Stardust

StardustÍ kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um ævintýramyndina Stardust í leikstjórn Matthew Vaughn og með Robert De Niro, Peter O´Toole, Charlie Cox, Michelle Pfeiffer, Claire Danes, Siennu Miller og Nathaniel Parker í aðalhlutverkum.


Stardust

Það er fátt skemmtilegra í bíóferð en að kynnast ævintýraheimum, sem allt í senn eru spennandi, ógnvekjandi, heillandi og nýstárlegir. Sumar ævintýramyndir fara oft vel yfir mörk hins raunverulega að mati þeirra sem lifa sínu hversdagslega lífi, en eru samt heillandi og kynna okkur fyrir heim sem laðar okkur til sín með einum hætti eða öðrum. Ein þessara mynda er Stardust, kvikmynd leikstjórans Matthew Vaughn. Það skemmtilegasta við hana í okkar augum hlýtur að vera að myndin er að nokkru leyti tekin upp hér á Íslandi.

Stardust er allt í senn ástarsaga, yndisleg blanda af gamni og alvöru, og hörkugóð hasarmynd. Sterkur og pottþéttur pakki í heildina, fyrir þá sem unna alvöru ævintýrum. Hún fjallar um Tristan, ungan mann, sem leitar að fallinni stjörnu til að færa konunni sem hann elskar til að sannreyna hversu heit ástin er í raun og veru. Vandinn er bara sá að til að ná stjörnunni þarf hann að fara á slóðir töfraríkisins Stormhold. Ævintýrið er þar með bara rétt að hefjast, en ekki er beinlínis auðvelt að komast þangað og í ferðinni opnast nýr veruleiki fyrir Tristan.

Það er vandmeðfarið að gera ævintýramynd fullkomna. Oft er erfitt að finna mörkin á því sem hittir í mark. Ef ætti að líkja Stardust við einhverjar myndir dettur mér helst í hug ævintýramyndirnar The Princess Bride, Labyrinth og Willow. Þó er Stardust að mörgu leyti mjög óvenjuleg mynd, engu lík, og því er upplifunin að sjá hana enn magnaðri en ella. Töfraheimar hafa heillað kvikmyndaáhugafólk árum saman og það sást best með velgengni Lord of the Rings og annarra ævintýramynd á undanförnum árum hvað tímalaus ævintýri geta verið velheppnuð.

Leikhópurinn í Stardust er frábær, stjörnum prýddur. Robert De Niro fer á kostum í hlutverki kapteins Shakespeare og hefur ekki verið betri árum saman. Michelle Pfeiffer átti flotta endurkomu á hvíta tjaldið eftir fjögurra ára leikhlé í Hairspray og er enn betri hér í hlutverki Lamiu – glansar eins og ávallt og er stóra stjarna myndarinnar. Ungstirnið Charlie Cox smellpassar í hlutverk ævintýraprinsins Tristans, það verður áhugavert að fylgjast með honum á komandi árum. Claire Danes er augnayndi sem fyrr í sinni rullu og Sienna Miller er ekki síðri. Gamla brýnið Peter O´Toole er traustur í hlutverki höfðingja Stormhold.

Það er vel til fundið að Sir Ian McKellen sé sögumaður myndarinnar. Hann hefur réttu röddina sem þarf til að gera góða mynd enn betri og hann á auðvitað sess í huga og hjarta okkar allra sem dýrkum ævintýramyndir og nutum trílógíunnar yndislegu um Hringadróttinssögu Tolkiens, en túlkun hans á Gandalfi er með þeim bestu á síðustu árum. Tónlist Ilan Eshkeri er yndisleg, setur sterkan svip á myndina og er pottþétt í alla staði. Kvikmyndataka Ben Davis er rúsínan í pylsuendanum og færir okkur heillandi sýn í ævintýraheimana. Hver myndrammi er snilld á sinn hátt.

Leikstjórinn Matthew Vaughn er í huga margra þekktur sem eiginmaður ofurfyrirsætunnar Claudiu Schiffer. Hann gerði hina stórgóðu spennumynd Layer Cake (með ljóshærða Bond-inum Daniel Craig) og sýnir hér enn og aftur að hann er pottþéttur á sínu sviði. Þetta er sannarlega mynd sem munað verður eftir og fangar athygli þeirra sem á hana horfa. Það verður áhugavert að fylgjast með Vaughn á komandi árum og vonandi að hann verði þekktur fyrir eitthvað annað en bara vera giftur Schiffer. Það er freistandi að halda það eftir að hafa séð Stardust allavega.

Gallarnir eru fáir, en vekja þó athygli þegar að heildarmyndin er skoðuð að lokum. Handritið á það til að verða mjög gloppótt. Sum samtölin virka of tilgerðarleg og verða undarleg - sum atriðin eiga það til að vera svolítið yfirdrifin. En í heildina má alltaf búast við að á stundum sé farið dálítið langt og varla er það stórgalli í augum flestra, en þau safnast þó saman undir lokin, þó vissulega sé myndin mikið tæknimeistaraverk og sé vel leikin.

Í heildina er Stardust auðvitað skylduáhorf fyrir þá sem dýrka sannkallað ævintýri með öllum þeim hasar, dulúðleika og rafmögnuðum neista sem þeim fylgja. Öll hasaratriðin eru gerð með meistaralegum hætti og lauflétta húmoríska hliðin er yndisleg og án þess að verða væmin eða ýkt. Ef þú ert í stuði fyrir fyndna ævintýramynd með ekta hasar og stemmningu þá er þetta hiklaust myndin fyrir þig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband