur í hlutverkinu og unnið öll leikverðlaun sem til eru að því er má segja. Sigur hennar kemur engum að óvörum, enda höfðu veðbankar hætt að taka veðmál á sigur hennar fyrir tíu dögum en þá hafði hún náð bestu veðmálum á einn leikara í sögu verðlaunanna. Túlkun hennar var sönn og öflug, sterk einkum í ljósi þess að hún túlkaði drottningu sem enn er á valdastóli, eina af mest áberandi konum undanfarinna áratuga.

Ég man fyrst eftir Helen Mirren í Prime Suspect fyrir einum og hálfum áratug. Þvílík frammistaða, hún var dúndur í fyrstu seríunni og ekki var hún síðri í þeirri síðustu á síðasta ári er hún kvaddi hlutverk Jane Tennison. Síðar man ég eftir henni í bíó þegar að eg sá The Madness of King George fyrir um þrettán árum. Þvílík eðalmynd, æðislega góð. Þá átti Mirren að fá óskarinn og ekki var hún síðri sem þjónustukonan fullkomna í Gosford Park.

Túlkun hennar á Elísabetu II er án vafa toppurinn á hennar ferli og því viðeigandi að hún fái þessi verðlaun. Þau á hún skilið svo sannarlega.


Ennio Morricone hlýtur heiðursóskarinn

Ennio Morricone Ítalska kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone tók fyrir nokkrum mínútum við heiðursóskarnum á Óskarsverðlaunahátíðinni í Los Angeles. Það er svo sannarlega verðskuldaður heiður og löngu kominn tími til að þessi mikli meistari kvikmyndatónanna fái þessi virtustu verðlaun kvikmyndabransans. Ennio Morricone er enda eitt af virtustu tónskáldum í sögu kvikmynda seinustu áratuga.

Morricone á að baki tóna sem hafa prýtt stórmyndir í hálfa öld. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Names is Nobody, Unforgiven, Malena, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.

Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau.

Meistarinn tók við verðlaununum úr hendi Clints Eastwoods. Hann talaði við þetta tilefni á ítölsku, móðurmáli sínu, og Eastwood túlkaði jafnóðum. Ræða tilfinninga og styrkleika - mjög falleg ræða. Mikið er það nú ánægjulegt að þessi meistari tónanna hafi loks hlotið verðskuldaðan heiður í Bandaríkjunum.

Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Það er gleðilegt að loksins fái hann óskarinn. Hann á hann fyrir lifandis löngu skilið fyrir að setja ódauðlegt mark á kvikmyndasöguna.

Jennifer Hudson hlýtur aukaleikkonuóskarinn

hudson_highBandaríska söngkonan Jennifer Hudson hlaut rétt í þessu óskarinn fyrir leik í aukahlutverki fyrir túlkun sína á söngkonunni Effie White í kvikmyndinni Dreamgirls. Þetta er fyrsta kvikmyndahlutverk Hudson og í raun má segja að það sé ótrúleg byrjun hjá henni að hljóta óskarinn strax í fyrstu atrennu. Hudson var senuþjófur myndarinnar og verðskuldar þessi verðlaun mjög.

Jennifer Hudson hefur á skömmum tíma farið sigurför um allan heim og er orðin stórstjarna, í senn bæði sem leikkona og söngkona. Hún hefur unnið öll helstu kvikmyndaverðlaunin síðustu vikurnar og það var öllum ljóst að hún var langsigurstranglegust í þessum flokki. Það eru fá dæmi um það að leikkonur hljóti verðlaunin í svo til fyrstu atrennu í bransanum en þau eru þó til, þó ekki nýlega. Hudson kom, sá og sigraði í myndinni.

Fyrir þrem árum varð Jennifer Hudson fyrst fræg; þá sem þátttakandi í American Idol. Hún var eftirlæti dómaranna og þótti mjög sigurstrangleg. Flest stefndi í að hún kæmist mjög langt. Mörgum að óvörum féll Hudson úr keppni um mitt keppnistímabilið, þegar að fimm til sex voru enn aðrir eftir í keppninni. Dómararnir hörmuðu brotthvarf hennar úr þáttunum. Svo fór síðar að Fantasia Barrino vann keppnina. Jennifer Hudson er nú orðin margfalt meiri stjarna en Fantasia og vann meira að segja samkeppni við hana um hlutverkið í myndinni.

Það má fullyrða að Jennifer Hudson sé ein helsta stjarna Óskarsverðlaunanna nú að þessu sinni. Það vakti athygli að meira að segja Bretar verðlaunuðu Hudson fyrir leikinn í Dreamgirls á Bafta-kvikmyndahátíðinni fyrir hálfum mánuði. Það voru merk tíðindi að Bretar skyldu verðlauna leikkonu sem aldrei hafði fyrr leikið burðarhlutverk í kvikmynd. Mjög sterk frammistaða svo sannarlega og sigurinn afgerandi og traustur - umfram allt verðskuldaður.

Spennan heldur áfram í Los Angeles. Fleiri spennandi flokkar framundan og allra augu á því hverjir hljóti aðalleikverðlaunin, leikstjóraverðlaunin og fyrir bestu mynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband