American Gangster

American GangsterMafíusögur hafa verið eitt áhugaverðasta kvikmyndaformið síðustu áratugina í Bandaríkjunum. Francis Ford Coppola og Martin Scorsese hafa leikið sér með þetta myndform betur en flestir aðrir og gert ógleymanlegar og svipmiklar myndir þar sem þessi heimur verður ljóslifandi. Nostrað hefur verið við eftirminnilegar persónur.

Trílógían um Corleone-fjölskylduna hlýtur að teljast eftirminnilegasta mafíusaga kvikmyndasögunnar, þar sem varla er stigið feilspor og hver myndrammi verður tær snilld. Meistaraleg útfærsla Scorsese á þessum heimi í Goodfellas, The Departed og Casino er rómuð og De Palma lék sér að þessu með brilljans í Scarface og The Untouchables.

Það eru vissulega tíðindi að Ridley Scott leiki sér að mafíuforminu með sínum hætti og fylgi í kjölfarið en hafi samt aðra sögu að segja og komi með enn eina nálgunina á viðfangsefnið. Held annars að Ridley Scott sé einn af gloppóttustu leikstjórum kvikmyndasögunnar. Hann hefur gert unaðsleg meistarastykki en svo jafnvel í kjölfarið komið með pínlega lélegar myndir, t.d. G.I. Jane. Síðasta stórvirki Scotts hlýtur að teljast skylmingaþrælsmyndin Gladiator, sem hlaut óskarinn sem besta myndin árið 2000. Scott sjálfum mistókst þó að hljóta leikstjóraóskarinn, enda löngum verið mjög umdeildur - tapaði honum til Steven Soderbergh sem vann þrátt fyrir að eiga tvær tilnefndar myndir þá.

Hafði beðið með tilhlökkun eftir American Gangster um nokkurn tíma. Þetta er hiklaust ein af bestu mafíumyndunum undanfarin ár, enda byggð á sannri sögu og er leiftrandi öflug. Segir frá Frank Lucas sem hefst til valda og áhrifa í mafíuheiminum í New York eftir dauða læriföður síns og vinnuveitenda
Bumpy Johnson. Lucas tryggir sig í sessi sem einn helsti innflytjandi heróíns í Harlem-hverfinu á Manhattan, með því að kaupa efnið frá kjörlendum í Suðaustur-Asíu. Hann flytur efnið til Bandaríkjanna með snilldarlegum hætti frá Víetnam í líkkistum hinna föllnu hetja stríðsins sögufræga. Flutningurinn til Bandaríkjanna hefur verið nefndur Cadaver connection.

Með þessu verður Lucas einn þeirra stærstu á strætunum í New York. Ekki aðeins eru gæðin góð heldur er verðið enn lægra til kaupenda á strætunum en áður hefur verið. Inn í sögu Lucas fléttist óneitanlega baráttan gegn fíkniefnum leidd af hinum strangheiðarlega Richie Roberts, sem ætlar sér að koma upp um dóphringina á strætum New York. Barátta Roberts við dóphring Frank Lucas tekur á sig ýmsar myndir, enda á hann í höggi við menn valda og áhrifa í skuggaheimunum, mann sem nuddað hefur sér utan í stjórnmálamenn og hina auðugu í öðrum geirum. Baráttan tekur á sig margar myndir. En Lucas kemst þó að því að vandi fylgir vegsemd hverri.

Denzel Washington er í fantagóðu formi sem mafíuhöfðinginn Frank Lucas og skilar bestu leikframmistöðu sinni frá því í Training Day, er hann varð annar blökkumaðurinn til að vinna óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki. Hann tjáir allan tilfinningaskalann í hlutverki hins skapheita og skarpgáfaða dópgoðs stræta New York-borgar. Lucas er enda í senn gáfaður eldhugi og vægðarlaus valdaguð mafíuheima með öllum þeim kaldrifjuðu töktum sem þarf til að haldast á toppnum. Washington sannar í eitt skipti fyrir öll að hann er besti þeldökki leikarinn á hvíta tjaldinu frá því að Sidney Poitier var og hét með sína manngæsku. Washington er snillingur í að túlka allar tegundir persóna.

Russell Crowe fór á kostum fyrr á árinu í hlutverki sínu í 3:10 to Yuma, þar sem hann sýndi á sér hlið hins vægðarlausa og siðlausa vestrahöfðingja. Nú snýr hann við blaðinu og túlkar af tærri snilld hlutverk hins heiðarlega rannsóknarlögreglumanns sem berst við hið illa og ætlar að velta við stórveldi mafíuheimanna, konungsríki hins þeldökka dópbaróns almúgans. Crowe hefur sýnt og sannað allt frá því að hann stimplaði sig inn í bransann sem einn þeirra stóru í L.A. Confidential að hann getur farið í allra kvikinda líki, bæði verið sá saklausi og gáfaði og ennfremur napur og vægðarlaus djöfull. Samleikur þessara tveggja höfðingja hvíta tjaldsins er leiftrandi góður.

Að mínu mati er Josh Brolin senuþjófur myndarinnar sem hin þrælspillta lögga Trupo. Það er hreinn unaður að fylgjast með hversu innilega sleazy kappinn verður í rullunni – verður svo mikill óþverri að annað eins hefur varla sést á síðustu árum. Brolin hefur í mínum bókum ekki verið sérstakur leikari. Það breyttist þó allsnarlega í þessari mynd. Brolin vinnur sinn langstærsta leiksigur til þessa og það verður áhugavert að sjá hvort hann fær óskarsverðlaunatilnefningu fyrir. Í huga margra verður Cuba Gooding Jr. alltaf hinn eldskarpi peningaþyrsti íþróttakappi Rod Tidwell í Jerry Maguire, sem hann hlaut óskarinn fyrir. Cuba stendur sig mjög vel hina stuttu stund í hlutverki Nicky Barnes.

Það er heiðarlegt sjónarmið sem margir hafa komið fram með að Cuba skipti ekki lykilmáli í heildarmyndinni á sínum fáu andartökum í hlutverki Barnes en ég er ósammála því. Fannst hann standa sig vel, þó hefði vissulega mátt bæta meira kjöt á beinin og gera rulluna viðameiri. Chiwetal Ejifor er mjög trúanlegur í hlutverki Huey, bróður mafíuforingjans, og gerir gott úr því sem hann hefur að moða úr. Stóra rúsínan í pylsuendanum er svo auðvitað gamla brýnið Ruby Dee í hlutverki ættmóðurinnar Mama Lucas. Hún er alveg unaðsleg í þessu hlutverki og mikið innilega væri það nú sætt ef þessi aldna kjarnakona fengi óskarstilnefningu fyrir rulluna.

Ridley Scott hefur jafnan passað vel upp á að hið sjónræna komist til skila. Það bregst ekki í þessari miklu fjölskyldusögu frá New York; klippingin, hljóðið, myndatakan og tónlistin er upp á hið allra besta sem til er. Það má kannski velta því fyrir sér hvort hefði mátt fara lengra með söguefnið, hvort það séu lausir endar sem hefði mátt nostra betur við að klára til fulls. Þrátt fyrir það er þetta ein besta kvikmynd ársins. Mér finnst Scott sýna þarna allt hið besta sem hann hefur staðið fyrir í kvikmyndagerð. Kannski er tími hans kominn í Hollywood - stund viðurkenningar. Mun tilraun hans til að hrífa akademíuna takast núna?

Sem mikill unnandi mafíumynda var ég mjög sáttur. Scott er með verki sínu ekki að stæla allt hið gamla góða sem við þekkjum svo vel úr þessum geira kvikmyndagerðar; hvort sem það eru tragísk örlög hinnar magnþrungnu Corleone-ættar ala Coppola eða litríku mafíuverkin þeirra Scorsese og DePalma. Hann setur sitt mark á svipmikla sögu og gerir allt sitt besta til að nostra við hana – spinnur það áfram með sínum töktum. Kannski vantar myndina vott af lykilspennu en það ræður þó ekki úrslitum.

Í heildina er þetta mynd sem sannir mafíuunnendur verða hrifnir af, enda prýdd öllum lykilkostum slíkra mynda.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband