Meistari Ingmar Bergman látinn

Ingmar Bergman Meistari Ingmar Bergman er látinn, tæplega níræður að aldri. Bergman var einn helstu örlagavalda í norrænni kvikmyndagerð á 20. öld og einn helsti guðfaðir hennar. Hann var sannur brautryðjandi í kvikmyndafrásögn og öðlaðist heimsfrægð fyrir góðar kvikmyndir sínar, næmt verklag og það hversu vel hann ræktaði leikara sem skiluðu oft á tíðum sínum bestu leikframmistöðum undir leikstjórn hans.

Til marks um mikla snilld hans er að myndir hans hlutu óskarinn þrisvar sem besta erlenda myndin og Bergman hlaut níu tilnefningar persónulega á löngum ferli. Hann fékk aldrei leikstjóraóskarinn, frekar en margir eftirminnilegir leikstjórar, en hann hlaut Irving G. Thalberg minningarverðlaunin, sem veitt eru leikstjórum og framleiðendum, að mig minnir snemma á áttunda áratugnum, þá er hann átti enn eftir að leikstýra nokkrum af sínum bestu myndum.

Þegar að ég hugsa til snilldar Bergmans í kvikmyndagerð koma fljótt upp í hugann kvikmyndir á borð við Höstsonaten, Fanny och Alexander, Sommarnattens leende, Viskningar och rop, Nattvardsgästerna, Smultronstället, Det Sjunde inseglet, En Passion, Söndagsbarn, Beröringen, Tystnaden, Lustgården, En Lektion i kärlek og Frånskild. Allt eru þetta stórfenglegar myndir hver á sinn hátt. Þó eru þær fyrstnefndu þær sem ég minnist helst, enda eru það með bestu perlum sem norrænn kvikmyndaleikstjóri hefur gert.

Persónulega finnst mér Haustsónatan, sem var gerð árið 1978, alltaf mjög sterk mynd, hún er sú mynd Ingmars sem mér finnst sterkust að svo mörgu leyti. Sænska leikkonan Ingrid Bergman fór þar á kostum í hlutverki Charlotte. Það haustaði þá að á ævi leikkonunnar og hún barðist við krabbamein, sem að lokum hafði sigur, en hún dó á afmælisdaginn sinn árið 1982. Þó að Ingrid ætti margar gullnar stundir á ferlinum, t.d. í Casablanca, Notorious, Anastasiu, For Whom the Bell Tolls og The Murder on the Orient Express var Haustsónatan hennar besta mynd á ferlinum. Hlutverk Charlotte varð ennfremur hennar síðasta túlkun á hvíta tjaldinu.

Fanný og Alexander er líka með betri kvikmyndum sem gerðar hafa verið í norrænni kvikmyndamenningu. Algjör perla. Það er reyndar orðið alltof langt síðan að ég hef séð hana. Því þarf að bæta úr. Þessar tvær fyrrnefndu myndir verða því settar fljótlega í spilarann, enda algjör snilld. Þær bera vel vitni snilld Ingmars Bergmans, sem var sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndagerð á Norðurlöndum. Hans framlag verður lengi í minnum haft.

mbl.is Ingmar Bergman látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband