Lois Maxwell látin

Fröken Moneypenny í túlkun Lois Maxwell Leikkonan Lois Maxwell, sem varð heimsfræg fyrir að túlka fröken Moneypenny, hinn trygglynda einkaritara M, er látin, áttræð að aldri. Maxwell lék í fjórtán Bond-myndum á leikferli sínum, á árunum 1962-1985, allt frá Dr. No til A View To a Kill, og lék með þrem Bond-leikurum; Sir Sean Connery, George Lazenby og Sir Roger Moore. Hún setti sterkan svip á kvikmyndaseríuna og er öllum þeim eftirminnileg sem hafa séð bestu Bond-myndir þessa tímabils.

Lois Maxwell hóf leik ung. Á miðjum fimmta áratugnum lék hún í sinni fyrstu kvikmynd A Matter of Life and Death, en var ekki nefnd í kredit-listanum. Síðar sama ár kom fyrsta alvöruhlutverkið, í hinni auðgleymanlegu Spring Song. Lois komst loks á kortið fyrir alvöru árið 1947 er hún fékk Golden Globe fyrir að túlka Juliu Kane með bravúr í That Hagen Girl, á móti barnastjörnunni Shirley Temple og framtíðarforsetanum Ronald Reagan (sem nefndi sig Errol Flynn b-myndanna). Á næstu fimmtán árum lék hún í fjölda kvikmynda, mjög misjöfnum að gæðum.

Stóra tækifærið hennar kom í upphafi sjöunda áratugarins þegar að Terence Young valdi Lois til að túlka einkaritarann skarpa Miss Moneypenny í Dr. No, fyrstu Bond-myndinni. Á þeim tíma vissu fáir hvaða viðtökur James Bond og njósnarasagan í kringum hann myndi fá. En myndin reyndist sannarlega skotheld og hefur verið einstakur gullmoli alla tíð síðan. Þar voru allar hefðir Bond-myndanna skapaðar að mestu leyti. Sir Sean Connery skapaði Bond sem eftirminnilegan karakter og enginn gleymir geislandi kynþokka Ursulu Andress sem Honey Rider.

Á næstu árum lék Lois fröken Moneypenny áfram á móti Connery og serían malaði gull. Stutt og smellin orðaskipti Bonds og fröken Moneypenny voru jafnan með eftirminnilegri stundum Bond-myndanna. Maxwell gæddi Moneypenny leiftrandi gamansemi, þokka og glæsileika. Karakterinn varð fullkominn. Þó hún ætti jafnan ekki langa stund í hverri mynd, jafnan eitt til tvö atriði, voru þau mjög sterk og eftirminnileg. Á þessum árum voru vinsælustu myndir seríunnar gerðar: From Russia With Love, Goldfinger og You Only Live Twice.

Mörgum kvenréttindasinnum fannst Moneypenny vera fulldaðursleg í túlkun Lois Maxwell. Það er eflaust rétt að hún gældi mjög við það að eiga eitthvað meira með njósnara hennar hátignar en bara stutt spjall á kontórnum, en þetta var að mestu leyti græskulaust gaman en vissulega stuðaði rullan mjög marga. Flestir heilluðust af Lois og fröken Moneypenny er án nokkurs vafa ein eftirminnilegasta persóna Bond-tímans. Það mætti lýsa Moneypenny sem svipmestu kvenpersónu seríunnar. Altént er það mitt mat.

Þegar að Connery ákvað að hætta sem James Bond var ástralinn George Lazenby valinn í hans stað. Maxwell og Lazenby áttu flotta senu saman í On her Majesty´s Secret Service árið 1969. Lazenby varð ekki langlífur sem James Bond, lék aðeins í þessari einu mynd, sem mörgum, þ.m.t. mér, finnst með þeim bestu. Connery átti endurkomu sem James Bond árið 1971 í Diamonds are Forever. Senan með Maxwell og Connery í þeirri mynd á landamærastöðinni, sem varð þeirra síðasta saman, er stutt, snörp og mögnuð.

Árið 1973 tók Sir Roger Moore við hlutverki njósnara hennar hátignar. Moore og Maxwell höfðu kynnst í leiklistarnámi og voru miklir vinir alla tíð. Þau áttu sérstaklega vel saman í hlutverkum Bonds og Moneypenny og áttu margar ógleymanlega fyndnar og skemmtilegar stundir saman. Best þeirra finnst mér senan í Octopussy, þó þau hafi að mínu mati átt best saman í seríunni. Var langmesta tengingin milli þeirra.

Þegar að Moore hætti sem James Bond árið 1985, eftir sjö myndir, hafandi leikið Bond í tólf ár og kominn að sextugu var ákveðið að Lois Maxwell hætti með honum. Hún var ekki valin í The Living Daylights árið 1987, fyrri Bond mynd Timothy Dalton. Í staðinn var Caroline Bliss valin í hlutverkið og lék með Dalton í þeirri mynd og Licence to Kill. Samantha Bond lék svo Moneypenny í fjórum Bond-myndum Pierce Brosnan.

Lois Maxwell er öllum eftirminnileg sem hafa dáð Bond-myndirnar. Hún hafði mikla nærveru sem fröken Moneypenny og gæddi karakterinn húmor og krafti. Það leikur enginn vafi á því hvaða hlutverk og kvikmyndir halda nafni hennar á lofti. Þar stendur hin trygglynda en skarpskyggna Moneypenny upp úr öllu öðru.

mbl.is „Moneypenny" látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Fyrir mig er hún hin eina og sanna Moneypenny. Ég tók James Bond kúrs út í Ameríku fyrir meir en tuttugu árum og skrifaði ægilega fræðilega um margar Bond myndir. Svei mér þá ef ég skrifaði ekki ógurlega mikla sálfræði úttekt á Moneypeny - svona "profile" eins og maður sér í öllum bófaþáttunum í sjónvarpinu

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 3.10.2007 kl. 14:53

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð orð um Moneypenny Kristín. Alveg sammála því. Lois Maxwell var hin eina sanna í því hlutverki og setti sterkan svip á þær myndir sem hún var í. Hinar Moneypenny hafa verið sviplausar, þó að Samantha Bond hafi vissulega verið fín í myndum með Pierce Brosnan. Fannst Caroline Bliss ekki góð í þessu hlutverki í myndunum með Timothy Dalton. Allir sannir Bond-aðdáendur sakna Lois. Horfði einmitt á sunnudagskvöldið á tvær gamlar myndir; Goldfinger og The Spy Who Loved Me. Bond-konurnar hafa verið margar og misjafnar, en Lois í hlutverki Miss Monepenny sló þeim öllum við og var öflugasta kona kvikmyndaseríunnar til þessa að mínu mati.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.10.2007 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband