Færsluflokkur: Kvikmyndir
12.8.2007 | 17:48
Meistaraverk kvikmyndasögunnar endurgert
Sú kvikmynd sem ég hef alla tíð metið mest í gegnum tíðina er Casablanca. Hún er einfaldlega ódauðleg klassamynd sem hefur allt sem prýða þarf fullkomna kvikmynd. Hún hefur hlotið sæmdartitilinn besta kvikmynd 20. aldarinnar og verðskuldar hann svo sannarlega. Hún var aðeins ein myndanna á færibandinu í vinnslu á sínum tíma en varð stærri en mörgum óraði fyrir. Casablanca fangaði huga og hjarta kvikmyndaáhorfandans fyrir 65 árum og á sess í huga flestra enn í dag.
Nú berast fregnir af því að endurgera eigi Casablanca af indverskum kvikmyndagerðarmönnum. Mér hugnast ekki vel að endurgera eigi þennan gullmola kvikmyndasögunnar. Það er reyndar svo að fátt fer eins mikið í pirrurnar á mér og að heyra af því að endurgera eigi gömul meistaraverk. Enda er það tilgangslaust að mínu mati. Vilji fólk upplifa perlurnar á það að kaupa sér gömlu myndirnar og sjá þær. Það fangar enginn sama góða neistann síðar, eða það er jafnan svo að svona endurgerðir floppa með einum hætti eða öðrum. Þannig að það jaðrar við helgispjöll að mínu mati að endurgera Casablanca.
Casablanca segir söguna af kaffihúsaeigandanum Rick í Casablanca í Marokkó í seinni heimsstyrjöldinni og ævintýrum hans. Af öllum búllum í öllum heiminum verður gamla kærastan hans, Ilsa, endilega að stíga fæti sínum inn á staðinn hans með ástvini sínum, foringja í frönsku andspyrnuhreyfingunni sem er á flótta undan nasistum, og þá hefst óvænt og stórskemmtileg atburðarás sem endar með einni eftirminnilegustu kveðjustund í kvikmyndasögunni, þegar að Ilsa stendur frammi fyrir erfiðu vali. Mér finnst þessi mynd einstök og þarf helst að sjá hana reglulega. Finnst hún eins og gott rauðvín, sem aðeins batnar með aldrinum. Myndir með svo góðan grunn verða aldrei lélegar.
Humphrey Bogart átti sína eftirminnilegustu kvikmyndatúlkun á litríkum leikferli í þessari mynd en Rick varð það hlutverk sem hans er minnst helst fyrir. Þetta er líka sterkasta karaktertúlkun hans, þó þær séu margar góðar. Bogart, sem var valinn besti leikari 20. aldarinnar skömmu fyrir aldamótin, fékk þó ekki óskarsverðlaunin fyrir leik fyrr en seint og um síðir árið 1952, skömmu fyrir andlát sitt, fyrir túlkun sína á hinum óheflaða Charlie Allnut í African Queen, sem var reyndar með hans bestu kvikmyndum. Ingrid Bergman var ein besta leikkona 20. aldarinnar og glansaði í hlutverki Ilsu. Hún hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum á ferlinum en tókst þó ekki að vinna hann fyrir að leika Ilsu.
Persónulega finnst mér besta leiktúlkun Ingrid vera í Haustsónötu Ingmars Bergmans, sem varð svanasöngur hennar á hvíta tjaldinu. Klassinn yfir Ingrid varð þó aldrei meiri en í Casablanca, þó að nærri fari það í Notorious, Anastasiu, Gaslight og For Whom the Bell Tolls. Túlkun hennar á sænska kristniboðanum í Murder on the Orient Express sem færði henni síðasta óskarinn árið 1975 er líka gríðarlega góð. Claude Rains var gríðarlega góður leikari, einn eftirminnilegasti aukaleikari kvikmyndasögunnar, sem þó náði alltaf athygli kvikmyndaáhorfandans. Hann glansaði best á sínum ferli í hlutverki lögreglustjórans í Casablanca. Hann átti síðar frábæran samleik með Ingrid í Notorious.
Casablanca er án nokkurs vafa ein af bestu kvikmyndum sögunnar og er persónulega sú kvikmynd sem ég met mest. Hún verður alltaf meira heillandi eftir því sem árin líða og verða atriðin í henni þess þá meira heillandi, nefni ég þá sem dæmi atriðið þar sem Ilsa og píanóleikarinn Sam sitja við flygilinn og Sam leikur óskarsverðlaunalagið undurfagra As Time Goes By og lokaatriði myndarinnar sem gerist á flugvellinum þar sem framtíð sambands Ricks og Ilsu ræðst endanlega. Það atriði er alveg klassík út af fyrir sig.
Ætla að vona að menn hætti við þessar endurgerðarpælingar. Fyrir nokkrum árum ætluðu Ben Affleck og Jennifer Lopez að endurgera myndina með sér sjálfum í aðalhlutverkum. Til allrar guðs lukku varð ekki af þeim hryllingi. Þeir sem hafa séð Gigli þurfa varla að hugsa meira um hversu skelfilegt það hefði orðið.
En þeir sem hafa ekki enn séð Casablanca þurfa að upplifa hana, allavega einu sinni. Það gæti orðið upphafið að einstakri vináttu. Þeir sem vilja upplifa stemmninguna í myndinni ættu að fara í tónlistarspilarann og hlusta á Dooley Wilson syngja As Time Goes By.
Casablanca endurgerð í Bollywood | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.7.2007 | 17:00
Meistari Ingmar Bergman látinn
Til marks um mikla snilld hans er að myndir hans hlutu óskarinn þrisvar sem besta erlenda myndin og Bergman hlaut níu tilnefningar persónulega á löngum ferli. Hann fékk aldrei leikstjóraóskarinn, frekar en margir eftirminnilegir leikstjórar, en hann hlaut Irving G. Thalberg minningarverðlaunin, sem veitt eru leikstjórum og framleiðendum, að mig minnir snemma á áttunda áratugnum, þá er hann átti enn eftir að leikstýra nokkrum af sínum bestu myndum.
Þegar að ég hugsa til snilldar Bergmans í kvikmyndagerð koma fljótt upp í hugann kvikmyndir á borð við Höstsonaten, Fanny och Alexander, Sommarnattens leende, Viskningar och rop, Nattvardsgästerna, Smultronstället, Det Sjunde inseglet, En Passion, Söndagsbarn, Beröringen, Tystnaden, Lustgården, En Lektion i kärlek og Frånskild. Allt eru þetta stórfenglegar myndir hver á sinn hátt. Þó eru þær fyrstnefndu þær sem ég minnist helst, enda eru það með bestu perlum sem norrænn kvikmyndaleikstjóri hefur gert.
Persónulega finnst mér Haustsónatan, sem var gerð árið 1978, alltaf mjög sterk mynd, hún er sú mynd Ingmars sem mér finnst sterkust að svo mörgu leyti. Sænska leikkonan Ingrid Bergman fór þar á kostum í hlutverki Charlotte. Það haustaði þá að á ævi leikkonunnar og hún barðist við krabbamein, sem að lokum hafði sigur, en hún dó á afmælisdaginn sinn árið 1982. Þó að Ingrid ætti margar gullnar stundir á ferlinum, t.d. í Casablanca, Notorious, Anastasiu, For Whom the Bell Tolls og The Murder on the Orient Express var Haustsónatan hennar besta mynd á ferlinum. Hlutverk Charlotte varð ennfremur hennar síðasta túlkun á hvíta tjaldinu.
Fanný og Alexander er líka með betri kvikmyndum sem gerðar hafa verið í norrænni kvikmyndamenningu. Algjör perla. Það er reyndar orðið alltof langt síðan að ég hef séð hana. Því þarf að bæta úr. Þessar tvær fyrrnefndu myndir verða því settar fljótlega í spilarann, enda algjör snilld. Þær bera vel vitni snilld Ingmars Bergmans, sem var sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndagerð á Norðurlöndum. Hans framlag verður lengi í minnum haft.
Ingmar Bergman látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2007 | 13:06
Brad og Gwyneth sameinast á ný
Sú var tíðin að Brad Pitt og Gwyneth Paltrow voru heitasta parið í Hollywood og voru saman skothelt tvíeyki í sviðsljósinu. Síðan eru liðin mörg ár; bæði hafa gifst og átt börn, Gwyneth unnið óskarinn og bæði leikið í fjölda áhugaverðra kvikmynda. Hápunkti sambandsins var náð þegar að þau léku saman í hinni frábæru mynd leikstjórans David Fincher, Se7en, árið 1995 ásamt Morgan Freeman og Kevin Spacey. Þar voru þau par og sýndu flotta takta. Hið svipmikla lokaatriði myndarinnar er eftirminnilegt, en þar var Gwyneth miðpunktur, þó án þess að sjást.
Nú ætla Gwyneth og Brad að eiga sér endurkomu. Þau ætla þó ekki að skilja við Chris Martin og Angelinu Jolie og taka saman á ný, heldur munu þau birtast aftur saman á hvíta tjaldinu. Það er að verða áratugur síðan að þau hættu saman. Það voru sambandsslit í kastljósi fjölmiðla um allan heim, sambandsslit sem vöktu mikla athygli. Þau hafa verið í miðpunkti umfjöllunar allan þann tíma og verið mjög áberandi í kvikmyndaheiminum en ekki verið sýnileg saman. Nú mun kvikmyndin Dirty Tricks, sem er í vinnslu, marka endurkomu þeirra saman. Það verður athyglisvert comeback fyrir einhverja að upplifa þau saman á hvíta tjaldinu.
Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af Gwyneth Paltrow sem leikkonu. Hún hefur þó átt sínar björtu stundir á hvíta tjaldinu. Það eru orðin átta ár síðan að hún vann óskarinn fyrir Shakespeare in Love. Hún vakti athygli á sviðinu er hún tók við verðlaununum úr hendi Jack Nicholson fyrir að gráta sáran í bleika kjólnum sínum. Þakkarræða hennar er ein sú eftirminnilegasta í sögu kvikmyndaakademíunnar. Sjálf hefur Gwyneth viðurkennt síðar að það hafi ekki verið sín bjartasta stund. Flestir hafa talið hana ofmetna og sjálf viðurkenndi Gwyneth að hún hefði sótt í smiðju Grace Kelly með lúkkinu þetta eftirminnilega kvöld á ferli sínum.
Brad Pitt hefur átt góða spretti á hvíta tjaldinu undanfarin ár og ekki verið eins klökkur yfir björtu stundunum eins og Gwyneth. Hann var frábær í Babel, fyrir nokkrum mánuðum, og það var eiginlega til skammar að hann skyldi ekki fá óskarsverðlaunatilnefningu fyrir túlkun sína á Richard. Auk þess hefur hann átt gullnar stundir í Fight Club, Spy Game, Ocean´s Eleven og Twelve. Ennfremur má ekki gleyma Mr. and Mrs. Smith, sem kannski er ekki bjartasta stund hans og Angelinu Jolie, en hennar verður þó alla tíð minnst fyrir að vera myndin sem færði þau saman.
En það verður fróðlegt að sjá Dirty Tricks, myndina sem færir þetta forna gullpar Hollywood á tíunda áratugnum aftur saman. Ég ætla þó að vona að Gwyneth fái ekki eins grimmileg örlög þar og í Se7en.
PS: Eitt fyndnasta móment á ferli Gwyneth fannst mér annars þegar að hún afhenti Kevin Spacey óskarinn fyrir American Beauty árið 2000. Allir sem séð hafa Se7en og vita um tengslin á milli karakteranna þeirra þar sjá húmorinn í því.
Brad Pitt og Gwyneth Paltrow hneyksla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2007 | 02:17
Leiksnillingurinn með fjöldamörgu andlitin
Þetta voru fjórir tíu mínútna hlutar. Um leið og ég hafði fundið þann fyrsta varð ég skoða allan pakkann. Það olli svo sannarlega ekki vonbrigðum. Virkilega gott viðtal og áhugavert. Þar koma svo sannarlega vel fram frábærir taktar Sellers í persónusköpun. Hann fór mjög hratt yfir góðar sögur og fór á milli persóna í túlkun með snilldarbrag. Var bæði fyndið og skemmtilegt að sjá þennan pakka. Allan þann tíma sem ég hef verið kvikmyndaáhugamaður hef ég metið mjög mikils gamansama túlkun Peter Sellers. Hann var meistari gamanleiksins eins og hann gerðist bestur.
Kvikmyndirnar um Bleika pardusinn eru sennilega helst tengd við Sellers í dag. Það er ekki furða, enda er það frábær gamanmyndapakki og ber mjög vel vitni snilldinni sem fólst í gamanleik Peter Sellers. Jacques Clouseau varð hans þekktasti karakter og heldur nafni hans helst á lofti. Það er ávallt yndislegt að horfa á þessar myndir. Algjörlega frábær gleðigjafi. Hef ég upplifað þá snilld vel og innilega eftir að ég keypti pakkann með myndunum öllum fyrir nokkrum árum. Um helgina horfði ég svo á annað meistaraverkið með honum, The Party - kvikmynd Blake Edwards. Það er að mínu mati ein besta gamanmynd kvikmyndasögunnar.
Fyrir utan þessar myndir er Dr. Strangelove hans besta stund í leiktúlkun. Þar er Sellers hreint ógleymanlegur í þremur hlutverkum - sem breskur yfirmaður í NATO, forseti Bandaríkjanna og síðast en ekki síst gamli nasistinn, sprengjusmiðurinn. Hlaut óskarsverðlaunatilnefningu fyrir og skal engan undra. Sellers er hjarta og sál þessarar yndislegu myndar. Vilji menn sjá tæra snilld er þetta myndin sem velja skal. Mjög mikil satíra en öflugur pakki. Sellers var þó ekki alltaf bara gamanleikarinn. Við blálok litríks leikferils túlkaði hann garðyrkjumanninn Chance í Being There og hlaut þar aðra óskarstilnefningu. Þar var húmorinn fjarri. Myndin er mörgum óskiljanleg en ég hef alltaf haldið mikið upp á hana.
Það sem mér fannst merkilegast við að sjá fyrrnefnt viðtal er að Peter Sellers lætur mjög vel að vera allt annað en Peter Sellers. Hann var nær aldrei í eigin karakter en lék mörg hlutverk í gegnum ferilinn. Það hefur oft verið sagt bæði í gamni sem alvöru að það hafi verið honum erfiðast að leika sjálfan sig. Sá karakter hafi aldrei verið opinber. Það er margt til í því. Þetta sést mjög vel í sjónvarpsmyndinni The Life and Death of Peter Sellers fyrir nokkrum árum þar sem einkalíf leikarans margflókna var nær alveg opnað upp á gátt. Myndin er að mörgu leyti gloppótt en mögnuð túlkun Geoffrey Rush á Sellers opnaði nýjar hliðar á karakternum sem gat túlkað fjölda persóna, allar aðrar en sjálfan sig.
Ég held að um margt muni sagan dæma helst Peter Sellers fyrir að vera leiksnillingurinn með fjöldamörgu andlitin en hafi í raun upplifað sinn helsta ósigur í hlutverki sjálfs sín. Ævi hans varð enginn dans á rauðum rósum. En það er oft sagt um helstu grínleikara sögunnar að þeir hafi verið leiðinlegastir í eigin karakter og þess vegna falið hann sem mest þeir máttu. Það gildir því miður einna best um Peter Sellers. En mikið innilega var gaman að finna þetta frábæra viðtal.
18.7.2007 | 23:10
Easy Rider
Þeir verða að lokum fórnarlömb þess hugsunarháttar sem þeir börðust á móti. Á leiðinni kynnast þeir fjölmörgum skrýtnum landanum, þeirra á meðal er George Hanson, en hann er lögfróður drykkjurútur sem ákveður að slást í för með þeim félögum. Það verður mikill ævintýrarúntur, í senn örlagaríkur og líflegur.
Easy Rider er auðvitað hiklaust ein af mest stefnumótandi myndum sjöunda áratugarins og jafnvel kvikmyndasögunnar, enda eru eftirlíkingarnar af henni orðnar giska óteljandi. Hún kostaði smáaura en halaði inn milljónum dollara og varð ein af vinsælustu kvikmyndum sjöunda áratugarins og hefur unnið sér merkan sess í kvikmyndasögunni.
Dennis Hopper og Peter Fonda fara þar á kostum í hlutverkum ferðafélaganna Billy og Wyatt. Þeir voru eiginlega aldrei betri á ferli sínum en þar, þó að mér hafi alltaf fundist Hopper bestur í Speed í mögnuðu hlutverki Howard Payne og svo sem Frank í Blue Velvet. Fonda hefur átt gloppóttan feril en brilleraði í hlutverki Ulee í Ulee´s Gold.
Óskarsverðlaunaleikarinn Jack Nicholson fékk sitt fyrsta stórtækifæri á ferlinum í hlutverki George Hanson og átti stórleik, hreint út sagt. Leið hans varð bein og greið, en hann hefur þrisvar hlotið óskarinn en fyrir Easy Rider fékk hann sína fyrstu tilnefningu. Það er hrein unun að fylgjast með Nicholson í þessari mynd.
Lagið Ballad of Easy Rider setur sterkan svip á myndina, sérstaklega í hinu sviplega lokaatriði, sem enn í dag kemur sem rosalegt sjokk við sorgleg leiðarlok blómabarnanna. Ballad of Easy Rider með The Byrds er í tónlistarspilaranum hér á síðunni. Endilega hlustið á það - frábært lag.
En mikið innilega var gaman að sjá þessa mynd aftur. Hressandi og gott!
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.7.2007 | 20:59
Bullitt fyrr og nú
Bullitt er ein frægasta kvikmynd sjöunda áratugarins. Hún markaði frægð aðalleikarans McQueen og gerði hann endanlega að gullinni stjörnu í Hollywood. Bullitt segir söguna af harðsoðna leynilögreglumanninum Frank Bullitt í San Francisco, sem flækist í snúið mál þar sem við sögu koma mafían og óprúttnir stjórnmálamenn. McQueen var allt í öllu við gerð myndarinnar, hann stólaði á Peter Yates sem leikstjórann sem myndi halda utan um verkið. Þetta var fyrsta mynd Yates vestanhafs. Fáir vissu hvort hann gæti gert sanna bandaríska hasarmynd með öllu sem til þyrfti. Áhyggjurnar voru óþarfar og myndin varð sannkallaður gullmoli.
Myndin á sér auðvitað marga hápunkta. Þeirra mestur telst auðvitað hinn sögufrægi og æsispennandi kappakstur um stræti San Francisco. Allir sem minnast borgarinnar úr myndum á borð við Vertigo, Guess Who´s Coming to Dinner, Mrs. Doubtfire, Dark Passage, The Graduate, Dirty Harry og Foul Play sjá borgina í enn einu magnaða ljósinu þegar að Bullitt í túlkun McQueen eltir leigumorðingjana tvo um göturnar. Hasarinn er sannur og hraðinn gríðarlegur. Saman fer þetta í ógleymanlega senu, sem er í senn leiftrandi og nær tökum á áhorfandanum.
Þessi frægasta kappaksturssena kvikmyndasögunnar hefur verið margstæld og á sér margar eftirtúlkanir sem við höfum séð með einum eða öðrum hætti á öðrum stöðum. Sennilega náði William Friedkin senunni best í The French Connection þrem árum síðar, en það var auðvitað æðisleg sena, kannski ekki mikið síðri en þó síðri á staðal þeirra sem mæla hlutina eftir öllum pakkanum, enda er sú sena auðvitað sett í stíl þeirrar sem markaði Bullitt sem lykilmynd á sínum tíma. Colin Higgins reyndi meira að segja að stæla senuna í gamanmyndinni Foul Play áratug síðar, sem gerðist einmitt í sömu borg, en þar eru Goldie Hawn og Chevy Chase í sönnum hasar.
Senan er ekki bara eðall séð frá hraðanum og fimninni í pakkanum heldur auðvitað hvernig hún er tekin upp myndrænt séð. Hún er auðvitað myndrænt meistaraverk í sjálfu sér, skotin eru vel útfærð og næm frá öllum hliðum og áhorfandinn hugsar ekki um neitt annað en það sem gerist í hasarnum. Hugurinn fylgir bílunum eftir. Þetta er sena sem dáleiddi fólk í bíó fyrir fjórum áratugum og gerir enn, enn hefur engin mynd trompað þennan hasar og eflaust á þeim forsendum er farsælasti grunnur hennar byggður. Allur heildarrammi senunnar stenst tímans tönn og hún er enn eftirminnileg.
Steve McQueen var auðvitað stórstjarna á síns tíma mælikvarða. Hann á það sameiginlegt með Brad Pitt að vera myndræn stjarna með glans að nær öllu leyti. Hann hafði sjarma og glæsileika, gat túlkað bæði gaman sem drama á næman hátt. Hafði allan pakkann. McQueen var þó ekki bara sæti strákurinn á hvíta tjaldinu, hann gat bæði verið sá harði og mildi. Túlkaði bæði næmar týpur og eins rosalega nagla sem allir tóku eftir, gátu stungið hressilega. Hlutverk Bullits er eflaust hans frægasta á ferlinum og markaði hann endanlega sem stórstjörnu.
Hans verður þó minnst fyrir fleiri hlutverk alla tíð. Góð dæmi um flotta túlkun hans eru Cooler King í The Great Escape, Vin í The Magnificent Seven, Henry Thomas í Baby the Rain Must Fall, Jake Holman í The Sand Pebbles, Thomas Crown í The Thomas Crown Affair (myndin sem gerði hann eflaust að kyntákni eftir fræga ástarleikjataflsenu við Faye Dunaway sem lék sálfræðing Crowns í túlkun Pierce Brosnan í endurgerð myndarinnar þrem áratugum síðar), Doc McCoy í The Getaway (þar sem hann fór á kostum í flottri túlkun með þáverandi eiginkonu sinni Ali MacGraw mynd sem Alec Baldwin og Kim Basinger endurgerðu meðan að ástarblossinn þeirra var enn til staðar árið 1994), Henri Charriere í Papillon og Michael O'Hallorhan í The Towering Inferno.
Steve McQueen varð ekki gamall maður. Hann lést úr krabbameini árið 1980, aðeins fimmtugur að aldri. Síðasta hlutverk hans á góðum leikferli var rulla Papa Thorson í The Hunter árið 1980, sama ár og hann lést. Steve McQueen hefur lifað merkilega vel í gegnum tímans tönn, þó hann hafi löngu skilið við. Á vissum kafla eftir dauða hans gleymdist hann að mestu, utan helstu myndanna hans. Á síðustu árum hafa myndir hans öðlast aftur líf á DVD og orðið frægar að nýju, enda eru flestar myndir hans á síðustu sautján árum hans tær snilld.
Brad Pitt ætlar sér að feta í fótspor Steve McQueen, bæði færa Bullitt aftur á hvíta tjaldið, eflaust með sínum takti og endurgera frægustu senu hasarmyndanna. Það þarf dirfsku og kraft til að leggja í svoleiðis nokkuð. Myndin eina og sanna verður fertug á næsta ári og þá sjáum við nýjan Bullitt á gömlum grunni eflaust. Hvort hann nær að trompa þann gamla efast ég stórlega um, en samt sem áður verður fróðlegt að sjá hvað verður úr þessu hjá Pitt.
Pitt endurgerir Bullitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.7.2007 | 00:10
A Foreign Affair - gullmoli á sunnudagskvöldi
A Foreign Affair er auðvitað ein gullaldarmynda leikstjórans Billy Wilder. Hún var gerð að lokinni seinni heimsstyrjöldinni, árið 1948. Þá fannst Wilder tímabært eftir allt saman að fjalla um stríðið í gamansömum tón á eftirstríðsárunum. Marlene Dietrich og Jean Arthur eru í aðalhlutverkunum, hlutverkum Eriku og Phoebe. Wilder fékk óskarsverðlaunatilnefningu fyrir sitt frábæra handrit, ekki var það í fyrsta né hið síðasta skiptið.
Þetta eru auðvitað frábærar leikkonur, báðar settu sterkan svip á kvikmyndir og mannlíf þessa tíma. Dietrich var dáð leikkona og auðvitað ekki síður sem söngkona - mjög litríkur karakter. Persónulega fannst mér Dietrich alltaf best á sínum leikferli árið 1961 þegar að hún brilleraði í hlutverki frú Bertholt í Judgment at Nuremberg. Það var yndisleg leiktúlkun. Svo var hún auðvitað yndisleg í tveim stórmyndum sjötta áratugarins; Witness for the Prosecution og Touch of Evil. Dietrich var yndisleg söngkona, ein þeirra bestu. Uppáhaldslagið mitt með henni er eitt hennar bestu; Falling In Love Again.
Jean Arthur var ein af bestu leikkonum gullaldartímans í Hollywood. Sterk leikkona, sem gat túlkað með öllu látbragði sínu. Hún var sönn gamanleikkona en gat túlkað drama jafnsterkt í raun. Gríðarlega vönduð í sínum verkum. Hún unni aldrei leiklistinni og sagði margoft að hún vildi hætta í þessu harki, hún hefði aðeins endað í þessu fyrir tilviljun. Þrátt fyrir allt gerði hún bestu myndirnar sínar viss um að hún gæti ekki leikið. Hún brilleraði fyrst í hlutverki Babe í Mr. Deeds Goes to Town. Gary Cooper féll þá fyrir henni og ég held að allir sem sáu myndina þá, sem og þeir sem sjá hana fyrst, elski hana eftir það.
Mér fannst hún alltaf best í stórmyndinni Mr. Smith Goes to Washington árið 1939. Hún gaf hlutverki Clarissu mikla dýpt og var sterk þar á móti James Stewart sem að mínu mati átti þar einn besta leik síðustu aldar í hlutverki hins heiðarlega og grandvara þingmanns Hr. Smith. Ég gæti nefnt enn myndir. Túlkun Jean á Bonnie í Only Angels Have Wings er sönn og sterk, fyllir upp í flottan ramma, þar sem hún brillerar á móti hópa þekktra leikara, t.d. Cary Grant og Thomas Mitchell og tekst að skyggja á sjálfa Ritu Hayworth. Svo var hún auðvitað guðdómleg í You Can´t take it with You í rullu Alice.
Þegar að ég vil horfa á ekta gamanmynd er æði oft mitt val að horfa á The More, the Merrier og The Talk of the Town. Báðar eru brill, sérstaklega sú seinni þar sem að hún á einn besta leik á ferlinum í hlutverki Noru Shelley og er þar yndisleg með þeim Ronald Colman og Cary Grant. Þetta er mynd sem mér finnst alltaf góð, var það fyrst þegar að ég sá hana og mér finnst hún enn yndisleg; sá hana síðast bara fyrir nokkrum dögum. The More, the Merrier er auðvitað bara tær snilld. Charles Coburn fékk óskarinn fyrir túlkun sína á Benjamin Dingle. Klikkar aldrei sú mynd, gjörsamlega pottþétt.
Jean Arthur hætti leik alltof snemma. Hún hætti með glans þó. Síðasta myndin hennar var Shane, árið 1953, að mínu mati einn besti vestri sögunnar og traustasta myndin sem hægt er að horfa á. Hún er svo innilega sönn. Alan Ladd var auðvitað gríðarlega góður þar sem sjálfur Shane en senuþjófurinn þar var auðvitað Brandon de Wilde sem heillaði hvern einn og einasta sem sáu myndina í hlutverki Joey. Jean var þar traust í hlutverki Marian. Það er mynd sem lét engan ósnortinn og sérstaklega lokaatriðið þar sem Shane fer er brilljansinn uppmálaður. Hvort Shane deyr eða lifir í endann er eitt frægasta deiluefni kvikmyndasögunnar.
En já, það var svo sannarlega notalegt að sjá aftur A Foreign Affair. Billy Wilder var einn mesti snillingur kvikmyndasögunnar. Einn af þeim allra bestu í þessum bransa. Ég skrifaði ítarlegan leikstjórapistil um Billy Wilder fyrir fjórum árum, skömmu eftir lát hans, en hann dó árið 2002. Bendi lesendum á þau skrif, vilji þeir vita meira um Wilder og hans bestu verk.
Þannig að þetta var því ekta popp og kók-kvöld við imbann. Vona að Sjónvarpið færi okkur fleiri svona eðalmyndir á næstunni! Það er aldrei of mikið sýnt af gullmolum kvikmyndasögunnar.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 21:06
Mýrin hlýtur kristalshnöttinn - glæsilegur árangur
Mýrin hefur slegið í gegn víða síðan að hún var frumsýnd fyrir tæpu ári. Hún var sigursæl á Edduverðlaununum í nóvember 2006 og hlaut fimm verðlaun, þar á meðal sem besta mynd ársins og fyrir leik Ingvars E. Sigurðssonar í hlutverki Erlends Sveinssonar, rannsóknarlögreglumanns. Ingvar fór á kostum í hlutverkinu og varð Erlendur, hvort sem við höfðum áður séð hans týpu í karakternum eður ei.
Ég var virkilega ánægður með Mýrina þegar að ég sá hana í október og skrifaði þá þessa ítarlegu umfjöllun um hana. Þjóðin hefur með því að fjölmenna í bíó sýnt það með skýrum hætti að hún vill framhald á. Öll viljum við sjá bækur Arnaldar lifna við. Það er vonandi að fleiri bækur um Erlend, Sigurð Óla og Elínborgu verði kvikmyndaðar.
Tengdar greinar SFS
Mýrin sigursæl á Eddunni - Ingvar besti leikarinn
Sigurinn á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni kom Baltasar Kormáki á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2007 | 21:04
Er James Bond enn að fara í nýjar áttir?
James Bond öðlaðist nýtt líf fyrir ári þegar að Daniel Craig færði hann endanlega inn í 21. öldina og nýja tíma. Ekki aðeins var Craig ljóshærður heldur var hann allt annar karakter og Pierce Brosnan, sem hafði fært njósnaranum mörg ný tækifæri eftir að hann þornaði mjög áberandi upp við fall múrsins og endalok kalda stríðsins. Brosnan markaði honum nýjan grunn gegn nýjum óvinum. Craig hélt áfram sama verkefni og brilleraði í fyrstu myndinni, sem varð sannkallað augnakonfekt í takt við fyrstu Bond-myndirnar með Connery á sjöunda áratugnum.
Það var þörf á ferskum vindblæ. Nú þegar að Marc Forster er að fara að leikstýra Bond-mynd eru eflaust fleiri breytingar framundan. Mörgum Bond-áhugamönnum fannst erfitt að höndla tilkomu Craig í hlutverk njósnarans og sérstaklega þá staðreynd að hann væri ljóshærður, sá fyrsti í röðinni. Það hefði eflaust þótt helgispjöll að láta sér detta það í hug á Connery-tímanum. Craig gekk í gegnum rosalegan mótbyr og tókst á hendur erfiðasta verkefnið á ferlinum. Hann brilleraði og myndin varð sú vinsælasta í óratíma. Þar var vikið af braut gervibrellna og verksmiðjubragsins sem var að drekkja módelinu og farið í grunninn.
Það er alltaf mikil tilhlökkun sem fylgir því þegar að nýr leikari markar sín fyrstu skref í hlutverki njósnarans James Bond. Þeir leikarar sem hafa túlkað hann hafa ávallt fært hlutverkinu nýja dýpt og nýjan grundvöll. Það gerðist með tilkomu Craig, sem færði okkur mjög kærkomið fortíðarskot inn í heim James Bond. Það var sú hlið sem var að mestu horfin sem birtist okkur aftur í Casino Royale, sem var stórfengleg mynd að nær öllu leyti. Sem mikill Bond-áhugamaður er ég því alsæll með að hann sé kominn með langtímasamning og leiði karakterinn inn í næstu myndir.
Marc Forster tekst nú á hendur verkefnið að skapa næstu mynd og tryggja James Bond líf inn á næsta áratug. Það eru 45 ár frá fyrstu myndinni og vonandi mun þeim sem halda á módelinu nú auðnast að tryggja að það lifi lengur en hálfa öld. Það eru allar forsendur fyrir því ef rétt er á haldið. Forster er óvænt val í leikstjórastólinn og spennandi að sjá hvaða nýjabrum fylgir honum í þennan aldna kvikmyndabálk.
Marc Forster mun leikstýra næstu Bond-mynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2007 | 02:30
Um Chaplin og þögla meistaraverkið hans
Sir Charlie Chaplin var eitt af stórmennum kvikmyndasögunnar á 20. öld. Látlaus en tilþrifamikill látbragðsleikur hans gerði hann að stórstjörnu og hann skipaði sér í sess með stærstu kvikmyndastjörnum þöglu myndanna. Síðar varð hann áhrifamikil stjarna í talmyndunum og markaði sér sess á nýjum forsendum. Ég á allar kvikmyndir Chaplins og hef unnað þeim öllum allt frá því að ég mat kvikmyndir sem þá miklu og ómetanlegu listgrein sem hún er.
Að mínu mati er Chaplin sá leikari þöglu myndanna sem best náði að gera talmyndirnar að sínu listformi. Það var ekki öllum leikurum þögla tímans gefið að ná inn í nýtt form og gera það að því listformi sem við ætti fyrir þá. Það gat Chaplin og hann gat framlengt vinsældir sínar og áhrif innan kvikmyndaheimsins með því. Af því leiðir auðvitað að kvikmyndaverk hans fyrir og eftir lok þögla tímans eru ómetanleg stórvirki kvikmyndasögunnar.
Chaplin kom til sögunnar í kvikmyndum sem hinn þögli flækingur sem lenti í röð tilvika sem hann réði ekki við en tókst á hendur. Bestu kvikmyndir ferilsins eru þær fyrstu að mínu mati. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig þessi frábæri leikari talar til áhorfandans án orða og með látbragði. Best kemur þetta fram í kvikmyndunum City Lights, Gold Rush og The Kid. Allar eru þessar myndir gulls ígildi í kvikmyndasögunni og mörkuðu stöðu Charlie Chaplin sem leikara og frægð hans.
Best þessara hefur mér jafnan þótt The Kid. Það er eitthvað við látleysi hennar sem heillar mig alltaf mjög mikið. Fyrir nokkrum árum keypti ég The Kid á DVD - með fylgdi ómetanlegt aukaefni og tónlistin sem Chaplin samdi árið 1971 og er ómetanleg viðbót við myndina, þrátt fyrir að aðeins séu tæpir fjórir áratugir frá því að hann var bætti við. Chaplin var mjög liðtækur í að semja tónlist við myndir sínar síðar meir og hafa mörg kvikmyndatónverk hans hlotið mikla frægð.
Lagið Smile er sennilega hans besta tónsmíð. Það er lag sem algjörlega heillar alla sem heyrir. Það heyrðist fyrst í kvikmyndinni Modern Times árið 1936, en var þá án texta. Textinn fyllti upp í tónverkið með brilljans. Af kvikmyndatónunum er auðvitað tónlistin í The Kid algjörlega í sérflokki. Það er reyndar með ólíkindum að myndin hafi án tónlistarinnar verið í allan þennan tíma. Það er öllum ljóst að The Kid færði Chaplin frægðina. Hún er fyrsta stórmyndin hans.
Myndin segir sögu flækingsins sem fyrir tilviljun finnur kornabarn, sem varð viðskila við móður sína, á víðavangi. Hann fóstrar barnið sem sitt eigið væri en að því kemur að leiðir hans og móðurinnar liggja saman. Það er erfitt að lýsa þessari sögu með einfaldleika þó ekkert orð sé sagt í henni. Samleikur Chaplin og Jackie Coogan er frábær. Coogan átti leik ferilsins sem strákurinn en andstæðurnar á hans ferli voru miklar og lék hann undir lok ferilsins Fester frænda í Addams-fjölskyldunni.
Það var mjög notalegt seint að kvöldi 17. júní að rifja upp kynnin af þessum Chaplin-kvikmyndagullmola. Þessi mynd er og verður ein þeirra bestu í kvikmyndasögu 20. aldarinnar. Í senn markaði hún upphaf frægðarferils Charlie Chaplin og sýnir okkur að flóknar sögur þarf ekki að segja með orðum. Þær geta lýst sig sjálfar algjörlega með látbragðsleiknum einum saman. Ég hef lengi stúderað feril og ævi Chaplins, sem lést þrem dögum eftir fæðingu mína, á jóladag 1977.
Það er öllum ljóst sem kynna sér Sir Charlie Chaplin að æviferill hans var vafinn undarlegum blæ og persónan var mörgum hulin til fulls. Það þarf að mínu mati að lesa ævisögu hans og kynna sér líf leikarans á bakvið tjöldin til að skilja persónuna til fulls. Hann var enn flóknari karakter en flækingurinn sem hann lék svo oft með miklum glans.
En ekki verður af honum tekið að hann var snillingur í kvikmyndageiranum og án vafa er The Kid ein af þeim kvikmyndum sem stendur helst vörð um arfleifð hans í bransanum. Í raun snertir hún hjartað mitt alltaf þegar að ég sé hana - þannig að það er öllum gott að sjá hana reglulega. Hvet alla til að sjá hana hafi þeir kost á því.
The Kid - Trailer
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)