Færsluflokkur: Kvikmyndir

Glys- og stjörnulaus Gullhnöttur í 32 mínútur

Atonement Gullhnötturinn var veittur í Los Angeles í nótt í 65. skiptið. Athöfnin var söguleg í alla staði; glys- og stjörnulaus með öllu, í formi blaðamannafundar, og stóð aðeins yfir í 32 mínútur - stysta verðlaunaathöfn til þessa í kvikmyndaborginni. Vegna verkfalls handritshöfunda var Gullhnötturinn í raun blásinn af sem alvöruhátíð en sigurvegarar voru þó kynntir til leiks. Leikarar höfðu ákveðið að standa með handritshöfundum í baráttu sinni og því voru engar þakkarræður haldnar og prógrammið rann hratt í gegn með kynningum glysþáttastjórnenda í Hollywood.

Það er vissulega sögulegt að prógrammið snúist í raun aðeins um innsta kjarnann sjálfan: það að upplýsa um sigurvegarana, handhafa Gullhnattarins - en í engu um hliðaráhrif keppninnar; stjörnuljómann, fagra kjóla, leikarabros og langar þakkarræður þar sem þakkað er öllum sem hafa stutt sigurvegarann; allt á milli umboðsmannsins, sem heldur um alla þræðina, og pabba og mömmu, sem bjuggu stjörnuna til. Óskarsverðlaunin verða afhent eftir fimm vikur og ekki undrunarefni að margir velti fyrir sér hvort að afmælishátíðin, þar sem áttatíu ára afmæli er fagnað, muni geta farið fram. Ekki glittir í lausn verkfallsdeilunnar, en flestir þættir eru að verða komnir í þrot í sjónvarpi vegna þess.

Breska kvikmyndin Atonement, með Keiru Knightley og James McAvoy (sem var ein stjarnanna í The Last King of Scotland), var hinn stóri sigurvegari kvöldsins; hlaut verðlaunin fyrir bestu dramatísku kvikmynd og ennfremur fyrir kvikmyndatónlist. Henni tókst að skáka við sterkum myndum á borð við American Gangster, Eastern Promises, The Great Debaters, Michael Clayton, No Country for Old Men og There Will Be Blood. Það er þó ekkert öruggt um möguleika hennar á Óskarnum, enda hafa myndirnar sem hafa unnið í þessum flokki á Golden Globe ekki hlotið Óskarinn síðustu þrjú árin. Myndin hefur hlotið góða dóma og verður eflaust áberandi á Óskarnum.

Frábær kvikmyndaútfærsla leikstjórans Tim Burton á verkinu Sweeney Tood hlaut verðlaunin sem gaman/söngvamynd ársins og Johnny Depp hlaut verðlaunin sem leikari í aðalhlutverki í þeim flokki fyrir túlkun sína á aðalpersónunni - þetta voru fyrstu alvöru kvikmyndaverðlaun Depp, eftir langan og litríkan leikferil. Það fór eins og flestir spáðu - hin franska Marion Cotillard hlaut gullhnöttinn fyrir túlkun sína á Edith Piaf. Cotillard verður Edith, ein besta söngkona 20. aldarinnar, með slíkum glans að vart verður leikið eftir. Með sannkölluðum töfrum færði hún Piaf ljóslifandi yfir á hvíta tjaldið; bæði sigra hennar og sorgir. Hún er sterkt óskarsefni.

Breska leikkonan Julie Christie hlaut, eins og flestum grunaði, leikkonuverðlaunin í dramatískri mynd, en hún var auðvitað stórfengleg í hlutverki Alzheimer-sjúklingsins Fionu, sem smám hverfur inn í annan heim, í myndinni Away From Her. Þetta er að mínu mati besta leikframmistaða Christie í áratugi; síðan að hún lék í Darling (sem hún hlaut óskarinn fyrir á sjöunda áratugnum), Doctor Zhivago og McCabe and Mrs. Miller. Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta í fyrsta skiptið sem hún vinnur gullhnöttinn. Christie hefur reyndar gefið í skyn að þetta hafi verið síðasta leikframmistaða sín á litríkum leikferli. Vonandi verður svo ekki.

Breski leikarinn Daniel Day-Lewis vann í dramaflokknum, er víst leiftrandi í hlutverki sínu í There Will Be Blood. Það er mynd sem mér hlakkar mjög til að sjá, hef ekkert heyrt nema lofsamlegt við hana. Sumir kvikmyndagagnrýnendur segja að þetta sé besta hlutverk hans síðan í My Left Foot fyrir tveim áratugum, en hann hlaut óskarinn fyrir þá rullu og var algjörlega frábær sem hinn fatlaði Christy Brown, sem gat aðeins hreyft vinstri fótinn og málaði með honum. Það er ein besta túlkun kvikmyndasögunnar að mínu mati, ótrúlega sönn og sterk. Day-Lewis velur jafnan hlutverk af kostgæfni, aðeins leikið í 25 myndum á ferlinum.

Spænski leikarinn Javier Bardem vann loksins alvöru kvikmyndaverðlaun í Hollywood, en hann hlaut aukaleikaraverðlaunin fyrir túlkun sína á Anton í No Country for Old Men, mynd Coen-bræðra. Það er kominn tími til að Hollywood heiðri Bardem, en hann hefur átt margar yndislegar leiktúlkanir; t.d. í Before Night Falls (sem hann hlaut óskarstilnefningu fyrir) og í The Sea Inside (Mar Adentro), en það er mynd sem heillaði mig gjörsamlega og ég varð eiginlega undrandi að hann fékk ekki tilnefningu til óskars fyrir hana, enda algjörlega frábær mynd. Það er góðs viti ef Bardem fær óskarinn, styð það heilshugar. Hefur unnið fyrir honum.

Cate Blanchett hlaut aukaleikkonuverðlaunin fyrir túlkun sína á rokkgoðinu Bob Dylan í I´m Not There. Var alla tíð viss um að hún hlyti verðlaunin og væntanlega á hún góðan séns á að fá sinn annan óskar líka fyrir rulluna, en hún hlaut verðlaunin fyrir þrem árum fyrir túlkun sína á bestu leikkonu kvikmyndasögunnar, Katharine Hepburn, í mynd meistara Scorsese, The Aviator. Hef ekki enn séð þessa mynd, en af klippum úr henni að dæma er hún að brillera sem Dylan. Þetta sýnir bara hvað hún er fjölhæf og góð leikkona - er að mínu mati ein sú besta í dag. Það var skandall að hún fékk ekki óskarinn á sínum tíma fyrir Elizabeth reyndar.

No Country for Old Men hlaut handritsverðlaunin, kemur ekki að óvörum enda eru þeir Coen-bræður algjörir snillingar og það verður gaman að sjá þessa mynd, sem ég hef ekkert heyrt nema jákvætt og gott um. Það kom skemmtilega á óvart að Julian Schnabel hlyti leikstjóraverðlaunin fyrir hina frönsku Le Scaphandre et le papillon (The Diving Bell and the Butterfly), sem hlaut verðlaunin sem besta erlenda mynd ársins. Þarf kannski varla að koma á óvart, þar sem gullhnötturinn er jú verðlaun erlendra blaðamanna í Hollywood. Hún hefur hlotið góða dóma og er ein þeirra fjölmörgu sem eru á leiðinni á klakann og eru áhugaverðar.

Sjónvarpsverðlaunin skiptust bróðurlega niður. Enginn einn afgerandi sigurvegari. Í dramaflokknum var Mad Men (ný þáttaröð sem ekki er enn komin á dagskrá hér á klakanum) valin besta þáttaröðin og í gamanflokknum hlaut Extras, með Ricky Gervais, verðlaunin, en hún hefur verið sýnd undir heitinu Aukaleikarar, í Ríkissjónvarpinu. Í dramahlutanum hlutu Jon Hamm (Mad Men) og Glenn Close (sem hefur farið á kostum og átt flotta endurkomu í Damages) leikverðlaunin en í gamanhlutanum unnu David Duchovny (Californiacation - vann Gervais) og Tina Fey (30 Rock) leikverðlaunin.

Í aukaleikaraflokknum í sjónvarpsþáttum unnu Jeremy Piven fyrir Entourage (skandall að gengið væri framhjá Andy Serkis í Longford að mínu mati) og Samantha Morton fyrir glæsilega túlkun í Longford. Fyrir leik í leikinni framhaldsmynd unnu Jim Broadbent (fyrir Longford) og Queen Latifah (fyrir Life Support) verðlaunin. Það vakti reyndar athygli mína að Sissy Spacek vann ekki fyrir leik sinn í Pictures of Hollis Woods, en margir höfðu spáð henni verðlaununum.

Heilt yfir er þetta allt þó mjög verðskuldað. Þetta gefur góðar vísbendingar fyrir Óskarinn, en fátt er þó öruggt. Tilnefningar til Óskarsverðlaunanna verða kynntar eftir rúma viku, þriðjudaginn 22. janúar og verðlaunin verða afhend 24. febrúar, að öllu óbreyttu. Kynnir óskarsins, Jon Stewart, mun forfallast standi verkfallið þá enn, enda í félagi handritshöfunda, og alls óvíst er að samið verði fyrir þann tíma. Afmælishátíðin er því í nokkurri óvissu, rétt eins og Gullhnötturinn.

En þetta var sérstök verðlaunaathöfn svo sannarlega, eftirminnileg fyrir okkur sem fylgjumst með kvikmyndabransanum og höfum gaman af að spá og spekúlera í þessu. Sérstakt að upplifa athöfn þar sem ekkert var eftir nema grunnurinn í sjálfu sér, tilkynning verðlauna. Mörgum fannst sviplaust að sjá leikverðlaunin fyrst eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum árið 2001 en þetta sló því öllu við. Það vonast flestir sennilega eftir glysinu næst.

mbl.is Golden Globe verðlaunin veitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegar jólamyndir

Um jólin er svo sannarlega viðeigandi að horfa á góðar úrvalsmyndir og sérstaklega við hæfi að horfa á góðar myndir sem fjalla um boðskap jólanna og eða bara létta og kæta hugarþelið. Nokkrar þeirra standa upp úr í mínum huga og hafa alla tíð gert. Fjalla ég um þær nú.



It´s a Wonderful LifeKvikmynd Frank Capra, It's a Wonderful Life er ein þekktasta fjölskyldumynd 20. aldarinnar, gleðigjafi fyrir alla heimsbyggðina allt frá frumsýningardegi. Sextug eðalmynd sem kemur manni ávallt í sannkallað jólaskap. Hér segir frá George Bailey sem eyðir ævi sinni í að fórna lífsdraumum sínum til að vinna í haginn fyrir bæinn sinn, Bedford Falls, og að lokum sér tækifæri sín renna í súginn. Myndin gerist á aðfangadag og horfir hann yfir ævi sína, komið er að tímamótum, hann er niðurbrotinn maður og til alls líklegur þegar jólahátíðin gengur í garð.

Hann er orðinn þreyttur á því hvaða stefnu líf hans hefur tekið og gæti gripið til örþrifaráða. Til bjargar kemur verndarengill hans, Clarence, til að reyna að sýna honum fram að án hans hefði bærinn aldrei verið samur og að hann á marga að, fjölskyldu og fjölda vina. Hann sýnir honum lífið eins og það hefði verið ef hann hefði aldrei komið til og vonast til að með því verði hægt að snúa hlutunum við. James Stewart á stórleik í hlutverki George, að mínu mati er þetta ein af allra bestu leikframmistöðum hans á glæsilegum ferli. Ennfremur fara Donna Reed, Lionel Barrymore, Thomas Mitchell, Beulah Bondi, Henry Travers og Ward Bond á kostum.

Myndin var tilnefnd til fimm óskarsverðlauna, þ.á m. sem mynd ársins, fyrir leikstjórn og leik Stewart. Ómótstæðilegt meistaraverk, sem á jafnt við árið 2007 og 1946; fyrir sex áratugum, er hún var frumsýnd. Sígildur boðskapurinn á alltaf við. Fastur partur á jólunum - ómissandi þáttur heilagra jóla að mínu mati.



Miracle on 34th StreetEin besta jólamynd allra tíma er hin sígilda kvikmynd George Seaton, Miracle on 34th Street. Segir frá því er gamall maður að nafni Kris Kringle, fer að vinna sem jólasveinn í stórmarkaði. Segist hann vera hinn eini sanni jólasveinn. Er hann þarmeð talinn galinn og hann verður að sanna hver hann er fyrir dómstólum. Einstaklega hugljúf mynd sem skartar Edmund Gwenn, Natalie Wood (rullan sem gerði hana að yndi heillar kynslóðar), Maureen O'Hara og Thelmu Ritter (í hlutverki mömmunnar sem gerði hana að stórstjörnu kómíkersins) í aðalhlutverkum.

Gwenn hlaut óskarinn 1947 fyrir magnaðan leik sinn í hlutverki hins hugljúfa manns - þetta var hlutverk ferils hans, eftirminnilegasta stund hans á hvíta tjaldinu. Og hann er yndislegur í rullunni. Þessi kemur alltaf í gott jólaskap, skylduáhorf að mínu mati á jólum. Myndin var endurgerð árið 1994. Þar voru Sir Richard Attenborough, Mara Wilson, Dylan McDermott og Elizabeth Perkins í aðalhlutverkum. Tókst vel upp, en stenst hinni eldri ekki snúning. Hún er alveg einstök.



Love ActuallyEin af bestu jólamyndum seinni tíma er hin óviðjafnanlega breska gamanmynd Love Actually. Hún hefur verið mér mjög kær allt frá því að ég sá hana fyrst í bíói fyrir fjórum árum, rétt fyrir jól. Þetta er í senn bæði ljúf og sykursæt mynd. Í aðalhlutverki eru Hugh Grant, Liam Neeson, Emma Thompson, Alan Rickman, Keira Knightley og Rowan Atkinson. Semsagt topplið breskra leikara. Þessi góða ástarsaga fjallar um átta mjög ólík pör í London rétt fyrir jól, sem glíma við ýmis vandamál í ástarlífinu.

Ástin er þemað í myndinni. Saga þessa ólíka fólks spinnst mjög skemmtilega saman í lok hennar. Mögnuð mynd sem ég mæli eindregið með. Er algjörlega fullkomin. Punkurinn yfir i-ið er flottur flutningur Billy Mack (í glæsilegri túlkun Bill Nighy) á laginu Christmas is all around (áður Love is all around með Wet, Wet, Wet). Þessi er alveg ómissandi yfir jólin seinni árin - verður svo væntanlega um ókomin ár!





Home AloneJólin verða ekki fullkomnuð fyrr en horft hefur verið á hinar ómótstæðilegu Home Alone I og II. Frábærar jólamyndir. Kevin McAllister er fyrir hin mestu mistök skilinn eftir einn heima á meðan að fjölskyldan er á leið í jólaleyfi til Parísar. Á meðan reyna tveir misheppnaðir þjófar sig að gera sig heimakomna heima hjá Kevin og stela þar öllu steini léttara. Kevin grípur til varna og reynir allt sem hann getur til að bjarga heimili sínu frá þjófunum. Sprenghlægileg og flott. Myndin sem gerði Macaulay Culkin að stjörnu. Joe Pesci og Daniel Stern eiga stórleik sem þjófarnir.



Í Home Alone 2 gerist hið sama að fjölskyldan gleymir Kevin, en í þetta skiptið verður hún viðskila við hann í flugstöðinni þar sem þau eru á leið til Flórída í jólaleyfi. Kevin tekur vitlausa vél og endar í New York, borg háhýsanna. Hann tékkar sig þar inn á Plaza, með öllum þeim mögnuðu tækifærum sem því fylgir. Á leið um borgina hittir hann þjófana sem reyndu allt sem þeir gátu til að ræna heimilið hans, en þeir eru þá sloppnir úr fangelsi. Þeir eiga harma að hefna gegn Kevin, sem ver sig með kjafti og klóm. Frábær kvikmynd. Culkin, Pesci og Stern í toppformi en senuþjófurinn er óskarsverðlaunaleikkonan Brenda Fricker í hlutverki hinnar kærleiksríku dúfnakonu. Báðar ómissandi um jólin.



National Lampoon´s Christmas VacationFastur hluti jólanna er svo auðvitað að sjá National Lampoon´s Christmas Vacation. Chevy Chase leikur fullkomnunarsinnann Clark Griswold enn eina ferðina. Að þessu sinni ætlar hann að gera fullkomnustu jól fjölskyldunnar fyrr og síðar að veruleika. Hann telur sig eiga von á hnausþykkum jólabónus sem kengur er í og leggur allt sitt í að skreyta húsið og gera allt sem best er nokkur möguleiki er að tryggja. Allt fer hinsvegar úrskeiðis sem getur mögulega gert það. Hápunkti nær það þegar að bróðir Clarks mætir með fjölskylduna og þá fyrst fer sælan að fara í vaskinn.

Þessi mynd er pottþétt. Gott dæmi um að plana ekki of mikið jólin að hætti fullkomnunar, heldur njóta þess sem maður á og gera gott úr lífinu. En þessi verður aldrei léleg. Sérstaklega fannst mér hún frábær þegar að ég dró hana fram nú skömmu eftir helgina. Fór endanlega í ekta gott jólaskap. Það ættu allir að geta hlegið frá sér allt vit og forpokaða skammdegisfýlu yfir þessari mögnuðu mynd.



Fleiri myndir mætti nefna t.d. Meet me in St. Louis (þar sem Judy Garland söng allra fyrst hið ódauðlega Have Yourself a Merry Little Christmas), Elf, Die Hard I og II (sem báðar gerast á jólahátíð), Bad Santa, Scrooge, A Christmas Story, How the Grinch Stole Christmas (1966-útgáfan), A Charlie Brown Christmas, A Christmas Carol, The Santa Clause, Frosty the Snowman, Surviving Christmas, The Shop Around the Corner (jamm vissulega ekki jólamynd en jólaandinn í lok myndarinnar er óviðjafnanlegur), The Ref, White Christmas, The Nightmare Before Christmas og Family Man.

Ef þið eigið uppáhaldsjólamynd, endilega kommenta þá hér með þær. Annars eigið þið öll vonandi góð bíójól og horfið á góðar myndir um jólin heima og í kvikmyndahúsum. Það er nóg af góðum myndum um jólin í bíó og í sjónvarpi. Sá t.d. að Stöð 2 ætlar að sýna Miracle on 34th Street og The Sound of Music um jólin.


Spennandi keppni um gullhnöttinn framundan

Tom Hanks og Julia Roberts í Charlie Wilson´s War Tilnefningar til Golden Globe-verðlaunanna voru kynntar í vikunni. Það stefnir í spennandi baráttu um gullhnöttinn - enginn virðist með afgerandi forskot, ólíkt í fyrra þegar að heildarmyndin var meira og minna ljós á þessum tímapunkti, hvað varðar leikverðlaunin hið minnsta. Atonement sem hefur hlotið góða dóma hlaut flestar tilnefningar, alls sjö. Charlie Wilson´s War, með Tom Hanks og Juliu Roberts, hlaut fimm og Michael Clayton, No Country for Old Men og Sweeney Todd eru allar með fjórar.

Það eru alls sjö kvikmyndir tilnefndar í dramaflokknum, sem er hið mesta í tvo áratugi, en jafnan eru fimm myndir tilnefndar. Fimm myndir eru sem fyrr tilnefndar sem besta gaman- og söngvamyndin. Það eru því alls tólf myndir sem berjast um hnossin tvö og það er því erfitt að segja nokkuð um hvernig landið liggur hvað varðar Óskarinn. Golden Globe hefur um árabil verið fyrirboði þess hvernig Óskarinn verði, en í ljósi mikils fjölda tilnefndra mynda er óhætt að segja að nokkur óvissa sé yfir hvaða myndir fái óskarstilnefningu í janúar, þó nokkrar myndir teljist vænlegri en aðrar.

Í fyrra vann Babel gullhnöttinn sem dramatíska mynd ársins en hlaut svo aðeins einn óskar og tapaði kapphlaupinu um bestu mynd fyrir The Departed. En það hafði vissulega verið lengi í kortunum að komið væri að sigurstund Martin Scorsese og hann átti það skilið, eftir að hafa verið sniðgenginn af akademíunni í Hollywood áratugum saman. Helen Mirren og Forest Whitaker drottnuðu yfir gullhnettinum í fyrra, og hlutu svo óskarinn, en Mirren hlaut reyndar tvo gullhnetti fyrir tæpu ári; fyrir að leika drottningarnar Elísabetu I og Elísabetu II. Nú er hinsvegar enginn með svo voldugt forskot. Leikaraflokkarnir sýnist mér vera nokkuð opnir.

Fljótt á litið myndi ég telja að allar dramatísku myndirnar ættu séns, þó er ólíklegast að Eastern Promises og The Great Debaters (í leikstjórn Denzel Washington) vinni. Þetta er galopin barátta. Hvað varðar gaman- og söngvamyndirnar eru Charlie Wilson´s War og Sweeney Todd ansi vænlegar báðar og Hairspray var virkilega góð. Myndi telja þær tvær fyrrnefndu sigurstranglegastar í þessum flokki. Fyrir leikstjórn eru reynsluboltar tilnefndir. Ridley Scott hefur aldrei unnið óskar eða gullhnött og verður áhugavert að sjá hvort að hann fær loksins verðlaun af þessu tagi, sem hann er greinilega að fiska eftir með American Gangster.

Í leikaraflokkunum er jöfn barátta svo sannarlega. Í dramahlutanum eru miklir risar; Daniel-Day Lewis, George Clooney, Viggo Mortensen og Denzel Washington tilnefndir með efnilegum nýliða James McAvoy sem ku víst eiga stórleik í Atonement. Varð reyndar nokkuð hissa á að McAvoy hlyti ekki meira lof fyrir leik sinn í The Last King of Scotland í fyrra, en hann féll algjörlega í skuggann á Forest Whitaker. Í gamanhlutanum hlýtur Johnny Depp að teljast ansi vænlegur kostur, þó sjaldan sé hægt að vanmeta sjálfan Tom Hanks.

Það eru miklar kjarnakonur tilnefndar fyrir leik. Í dramahlutanum hlýtur Julie Christie að teljast mjög vænleg til árangurs fyrir eftirminnilega túlkun sína á Fionu, alzheimer-sjúklingnum sem smám saman fjarlægist í annan heim, í Away From Her. Þessi mynd er auðvitað tær snilld, keypti mér hana um helgina og horfði á aftur. Christie á þarna bestu túlkun sína frá því í Darling og Dr. Zhivago fyrir rúmum fjórum áratugum, en hún vann óskarinn fyrir Darling sællar minningar. En þarna eru vissulega líka Jodie Foster, Angelina Jolie, Keira Knightley og Cate Blanchett. Held samt að Christie sé nokkuð örugg um verðlaunin.

Í gaman- og söngvamyndaflokknum er Marion Cotillard nokkuð örugg um sigur tel ég, þó ekki sé rétt að útiloka þær Amy Adams og Helenu Bonham Carter sem hafa fengið góða dóma fyrir túlkun sína. Cotillard varð hinsvegar Edith Piaf, ein besta söngkona 20. aldarinnar, með slíkum glans að ekki verður leikið eftir. Með sannkölluðum töfrum færir hún Piaf okkur ljóslifandi á hvíta tjaldið; bæði sigra hennar og sorgir. Piaf söng eins og engill í gegnum litríkt líf. Yrði mjög hissa ef Cotillard fengi ekki þessi verðlaun og ég tel er á hólminn kemur að þetta verði barátta hennar og Christie um leikkonuóskarinn.

Hvað varðar tilnefningar fyrir aukahlutverk er allt algjörlega opið. Sé engan afgerandi í forystu svosem; ólíkt aðalleikkonuflokkunum. Casey Affleck hefur verið að fá góða dóma fyrir túlkun sína á Robert Ford, morðingja útlagans Jesse James, Tom Wilkinson er auðvitað rock solid, sem jafnan fyrr í hlutverki Edens í Michael Clayton, Philip Seymour Hoffman er auðvitað í frábæru leikaraliði í Charlie Wilson´s War og myndin virðist pottþétt - hann veldur sjaldan vonbrigðum, John Travolta er skemmtilega ofvirkur í hlutverki mömmunnar í Hairspray og Javier Bardem er víst leiftrandi í No Country for Old Men.

Sama gildir svosem um aukaleikkonuflokkinn, þó ég telji að þar verði baráttan fyrst og fremst á milli Cate Blanchett og Juliu Roberts. Cate fór í gervi rokkgoðsins ódauðlega Bob Dylan í I´m Not There með slíkum tilþrifum að margir telja hana nær örugga um verðlaunin. Yrði ekki hissa þó að hún fengi gullhnött miðað við þær klippur sem ég hef séð. Julia á víst bestu túlkun sína frá því í Erin Brockovich í Charlie Wilson´s War. Tilda Swinton var pottþétt í Michael Clayton og hin þrettán ára Saoirse Ronan (sem ég hef aldrei séð áður) fer víst á kostum í Atonement. Amy Ryan man ég eftir úr Capote en hef ekki séð þessa túlkun hennar.

Fjalla ekkert um sjónvarpshlutann, en það er erfitt að spá um það svosem, oft hefur gæfan ein ráðið því hverjir vinna þar, en ekki bara besta efnið. Heilt yfir er þetta æsispennandi barátta sem er framundan um gullhnöttinn og fróðlegt að sjá hvernig fer. Bendi annars á tilnefningarnar (í heild sinni) til Golden-Globe verðlaunanna, en verðlaunin verða afhent í Los Angeles í 65. skiptið þann 13. janúar 2008.


Jodie staðfestir samkynhneigð sína

JodieÞað kemur engum að óvörum að óskarsverðlaunaleikkonan Jodie Foster staðfesti orðróm um samkynhneigð sína og ástarsambandið við Cydney Bernard. Það hefur verið óopinbert leyndarmál árum saman að hún sé samkynhneigð og sögusagnir af einkalífi hennar verið áberandi í umfjöllun um fræga fólkið í Hollywood. Jodie hefur staðið vörð um einkalíf sitt og ekki viljað tjá sig t.d. um það hver sé faðir barnanna hennar.

Jodie Foster hefur alla tíð verið ein af mínum uppáhaldsleikkonum. Hún er mjög öflug karakterleikkona og nær sterku valdi á þeim kventýpum sem hún túlkar og er hiklaust ein af allra bestu leikkonum sinnar kynslóðar. Enda hefur hún hlotið mörg verðlaun fyrir leik og hlaut t.d. óskarsverðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki tvisvar áður en hún náði þrítugsaldri; afrek sem seint verður sennilega slegið. Hún hefur verið ein af þeim bestu í bransanum allt frá því að hún var tólf ára gömul og brilleraði í Bugsy Malone, Freaky Friday og Taxi Driver, tímamótamyndinni frægu sem gerði hana heimsfræga.

Sterkasta leiktúlkun hennar á ferlinum hefur mér alla tíð þótt hlutverk alríkislöggunemans Clarice Starling í The Silence of the Lambs árið 1991. Það neistaði af henni þar í frábærum samleik með Sir Anthony Hopkins, sem var auðvitað rafmagnaður sem hin sálarsjúka mannæta dr. Hannibal Lecter. Bæði hlutu þau óskarinn og myndin er ein af þeim bestu á tíunda áratugnum - sannkölluð hasarreið frá upphafi til enda. Hún gerði Clarice klára en viðkvæma í senn. Sérlega flott túlkun á kjarnakonu. Það voru mikil vonbrigði að hún tók ekki þátt í Hannibal, beinu framhaldi myndarinnar áratug síðar. Julianne Moore, hin annars frábæra leikkona, náði ekki sama neistanum í hlutverki Clarice þar.

Jodie Foster sló fyrst virkilega í gegn í Taxi Driver á áttunda áratugnum. Var aðeins þrettán ára að mig minnir þá og var yndislega sönn sem vændiskonan Iris, sem Travis Bickle, í frábærri túlkun meistara Robert De Niro, reynir að bjarga úr eymdinni. Sú mynd er svört en yndisleg þrátt fyrir það. Ein besta mynd síns tíma og Jodie leikur stóran þátt í þeirri velgengni auk Roberts. Jodie komst á kortið þar og átti stórleik sem lengi verður í minnum hafður. Þegar að ég vil sjá sannkallað klassabíó set ég Taxi Driver í - stemmningin í henni er auðvitað engu lík. Allt fellur þar saman hjá Scorsese til að úr verði meistaraverk og yndislegt stef Herrmanns (hans síðasta verk) toppar allt.

Það var þó ekki fyrr en rúmum áratug síðar sem Jodie varð ein af stóru leikkonunum í Hollywood. Túlkun hennar á Söru Tobias í The Accused, sem er nauðgað með hrottalegum hætti á krá, er gjörsamlega magnþrungin. Það er ekkert annað orð til sem getur lýst þeirri upplifun að sjá myndina fyrst - þennan leiksigur Jodie. Hún hlaut fyrri óskarinn sinn fyrir þá túlkun og tókst meira að segja að slá þá við Meryl Streep, sem átti sama ár eina bestu leiktúlkun ferils síns, sem Lindy Chamberlain í A Cry in the Dark, móðurina sem var sökuð um að hafa myrt barnið sitt í Ástralíu og varð að sitja inni í sex ár áður en sakleysi hennar var loks staðfest með sönnunum.

Túlkun Jodie á Clarice The Silence of the Lambs krýndi hana sem eina stærstu leikkonu sinnar kynslóðar og hún hefur haldið þeim sess í gegnum árin. Hún hefur þó fleiri myndir á afrekaskránni en þessar þrjár. Hún túlkaði Nell yndislega á miðjum tíunda áratugnum og hélt öflugri mynd uppi með sláandi góðri túlkun. Ekki má gleyma myndinni Contact, en hún er flókið og ekki allra svosem, en túlkun hennar á Ellie er brilljans. Síðar hafa komið myndir á borð við Panic Room (hrá og mögnuð spenna sem heillaði mig algjörlega) og hún gerði hlutverk Meg Altman mjög bitastætt, Flightplan (yndisleg stæling á Hitchcock - Jodie leiftrar þarna) og Inside Man.

Fyrr á árinu var Jodie svo burðarás kvikmyndarinnar The Brave One - yndislega brútal og hörð þar, minnti svolítið á Michael Douglas í Falling Down í og með, en myndin hefur sterkan boðskap miðja vegu í grimmdinni. Það er reyndar það fyndnasta við Jodie á síðustu árum að hún er orðin fyrst og fremst hasarmyndahetja, í og með kvenkyns hetja á raunastund. Hefur þó alltaf verið kvenhetjan á hvíta tjaldinu og verður það eflaust áfram.

mbl.is Jodie staðfestir ástarsamband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

American Gangster

American GangsterMafíusögur hafa verið eitt áhugaverðasta kvikmyndaformið síðustu áratugina í Bandaríkjunum. Francis Ford Coppola og Martin Scorsese hafa leikið sér með þetta myndform betur en flestir aðrir og gert ógleymanlegar og svipmiklar myndir þar sem þessi heimur verður ljóslifandi. Nostrað hefur verið við eftirminnilegar persónur.

Trílógían um Corleone-fjölskylduna hlýtur að teljast eftirminnilegasta mafíusaga kvikmyndasögunnar, þar sem varla er stigið feilspor og hver myndrammi verður tær snilld. Meistaraleg útfærsla Scorsese á þessum heimi í Goodfellas, The Departed og Casino er rómuð og De Palma lék sér að þessu með brilljans í Scarface og The Untouchables.

Það eru vissulega tíðindi að Ridley Scott leiki sér að mafíuforminu með sínum hætti og fylgi í kjölfarið en hafi samt aðra sögu að segja og komi með enn eina nálgunina á viðfangsefnið. Held annars að Ridley Scott sé einn af gloppóttustu leikstjórum kvikmyndasögunnar. Hann hefur gert unaðsleg meistarastykki en svo jafnvel í kjölfarið komið með pínlega lélegar myndir, t.d. G.I. Jane. Síðasta stórvirki Scotts hlýtur að teljast skylmingaþrælsmyndin Gladiator, sem hlaut óskarinn sem besta myndin árið 2000. Scott sjálfum mistókst þó að hljóta leikstjóraóskarinn, enda löngum verið mjög umdeildur - tapaði honum til Steven Soderbergh sem vann þrátt fyrir að eiga tvær tilnefndar myndir þá.

Hafði beðið með tilhlökkun eftir American Gangster um nokkurn tíma. Þetta er hiklaust ein af bestu mafíumyndunum undanfarin ár, enda byggð á sannri sögu og er leiftrandi öflug. Segir frá Frank Lucas sem hefst til valda og áhrifa í mafíuheiminum í New York eftir dauða læriföður síns og vinnuveitenda
Bumpy Johnson. Lucas tryggir sig í sessi sem einn helsti innflytjandi heróíns í Harlem-hverfinu á Manhattan, með því að kaupa efnið frá kjörlendum í Suðaustur-Asíu. Hann flytur efnið til Bandaríkjanna með snilldarlegum hætti frá Víetnam í líkkistum hinna föllnu hetja stríðsins sögufræga. Flutningurinn til Bandaríkjanna hefur verið nefndur Cadaver connection.

Með þessu verður Lucas einn þeirra stærstu á strætunum í New York. Ekki aðeins eru gæðin góð heldur er verðið enn lægra til kaupenda á strætunum en áður hefur verið. Inn í sögu Lucas fléttist óneitanlega baráttan gegn fíkniefnum leidd af hinum strangheiðarlega Richie Roberts, sem ætlar sér að koma upp um dóphringina á strætum New York. Barátta Roberts við dóphring Frank Lucas tekur á sig ýmsar myndir, enda á hann í höggi við menn valda og áhrifa í skuggaheimunum, mann sem nuddað hefur sér utan í stjórnmálamenn og hina auðugu í öðrum geirum. Baráttan tekur á sig margar myndir. En Lucas kemst þó að því að vandi fylgir vegsemd hverri.

Denzel Washington er í fantagóðu formi sem mafíuhöfðinginn Frank Lucas og skilar bestu leikframmistöðu sinni frá því í Training Day, er hann varð annar blökkumaðurinn til að vinna óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki. Hann tjáir allan tilfinningaskalann í hlutverki hins skapheita og skarpgáfaða dópgoðs stræta New York-borgar. Lucas er enda í senn gáfaður eldhugi og vægðarlaus valdaguð mafíuheima með öllum þeim kaldrifjuðu töktum sem þarf til að haldast á toppnum. Washington sannar í eitt skipti fyrir öll að hann er besti þeldökki leikarinn á hvíta tjaldinu frá því að Sidney Poitier var og hét með sína manngæsku. Washington er snillingur í að túlka allar tegundir persóna.

Russell Crowe fór á kostum fyrr á árinu í hlutverki sínu í 3:10 to Yuma, þar sem hann sýndi á sér hlið hins vægðarlausa og siðlausa vestrahöfðingja. Nú snýr hann við blaðinu og túlkar af tærri snilld hlutverk hins heiðarlega rannsóknarlögreglumanns sem berst við hið illa og ætlar að velta við stórveldi mafíuheimanna, konungsríki hins þeldökka dópbaróns almúgans. Crowe hefur sýnt og sannað allt frá því að hann stimplaði sig inn í bransann sem einn þeirra stóru í L.A. Confidential að hann getur farið í allra kvikinda líki, bæði verið sá saklausi og gáfaði og ennfremur napur og vægðarlaus djöfull. Samleikur þessara tveggja höfðingja hvíta tjaldsins er leiftrandi góður.

Að mínu mati er Josh Brolin senuþjófur myndarinnar sem hin þrælspillta lögga Trupo. Það er hreinn unaður að fylgjast með hversu innilega sleazy kappinn verður í rullunni – verður svo mikill óþverri að annað eins hefur varla sést á síðustu árum. Brolin hefur í mínum bókum ekki verið sérstakur leikari. Það breyttist þó allsnarlega í þessari mynd. Brolin vinnur sinn langstærsta leiksigur til þessa og það verður áhugavert að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu fyrir. Í huga margra verður Cuba Gooding Jr. alltaf hinn eldskarpi peningaþyrsti íþróttakappi Rod Tidwell í Jerry Maguire, sem hann hlaut óskarinn fyrir. Cuba stendur sig mjög vel hina stuttu stund í hlutverki Nicky Barnes.

Það er heiðarlegt sjónarmið sem margir hafa komið fram með að Cuba skipti ekki lykilmáli í heildarmyndinni á sínum fáu andartökum í hlutverki Barnes en ég er ósammála því. Fannst hann standa sig vel, þó hefði vissulega mátt bæta meira kjöt á beinin og gera rulluna viðameiri. Chiwetal Ejifor er mjög trúanlegur í hlutverki Huey, bróður mafíuforingjans, og gerir gott úr því sem hann hefur að moða úr. Stóra rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað gamla brýnið Ruby Dee í hlutverki ættmóðurinnar Mama Lucas. Hún er alveg unaðsleg í þessu hlutverki og mikið innilega væri það nú sætt ef þessi aldna kjarnakona fengi óskarstilnefningu fyrir rulluna.

Ridley Scott hefur jafnan passað vel upp á að hið sjónræna komist til skila. Það bregst ekki í þessari miklu fjölskyldusögu frá New York; klippingin, hljóðið, myndatakan og tónlistin er upp á hið allra besta sem til er. Það má kannski velta því fyrir sér hvort hefði mátt fara lengra með söguefnið, hvort það séu lausir endar sem hefði mátt nostra betur við að klára til fulls. Þrátt fyrir það er þetta ein besta kvikmynd ársins. Mér finnst Scott sýna þarna allt hið besta sem hann hefur staðið fyrir í kvikmyndagerð. Kannski er tími hans kominn í Hollywood - stund viðurkenningar. Mun tilraun hans til að hrífa akademíuna takast núna?

Sem mikill unnandi mafíumynda var ég mjög sáttur. Scott er með verki sínu ekki að stæla allt hið gamla góða sem við þekkjum svo vel úr þessum geira kvikmyndagerðar; hvort sem það eru tragísk örlög hinnar magnþrungnu Corleone-ættar ala Coppola eða litríku mafíuverkin þeirra Scorsese og DePalma. Hann setur sitt mark á svipmikla sögu og gerir allt sitt besta til að nostra við hana – spinnur það áfram með sínum töktum. Kannski vantar myndina vott af lykilspennu en það ræður þó ekki úrslitum.

Í heildina er þetta mynd sem sannir mafíuunnendur verða hrifnir af, enda prýdd öllum lykilkostum slíkra mynda.




Kyntákn gerist ráðsettur fjölskyldafaðir

Brad Pitt Það er enginn vafi á því að Brad Pitt er eitt helsta kyntákn sinnar kynslóðar. Hann verður 44 ára síðar í þessum mánuði - er orðinn ráðsettur fjölskyldufaðir fjögurra barna. Það þarf því varla að koma að óvörum að hann breyti til og hætti að leika fáklæddur, vilji breyta um stíl. Hann varð heimsfrægur fyrir um tveim áratugum fyrir að túlka hinn útsmogna glaumgosaglæpamann J.D. í hinni frábæru Thelma and Louise, t.d. í frægu ástaratriði með Geenu Davis þar sem hann sýndi allt.

Brad hefur túlkað mjög ólíkar persónur á löngum leikferli og átt margar gullnar stundir á hvíta tjaldinu. Stundum hefur hann verið frekar fáklæddur og sýnt kroppinn með áberandi hætti. Sennilega var síðasta myndin af því tagi Troy fyrir nokkrum árum. Pitt hefur ennfremur leikið dramatísk hlutverk sem krefjast alvöru leiktúlkunar, án nektar, og hefur oft verið mjög góður. Persónulega hefur mér alltaf þótt bestu myndir hans vera Se7en og Fight Club, kvikmyndir meistarans David Fincher sem eru skemmtilega ólíkar en kröfðust alls af Pitt sem leikara.

Mér finnst yfirlýsing Pitt um nektina vera skemmtilega aðra nálgun á nútímann, þar sem nekt er orðin standard söluvara í kvikmyndum, tónlist og sjónvarpsþáttum - liggur við líka allt þar á milli í sviðsbransanum. Þetta er sterkt statement á þessum tímum þar sem flestir keppast við afhjúpa sig sem allra mest. En kannski er Pitt einfaldlega búinn með kvótann í þessum geira bransans. Það er kannski varla undur og stórmerki að maður á fimmtugsaldri breyti til með þessum hætti. En þetta eru samt tíðindi þegar að maður á borð við Brad Pitt á í hlut, enda hefur hann svo mikið auglýst sig með kynþokkanum.

Pitt mun brátt birtast kvikmyndaáhorfendum í endurgerð hinnar þekktu hasarmyndar Bullitt, sem skartaði Steve McQueen árið 1968. Steve McQueen var auðvitað stórstjarna á síns tíma mælikvarða. Hann á það sameiginlegt með Brad Pitt að vera myndræn stjarna með glans að nær öllu leyti. Hann hafði sjarma og glæsileika, gat túlkað bæði gaman sem drama á næman hátt. Hafði allan pakkann. McQueen var þó ekki bara sæti strákurinn á hvíta tjaldinu, hann gat bæði verið sá harði og mildi. Túlkaði bæði næmar týpur og eins rosalega nagla sem allir tóku eftir, gátu stungið hressilega. Að því leyti eru þeir tveir líkir.

Væntanlega eru kvenkyns aðdáendur Pitts ekkert sérlega ánægðir með ákvörðun Pitts, en þær geta þá bara horft á eldri myndir í staðinn.

Ein eftirminnilegasta sena kvikmyndaferils Pitts er uppgjörið í Seven. Um að gera að rifja það gullna augnablik upp hér.



mbl.is Aldrei aftur allsber Pitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðir án titils - karaktersigrar Nicole

Nicole KidmanÞað hefur jafnan verið svo að móðirin í lífi hvers einstaklings sé það sérstök að hún verðskuldi aðeins þann titil að vera móðir. Finnst jafnan mjög sérstakt og undarlegt þegar að fólk nefnir foreldra sína skírnarnafninu og lætur staðlaða titla mömmu og pabba lönd og leið. Þekki vissulega fólk sem hefur gert þetta og finnst það reyndar mjög spes. Mér myndi t.d. aldrei detta í hug að kalla mömmu öðru nafni en því.

Þetta er eðlilegra og sennilega mun algengara í þeim tilfellum að börn séu ættleidd. Þó hef ég marga þekkt sem kalla kjörforeldra sína mömmu og pabba, eiga enga aðra foreldra í huganum og myndu aldrei nefna þau öðrum nöfnum. Fannst hún skemmtilega sérstök þessi frétt um Nicole Kidman og börnin hennar tvö, sem hún ættleiddi með Tom Cruise. Hún hefur tvisvar misst fóstur, við upphaf og endi frægs sambands við Cruise, og er fertug ekki enn búin að eignast barn sjálf. 

Þó að Nicole Kidman hafi ekki enn verið kölluð mamma í prívatlífinu og ekki eignast börn hefur hún leikið mömmu á hvíta tjaldinu, t.d. í The Others. Það er ekki hægt að segja annað en að Nicole sé ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar. Hún hefur verið þekkt fyrir að setja sig vel inn í karakter þeirra sem hún leikur og undirbúa sig mjög vel. Það eru að verða tveir áratugir síðan að Nicole Kidman komst á kortið sem leikkona. Það var í kvikmyndinni Dead Calm árið 1989. Hún er án nokkurs vafa ein sterkasta kvikmyndin frá Eyjaálfu í seinni tíma kvikmyndasögu, ef Piano, er undanskilin.

Hún var byggð á frægri sögu Charles Williams, sem segir frá hjónum sem verða vör við mannlausa skútu á leið sinni. Ævintýri þeirra verða mikil og að því kemur að þau verða að berjast fyrir lífi sínu í grimmri baráttu. Það voru aðeins þrír leikarar að heita má í myndinni; Kidman, Sam Neill og Billy Zane, og hún var í senn bæði spennandi og dulúðug, flott blanda. Eftir það náði hún á toppinn og fékk þau tækifæri sem allar leikkonur dreymir um að eignast. Hún lék á móti Tom Cruise árið eftir í Days of Thunder og eitt umtalaðasta ástarsamband seinni tíma kvikmyndasögu hófst.

Þau léku saman í tveim öðrum myndum næsta áratuginn; vesturfaramyndinni Far and Away og hinni erótísku Eyes Wide Shut, sem varð síðasta kvikmynd snillingsins Stanley Kubrick. Flestir töldu fjölmiðlavænt samband Tom Cruise og Nicole Kidman skothelt í gegn, enda á yfirborðinu sterkt. Það sprakk þó í loft upp með hvössum fjölmiðlayfirlýsingum árið 2001, ári eftir að þau brostu í gegnum tárin saman þegar að Tom Cruise tapaði óskarnum enn eina ferðina, þá fyrir Sir Michael Caine. Skömmu síðar missti hún barn en vann sig frá því með því að leika í kvikmyndum og lék í einum átta til tíu á mjög skömmum tíma á því tímabili.



Á þeim árum varð Nicole Kidman mun sterkari í bransanum en Tom Cruise, sem hefur sigið nokkuð, en Kidman tókst fyrir nokkrum árum að vinna óskarinn, fyrir leik sinn á Virginiu Woolf í The Hours (sjá klippu hér ofar), sem var markmið Cruise alla tíð. Hún var þó ekki þokkadísin mikla í myndinni sem færði henni eftirsóttustu kvikmyndaverðlaun heims. Kidman setti á sig stórt gervinef og var nær óþekkjanleg og með hárið litað svart, að hætti Virginiu. Rauða hárið hefur verið eitt helsta vörumerki Nicole Kidman. Það varð sennilega eftirminnilegast í kvikmyndinni Moulin Rouge, þar sem hún brilleraði í hlutverki þokkadísarinnar Satine.

Hún hefur náð að túlka sterka kvenkaraktera með bravúr og nægir þar að nefna Suzanne í To Die For, Isabel í Portrait of a Lady, Grace í The Others (sem er reyndar með allra bestu draugamyndum og fléttu í kvikmyndum seinni ára), Silviu í The Interpreter, Ada í Cold Mountain, Anna í Birth, Grace í Dogville að ógleymdri Nadiu í Birthday Girl. Nýlega fitaði hún sig talsvert fyrir túlkun sína á Hönnu í The Reader.

En þrátt fyrir alla leiksigrana hefur hún ekki enn orðið mamman með stóru M-i í einkalífinu þrátt fyrir að hafa verið mamma t.d. í The Others. Móðir án titils verður kannski það eina sem hún kynnist því hlutskipti.



mbl.is Neita að kalla Kidman mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg kvöldstund með meistara spennunnar

Doris Day og James Stewart í The Man Who Knew Too Much Það var alveg yndislegt að horfa á kvikmynd meistara spennunnar, Sir Alfred Hitchcock, The Man Who Knew Too Much, í Sjónvarpinu í gærkvöldi - notaleg og góð kvöldstund fyrir okkur kvikmyndafíklana. Hún er ein af hinum litríku og eftirminnilegu kvikmyndum Hitchcocks á ferlinum, þar sem allir þættir skipta máli, allt hið sjónræna verður listaverk út af fyrir sig. Hitchcock var leikstjóri smáatriðanna, nostrað var við alla þætti. Þessi mynd ber öll merki þess.

Ferill Hitchcocks er auðvitað einstakur í kvikmyndasögunni. Hann er að mínu mati fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldarinnar. Hitch gerði myndir með atriðum sem enn eru stæld í dag, hann var myndrænn meistari, hugsaði um hvern myndramma og lék sér að áhorfendum með snilldarlegum hætti, eins og köttur að mús. Hann beitti tónlist til að ná fram spennu (eftirminnilegast varð það í Psycho þar sem lítið blóð en þess þá öflugri tónlist kallaði fram óhugnað) og fágaður húmor og framkoma er eitt helsta höfundarmerki hans.

Hitch var sannkallaður meistari spennumyndanna, snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir þar sem hver myndrammi verður í sjálfu sér snilld. Nokkur eftirminnileg atriði einkenna þessa mynd. Nægir þar að nefna atriðið frábæra, klímaxinn sjálfan, í Royal Albert Hall þar sem lokaspennan á sér stað. Í tólf mínútur er ekki sagt eitt einasta orð á meðan að reynt er að koma í veg fyrir morðið. Það er ekki fyrr en Doris Day öskrar að þögninni lýkur. Þögnin verður nöguð spennu allan tímann, enda er lokasenan byggð upp af skynsemi og til að halda áhorfendum vel spenntum.

Þögnin einkennist þó af hinni frábæru kantötu Arthur Benjamin, Storm Clouds, sem hljómaði í fyrri myndinni á sínum tíma. Tónlistarstjórinn er enginn annar en sjálfur Bernard Herrmann. Herrmann samdi að mínu mati eftirminnilegustu tónlistarverk í kvikmyndum Hitchcocks. Þar stendur auðvitað upp úr tónlistin í Psycho, sem er stingandi yndisleg, kemur í stað alls blóðs og byggir upp ógn sem er eiginlega einstök í kvikmyndasögunni. Svo má ekki gleyma tónlist Herrmanns í North By Northwest, sem fyllir upp í yndislega heildarmyndina, þar sem allt smellur saman, en hún er hiklaust ein besta kvikmynd sögunnar.

Hitchcock byggði oft upp yndislegar sögur þar sem sakleysingi lendir í aðstæðum sem hann ræður ekkert við en dregst inn í og verður að spila leik af leik, af fimni en mæta hættum allan tímann. Þetta kom best fram í myndunum Strangers on a Train (ein besta spennumynd sögunnar - meistaralega leikin, sérstaklega af Robert Walker sem var aldrei betri en í þessari síðustu rullu sinni) og í North by Northwest. En McKenna-hjónin eru samferða á leið sem þau geta ekki stólað á en reyna sitt besta til að ná yfirhöndinni. Þau verða táknmynd sakleysingjans fræga hjá Hitchcock enn eina ferðina og standa sig vel í því.

James Stewart og Doris Day glansa auðvitað í þessari mynd. Ekki þarf að fjölyrða um snilli Stewarts. Hann var einn besti leikari 20. aldarinnar og fáir voru betri en hann að leika sakleysingjann, að týpu Hitchcocks og um leið hafa samúð áhorfandans, enda mjög notalegur leikari með mikla nærveru og gat túlkað bæði skapbrigði og persónuleikabresti af brilljans. Stewart var einna bestur á ferlinum í annarri mynd Hitch, Rear Window, þar sem hann er myndina út í gegn í hjólastól, í gifsi og fylgist með nánasta umhverfi sínu í sjónkíki og sér of mikið. Það er ein af þessum myndum sem eru tær snilld frá upphaf til enda.

Doris Day var notaleg leik- og söngkona. Einhvernveginn táknmynd alls hins notalega, hafði bæða ljúfa nærveru og yndislega söngrödd. Hún var aldrei betri á ferlinum en á móti Rock Hudson í hinni sykursætu Pillow Talk árið 1960, en sú mynd er hættulega notaleg og er mannbætandi fyrir alla að horfa á. Doris var þó ekki mikið síðri í þessari mynd, þar sem hún nær að tóna Stewart vel. Stráknum þeirra er rænt og örvæntingin verður túlkuð af næmni og notalegheitum í senn, í bland við angistina sem fylgir. Doris er kannski of sykursæt fyrir rulluna, en á móti kemur að hún er fullkomin í hið sígilda ljóskuhlutverk hjá Hitch.

 

Rúsínan í pylsuendanum í myndinni er svo auðvitað hið undurljúfa lag Whatever Will Be, Will Be (Que Sera Sera), eitt eftirminnilega kvikmyndalag 20. aldarinnar. Þetta er án nokkurs vafa besta lag tónlistarferils Doris Day og það er mikil tilfinning í þessu lagi. Það passar vel inn í lokakafla myndarinnar, þar sem spennan er orðin allt að því óbærileg. Lagið hlaut óskarinn sem besta kvikmyndalagið á sínum tíma og hefur markað sér skref í tónlistarsögunni. Ávallt undurljúft og fagurt.

En þetta var notalegt kvöld með meistara spennunnar. Ætla að vona að Sjónvarpið haldi áfram að færa okkur sannar kvikmyndaperlur gamla tímans í Hollywood á næstunni. Meistaraverk kvikmyndasögunnar eiga nefnilega ávallt við, sérstaklega kvikmyndaverk Hitchcocks.

Þar sem ég veit að Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, er daglegur lesandi vefsins, vona ég að hann verði við þessari ósk minni, og eflaust fleiri sjónvarpsáhorfenda.


-----------

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um leikstjóraferil meistarans Sir Alfreds Hitchcocks bendi ég á leikstjórapistill minn um hann frá árinu 2003.

Deborah Kerr látin

Deborah KerrLeikkonan Deborah Kerr er látin, 86 ára að aldri. Kerr setti sterkan svip á kvikmyndasögu gullaldartímans í Hollywood og lék í fjöldamörgum stórmyndum á sínum leikferli og er ein af síðustu stórleikkonum þessa tíma sem kveður þennan heim. Deborah Kerr varð heimsþekkt fyrir túlkun sína á fáguðum og litríkum kvenpersónum hvíta tjaldsins, einkum á fimmta og sjötta áratugnum, jafnan í rómantískum kvikmyndum með mannlegu og notalegu yfirbragði og lék í um 50 kvikmyndum – varð m.a. Bond "stelpa" á fimmtugsaldri.

Deborah Kerr fæddist í Helensburgh (rétt við Glasgow) í Skotlandi árið 1921 og var skírð Deborah Jane Kerr-Trimmer. Deborah hóf ung feril sem balletdansari og kom fyrst fram á sviði í alvöru verki á miðjum fjórða áratugnum. Eftir nokkurra ára dansferil snerist hugur hennar til þess að koma sér á framfæri sem leikkona. Frænka hennar, Phyllis Smale, stjórnaði leiklistarskóla í Bristol og kveikti áhuga Deborah á að hún gæti átt framtíðina fyrir sér sem leikkona og ætti að horfa frekar til þess en dansins. Phyllis varð að sjálfsögðu fyrsti leiklistarkennari Deborah og hún hóf fyrstu skrefin út í frægðina undir hennar verndarvæng.

Frumraun Deborah sem leikkonu var árið 1940 í bresku kvikmyndinni Contraband, en hún lék í og með einnig á ferlinum oft á sviði. Öll atriði hennar voru klippt út úr myndinni er yfir lauk, sem olli Deborah gríðarlegum vonbrigðum. Hún fékk næst alvöru tækifæri tveim árum síðar í kvikmyndinni Hatter´s Castle, þar sem hún lék á móti James Mason og Robert Newton. Auk þess lék Deborah þrjú eftirminnileg kvenhlutverk í kvikmyndinni The Life and Death of Colonel Blimp árið 1943 og náði þá fyrstu alvöru athygli í bransanum. Myndin er mörgum gleymd en er ein af perlum hennar – eftir það náði hún hægt en örugglega á frægðarbrautina.

Ósvikinn fágaður breskur hreimur og glæsileiki urðu alla tíð aðalsmerki Deborah Kerr og hún hlaut æ fleiri hlutverk út á þá ímynd að vera hin fágaða kona glæsileikans og með þeim hætti var hún markaðssett nær alla tíð í Bandaríkjunum eftir að hún hóf leik þar af alvöru árið 1942 með Penn of Pennsylvania. Í kvikmyndunum I See a Dark Stranger og Perfect Strangers sjást þó væntanlega sterkust merki þessarar lykilímyndar Deborah í upphafi ferilsins sem fylgdi henni eftir það. Aðrar myndir þessa tíma eru t.d. Major Barbara og The Day Will Dawn, allar gerðar á stríðstímanum.

Stóra tækifæri Deborah á ferlinum kom árið 1947 er hún lék systur Clodagh í hinni óviðjafnanlegu kvikmynd Black Narcissus í leikstjórn Michael Powell og Emeric Pressburger, sem höfðu leikstýrt Deborah áður í The Life and Death of Colonel Blimp nokkrum árum áður. Stjarna var fædd að mati kvikmyndagagnrýnenda um gjörvöll Bandaríkin og Deborah Kerr voru allir vegir færir á listabrautinni – hafði tekist að ná til stóru kvikmyndaframleiðendanna. Hún lék t.d. bæði á móti Clark Gable í The Hucksters og Walter Pidgeon og Angelu Lansbury í If Winter Comes sama ár.

Deborah hlaut fyrstu tilnefningu sína til óskarsverðlaunanna árið 1949 fyrir öfluga túlkun sína á Evelyn í kvikmyndaútfærslu George Cukor á hinu kraftmikla leikverki Edward, My Son en það hafði slegið í gegn áður á Broadway. Hún glansaði í erfiðu hlutverki Evelyn á móti sjálfum Spencer Tracy sem átti þar ekki síðri leikframmistöðu. Í kjölfarið lék hún Alison í Please Believe Me, Elizabeth í hinni eftirminnilegu King Salomon´s Mines, Lygiu í hinni risavöxnu Quo Vadis (sem tók nokkur ár að gera), Flaviu prinsessu í The Prisoner of Zenda, Catherine í Young Bess og Effie í Dream Wife.

Deborah Kerr lék í einni eftirminnilegustu kvikmynd sinni árið 1953, From Here to Eternity, byggðri á þekktri samnefndri sögu James Jones. Hlutverk Karen Holmes var visst stílbrot hennar frá fyrri kvikmyndum og hún fetaði nýjar slóðir. Myndin þótti djörf á köflum á þess tíma mælikvarða, en sló eftirminnilega í gegn. Lýsir
herbúðalífi bandarískra hermanna á Hawaii, skömmu fyrir hina afdrifaríku árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941. Deborah lék ófullnægða eiginkonu yfirmanns í hernum sem á í ástarsambandi við undirmann hans, leiknum af Burt Lancaster.

Burt Lancaster og Deborah Kerr í From Here to Eternity

Ástríða þeirra er heit og eitt meginstefanna í myndinni. Í From Here to Eternity er reyndar eitt eftirminnilegasta atriði kvikmyndasögunnar; ástríðufullt faðmlag Deborah og Burt í hlutverkum Karen og Miltons í fjörunni með blossandi brimið í kringum þau. Að mínu mati var þetta öflugasta kvikmyndahlutverk Deborah og hún hlaut aðra óskarsverðlaunatilnefningu sína. Myndin hlaut óskarinn sem besta mynd ársins, fyrir leikstjórn Fred Zinnemann og sjarmörinn Frank Sinatra og Donna Reed hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Maggio og Ölmu. Myndin hlaut í heildina átta óskarsverðlaun og er ein sterkasta mynd sjötta áratugarins.

Árið 1956 náði Deborah einum hápunkta sinna á leikferlinum með túlkun sinni á ekkjunni Önnu Leonowens sem heldur til Síam til að verða kennslukona barna Mongkuts konungs. Myndin er ein rómaðasta dans- og söngvamynd kvikmyndasögunnar og þekkt fyrir glæsileika frá öllum hliðum og glæsilega túlkun Deborah (sem var tilnefnd til óskarsverðlauna í þriðja skiptið) og Yul Brynner, sem hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á Mongkut á hápunkti ferils síns. The King and I var endurgerð sem Anna and the King árið 1999 með Jodie Foster og Chow Yun-Fat í aðalhlutverki.

Deborah lék ennfremur Söruh Miles í The End of the Affair, byggðri á þekktri ástarsögu Graham Greene, á móti Van Johnson, sem var endurgerð hálfri öld síðar með Julianne Moore. Deborah var að margra mati aldrei betri en sem systir Angela í kvikmynd meistarans John Huston, Heaven Knows, Mr. Allison, árið 1957 og hlaut fyrir hana fjórðu óskarstilnefningu sína. Þar lék hún ein nær alla myndina í gegn á móti Robert Mitchum í hlutverki hermannsins sem nunnan er skipreka með á eyju í Kyrrahafinu. Mjög öflug kvikmynd, er stendur og fellur með glæsilegum leik og minnir að nokkru á aðra mynd Hustons, The African Queen.

Deborah Kerr í An Affair to Remember

Sama ár lék Deborah í hinni eftirminnilegu ástarsögu An Affair to Remember sem færð var í glæsilegan kvikmyndabúning leikstjórans Leo McCarey. Hún lék þar á móti Cary Grant. Segir frá glaumgosa og söngkonu sem kynnast á siglingu um heimsins höf og falla fyrir hvoru öðru. Þau ákveða að hittast nokkrum mánuðum síðar í turni Empire State-byggingarinnar. En sumt fer öðruvísi en ætlað er. Myndin hefur af mörgum verið nefnd eftirminnilegasta ástarsaga hvíta tjaldsins og hefur verið færð upp til skýjanna af þeim sem meta rósrauðar kvikmyndir. Var t.d. fyrirmynd Sleepless in Seattle á tíunda áratugnum.

Árið 1958 lék Deborah í stórfenglegri kvikmynd Delbert Mann, Separate Tables. Þar fór hún enn einu sinni á kostum, þá sem mömmustelpan ástsjúka Sybil sem fellur fyrir majórnum, leiknum af Sir David Niven. Separate Tables er ein af þessum sterku kvikmyndum síns tíma, full af glæsilegum leikframmistöðum og þar er stjarna í hverju hlutverki. Niven hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á majórnum og einnig Dame Wendy Hiller, sem var aldrei betri á löngum ferli sínum en sem Pat. Deborah hlaut fimmtu óskarstilnefningu sína fyrir leik sinn í myndinni.

Síðasta stórmynd Deborah Kerr á ferlinum var The Sundowners, kvikmynd leikstjórans Fred Zinnemann árið 1960. Þar fór hún enn og aftur á kostum, þá í hlutverki Idu Carmody. Þar léku hún og Robert Mitchum aftur saman, þá sem hjón sem lifa sveitalífinu á flakki og dreymir um að eignast eigin jörð og setjast að. Mjög eftirminnileg kvikmynd sem klikkar aldrei. Deborah hlaut sjöttu og síðustu óskarsverðlaunatilnefningu ferilsins fyrir að túlka hina jarðbundnu fjárhirðaeiginkonu. Á næstu árum lék hún í myndum á borð við The Naked Edge, The Chalk Garden, Marriage on the Rocks og The Night of the Iguana.

Frægðarsól Deborah Kerr hneig til viðar eftir því sem leið á sjöunda áratuginn. Árið 1967 náði hún þeim merka áfanga, undir lok leikferilsins, að verða Bond-stelpa, þá orðin 46 ára gömul, í hinni umdeildu en eftirminnilegu Casino Royale. Hún varð ekki ein hinna þekktu Bond-mynda Broccoli-fjölskyldunnar og því um margt allt öðruvísi. Þar lék Deborah bæði Mimi og lafði Fionu á móti Peter Sellers, Woody Allen, Ursulu Andress og mörgum fleiri þekktum leikurum. Casino Royale var þó gerð eftir sögu Ian Fleming en gekk ansi langt í absúrd-isma og var endurgerð mun fágaðri fjórum áratugum síðar með fyrsta ljóshærða Bondinum.

Deborah náði nýjum hæðum er hún kom fram nakin, í fyrsta og eina skiptið á löngum leikferli, í kvikmynd John Frankenheimer, The Gypsy Moths árið 1969. Samkeppnin við yngri leikkonurnar um krefjandi alvöru hlutverk var orðin erfið. Að því kom að hún ákvað að hætta kvikmyndaleik. Hún sneri aftur í ræturnar sínar, kom fram á sviði á Broadway í fjölda leikverka og birtist í sjónvarpsmyndum. Síðasta mynd hennar var sjónvarpsmyndin Hold the Dream árið 1986.

Deborah Kerr hlýtur heiðursóskarinn árið 1994Eins og fram hefur komið hlaut Deborah Kerr aldrei óskarsverðlaunin fyrir leik í kvikmynd, þrátt fyrir að vera af flestum talin ein þeirra bestu á 20. öld. Hún fór þar í flokk frægra leikkvenna og er sennilega ásamt Barböru Stanwyck og Thelmu Ritter hæfileikaríkasta leikkona 20. aldarinnar sem hlaut aldrei óskarinn, þrátt fyrir að vera tilnefnd sex sinnum (jafnoft og Thelma) fyrir ógleymanlegar túlkanir í sönnum stórmyndum.

Til að bæta fyrir það ákvað bandaríska kvikmyndaakademían að heiðra Deborah Kerr loks fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1994. Hún kom fram af glæsileika (felldi reyndar tár er hún var hyllt af viðstöddum) er hún tók við heiðursóskarnum og flutti smellna þakkarræðu. Þetta var síðasta stund hennar í glampa sviðsljóssins í Los Angeles – kveðjustund hennar eftir langan og litríkan leikferil sinn.

Deborah Kerr
lét sig að mestu hverfa úr sviðsljósinu eftir það. Síðustu æviárin barðist hún við Parkinson-sjúkdóminn og lifði kyrrlátu lífi síðustu árin fjarri skarkala umheimsins, í Suffolk í Bretlandi. Deborah var eins og fyrr segir glæsileg leikkona. Með henni er fallin í valinn ein af þeim leikkonum sem settu mestan svip á gullaldarsögu Hollywood um miðja 20. öldina.

The Brave One

The Brave One Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um spennumyndina The Brave One í leikstjórn Neil Jordan og með Jodie Foster, Terrence Howard, Nicky Katt, Naveen Andrews og Mary Steenburgen í aðalhlutverkum.


The Brave One

Hetjusögur hafa verið meginþema í kvikmyndum alla tíð, gildir þá einu hvort sögð er saga einstaklings sem lendir í aðstæðum sem það ræður ekki við og þarf að takast á við eða baráttu einfarans við sannkallað ofurefli á örlagastundu. Þær eru óteljandi kvikmyndirnar þar sem þetta hefur verið megingrunnur sögunnar og einnig hafa verið sterkar kvikmyndir byggðar á því þema að sterkar persónur missa tökin á baráttunni, grípa til óhefðbundinna aðferða sem verða hið tvíeggjaða sverð. Þessi grunnþema einkenna kvikmyndina The Brave One umfram allt.

Í The Brave One er sögð saga Ericu Bain, sem virðist lifa hinu hamingjusama og fullkomna einkalífi. Hún er í draumastarfinu og er ástfangin upp fyrir haus af draumaprinsinum. Allt ætti að vera heilt í gegn. En svo er ekki. Parið verður fyrir hrottalegri árás. Kærastinn deyr og Erica slasast lífshættulega, en lifir árásina þó af. En hún er ekki söm, dáin hið innra og á erfitt með að fóta sig frá áfallinu mikla sem hefur lagt líf hennar nær í rúst. Hún fær taugaáfall og lokar sig af. Að lokum fer það svo að Erica ákveður að leita hefnda vígbúin og til alls líkleg.

Að mörgu leyti minnir grunnur þessarar myndar mig á kvikmyndina Falling Down með Michael Douglas. Hún var svört, hvöss og ofbeldisfull. Hefnd mannsins sem stóð einn, var í eigin heimi og fannst að sér vegið. Kannski er saga Ericu í og með ekki alveg sú sama, en samt mjög sterk saga þar sem fetað er svipaða slóð. Í örvæntingu sinni verður Erica stórhættuleg, jafnvel hættulegri en þeir sem eyðilögðu líf hennar með árásinni. Erica lærir mikið með hefndinni en það er stundum svo að hefndin leysir ekki allan vanda og jafnvel gæti Erica endað mun verri en árásarmaðurinn.

The Brave One er fyrst og fremst kvikmynd Jodie Foster. Jodie gefur Ericu kraft og fyllingu – hún er auðvitað mjög sterk karakterleikkona og nær sterku valdi á þeim kventýpum sem hún túlkar og er hiklaust ein af allra bestu leikkonum sinnar kynslóðar. Enda hefur hún hlotið mörg verðlaun fyrir leik og hlaut t.d. óskarsverðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki tvisvar áður en hún náði þrítugsaldri; afrek sem seint verður sennilega slegið, fyrir túlkun sína á Söruh Tobias í The Accused árið 1988 og Clarice Starling í The Silence of the Lambs árið 1991.

Írinn Neil Jordan er einn besti leikstjóri sinnar kynslóðar. Hann sló eftirminnilega í gegn fyrir fimmtán árum þegar að hann gerði hina stórfenglegu The Crying Game. Jordan hlaut óskarinn fyrir handritið í myndinni og var tilnefndur til leikstjóraverðlaunanna og myndin tilnefnd sem ein hinna bestu árið 1992. Að auki á hann að baki myndir á borð við Interview with the Vampire, The End of the Affair og Michael Collins. Hann hefur verið umdeildur leikstjóri, getað stuðað en vakið með því athygli kvikmyndaáhugamanna. Í The Brave One fetar hann enn nýja slóð að vissu leyti.

Þó að Jodie gnæfi yfir allt í þessari mynd, sem sýnir hana sem kraftmikla hasarhetju eins og í Flightplan og Panic Room, þá er hún ekki ein á skjánum vissulega. Aðrir eiga sínar stundir. Nicky Katt og Terrence Howard standa sig vel í hlutverki lögreglumannanna, Mercer og Vitale. Naveen Andrews gerir mjög gott úr rullu kærastans Davids og Mary Steenburgen er flott sem Carol. En þetta er sterk mynd um eina persónu. Sem slík stendur hún og fellur með túlkun aðalleikarans. Jodie á sína bestu túlkun í kvikmynd árum saman og sýnir og sannar enn og aftur styrk sinn í bransanum.

Í heildina er The Brave One ekta spennumynd með sterkum sálrænum undirtón, baráttu einstaklings gegn hinu illu sem verður tvíeggjuð er yfir lýkur. Verður á stundum beitt og snarkandi hörð, en samt sem áður sterk í gegn. Þeir sem meta leikkonuna mikils og vilja ekta spennu með sálrænum hápunktum innri átaka verða ánægðir með útkomuna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband