Fallin stjarna lifir í voninni um betri tíð

Demi MooreSú var tíðin eitt sinn að Demi Moore var ein vinsælasta kynbomban og leikkonan í Hollywood. Hún fékk áhugaverð hlutverk í stórmyndum og hafði sterka stöðu í leikbransanum. Svo hvarf hún af sjónarsviðinu um miðjan tíunda áratuginn eftir tvær til þrjár misheppnaðar floppmyndir. Hún sneri aftur fyrir nokkrum árum með mun yngri kærasta upp á arminn og flotta ímynd í kvikmyndinni Charlie´s Angels: Full Throttle, sem markaði endurkomu hennar eftir öll mögru árin.

Þegar að Demi stóð á tindi ferilsins lék hún sterkar kvenpersónur með attitude eða sannan karakter. Hæst fór Demi sennilega er hún túlkaði Molly Jensen í vasaklútarmyndinni Ghost, þar sem hún lék kærustu manns sem var myrtur og sneri aftur til að vara hana við hættunni sem blasti við. Allir muna eftir ástarsenunni frægu í keramikgerðinni þar sem Demi og Patrick Swayze létu allt flakka með gamla slagarann Unchained Melody (sem varð vinsælt aftur svo um munaði) ómandi undir. Myndin sló í gegn og Whoopi Goldberg fékk óskarinn fyrir að túlka svikamiðilinn Odu Mae með glæsibrag.

Svo má ekki gleyma því að hún var í kvikmyndinni A Few Good Men í upphafi tíunda áratugarins með Jack Nicholson og Tom Cruise - frábærri réttarmynd með taugar í herlífið. Þar var hún sem hin klára og vinnusama Joanne Galloway sem varð að sætta sig við að vera aðstoðarmaður þess sem flutti málið vegna þess að hún væri kona. Yndisleg mynd og þríeykið small saman svo um munaði (Nicholson átti þar eina bestu túlkun ferilsins sem Jessup ofursti). Túlkun hennar í Disclosure þar sem hún var bitchy yfirmaður sem tók undirmann sinn (í góðri túlkun) Michael Douglas á taugum var svo eftirminnileg.

En Demi var ekki alltaf sú töggsama. Hún byrjaði ferilinn fyrir rúmum tveim áratugum sem ung og brosandi gella í gamanmyndinni Blame it on Rio, en þar lék Sir Michael Caine föður hennar. Síðar fékk Demi ýmis tækifæri sem komu henni á kortið og lék í myndum með fleiri ungsmellum þessa tíma; t.d. St. Elmo´s Fire þar sem voru m.a. Emilio Estevez, Rob Lowe og Andie MacDowell, og ástarræmunni About Last Night þar sem hún lék kærustu Rob Lowe. Margir hafa sagt að hún hafi aldrei lúkkað betur en þar. Þetta er eflaust með hennar betri myndum, einni þeirra sem kom henni best á framfæri.

Á þessum árum kynntist hún leikaranum Bruce Willis. Hann öðlaðist heimsfrægð skömmu eftir að þau tóku saman fyrir túlkun sína á John McClane í hasarreiðinni Die Hard árið 1988 og lék í framhaldi hennar skömmu síðar. Þau voru umtalaðasta parið í Hollywood í áratug, áttu nokkur börn saman og lifðu mjög opinberu ástarlífi til fjölda ára. Þau léku saman í kvikmyndinni Mortal Thoughts í upphafi tíunda áratugarins. Ennfremur ráku þau saman ásamt Arnold Schwarzenegger veitingastaði undir nafninu Planet Hollywood sem mörgum er í minni sem hafa farið til Bandaríkjanna eflaust.

Halla tók undan fæti hjá Demi um miðjan tíunda áratuginn. Eftir fjölda vel heppnaðra mynda varð hún æ óheppnari með hlutverk og valdi líka mjög vitlausar rullur. Þar standa upp úr eflaust þrjár myndir þessa tímabils; Striptease, The Juror og G.I. Jane. Síðastnefnda myndin gekk nærri frá ferli hennar endanlega. Allar urðu þær átakanlega stór flopp fyrir leikkonu sem hafði verið stór í bransanum og notið velgengni. Hún festist í feni vitlausra ákvarðana og ferill hennar festist átakanlega. Á svipuðum tíma fyrir áratug skildu Demi og Bruce. Það varð einn af stærstu skilnuðum áratugarins.

Hún lék ekki í kvikmyndum í sex ár ef undan var skilin ein kvikmynd árið 2000 sem fór vægast sagt ekki hátt. Hún tók saman við Ashton Kutcher árið 2003 að mig minnir, en hann er sextán árum yngri og var eitt helsta kyntákn þess tíma. Það vakti athygli þegar að Ashton fór frá Brittany Murphy fyrir Demi. Sambandið olli deilum en elsta dóttir Demi er aðeins átta árum yngri en Ashton. Á sama tíma kom endurkoman mikla í Charlie´s Angels: Full Throttle. Hún olli ekki miklum þáttaskilum en Demi hefur þó komið fram nokkrum sinnum síðan og nýlega lék hún á móti Kevin Costner og William Hurt í Mr. Brooks. 

Það er ekki undarlegt að Demi kvarti yfir vondu gengi sínu. Hún má muna sinn fífil sannarlega fegurri. En það að ætla segjast vera of falleg eða of ung fyrir góðar rullur er hlægileg skýring. Rangar ákvarðanir hennar í hlutverkavali eyðilagði feril hennar og enn skal sopið seyðið af því fíaskói. Það er víst bara þannig.

Demi hefur verið strönduð sem leikkona meira og minna í rúman áratug og meira að segja nýr kærasti og fræg endurkoma með þekktustu bombum þess tíma í Charlie´s Angels breytti ekki stöðu hennar. Það verður fróðlegt að sjá hvort að henni gangi betur þegar að árin færast enn meira yfir.

mbl.is Demi Moore segist vera of falleg til að fá kvikmyndahlutverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Njörður Lárusson

Hún er í strandi, eða "ritstíflu" þessa stundina, svo ég noti þá samlíkingu.  En að hún sé búin, eða "out" tel ég afar ólíklegt.  Líklegar finnst mér að hún sé nú að fá að kenna á eigin stjörnustælum, eða að hafa hafnað hlutverkum svo oft, að hún sé dottin út af skránni.  Gaman verður að sjá hvað gerist í kjölfarið á þessari gagnrýni hennar.  Kannski kemst hún á kortið aftur ?

Njörður Lárusson, 15.9.2007 kl. 00:21

2 Smámynd: Jens Guð

  Eins og Demi er hugguleg þá er skrítið að hún var ófríð sem unglingur.  Til að mynda var annað auga hennar lamað.  Það gat ekki hreyfst og augnlokið lafði niður á mitt augað. 

Jens Guð, 15.9.2007 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband