Færsluflokkur: Kvikmyndir
11.10.2007 | 13:53
Stardust
Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um ævintýramyndina Stardust í leikstjórn Matthew Vaughn og með Robert De Niro, Peter O´Toole, Charlie Cox, Michelle Pfeiffer, Claire Danes, Siennu Miller og Nathaniel Parker í aðalhlutverkum.
Stardust
Það er fátt skemmtilegra í bíóferð en að kynnast ævintýraheimum, sem allt í senn eru spennandi, ógnvekjandi, heillandi og nýstárlegir. Sumar ævintýramyndir fara oft vel yfir mörk hins raunverulega að mati þeirra sem lifa sínu hversdagslega lífi, en eru samt heillandi og kynna okkur fyrir heim sem laðar okkur til sín með einum hætti eða öðrum. Ein þessara mynda er Stardust, kvikmynd leikstjórans Matthew Vaughn. Það skemmtilegasta við hana í okkar augum hlýtur að vera að myndin er að nokkru leyti tekin upp hér á Íslandi.
Stardust er allt í senn ástarsaga, yndisleg blanda af gamni og alvöru, og hörkugóð hasarmynd. Sterkur og pottþéttur pakki í heildina, fyrir þá sem unna alvöru ævintýrum. Hún fjallar um Tristan, ungan mann, sem leitar að fallinni stjörnu til að færa konunni sem hann elskar til að sannreyna hversu heit ástin er í raun og veru. Vandinn er bara sá að til að ná stjörnunni þarf hann að fara á slóðir töfraríkisins Stormhold. Ævintýrið er þar með bara rétt að hefjast, en ekki er beinlínis auðvelt að komast þangað og í ferðinni opnast nýr veruleiki fyrir Tristan.
Það er vandmeðfarið að gera ævintýramynd fullkomna. Oft er erfitt að finna mörkin á því sem hittir í mark. Ef ætti að líkja Stardust við einhverjar myndir dettur mér helst í hug ævintýramyndirnar The Princess Bride, Labyrinth og Willow. Þó er Stardust að mörgu leyti mjög óvenjuleg mynd, engu lík, og því er upplifunin að sjá hana enn magnaðri en ella. Töfraheimar hafa heillað kvikmyndaáhugafólk árum saman og það sást best með velgengni Lord of the Rings og annarra ævintýramynd á undanförnum árum hvað tímalaus ævintýri geta verið velheppnuð.
Leikhópurinn í Stardust er frábær, stjörnum prýddur. Robert De Niro fer á kostum í hlutverki kapteins Shakespeare og hefur ekki verið betri árum saman. Michelle Pfeiffer átti flotta endurkomu á hvíta tjaldið eftir fjögurra ára leikhlé í Hairspray og er enn betri hér í hlutverki Lamiu glansar eins og ávallt og er stóra stjarna myndarinnar. Ungstirnið Charlie Cox smellpassar í hlutverk ævintýraprinsins Tristans, það verður áhugavert að fylgjast með honum á komandi árum. Claire Danes er augnayndi sem fyrr í sinni rullu og Sienna Miller er ekki síðri. Gamla brýnið Peter O´Toole er traustur í hlutverki höfðingja Stormhold.
Það er vel til fundið að Sir Ian McKellen sé sögumaður myndarinnar. Hann hefur réttu röddina sem þarf til að gera góða mynd enn betri og hann á auðvitað sess í huga og hjarta okkar allra sem dýrkum ævintýramyndir og nutum trílógíunnar yndislegu um Hringadróttinssögu Tolkiens, en túlkun hans á Gandalfi er með þeim bestu á síðustu árum. Tónlist Ilan Eshkeri er yndisleg, setur sterkan svip á myndina og er pottþétt í alla staði. Kvikmyndataka Ben Davis er rúsínan í pylsuendanum og færir okkur heillandi sýn í ævintýraheimana. Hver myndrammi er snilld á sinn hátt.
Leikstjórinn Matthew Vaughn er í huga margra þekktur sem eiginmaður ofurfyrirsætunnar Claudiu Schiffer. Hann gerði hina stórgóðu spennumynd Layer Cake (með ljóshærða Bond-inum Daniel Craig) og sýnir hér enn og aftur að hann er pottþéttur á sínu sviði. Þetta er sannarlega mynd sem munað verður eftir og fangar athygli þeirra sem á hana horfa. Það verður áhugavert að fylgjast með Vaughn á komandi árum og vonandi að hann verði þekktur fyrir eitthvað annað en bara vera giftur Schiffer. Það er freistandi að halda það eftir að hafa séð Stardust allavega.
Gallarnir eru fáir, en vekja þó athygli þegar að heildarmyndin er skoðuð að lokum. Handritið á það til að verða mjög gloppótt. Sum samtölin virka of tilgerðarleg og verða undarleg - sum atriðin eiga það til að vera svolítið yfirdrifin. En í heildina má alltaf búast við að á stundum sé farið dálítið langt og varla er það stórgalli í augum flestra, en þau safnast þó saman undir lokin, þó vissulega sé myndin mikið tæknimeistaraverk og sé vel leikin.
Í heildina er Stardust auðvitað skylduáhorf fyrir þá sem dýrka sannkallað ævintýri með öllum þeim hasar, dulúðleika og rafmögnuðum neista sem þeim fylgja. Öll hasaratriðin eru gerð með meistaralegum hætti og lauflétta húmoríska hliðin er yndisleg og án þess að verða væmin eða ýkt. Ef þú ert í stuði fyrir fyndna ævintýramynd með ekta hasar og stemmningu þá er þetta hiklaust myndin fyrir þig.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2007 | 11:42
No Reservations
Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um kvikmyndina No Reservations í leikstjórn Ástralans Scott Hicks og með Catherine Zeta-Jones, Aaron Eckhart, Abigail Breslin og Patriciu Clarkson í aðalhlutverkum.
No Reservations
Það er ávallt hressandi í miðri runu hasar- og ævintýramynda að sjá stöku sinnum raunverulegt drama með dassa af rómans og laufléttum undirtón - sanna og góða mynd með traustum kjarna, ekki bara vellublaður út í bláinn. Þannig mynd er hiklaust No Reservations. Gerði mér engar sérstakar væntingar svosem, þó að ég vissi að góðir leikarar væru þar vissulega í frontinum og myndin væri byggð á góðri evrópskri mynd sem ég hef oft séð. Gat því varla klikkað, en það hefur þó stundum klikkað rosalega feitt þegar að evrópskar myndir eru ameríkanseraðar. Það verður ekki í tilfelli No Reservations.
No Reservations er bandarísk endurgerð þýsku kvikmyndarinnar Bella Martha frá árinu 2001. Í stað þess að sögusviðið sé Hamborg erum við nú komin til gömlu góðu New York, sem Sinatra söng svo fallega um og Allen hefur gert ódauðlega á hvíta tjaldinu. Segir frá listakokknum Kate Armstrong, sem haldin er fullkomnunaráráttu um starf sitt. Eftir að hún missir stjórn á skapi sínu við matargest sendir yfirmaðurinn hana í meðferð hjá sálfræðingi til að reyna að vinna úr augljósum vandamálum. Systir Kate, sem hefur verið nánasta tenging hennar við lífið utan vinnunnar, deyr snögglega í bílslysi og hún erfir systurdóttur sína. Í ofanálag eignast Kate nýjan vinnufélaga, kokkinn Nick, sem á eftir að hafa jákvæð áhrif er yfir lýkur.
Í heildina er þetta notaleg og vel gerð mynd. Leikstjórinn Scott Hicks á að baki gloppóttan leikstjóraferil. Hann gerði t.d. hina frábæru Shine (sögu píanósnillingsins David Helfgott sem skartaði Geoffrey Rush í óskarsverðlaunahlutverki), Snow Falling on Cedars og Hearts in Atlantis. No Reservations markar endurkomu hans í bransann eftir að hann tók sér pásu fyrir nokkrum árum og hann heldur vel utan um þræðina að mestu leyti. Leikhópurinn er traustur. Catherine Zeta-Jones glansar í hlutverki Kate, eins og svo oft áður. Er hennar besta mynd frá því að hún fékk óskarinn fyrir að leika skassið Velmu í Chicago að mínu mati.
Aaron Eckhart túlkar karakter ítalska kokksins Nick með tilþrifamiklum hætti. Það er sérstaklega gaman að sjá hann reyna við óperuaríurnar. Eckhart hefur verið þekktur fyrir bæði aðal- og aukahlutverk í myndum, sennilega þekktastur fyrir að leika George, sambýlismann Erin Brockovich, fyrir um áratug, og Nick í Thank You For Smoking. Hann passar vel við hlið Zetu og Breslin í þessari hugljúfu mynd og þau fúnkera öll vel saman, eiga fínan neista sem tríó. Patricia Clarkson passar mjög vel í hlutverk yfirmannsins Paulu. Clarkson hefur lengst af verið í bakgrunni kvikmynda, var fyrst sýnileg í The Untouchables en toppaði seint og um síðir fyrir nokkrum árum í Pieces of April.
Ungstirnið Abigail Breslin, sem heillaði alla með frábærri túlkun sinni á smellnu dúllunni Olive í Little Miss Sunshine og fékk óskarsverðlaunatilnefningu fyrir, er sú rétta í hlutverk systurdótturinnar Zoe, sem Kate erfir sisvona. Breslin sýnir flotta takta og sannar að hún er sannarlega á framabrautinni í bransanum. Zoe kemur Kate sannarlega á jörðina og reynir á mannlegu taugarnar í þeim vinnualka sem hún er orðin. Sérstaklega er alveg magnað að sjá matinn sem listakokkurinn frænkan eldar handa stelpunni, en það er óhætt að segja að hún lifi einum of í gourmet-fæðinu. En Zoe laðast að Nick, sem nær með því til frænkunnar.
New York leikur lykilhlutverk í myndinni. Það er orðið nokkuð langt síðan að þessi yndislega heimsborg hefur verið flottari í kvikmynd en þarna. Myndatakan er vel heppnuð og öll umgjörð myndarinnar er virkilega vönduð. Heildarmyndin er öll hin besta. Handritið er kannski gloppótt að vissu marki, alls ekki fullkomið, en það er freistandi að líta framhjá nokkrum áberandi göllum því að takturinn í myndinni fangar mann. Hún er hvorki of væmin né tapar sér í oftúlkuðum húmor. Þarna mætast andstæður á miðri leið og útkoman er áhugaverð, heldur manni við efnið sannarlega.
Í heildina er No Reservations ágætis yndisauki í haustrokinu og ætti að passa vel við á ágætisbíókvöldi. Leikhópurinn nær vel saman og umgjörðin er vel gerð í heildina. Það er oft sagt að einfaldar myndir geti verið ágætar með þeim stóru. No Reservations passar vel fyrir þá sem leita eftir rólegu og notalegri stund með mannlegu yfirbragði, um kosti og galla hversdagslífsins. Það verður seint sagt að No Reservations toppi þýska forverann yndislega, en það var þó varla tilgangurinn.
30.9.2007 | 23:04
3:10 to Yuma
En það er langt síðan að Wayne kvaddi og hin sterka staða vestranna í og með líka. Frá því að Clint Eastwood gerði Unforgiven, sem hlaut óskarinn fyrir mynd og leikstjórn fyrst vestra í áratugi, fyrir fimmtán árum hefur engin alvöru stórmynd komið til sögunnar af þessu tagi. Vissulega hafa verið gerðir vestrar á því tímabili sem síðan er liðið, en enginn þeirra hefur fangað stemmninguna og verið þessi stórmynd sem margir gömlu vestranna voru.
Þeir sem minnast meistaraverka á borð við The Searchers, Shane, The Wild Bunch, The Magnificent Seven, Rio Bravo, Red River, Stagecoach og High Noon hafa eflaust beðið mjög lengi eftir sterkri endurkomu vestranna og saknað hinna gömlu góða daga. Við hin yngri sem upplifðum því miður ekki að sjá hinn gullna meistara vestranna, John Wayne, í miðjum hasarnum í svarthvítu eða lit á hvíta tjaldinu í bíó höfum þó getað leitað eftir þeim minningum á DVD og upplifað sanna ævintýraheima. Vestrararnir hafa alla tíð heillað mig mjög og ég hef verið mikill aðdáandi þessa kvikmyndaforms og tel fyrrnefndar eðalmyndir með þeim bestu á síðustu öld.
Það er ekki fjarri lagi að maður sé sannfærður um að gullaldardagar vestranna séu hafnir að nýju þegar að horft er á endurgerð kvikmyndarinnar 3:10 to Yuma. Hálf öld er liðin frá því að fyrirmyndin var gerð en þar fóru Van Heflin, Glenn Ford og Felicia Farr (eiginkona Jack Lemmon) á kostum einn besti vestri sjötta áratugarins, með mjög sterkum siðferðislegum undirtón baráttunnar á milli góðs og hins illa og skotheldur í orðsins fyllstu merkingu. Handrit Elmore Leonard er gríðarlega traust og einn besti grunnur hennar, fyrr og nú. Í endurgerðinni er haldið mjög fast utan um sterkustu þætti gömlu myndarinnar og bætt við svo um munar.
Tólf árum eftir að Russell Crowe lék í The Quick and the Dead er hann aftur kominn í villta vestrið, en nú við stjórnvölinn. Crowe fetar í fótspor Glenn Ford og glæðir persónu Ben Wade, hins vægðarlausa útlaga sem er handtekinn í smábæ og reynir allt til að forðast að mæta örlögunum í Yuma, nýju lífi. Hann er auðvitað hressilega siðspilltur og kaldur algjörlega inn að sálarrót og túlkar þau karaktereinkenni með sannkölluðum bravúr. Ford var kaldur í gamla daga í þessari rullu en Crowe er enn betri. Þetta er besta mynd Crowe í áraraðir, að mínu mati frá A Beautiful Mind, en það var auðvitað skandall að hann fékk ekki óskarinn fyrir að leika John Nash.
Christian Bale er einn af bestu leikurum sinnar kynslóðar og sannar það enn og aftur hér í hlutverki bóndans örvæntingarfulla og lífsreynda, sem hefur ör á sálinni eftir þrælastríðið og stritar til að ala önn fyrir fjölskylduna, og á að fylgja Wade á vit réttvísinnar. Wade veit hverjir veikustu punktar Dan Evans eru og lætur fimlega til skarar skríða til að bjarga eigin skinni. Samleikur Crowe og Bale er auðvitað stórfenglegur. Báðir eru í toppformi en Crowe er betri þennan daginn. Bale er fantagóður og gerir rulluna hans Van Heflin einfaldlega að sinni og tekst virkilega vel upp. Samleikur hans og Lerman sem sonarins er mjög góður.
Það eru að verða fjórir áratugir frá því að Peter Fonda var töffarinn á mótorhjólinu í klassamyndinni Easy Rider á blómatímabilinu, sem er besta mynd ferils hans og ein tímamótamyndanna í kvikmyndasögunni. Hann á hér glæsilega endurkomu á hvíta tjaldið, áratug eftir að hann reif sig upp úr lægðinni miklu og var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir meistaratúlkun í Ulee´s Gold. Fonda er senuþjófurinn og á frábæra stund í hlutverki mannaveiðarans Byrons, sem er á höttunum eftir Wade. Fonda er sannarlega ekki ókunnur vestrunum, en hann leikstýrði einum slíkum í denn, kvikmyndinni The Hired Hand árið 1971.
Ben Foster lífgar upp á heildarmyndina og er leiftrandi góður í hlutverki lykilmanns Wade. Hinn fimmtán ára gamli Logan Lerman fær sannarlega eldskírn sína á hvíta tjaldinu í hlutverki bóndasonarins Williams og er virkilega góður. Lerman er einn af efnilegustu ungu leikurunum í dag að mínu mati og sýnir hvað hann getur með frábærri túlkun sinni. Það verður sannarlega áhugavert að fylgjast með Lerman á næstu árum, en hann hefur áður gert það gott í myndum á borð við The Butterfly Effect og The Patriot. Varla er við öðru að búast en að þessi unga stjarna eigi að blómstra enn á næstunni, miðað við leikinn í þessari mynd.
3:10 to Yuma er auðvitað mjög sterk mynd með siðferðislegan undirtón. Þetta er hiklaust besta mynd leikstjórans James Mangold sem sannar hér enn einu sinni að hann er með þeim bestu af yngri kynslóðinni í bransanum. Fókuserað er á þá meginþætti sem skipta mestu máli sagan er sögð með jarðbundnum og sannfærandi hætti og persónusköpunin er mjög vel gerð. Í heildina er þetta betri mynd en fyrirmyndin að svo mörgu leyti. Heildarmyndin er heilsteyptari og útkoman er mynd sem allir sannir aðdáendur vestranna verða ekki sviknir af. Úr verður hin klassíska barátta góðs og ills og þetta er saga sem hittir beint í mark.
Kvikmyndataka meistarans Phedon Papamichael, tónlist Marco Beltrami og handritið; allt er þetta í sérflokki. Ramminn gerist varla betri utan um sannkallað meistaraverk. Helst fannst mér lokapunkturinn í myndinni vera undir væntingum en það kemur ekki að sök. Ég var mjög ánægður með myndina og naut hverrar sekúndu, sérstaklega ferðalagsins til Yuma. Kvikmyndatakan fangar andann sérstaklega vel og skapar þann þátt sem mestu skiptir. Papamichael toppar sjálfan sig enn og aftur og hver myndrammi verður sönn snilld. Þetta er veisla fyrir augað stórmynd fyrir fagurkerana.
Nú er bara að vona að vestrarnir nái reisn sinni og virðuleika að nýju, það er freistandi að telja það eftir að hafa séð þessa á hvíta tjaldinu. Það styttist í að myndin um Jesse James verði frumsýnd og hún hefur fengið góða dóma. Í heildina er 3:10 to Yuma skylduáhorf fyrir sanna kvikmyndaunnendur með allra bestu myndum ársins og hlýtur að vera nefnd í sömu andrá og Óskar frændi þegar að líða tekur meir á árið. Þetta er klassabíó eins og það gerist allra best.
Kvikmyndir | Breytt 1.10.2007 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2007 | 14:30
Lois Maxwell látin
Stóra tækifærið hennar kom í upphafi sjöunda áratugarins þegar að Terence Young valdi Lois til að túlka einkaritarann skarpa Miss Moneypenny í Dr. No, fyrstu Bond-myndinni. Á þeim tíma vissu fáir hvaða viðtökur James Bond og njósnarasagan í kringum hann myndi fá. En myndin reyndist sannarlega skotheld og hefur verið einstakur gullmoli alla tíð síðan. Þar voru allar hefðir Bond-myndanna skapaðar að mestu leyti. Sir Sean Connery skapaði Bond sem eftirminnilegan karakter og enginn gleymir geislandi kynþokka Ursulu Andress sem Honey Rider.
Á næstu árum lék Lois fröken Moneypenny áfram á móti Connery og serían malaði gull. Stutt og smellin orðaskipti Bonds og fröken Moneypenny voru jafnan með eftirminnilegri stundum Bond-myndanna. Maxwell gæddi Moneypenny leiftrandi gamansemi, þokka og glæsileika. Karakterinn varð fullkominn. Þó hún ætti jafnan ekki langa stund í hverri mynd, jafnan eitt til tvö atriði, voru þau mjög sterk og eftirminnileg. Á þessum árum voru vinsælustu myndir seríunnar gerðar: From Russia With Love, Goldfinger og You Only Live Twice.
Mörgum kvenréttindasinnum fannst Moneypenny vera fulldaðursleg í túlkun Lois Maxwell. Það er eflaust rétt að hún gældi mjög við það að eiga eitthvað meira með njósnara hennar hátignar en bara stutt spjall á kontórnum, en þetta var að mestu leyti græskulaust gaman en vissulega stuðaði rullan mjög marga. Flestir heilluðust af Lois og fröken Moneypenny er án nokkurs vafa ein eftirminnilegasta persóna Bond-tímans. Það mætti lýsa Moneypenny sem svipmestu kvenpersónu seríunnar. Altént er það mitt mat.
Þegar að Connery ákvað að hætta sem James Bond var ástralinn George Lazenby valinn í hans stað. Maxwell og Lazenby áttu flotta senu saman í On her Majesty´s Secret Service árið 1969. Lazenby varð ekki langlífur sem James Bond, lék aðeins í þessari einu mynd, sem mörgum, þ.m.t. mér, finnst með þeim bestu. Connery átti endurkomu sem James Bond árið 1971 í Diamonds are Forever. Senan með Maxwell og Connery í þeirri mynd á landamærastöðinni, sem varð þeirra síðasta saman, er stutt, snörp og mögnuð.
Árið 1973 tók Sir Roger Moore við hlutverki njósnara hennar hátignar. Moore og Maxwell höfðu kynnst í leiklistarnámi og voru miklir vinir alla tíð. Þau áttu sérstaklega vel saman í hlutverkum Bonds og Moneypenny og áttu margar ógleymanlega fyndnar og skemmtilegar stundir saman. Best þeirra finnst mér senan í Octopussy, þó þau hafi að mínu mati átt best saman í seríunni. Var langmesta tengingin milli þeirra.
Þegar að Moore hætti sem James Bond árið 1985, eftir sjö myndir, hafandi leikið Bond í tólf ár og kominn að sextugu var ákveðið að Lois Maxwell hætti með honum. Hún var ekki valin í The Living Daylights árið 1987, fyrri Bond mynd Timothy Dalton. Í staðinn var Caroline Bliss valin í hlutverkið og lék með Dalton í þeirri mynd og Licence to Kill. Samantha Bond lék svo Moneypenny í fjórum Bond-myndum Pierce Brosnan.
Lois Maxwell er öllum eftirminnileg sem hafa dáð Bond-myndirnar. Hún hafði mikla nærveru sem fröken Moneypenny og gæddi karakterinn húmor og krafti. Það leikur enginn vafi á því hvaða hlutverk og kvikmyndir halda nafni hennar á lofti. Þar stendur hin trygglynda en skarpskyggna Moneypenny upp úr öllu öðru.
Moneypenny" látin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2007 | 11:48
Hairspray
Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um stuðbombuna Hairspray í leikstjórn Adams Shankmanns og með John Travolta, Nikki Blonsky, Zac Efron, Christopher Walken, Michelle Pfeiffer og Allison Janney í aðalhlutverkum.
Hairspray
Á gullaldarárum Hollywood voru dans- og söngvamyndir það form kvikmynda sem jafnan halaði inn mestum peningum og voru eitt mesta aðdráttarafl fólks úr ólíkum áttum samfélagsins til að fara í bíó, upplifa ævintýraheima. Fjöldi kvikmyndaáhugamanna átti sína eftirminnilegustu bíóupplifun við að horfa á t.d. Singin´ in the Rain, My Fair Lady, The Sound of Music, Oliver!, A Star is Born, Mary Poppins, An American in Paris, Oklahoma, Guys and Dolls, Gigi, Show Boat, Kiss Me Kate, Carousel, South Pacific, The King and I og West Side Story þær urðu með þeim bestu í kvikmyndasögunni og lögin í þeim öðluðust sjálfstætt líf og dansatriðin urðu ódauðleg.
Síðar kom aftur sama bylgjan í öðru formi, en samt eftirminnilegum, og á þeim tíma upplifðu nýjar kynslóðir myndir á borð við Grease, The Rocky Horror Picture Show, Bugsy Malone, Hair, The Blues Brothers, Little Shop of Horrors, Cats, Fame, Flashdance, Jesus Christ Superstar, Annie, Tommy og All That Jazz og heilluðust af forminu. Að því kom að dans- og söngvamyndir þóttu hallærislegar og magurt skeið tók við. Woody Allen þótti djarfur þegar að hann gerði Everyone Says I Love You fyrir áratug en þar sungu allir aðalleikarar myndina í gegn nema Drew Barrymore eins og frægt er orðið (meira að segja Allen sjálfur).
Sagt er jafnan að allt fari í hringi. Fyrir nokkrum árum varð Moulin Rouge örlagavaldur þessa kvikmyndaforms í upphafi nýrrar aldar. Það halaði að nýju inn peninga í massavís - nýjar kynslóðir öðluðust trú á dans- og söngvamyndir. Moulin Rouge var tilnefnd til óskarsverðlauna. Ári síðar vann Chicago óskarinn sem besta mynd ársins, og varð þar með fyrsti söngleikurinn frá dögum Olivers! á sjöunda áratugnum til að verða valin besta kvikmynd síns árs, og Catharine Zeta Jones fékk óskarinn fyrir að túlkandi syngjandi skassið þar. Aðrar myndir urðu vinsælar: nægir þar að nefna Dreamgirls, Rent og The Phantom of the Opera.
Hairspray sprettur auðvitað upp af þessum vinsældum. Hún er þó engin framlengingarsnúra á þessar myndir sem fyrr eru nefndar og hafa slegið í gegn á undanförnum árum. Hún er hinn ferski vindblær í sumarlogninu að mjög mörgu leyti og kemur með hliðar sem fyrri söngvamyndir undanfarinna ára hafa ekki komið með. Þessi mynd er ekki hin þunga stórmynd með öflugum söngatriðum og dómínerandi stórum bakgrunni. Þetta er hin létta stuðmynd sem hefur allt sem þarf til að prýða sannkallaðan smell; grípandi lög, líf og fjör, litríkan bakgrunn og umfram allt hæfileikaríka talenta í bland við reynda leikara.
Ég hef verið lúmskur aðdáandi dans- og söngvamynda, kannski ekki sá villtasti í aðdáuninni en samt sem áður einn þeirra sem hef gaman af forminu. Það er einmitt það besta við Hairspray að hún er ekki að kópera eitt né neitt, sprettur fram í eigin nafni og fangar anda sem minnir mig helst á fjörið í Grease og Blues Brothers. Stuð út í gegn og andinn fangar jafnt unglinga sem þá eldri. Hún er létt í grunninn og færir manni gleði sem jafngildir hressandi vítamínssprautu. Kemur allavega sem sannur yndisauki í haustrokinu hérna heima. Við eigum svona lauflétt fjör skilið eftir misdýnamískar hasar- og framhaldsmyndir.
Að mínu mati er þetta ein af bestu söngvamyndunum sem hafa komið á undanförnum árum. Pakkinn er í heildina ansi skotheldur. Fjörið er heilt í gegn, ekkert óekta við það, leikurinn í klassaflokki að mestu leyti, tónlistin er dúndrandi góð með sannkölluðum ofursmellum, gamansemin í senn mjög sönn og mögnuð og andrúmsloftið er heilt í gegn brilljansinn uppmálaður. Það er því ekki hægt að segja annað en að þetta sé mynd sem passar vel fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað pottþétt og skemmtilegt í bíó.
Hairspray er eins og flestir vita endurgerð hinnar samnefndu myndar John Waters frá árinu 1988 sem skartaði Divine (í einni síðustu rullu sinni), Sonny Bono, Ricki Lake og Deborah Harry. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir snilli Waters og met nokkuð mikils eldri myndina og þann húmor sem var aðalsmerki hans í gegnum tíðina. Það er gaman að sjá hann í nettu hlutverki í endurgerðinni. Divine var auðvitað hreinræktaður snillingur og hann lést aðeins nokkrum mánuðum eftir að Hairspray var frumsýnd á sínum tíma. Það var ein hans besta túlkun á ferlinum og er sannkallaður minnisvarði um þennan svipmikla karakter.
John Travolta ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur að feta í fótspor Divine í hlutverki Ednu Turnblad. Travolta hefur átt misjafna daga á ferlinum, toppaði í gamla góða daga sem diskóboltinn Tony í Saturday Night Fever og töffarinn Danny í Grease á áttunda áratugnum og átti comeback eftir magra daga síðar í Look Who´s Talking og Pulp Fiction og hrapaði aftur á botninn í Battlefield Earth. Hefur rokkað til og frá síðan. Túlkun hans á Ednu er fyndin upp að vissu marki en endar þó í svæsnum og súrum ofleik sem kemst ekki nærri túlkun Divine.
Þessi mynd stendur hinni eldri þó í heildina mun framar. Sterkari pakki og betri upplifun hvað sem manni finnst um túlkun Travolta. Ungstirnin Zac Efron, Nikki Blonsky, Brittany Snow, Amanda Bynes, og Elijah Kelly gera mjög gott úr sínum rullum og standa sig virkilega vel stimpla sig enn betur inn í harðasta kjarna bransans. Gömlu brýnin Christopher Walken, Michelle Pfeiffer, Allison Janney, Queen Latifah og James Marsden klikka auðvitað aldrei og eiga góða stund í sínum túlkunum. Walken er og verður einn mesti leiksnillingur sinnar kynslóðar og stendur hér sannarlega undir nafni sem slíkur.
Ég var því í sæluvímu eftir myndina að mestu leyti og mjög sáttur. Þó að ég geti ekki beint sagt að ég sé harðasti aðdáandi kvikmyndanna sem Adam Shankman hefur fært á hvíta tjaldið til þessa finnst mér þessi mynd sýna okkur nýja hlið á honum sem leikstjóra og vona að kappinn sé að bæta verklagið í stíl við þetta. Öll viljum við helst gleyma disasterum á borð við The Wedding Planner, takk fyrir kærlega!
Hairspray anno 2007 er í heildina sannarlega nett syngjandi stuð og sæla frá upphafi til enda og öll ættum við að hafa gaman af slíku í haustrokinu. Þetta er gleðibomba út í gegn sem ætti að vera við hæfi flestra. Feel good movie of the year segi ég og skrifa.
18.9.2007 | 16:51
Veðramót
Veðramót
Fátt hefur verið meira rætt í samfélaginu undanfarna mánuði en uppljóstranir um misnotkun á börnum og unglingum á heimilum fyrir vandræðaunglinga, og þá sem voru utangarðs í kerfinu, fyrir nokkrum áratugum. Þekktast er Breiðuvíkurmálið. Það er eðlilegt að í kjölfar þeirrar umræðu sé tekið á því viðfangsefni með áberandi hætti í nútímanum með því að sýna hvernig það líf hefur verið sem var á slíkum heimilum forðum daga.
Veðramót er kvikmynd sem sprettur fram sem sterk upplifun, sérstaklega í kjölfar umræðunnar sem skók samfélagið og vekur enn til umhugsunar um fortíðina. Það verður seint sagt að Veðramót sé áferðarfalleg mynd. Þar er sögð nöpur saga, þó með tilfinningu, sem skilar sér í gegnum alla hörkuna sem við blasir. Myndin er fyrst og fremst hrá, en líka hlý og hefur vissan húmorískan undirtón í og með.
Hún er þjóðfélagsádeila að sjálfsögðu, enda er nauðsynlegt að stuða vel með þeim sögum sem sagðar eru og gefa þeim líf. Hún fær enn sterkari grunn vegna þess að við sem sjáum hana vitum að hún er ekki skáldsaga í gegn, heldur á hún sér grunn sannleikans. Þetta er raunveruleiki sem er nístandi sannur. Hann er sár og beiskur í senn og sú tilfinning skilar sér. Við hugsum um myndina langa stund á eftir.
Guðný Halldórsdóttir hefur átt brokkgengan feril sem leikstjóri, bæði gert lélegar myndir og góðar líka miðlungsmyndir. Veðramót er þó hennar besta verk; greinilega byggð á hugsunum sem hafa fylgt henni lengi, um er að ræða verk ástríðu sem hún vildi koma til skila. Ástríðuverk verða alltaf sannari en önnur verk og það skilar sér sannarlega til áhorfandans sem fær innsýn í raunverulegan heim.
Leikurinn er leiftrandi sannur og varla veikan blett að sjá. Ungir leikarar fá þar góð tækifæri til að sýna kraft sinn. Stjörnur myndarinnar eru fyrst og fremst Hera Hilmarsdóttir, sem túlkar Dísu með miklum krafti er sönn og leiftrandi í túlkun sinni og Jörundur Ragnarsson sem er stórkostlegur í hlutverki hins seinþroska Samma. Hann túlkar misþroska Samma af mikilli snilld og snertir streng í brjósti áhorfandans svo sannarlega. Bæði vinna þau Hera og Jörundur sannan leiksigur í hlutverkum sínum.
Hilmir Snær Guðnason er rafmagnaður sem Blöffi það gustar sannarlega af honum í hlutverkinu - og Tinna Hrafnsdóttir sýnir góða takta í hlutverki Selmu. Helgi Björnsson er mjög öflugur í rullu föður Selmu og færir því hlutverki mikla dýpt. Ungu leikararnir eru misjafnlega góðir, en sýna að þau eru flest efnileg og geta túlkað af tilfinningu. Þau greinilega þroskast vel undir verndarvæng Guðnýjar og flest þeirra eiga framtíðina fyrir sér í bransanum.
Kvikmyndatakan er algjörlega óviðjafnanleg fegurð landslagsins undir jökli, bæði hrikaleg sem og notaleg, kemst til skila með meistarabrag og skapar mikilvægasta rammann utan um heildarmyndina. Tónlist Ragnhildar Gísladóttur er virkilega vel gerð og skapar það andrúmsloft sem mestu skiptir til að skapa þennan löngu liðna tíma blómabarnanna. Lagið Söknuður í flutningi Bryndísar, dóttur Ragnhildar, er þeirra best og situr eftir langa stund á eftir.
Helsti veikleiki myndarinnar er klippingin að mínu mati. Það verður nokkur stór galli í heildarmyndinni. Mér fannst hún hefði getað verið fagmannlegri og skarpari. Sum atriði standa einum of lengi og meiri skerpa hefði mátt vera í þeim lokafrágangi að mínu mati til að gera myndina því sem næst fullkomna. Þessi galli stendur áþreifanlega eftir að lokum.
Myndin sem slík er þó að mestu unnin með næmum hætti og virðingu fyrir söguefninu, því að koma skelfingu liðinna tíma til skila með áhrifaríkum hætti. Veðramót er þess eðlis að hreyfa við áhorfendum og hún segir sögu sem er átakanlega sönn. Það er ekki verið að þykjast neitt í frásögn og það er stærsti kostur myndarinnar.
Heilt yfir er Veðramót með bestu verkum í íslenskri kvikmyndagerð síðustu árin. Þetta er besta mynd Guðnýjar Halldórsdóttur til þessa og greinilegt að hún hefur vandað til verka og segir sögu sem henni er kær. Þess vegna er myndin svo áhrifarík sem raun ber vitni. Þetta er ástríðuverk - sönn upplifun sem situr lengi eftir í huganum.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2007 | 22:32
Fallin stjarna lifir í voninni um betri tíð
Þegar að Demi stóð á tindi ferilsins lék hún sterkar kvenpersónur með attitude eða sannan karakter. Hæst fór Demi sennilega er hún túlkaði Molly Jensen í vasaklútarmyndinni Ghost, þar sem hún lék kærustu manns sem var myrtur og sneri aftur til að vara hana við hættunni sem blasti við. Allir muna eftir ástarsenunni frægu í keramikgerðinni þar sem Demi og Patrick Swayze létu allt flakka með gamla slagarann Unchained Melody (sem varð vinsælt aftur svo um munaði) ómandi undir. Myndin sló í gegn og Whoopi Goldberg fékk óskarinn fyrir að túlka svikamiðilinn Odu Mae með glæsibrag.
Svo má ekki gleyma því að hún var í kvikmyndinni A Few Good Men í upphafi tíunda áratugarins með Jack Nicholson og Tom Cruise - frábærri réttarmynd með taugar í herlífið. Þar var hún sem hin klára og vinnusama Joanne Galloway sem varð að sætta sig við að vera aðstoðarmaður þess sem flutti málið vegna þess að hún væri kona. Yndisleg mynd og þríeykið small saman svo um munaði (Nicholson átti þar eina bestu túlkun ferilsins sem Jessup ofursti). Túlkun hennar í Disclosure þar sem hún var bitchy yfirmaður sem tók undirmann sinn (í góðri túlkun) Michael Douglas á taugum var svo eftirminnileg.
En Demi var ekki alltaf sú töggsama. Hún byrjaði ferilinn fyrir rúmum tveim áratugum sem ung og brosandi gella í gamanmyndinni Blame it on Rio, en þar lék Sir Michael Caine föður hennar. Síðar fékk Demi ýmis tækifæri sem komu henni á kortið og lék í myndum með fleiri ungsmellum þessa tíma; t.d. St. Elmo´s Fire þar sem voru m.a. Emilio Estevez, Rob Lowe og Andie MacDowell, og ástarræmunni About Last Night þar sem hún lék kærustu Rob Lowe. Margir hafa sagt að hún hafi aldrei lúkkað betur en þar. Þetta er eflaust með hennar betri myndum, einni þeirra sem kom henni best á framfæri.
Á þessum árum kynntist hún leikaranum Bruce Willis. Hann öðlaðist heimsfrægð skömmu eftir að þau tóku saman fyrir túlkun sína á John McClane í hasarreiðinni Die Hard árið 1988 og lék í framhaldi hennar skömmu síðar. Þau voru umtalaðasta parið í Hollywood í áratug, áttu nokkur börn saman og lifðu mjög opinberu ástarlífi til fjölda ára. Þau léku saman í kvikmyndinni Mortal Thoughts í upphafi tíunda áratugarins. Ennfremur ráku þau saman ásamt Arnold Schwarzenegger veitingastaði undir nafninu Planet Hollywood sem mörgum er í minni sem hafa farið til Bandaríkjanna eflaust.
Halla tók undan fæti hjá Demi um miðjan tíunda áratuginn. Eftir fjölda vel heppnaðra mynda varð hún æ óheppnari með hlutverk og valdi líka mjög vitlausar rullur. Þar standa upp úr eflaust þrjár myndir þessa tímabils; Striptease, The Juror og G.I. Jane. Síðastnefnda myndin gekk nærri frá ferli hennar endanlega. Allar urðu þær átakanlega stór flopp fyrir leikkonu sem hafði verið stór í bransanum og notið velgengni. Hún festist í feni vitlausra ákvarðana og ferill hennar festist átakanlega. Á svipuðum tíma fyrir áratug skildu Demi og Bruce. Það varð einn af stærstu skilnuðum áratugarins.
Hún lék ekki í kvikmyndum í sex ár ef undan var skilin ein kvikmynd árið 2000 sem fór vægast sagt ekki hátt. Hún tók saman við Ashton Kutcher árið 2003 að mig minnir, en hann er sextán árum yngri og var eitt helsta kyntákn þess tíma. Það vakti athygli þegar að Ashton fór frá Brittany Murphy fyrir Demi. Sambandið olli deilum en elsta dóttir Demi er aðeins átta árum yngri en Ashton. Á sama tíma kom endurkoman mikla í Charlie´s Angels: Full Throttle. Hún olli ekki miklum þáttaskilum en Demi hefur þó komið fram nokkrum sinnum síðan og nýlega lék hún á móti Kevin Costner og William Hurt í Mr. Brooks.
Það er ekki undarlegt að Demi kvarti yfir vondu gengi sínu. Hún má muna sinn fífil sannarlega fegurri. En það að ætla segjast vera of falleg eða of ung fyrir góðar rullur er hlægileg skýring. Rangar ákvarðanir hennar í hlutverkavali eyðilagði feril hennar og enn skal sopið seyðið af því fíaskói. Það er víst bara þannig.
Demi hefur verið strönduð sem leikkona meira og minna í rúman áratug og meira að segja nýr kærasti og fræg endurkoma með þekktustu bombum þess tíma í Charlie´s Angels breytti ekki stöðu hennar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að henni gangi betur þegar að árin færast enn meira yfir.
Demi Moore segist vera of falleg til að fá kvikmyndahlutverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt 15.9.2007 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2007 | 00:12
Jodie Foster fellur fyrir fegurð Íslands
Það er ánægjulegt að Jodie Foster hafi fallið fyrir fegurð Íslands í sumarsælunni hér fyrir nokkrum vikum. Jodie hefur alla tíð verið ein af mínum uppáhaldsleikkonum. Hún er mjög sterk karakterleikkona og nær sterku valdi á þeim kventýpum sem hún túlkar og er hiklaust ein af allra bestu leikkonum sinnar kynslóðar. Enda hefur hún hlotið mörg verðlaun fyrir leik og hlaut t.d. óskarsverðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki tvisvar áður en hún náði þrítugsaldri; afrek sem seint verður sennilega slegið.
Sterkasta leiktúlkun hennar á ferlinum hefur mér alla tíð þótt hlutverk alríkislöggunemans Clarice Starling í The Silence of the Lambs árið 1991. Það neistaði af henni þar í frábærum samleik með Sir Anthony Hopkins, sem var auðvitað rafmagnaður sem hin sálarsjúka mannæta dr. Hannibal Lecter. Bæði hlutu þau óskarinn og myndin er ein af þeim bestu á tíunda áratugnum - sannkölluð hasarreið frá upphafi til enda. Hún gerði Clarice klára en viðkvæma í senn. Sérlega flott túlkun á kjarnakonu. Það voru mikil vonbrigði að hún tók ekki þátt í Hannibal, beinu framhaldi myndarinnar áratug síðar. Julianne Moore, hin annars frábæra leikkona, náði ekki sama neistanum í hlutverki Clarice þar.
Jodie Foster sló fyrst virkilega í gegn í Taxi Driver á áttunda áratugnum. Var aðeins þrettán ára að mig minnir þá og var yndislega sönn sem vændiskonan Iris, sem Travis Bickle, í frábærri túlkun meistara Robert De Niro, reynir að bjarga úr eymdinni. Sú mynd er svört en yndisleg þrátt fyrir það. Ein besta mynd síns tíma og Jodie leikur stóran þátt í þeirri velgengni auk Roberts. Jodie komst á kortið þar og átti stórleik sem lengi verður í minnum hafður. Þegar að ég vil sjá sannkallað klassabíó set ég Taxi Driver í - stemmningin í henni er auðvitað engu lík. Allt fellur þar saman hjá Scorsese til að úr verði meistaraverk og yndislegt stef Herrmanns (hans síðasta verk) toppar allt.
Það var þó ekki fyrr en rúmum áratug síðar sem Jodie varð ein af stóru leikkonunum í Hollywood. Túlkun hennar á Söru Tobias í The Accused, sem er nauðgað með hrottalegum hætti á krá, er gjörsamlega magnþrungin. Það er ekkert annað orð til sem getur lýst þeirri upplifun að sjá myndina fyrst - þennan leiksigur Jodie. Hún hlaut fyrri óskarinn sinn fyrir þá túlkun og tókst meira að segja að slá þá við Meryl Streep, sem átti sama ár eina bestu leiktúlkun ferils síns, sem Lindy Chamberlain í A Cry in the Dark, móðurina sem var sökuð um að hafa myrt barnið sitt í Ástralíu og varð að sitja inni í sex ár áður en sakleysi hennar var loks staðfest með sönnunum.
Túlkun Jodie á Clarice The Silence of the Lambs krýndi hana sem eina stærstu leikkonu sinnar kynslóðar og hún hefur haldið þeim sess í gegnum árin. Hún hefur þó fleiri myndir á afrekaskránni en þessar þrjár. Hún túlkaði Nell yndislega á miðjum tíunda áratugnum og hélt öflugri mynd uppi með sláandi góðri túlkun. Ekki má gleyma myndinni Contact, en hún er flókið og ekki allra svosem, en túlkun hennar á Ellie er brilljans. Síðar hafa komið myndir á borð við Panic Room (hrá og mögnuð spenna sem heillaði mig algjörlega) og hún gerði hlutverk Meg Altman mjög bitastætt, Flightplan og Inside Man, báðar sterkar spennumyndir.
Vonandi mun Jodie Foster koma oftar til Íslands og ansi er það líklegt ef marka má góð orð hennar um landið.
Jodie Foster hrifin af Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 19:27
Jane Wyman látin
Jane Wyman fæddist í Missouri árið 1914 og var skírð Sarah Jane Mayfield. Jane var mjög ung þegar að hún ætlaði sér að verða leikkona. Það gekk illa þó fyrir hana að komast í bransann, eftir að námi lauk. Hún reyndi fyrir sér sem söngkona í útvarpi. Á þeim tíma skipti hún fyrst um nafn og tók upp nafnið Jane Durrell. Hún kom fram í nokkrum myndum (sem væru í dag eflaust kallaðar b-myndir) í kringum 1935, án þess að komast á skráðan leikaralista, og fikraði sig stig af stigi inn í helsta kjarna leikbransans. Það var loksins árið 1936 sem henni tókst, eftir mikla baráttu að komast á samning hjá Warner. Eftir það varð leiðin greið.
Árið 1936 tók hún upp nafnið Jane Wyman, sem fylgdi henni allt til leiðarloka og með því komst hún í fremstu röð leikbransans. Hún kynntist leikaranum Ronald Reagan við gerð einnar af þessum sannkölluðu b-myndum árið 1938, Brother Rat, og þau féllu fyrir hvoru öðru. Þau giftust árið 1940, og léku síðar sama ár í framhaldinu; Brother Rat and Baby. Bæði voru þau að reyna að fikra sig áfram í bransanum með misgóðum árangri. Reagan forseti lék í 50 kvikmyndum á verulega brokkgegnum leikferli, misjöfnum að gæðum. Reagan nefndi sig Errol Flynn B-myndanna. Þekktastar mynda hans urðu This is the Army, Kings Row og Hellcats of the Navy.
Jane lék í upphafi fimmta áratugarins aðallega í gaman- og dramatískum myndum. Best þeirra hlýtur að teljast Larceny, Inc. en hún fór þar sannarlega á kostum í hlutverki Denny Costello. Jane hlaut loks heimsfrægðina sem hana hafði alltaf dreymt um árið 1945. Þá fór hún á kostum í hlutverki Helen, eiginkonu alkóhólistans Dons Birnams, sem leikinn var með bravúr af Ray Milland, í kvikmynd Billy Wilder, Lost Weekend. Myndin sló í gegn og hlaut óskarinn sem besta kvikmynd ársins ásamt því sem að Wilder og Milland hlutu verðlaunin ennfremur. Þrátt fyrir stjörnuleik hlaut Jane ekki tilnefningu fyrir leik sinn.
Jane var óviðjafnanleg í hlutverki Ma Baxter í kvikmyndinni The Yearling árið 1946, ásamt Gregory Peck og Claude Jarman (sem er yndislegur í hlutverki sonarins Jody í hjartnæmri rullu), og hlaut þá loksins sína fyrstu óskarsverðlaunatilnefningu. Leið hennar var greið eftir leiksigrana í þessum tveim kvikmyndum og næst lék Jane í Magic Town og átti þar sannarlega gullna takta í hlutverki Mary, við hlið James Stewart. Það er sannarlega ein af þessum gömlu góðu sem hafa því miður fallið of mikið í skuggann. Þetta var reyndar í eina skiptið sem þau léku saman Wyman og Jimmy Stewart. Þessar myndir allar eiga alltaf vel við.
Það var loksins árið 1948 sem Jane Wyman náði hápunkti sínum í Hollywood, nældi sér í draumahlutverkið sem markaði feril hennar. Túlkun Jane á hinni blindu Belindu MacDonald, sem er nauðgað á hrottafenginn hátt, í kvikmyndinni Johnny Belinda er hiklaust hennar besta á litríkum leikferli og er ein af bestu leiktúlkunum áratugarins. Þetta er ein af þessum myndum með Jane sem aldrei munu falla í gleymskunnar dá og er alltaf viðeigandi til að minna sig á hversu góð leikkona hún var. Túlkunin er sláandi góð og er enn í dag upplifun af þeim skala sem hún var þá, er efnið þótti mikið feimnismál.
Jane hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Belindu árið 1949 og sló þar við leikkonum á borð við Ingrid Bergman, Oliviu de Havilland (sem hafði hlotið verðlaunin er Jane var tilnefnd fyrir The Yearling), Irene Dunne og Barböru Stanwyck (sem aldrei hlutu verðlaunin - margir hafa reyndar sagt með réttu að Barbara hafi verið langbesta leikkona kvikmyndasögunnar sem aldrei hafi hlotið verðlaunin). Eftir að Jane hlaut óskarinn voru henni allir vegir færir og hún lék í kvikmynd Sir Alfred Hitchcock, Stage Fright, skömmu síðar og ennfremur í mynd Frank Capra, Here Comes the Groom, auk myndarinnar um ævi Will Rogers.
Jane Wyman hélt sess sínum sem ein af bestu leikkonunum í Hollywood á sjötta áratugnum og hlaut mun meiri frægð en eiginmaður hennar, Ronald Reagan. Upp úr hjónabandi þeirra slitnaði, að flestra mati vegna þunga frama beggja, sérstaklega Jane, undir lok fimmta áratugarins. Þau eignuðust tvö börn; Michael (sem var ættleiddur) og Maureen (sem lést úr krabbameini árið 2001). Reagan varð síðar forseti SAG-leikarasamtakanna og ríkisstjóri í Kaliforníu. Hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1980. Reagan lést árið 2004 - hann og Wyman héldu sambandi allt þar til Reagan veiktist af Alzheimer á tíunda áratugnum.
Jane fór enn einu sinni á kostum í túlkun sinni á Louise í The Blue Veil árið 1951 og hlaut þriðju óskarsverðlaunatilnefninguna. Sama ár glansaði hún á móti Bing Crosby í söngvamyndinni Just For You. Árið 1954 lék Jane á móti Rock Hudson í kvikmyndinni Magnificent Obsession og hlaut síðustu óskarsverðlaunatilnefningu ferilsins fyrir glæsilega túlkun á Helen Phillips - kvikmynd í anda sápuóperanna og Wyman lék aftur blinda kvenpersónu. Atriðið þar sem Helen fikrar sig eftir herberginu er algjört augnayndi. Síðasta stórmynd ferils Jane var Pollýanna árið 1960. Þar var hún glæsileg sem Polly frænka (yndislega harðneskjuleg.
Jane hætti að mestu kvikmyndaleik á sjöunda áratugnum en kom fram í fjölda sjónvarpsmynda á næstu áratugum. Hún komst aftur í miðpunkt sviðsljóssins á níunda áratugnum þegar að hún túlkaði hina ábyrgu en dómínerandi ættmóður Angelu Channing í sápunni Falcon Crest. Þar eignaðist hún nýja aðdáendur af nýjum kynslóðum, enda um tveir áratugir liðnir frá því að hún hafði leikið í sannkölluðum stórmyndum. Hún endaði leikferil sinn í hlutverki hefðarfrúarinnar Elizabeth, móður Quinn læknis (í túlkun Jane Seymour), í sjónvarpsþáttunum um töfralækninn dr. Quinn í villta vestrinu, á tíunda áratugnum.
Jane Wyman lét sig að mestu hverfa úr sviðsljósinu á tíunda áratugnum og dró sig í hlé frá glansa Hollywood-lífsins. Jane var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood um miðja 20. öldina.
Jane Wyman látin 93ja ára að aldri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2007 | 23:33
Key Largo
Ein eftirminnilegasta kvikmynd fimmta áratugar síðustu aldar er kennd við Key Largo á Flórída. Það hefur lengi verið ein af mínum uppáhaldsmyndum. Ég rifjaði upp kynnin af henni í gærkvöldi. Það var viðeigandi að horfa á myndina í því leiðindaveðri sem er hérna fyrir norðan þessa dagana. Myndin gerist meðan að fellibylur gengur yfir og hávaðarok og það tónaði ágætlega við rokið hérna á Akureyri meðan að myndin var í tækinu. Kom merkilega vel út allavega... og myndin klikkar svo sannarlega aldrei.
Ég hef alltaf metið þessa mynd mikils og tel hana með þeim bestu sem komu frá leikstjóranum John Huston. Að mínu mati var John Huston einn af bestu leikstjórum 20. aldarinnar. Hann gerði á löngum ferli kvikmyndir á borð við The African Queen, The Misfits, The Asphalt Jungle, The Treasure of the Sierra Madre, Prizzi's Honor, Under the Volcano, The Man Who Would Be King, Casino Royale, og að ógleymdri hans allra bestu kvikmynd á ferlinum, The Maltese Falcon, sem jafnframt var frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóra.
Það verður að mínu mati enginn sannur kvikmyndaáhugamaður til fyrr en hann hefur séð Möltufálkann, sem er yndislegasta og áhugaverðasta film noir-mynd sem kvikmyndafíkill getur séð (fyrir utan Casablanca). Huston hlaut leikstjóraóskarinn einu sinni á sínum litríka leikstjóraferli en það var fyrir The Treasure of the Sierra Madre árið 1948, sem margir telja með hans besta en faðir hans Walter Huston fékk ennfremur óskarinn fyrir leik sinn í henni. Key Largo var gerð á milli helstu annanna við gerð The Treasure of the Sierra Madre á árinu 1948 og var ekki dýr í gerð, enda einföld í sniðum. En hún varð ein af eftirminnilegustu myndunum á ferli Hustons.
Í Key Largo segir frá Frank sem ákveður að lokinni herþjónustu sinni í seinni heimsstyrjöldinni að heimsækja James Temple, fatlaðan hóteleiganda á Key Largo, og tengdadóttur hans Noru. Hún er ekkja eins af þeim sem þjónuðu í hernum sem Frank var yfirmaður í. Hann telur sig verða að heimsækja þau og bera þeim kveðju sína. Hann lendir þó fljótt eftir komuna í ótrúlegri atburðarás. Mafíósinn Johnny Rocco, sem er á flótta undan yfirvöldum, sest að á hótelinu og tekur Frank, James og Noru í gíslingu. Með Rocco í för er t.d. kærasta hans Gaye Dawn. Framkoma Rocco og t.d. meðferð á kærustunni veldur því að Frank leggur til atlögu við mafíósann.
Í Key Largo fara hjónin Humphrey Bogart og Lauren Bacall á kostum í hlutverkum Franks og Noru. Þetta var þriðja myndin sem þau léku saman í. Hinar voru To Have and Have Not and The Big Sleep. Allar eru þessar myndir stórfenglegar og með bestu myndum síns tíma. Bogart var án nokkurs vafa einn af bestu leikurum 20. aldarinnar. Hann var enda jafnvígur á að leika harðjaxl með massívu yfirbragði og ekki síður með tilfinningu. Bogart er einn mesti töffarinn í kvikmyndasögunni. Persóna hans og túlkun voru með þeim hætti að hann var fæddur leiðtogi í leik. Neistinn á milli Bogart og Bacall eru með mikilvægustu töfrum þessara mynda.
Bogart og Bacall voru þó gríðarlega ólík, bæði sem leikarar og persónur. En smullu saman þrátt fyrir 25 ára aldursmun og voru gift í um einn og hálfan áratug. Bogart lést úr krabbameini árið 1957 en Bacall lifir enn, nú orðin 83 ára gömul og enn á fullu að leika. Edward G. Robinson er skemmtilega illkvittinn og ógeðfelldur sem mafíósinn Johnny Rocco. Þetta var ein af hans bestu myndum á löngum og litríkum ferli. Claire Trevor snertir streng í brjósti áhorfandans í hlutverki Gaye og túlkar brothætta konu með tilfinningar og brotið stolt. Trevor var stórfengleg í hlutverkinu og hlaut óskarinn fyrir leik sinn og það mjög verðskuldað.
Key Largo er allt í senn heillandi og spennandi - athygli áhorfandans helst allan tímann á atburðarásinni. Einn helsti aðall myndarinnar er hversu mikið veðrið leikur stóran þátt í henni. Fellibylurinn verður að táknmynd ólgunnar á hótelinu - það er skemmtilega sjarmerandi að sjá myndina einmitt í nettu rokveðri, með hvínandi vindinn hljómandi undir úti ekki síður en í myndinni - svona svipuðu og því sem var einmitt í gærkvöldi. Sakar allavega ekki upp á stemmninguna.