Færsluflokkur: Kvikmyndir
25.2.2008 | 02:40
Javier Bardem hlýtur aukaleikaraóskarinn
Bardem er alveg nístandi hrollvekjandi í hlutverki sínu í myndinni, er alveg ískaldur í gegn í drápunum og fer á þvílíkt flug í þessum karakter. Hárgreiðslan er líka svakaleg alveg. Hann verður svo nöturlegur í rullunni. Þegar að ég sá fyrstu klippurnar af Bardem í þessu hlutverki var ég viss um að hann myndi fá óskarinn. Hann hefur verið þekktur fyrir svipmikla karaktera alla tíð, en þessi er alveg magnaður. Gleymist engum sem sjá myndina.
Man fyrst eftir Bardem í La Madre, spænskri mynd frá árinu 1995, en svo var það auðvitað í Before Night Falls sem hann varð loksins heimsfrægur. Besta leiktúlkun hans finnst mér þó vera eftirminnileg tjáning hans á Ramón í The Sea Inside (Mar Adentro), en það er mynd sem heillaði mig gjörsamlega upp úr skónum og ég varð eiginlega undrandi að hann fékk ekki tilnefningu til óskars fyrir hana, enda algjörlega frábær mynd. Hann var líka góður í Collateral
Það var eiginlega varla vafi á að Bardem myndi sigra. Það var helst að litið var á Philip Seymour Hoffman og Casey Affleck sem keppinauta, en þetta er árið hans Bardems og sigurinn verðskuldaður. Þetta er líka í fyrsta skiptið sem spænskur leikari vinnur óskarinn. Merkilegur áfangi það.
Það er spenna yfir óskarsverðlaunaafhendingunni. Framundan eru stærstu flokkarnir, þegar að tækni- og umgjörðarverðlaunum kvikmyndanna lýkur. Það er góðs viti fyrir No Country for Old Men og Coen-bræður að Bardem hafi unnið og fróðlegt að sjá hvort hún taki kvöldið.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 02:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2008 | 01:51
Óskarsverðlaunahátíðin hafin í Los Angeles
Jon Stewart byrjaði afmælishátíð óskarsins vel áðan; fínir brandarar, bæði pólitískir og showbiz-legir eins og við er að búast á hátíðinni og það á kosningaári þegar að nýr forseti Bandaríkjanna verður kjörinn. Hann gerði góðlátlegt grín að gyðingum og leikurum. Stewart er að kynna óskarinn í annað skiptið að þessu sinni.
Þó að hann sé góður er Stewart aðeins skugginn af Billy Crystal, sem er sá besti síðustu áratugina. Því miður hefur hann ekki ljáð máls á að kynna óskarinn núna í ein fjögur ár og flestir vildu fá hann á afmælishátíðina. Hann Stewart er ekki heldur betri en Ellen, sem kynnti í fyrra og stóð sig fantavel.
Þetta verður skemmtileg nótt; afmælisbragur yfir óskarnum og nóg um að skrifa þegar að stóru verðlaunin fara að detta inn. Sum þykja fyrirsjánleg, önnur ekki og fróðlegt að sjá hvernig fer. Svo er að aldrei að vita nema að þetta komi okkur allt að óvörum. Þess eru dæmi. Daniel Day-Lewis og Javier Bardem eru þó traustustu veðmál kvöldsins.
Tel að mesta spennan sé um leikkkonuflokkana, sérstaklega hvað varðar aukaleikkonuna, en þar hefur allt að þrem verið spáð sigri með traustum hætti að mati hvers og eins. Sama gildir um leikkonuflokkinn, þó flestir telji Julie Christie örugga. Spennandi að sjá svo hvort þetta verði Coen-nótt. Ræðst allt á eftir!!
Svo er kominn nýr kynnir á Óskarnum hérna heima. Ívar Guðmundsson á Bylgjunni bara hættur að kynna eftir ein tólf eða þrettán ár. Minnir að Ívar hafi byrjað að kynna á óskarsverðlaunahátíðinni 1996, þegar að Braveheart vann auk Nicolas Cage og Susan Sarandon. Langur tími að baki.
Þorfinnur Ómarsson er kominn í staðinn en hann er svosem ágætur. Var samt orðinn frekar vanur Ívari sem kynni. Vona að Þorfinnur standi sig vel bara, hann er ágætur í pásunum en virðist ekki kjafta ofan í allt eins og sumir sem taka þetta að sér. Það er gersamlega óþolandi!
En já, spennandi nótt. Nóg framundan og spennan magnast.... Verði fjör!
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2008 | 23:39
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2008
Óskarsverðlaunin verða afhent í 80. skiptið í Los Angeles í nótt. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman.
Ég ætla hér og nú að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Þetta verður vonandi spennandi og góð nótt.
Kvikmynd ársins
Atonement
Juno
Michael Clayton
No Country for Old Men
There Will Be Blood
Pælingar: Einn jafnasti kvikmyndaflokkurinn í um þrjá áratugi. Allt frábærar myndir og mjög sigurstranglegar. Atonement er
heilsteypt og vönduð kvikmyndaútfærsla á frægri skáldsögu Ian McEwan. Juno er hrífandi og persónuleg mynd um týpísk vandamál venjulegrar fjölskyldu. Michael Clayton er traust og góð lagaleg stúdía. No Country For Old Men er stórfengleg eðalmynd frá Coen-bræðrum með mikilli fyllingu. There Will Be Blood er vönduð og kjarnmikil fjölskyldusaga eins og þær gerast bestar.
Spá: Veðja á að No Country for Old Men fái óskarinn. Var sú mynd sem mér fannst pottþéttust sem kvikmyndaáhugamaður. Hafði einfaldlega allt, heildarpakkinn pottþéttur. There Will Be Blood og Juno eiga þó séns, sú fyrri er auðvitað algjör eðall, pottþétt að öllu leyti, sú seinni hittir alla beint í hjartastað, enda mannbætandi og traust. Juno myndi klárlega vinna ef þetta væru áhugamannaverðlaun.
Leikstjóri ársins
Paul Thomas Anderson - There Will Be Blood
Ethan Coen og Joel Coen - No Country for Old Men
Tony Gilroy - Michael Clayton
Jason Reitman - Juno
Julian Schnabel - Le Scaphandre et le papillon
Óskarssaga tilnefndra: Enginn tilnefndra unnið óskarinn áður.
Pælingar: Fimm traustir leikstjórar með pottþéttar myndir. Anderson hefur verið í algjörum sérflokki ungra leikstjóra að mínu mati eftir Boogie Nights og Magnolia - traustar og góðar eðalmyndir sem voru í senn ferskar og traustar. Hann fléttar fjölskyldusöguna með algjörum brilljans í There Will Be Blood. Coen-bræður klikka aldrei. Raising Arizona, Fargo og The Big Lebowski auk fleiri eðalmynda - þurfum ekki að ræða það meira. Þeir eru alltaf traustir. Gilroy setti lagadramað í Michael Clayton saman með traustum og vönduðum hætti í leikstjórafrumraun sinni. Reitman gerir góða hluti í Juno, þvílík elska þessi mynd. Schnabel er snillingur, loksins er hann tilnefndur!
Spá: Það er fyrir löngu kominn tími til að Coen-bræður, þeir miklu kvikmyndasnillingar, fái óskarinn. Vona að þetta verði árið þeirra. Þeir eiga það skilið!
Leikari í aðalhlutverki
George Clooney - Michael Clayton
Daniel Day-Lewis - There Will Be Blood
Johnny Depp - Sweeney Todd
Tommy Lee Jones - In the Valley of Elah
Viggo Mortensen - Eastern Promises
Óskarssaga tilnefndra: George Clooney hlaut aukaleikaraóskarinn árið 2006 fyrir Syriana - Daniel Day-Lewis hlaut aðalleikaraóskarinn fyrir My Left Foot árið 1989 - Tommy Lee Jones hlaut aukaleikaraóskarinn fyrir The Fugitive árið 1993.
Pælingar: Fimm flottir aðalleikarar þarna á ferð. George Clooney á eina bestu stund ferilsins í Michael Clayton. Flott mynd og glæsileg túlkun. Daniel Day-Lewis er traustur sem ávallt fyrr í There Will Blood - þvílík snilld hjá kappanum. Tekur aldrei að sér myndir nema að þar sé allt fullkomið. Hans besta frá því í My Left Foot, sem var einn mesti leiksigur síðustu áratuga nota bene. Johnny Deep klikkar aldrei - er traustur og góður í Sweeney Todd. Löngu kominn tími til að hann vinni, en þetta verður því miður ekki árið hans. Tommy Lee Jones hlýtur óvænt tilnefningu, en er sagður eiga fína takta í rullunni. Mortensen var pottþéttur í Eastern Promises.
Spá: Daniel Day-Lewis mun vinna óskarinn. Þurfum ekki að ræða það meira. Pottþéttara verður það varla en það. Þó að Depp hefði átt óskarinn skilið nú er þetta ekki hans sigurstund.
Leikkona í aðalhlutverki
Cate Blanchett - Elizabeth: The Golden Age
Julie Christie - Away from Her
Marion Cotillard - La Vie en Rose
Laura Linney - The Savages
Ellen Page - Juno
Óskarssaga tilnefndra: Cate Blanchett hlaut aukaleikkonuóskarinn fyrir The Aviator árið 2004 - Julie Christie hlaut aðalleikkonuóskarinn fyrir Darling árið 1965.
Pælingar: Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Blanchett leikur eftir árangur sinn fyrir áratug er hún var tilnefnd fyrir fyrri myndina um Elísabetu I og markar þessari sögufrægu drottningu aftur sess á óskarnum. Christie er sem ávallt fyrr stórbrotin og óviðjafnanleg, nú sem hin Alzheimer-veika Fiona í glæsilegri leikframmistöðu. Cotillard verður ein besta söngkona 20. aldarinnar, hin franska Edith Piaf, í glæsilegri leikframmistöðu. Linney er mjög góð í The Savages og bætir einni góðri túlkun í safnið sitt. Page er algjörlega yndisleg sem Juno, hin ófríska sextán ára stelpa á krossgötum lífsins - stjarna er fædd þarna!
Spá: Þetta er barátta milli Christie, Cotillard og Page. Allar frábærar. Spái því að Julie Christie fái verðlaunin. Það eru 42 ár síðan að hún var ung og heillandi og vann óvænt fyrir pottþétta túlkun í hinni traustu mynd Darling, sællar minningar, og kominn tími til að hún fái aftur verðlaunin. Cotillard gæti fengið þetta, enda góð sem Piaf, og Page er ung og heillandi stjarna sem á sterka möguleika, en á allan ferilinn framundan.
Leikari í aukahlutverki
Casey Affleck - The Assassination of Jesse James
Javier Bardem - No Country for Old Men
Philip Seymour Hoffman - Charlie Wilson's War
Hal Holbrook - Into the Wild
Tom Wilkinson - Michael Clayton
Óskarssaga tilnefndra: Philip Seymour Hoffman hlaut aðalleikaraóskarinn fyrir Capote árið 2005.
Pælingar: Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Affleck markar sér stöðu sem alvöru stjarna en ekki aðeins sem bróðir Ben Affleck með sinni glæsilegu túlkun. Javier Bardem er sem ávallt fyrr listagóður og á flotta túlkun sem hinn vægðarlausi leigumorðingi Anton í No Country For Old Men, algjörlega frábær og ógleymanlegur í þessari rullu. Hoffman er alltaf traustur og á enn eina stjörnuframmistöðuna. Hinn 83 ára gamli Holbrook verður elsti tilnefndi karlmaðurinn fyrir leik og löngu kominn tími til að hann fái tilnefningu. Traustur sem ávallt fyrr. Wilkinson er einn besti leikari Breta - frábær sem lögfræðingurinn Edens.
Spá: Javier Bardem mun vinna - alveg pottþétt. Og hann á það skilið. Þvílíkur skandall að hann var ekki tilnefndur fyrir leiksigurinn í The Sea Inside á sínum tíma. En þetta verður hans sigurstund klárlega.
Leikkona í aukahlutverki
Cate Blanchett - I'm Not There
Ruby Dee - American Gangster
Saoirse Ronan - Atonement
Amy Ryan - Gone Baby Gone
Tilda Swinton - Michael Clayton
Óskarssaga tilnefndra: Cate Blanchett hlaut aukaleikkonuóskarinn fyrir The Aviator árið 2004.
Pælingar: Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum góðu kvikmyndum. Blanchett er eftirlæti óskarsins þetta árið, fær tvær tilnefningar - algjörlega yndisleg sem rokkgoðið Bob Dylan, þvílík túlkun. Þetta er ein besta leikkonan í bransanum í dag, segi ég og skrifa. Dee var traust og góð sem ættmóðirin Mama Lucas í American Gangster - 83 ára gömul er hún sú elsta sem hefur verið tilnefnd til verðlaunanna. Ungstirnið Ronan er glettilega góð í Atonement - þessi á eftir að gera það gott. Amy Ryan brillerar í Gone Baby Gone og Tilda Swinton er traust í Michael Clayton.
Spá: Mér finnst að Amy Ryan ætti að fá verðlaunin. Hún var svo innilega góð í Gone Baby Gone. Á móti kemur að Blanchett er stjarna óskarsins þetta árið. En það eru aðeins þrjú ár síðan að hún vann verðlaunin og er því ekki beint í bið eftir styttu. En hún var svo traust sem Dylan, á mjög sterka möguleika. Svo myndi það verða innilega sætt ef Dee myndi vinna og marka söguna sem elsti sigurvegari óskarsins fyrir leik fyrr og síðar.
Góða skemmtun í nótt! Ég mun fylgjast með þessu svo eftir því sem hlutirnir gerast í nótt. Ætti að verða traust nótt kvikmyndafíklanna. Enda ekki amalegt að fylgjast með áttræðisafmæli Óskars frænda.
Óskarsverðlaunin undirbúin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2008 | 22:11
Gullið kvikmyndakvöld - fróðleikur um óskarinn
Óskarsverðlaunin verða afhent í nótt. Þetta er gullið kvikmyndakvöld fyrir alla þá sem meta kvikmyndir mikils og margir sem munu vaka í nótt; yfir poppi og kóki eða öðrum viðeigandi veigum.
Í tilefni óskarsnæturinnar tók ég saman fróðleiksmola um hátíðina, en þeir voru að mestu settir saman af mér fyrir kvikmyndavef sem ég skrifaði á fyrir nokkrum árum um óskarinn, en breytt með tilliti til breytinga síðan þá.
Óskarsmolar
# Walt Disney hefur hlotið flesta óskara, alls 26. Ennfremur flestar tilnefningar. Á ferli sínum var hann tilnefndur 64 sinnum til Óskarverðlauna.
# Kvikmyndatónskáldið John Williams er sá núlifandi einstaklingur sem flestar tilnefningar hefur hlotið, alls vel á fimmta tuginn. Hefur unnið verðlaunin 5 sinnum.
# Þær kvikmyndir sem hlotið hafa flest Óskarsverðlaun eru Ben-Hur (1959), Titanic (1997) og The Lord of the Rings: The Return of the King (2003). Allar hlutu 11 verðlaun.
# Þær kvikmyndir sem hafa hlotið flestar tilnefningar til verðlaunanna eru All About Eve (1950) og Titanic (1997). Báðar hlutu 14 tilnefningar.
# The Lord of the Rings: The Return of the King var tilnefnd til 11 óskarsverðlauna árið 2003 og vann verðlaunin í öllum flokkum. Engin mynd hefur fyrr náð svo glæsilegum árangri. Fyrra metið átti Gigi sem var tilnefnd til 9 óskarsverðlauna 1958, og vann í öllum flokkum.
# Katharine Hepburn hefur oftast hlotið Óskarsverðlaun fyrir leik, alls fjórum sinnum. Vann fyrir Morning Glory (1933), Guess Who´s Coming to Dinner (1967), The Lion in Winter (1968) og On Golden Pond (1981).
# Aðeins þrír leikarar hafa unnið óskarinn í aðalhlutverki tvö ár í röð; Luise Rainer, Spencer Tracy og Tom Hanks. Rainer, sem er enn lifandi og elst óskarsverðlaunahafa 98 ára gömul, hlaut verðlaunin fyrir The Great Ziegfeld (1936) og The Good Earth (1937) Tracy hlaut verðlaunin fyrir Captains Courageous (1937) og Boys Town (1938). Hanks hlaut verðlaunin fyrir Philadelphiu (1993) og Forrest Gump (1994). Tracy var tilnefndur margoft til verðlaunanna, í síðasta skiptið var það eftir andlát sitt fyrir Guess Who´s Coming To Dinner, árið 1967, sem var síðasta myndin, og hann kláraði við örfáum dögum fyrir lát sitt.
# Walter Brennan og Jack Nicholson hafa hlotið flest óskarsverðlaun í karlaflokki. Brennan hlaut verðlaunin þrisvar í aukaleikaraflokki á innan við fimm árum; í Come and Get It árið 1936, Kentucky árið 1938 og The Westerner árið 1940. Nicholson hlaut verðlaunin fyrir One Flew Over the Cuckoo´s Nest árið 1975, Terms of Endearment árið 1983 og As Good as it Gets árið 1997.
# Meryl Streep hefur oftast verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik, alls 14 sinnum. Hefur þó aðeins unnið verðlaunin tvisvar; fyrir Kramer vs. Kramer og Sophie´s Choice. Katharine Hepburn og Jack Nicholson hlutu bæði 12 tilnefningar.
# Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir leik sinn í Driving Miss Daisy árið 1990. Þá var hún 81 árs gömul, elsti einstaklingur sem hlotið hefur Óskar fyrir leik.
# Henry Fonda hlaut óskarinn fyrir leik sinn í On Golden Pond, síðustu kvikmynd sinni á löngum og litríkum ferli, árið 1981. Þá var hann 77 ára gamall og elsti karlmaðurinn sem hlotið hefur verðlaunin.
# Tatum O´Neal hlaut óskar fyrir leik sinn í Paper Moon árið 1974. Þá var hún 10 ára gömul og yngsti einstaklingurinn sem hlotið hefur verðlaunin fyrir leik. Örlitlu eldri var hin ellefu ára gamla Anna Paquin sem hlaut aukaleikkonuóskarinn árið 1993 fyrir Piano.
# Keisha Castle-Hughes er yngsti einstaklingurinn sem tilnefnd hefur verið fyrir leik í aðalhlutverki. Hún var 13 ára þegar hún var tilnefnd 2003 fyrir Whale Rider.
# Hal Halbrook og Ruby Dee eru elstu einstaklingarnir sem tilnefnd hafa verið fyrir leik. Bæði eru 83 ára gömul og eru tilnefnd á hátíðinni í kvöld; hann fyrir Into the Wild og hún fyrir American Gangster. Dee er nokkrum mánuðum eldri og því sú elsta er tilnefnd hefur verið nokkru sinni fyrir leik.
# Richard Farnsworth var áttræður er hann var tilnefndur fyrir leik sinn í The Straigt Story árið 1999, elstur leikara sem hafa verið tilnefndir fyrir leik í aðalhlutverki.
# Peter Finch er eini leikarinn í sögu akademíunnar sem hefur hlotið verðlaunin eftir andlát sitt. Hann hlaut óskarinn sem leikari í aðalhlutverki árið 1976 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Network. Finch varð bráðkvaddur 14. janúar 1977, ekkja hans Eletha, tók við verðlaununum við afhendingu þeirra í mars sama ár og var hyllt er hún flutti þakkarræðuna.
# John Ford hlaut oftast óskar fyrir leikstjórn. Hann vann verðlaunin fjórum sinnum; fyrir The Informer (1935), The Grapes of Wrath (1940), How Green Was My Valley (1941) og The Quiet Man (1952).
# Engin kona hefur hlotið óskar fyrir leikstjórn. Aðeins þrjár konur hafa verið tilnefndar í sögu verðlaunanna: Lina Wertmuller árið 1976 fyrir The Seven Beauties, Jane Campion árið 1993 fyrir Piano og Sofia Coppola árið 2003 fyrir Lost in Translation. Sofia er fyrsta bandaríska konan sem tilnefnd er fyrir leikstjórn. Lina er ítölsk en Jane nýsjálensk.
# Ítalskar kvikmyndir hafa oftast unnið í flokki erlendra kvikmynda, rúmlega tíu sinnum. Franskar myndir hafa oftast verið tilnefndar, vel á fjórða tug tilnefninga þar.
# Óskarnum hefur verið frestað þrisvar; árið 1938 vegna flóða í Los Angeles, árið 1968 vegna morðsins á dr. Martin Luther King og árið 1981 vegna morðtilræðis við Ronald Reagan þáverandi forseta Bandaríkjanna og áður leikara, forseta SAG-kvikmyndaverðlaunanna og ríkisstjóra í Kaliforníu.
# Aðeins þrjár myndir hafa hlotið öll fimm lykilverðlaunin á hátíðinni. Það er fyrir þau fimm eftirsóttustu: besta myndin, fyrir leikstjórn, handrit og leik í aðalhlutverki í kvenna- og karlaflokki. Þær eru It Happened One Night (1934), One Flew Over Cuckoo´s Nest (1975) og The Silence of the Lambs (1991).
# Aðeins fjórir blökkuleikarar hafa hlotið óskar fyrir leik í aðalhlutverki. Sidney Poitier braut blað er hann hlaut óskarinn 1964 fyrir Lilies of the Field. Tæpum fjórum áratugum síðar hlaut Denzel Washington aðalleikaraóskarinn árið 2002 fyrir leik sinn í Training Day. Jamie Foxx hlaut óskarinn tveim árum síðar, árið 2004, fyrir túlkun sína á konungi soul-tónlistarinnar, Ray Charles, í myndinni Ray. Forest Whitaker hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Idi Amin í The Last King of Scotland árið 2006.
# Halle Berry (sjá mynd) er eina þeldökka konan sem hefur hlotið aðalleikkonuóskarinn í áttatíu ára sögu óskarsverðlaunanna. Hún hlaut verðlaunin árið 2002, á sömu hátíð og Denzel Washington varð annar karlleikarinn til að taka aðalleikarastyttu, fyrir túlkun sína í Monster´s Ball. Hún hágrét alla þakkarræðuna, var mjög hrærð. Enda hafði hún markað skref í óskarssöguna.
# Aðeins sex þeldökkir leikarar hafa hlotið óskar fyrir leik í aukahlutverki. Hattie McDaniel hlaut óskarinn 1939 fyrir leik sinn í Gone with the Wind. Það var svo ekki fyrr en árið 1982 sem Lou Gossett Jr. hlaut óskar fyrir An Officer and a Gentleman. Whoopi Goldberg hlaut verðlaunin 1990 fyrir Ghost, Cuba Gooding Jr. árið 1996 fyrir Jerry Maguire, Morgan Freeman árið 2004 fyrir Million Dollar Baby og Jennifer Hudson árið 2006 fyrir Dreamgirls.
# The Color of Purple var tilnefnd til 11 óskarsverðlauna árið 1985 en hlaut engin verðlaun, sem er ein versta útreið sem ein mynd hefur fengið. Gangs of New York, mynd Martin Scorsese, hlaut t.d. að auki tíu tilnefningar árið 2002 en vann engin.
# Bob Hope var 18 sinnum kynnir á Óskarsverðlaunahátíðum og hlaut heiðursóskar oftar en einu sinni. Billy Crystal hefur verið kynnir á hátíðinni átta sinnum.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.2.2008 | 12:41
Roy Scheider látinn
Scheider náði hápunkti sínum á ferlinum með túlkun sinni á lögregluforingjanum Martin Brody í hinni óviðjafnanlegu hákarlamynd Steven Spielberg, Jaws, árið 1975, sem byggð var á frægri skáldsögu Peter Benchley. Scheider var traustur og góður í hlutverki mannsins sem berst við mannætuhákarl er herjar á strandabyggð hans í Massachusetts í Bandaríkjunum. Hápunktur myndarinnar hlýtur að teljast árás hákarlsins á Brody og félaga hans sem ætla að drepa skepnuna. Þeir komast bæði að því að báturinn er of lítill og hákarlinn of stór til að hann verði drepinn með sama hætti og aðrir sem hákarlasérfræðingurinn Quint hefur veitt.
Mjög margt gekk á afturfótunum við gerð myndarinnar. Vélstýrði hákarlinn bilaði á viðkvæmasta tíma í kvikmyndatökum og endalausar rigningar riðluðu tökuplaninu, þar sem brakandi sumarblíða átti að leika lykilhlutverk. Svo fór að hákarlinn varð minna sýnilegur í myndinni en stefnt var að. Með því skapaðist þó einn helsti dulúðleiki myndarinnar þar sem ógnin er ósýnileg stærstan hluta hennar og byggir upp spennuna á lokakaflanum, sem er einn sá mest spennandi í kvikmyndasögunni. Það er ekki hægt að sjá á myndinni að veðrið hafi strítt Spielberg en myndin er sólsæt og kuldaleg í senn. Scheider lék Brody aftur síðla áratugarins í Jaws 2.
Annar hápunktur leikferils Scheiders var er hann lék Doc í kvikmynd John Schlesinger, Marathon Man árið 1976. Einn af bestu þrillerum áttunda áratugarins. Segir frá því er ungur háskólanemi (leikinn af Dustin Hoffman) flækist í leynilegar aðgerðir er varða demantaflutninga og gamlan nasistaforingja í S-Ameríku (leikinn af Laurence Olivier), sem kemur úr felum er sending fer úrskeiðis. Námsmaðurinn flækist í málið vegna bróður síns (Doc - leikinn af Scheider), sem er drepinn af illvirkjunum, og þegar hann veit orðið of mikið um starfsemina er hætt við að þeir reyni að þagga niður í hopum líka.
Ein sterkasta leikframmistaða Roy Scheider var í dans- og söngvamynd Bob Fosse, All That Jazz, árið 1979 og fyrir hana hlaut hann seinni tilnefningu sína til óskarsverðlaunanna í hlutverki leikstjórans og danshöfundarins, sem er í einu og öllu byggður á persónu Fosse sjálfs. Myndin er vissulega mjög beisk samantekt á dansleikjaheiminum en raunsæ, einkum vegna þess að Fosse færir okkur egósentríska en heiðarlega úttekt á sjálfum sér og verkum sínum. Ein beittasta en heiðarlega sjálfsrýni sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Og lokaatriðið er alltaf yndislegt.
Roy Scheider lék í fjölda litríkra kvikmynda á löngum ferli. Margar þeirra voru ágætar, sumar slæmar en aðrar minntu á þá gullnu takta sem hann sýndi á áttunda áratugnum. En hann toppaði sig aldrei eftir það, þó vissulega hafi hann verið góður t.d. í The Rainmaker, fyrir áratug, auk mynda á borð við Naked Lunch, The Myth of Fingerprints, The Russia House og síðast en ekki síst Night Game. Minningin um góðan leikara lifir.
Roy Scheider látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2008 | 00:22
Bresk gleði á SAG - línur um Óskarinn skýrast
Virðist vera að slagurinn um aðalverðlaunin fyrir bestu mynd á óskarnum verði á milli There Will Be Blood, myndar Paul Thomas Anderson, og No Country for Old Men, myndar Coen-bræðra um bestu mynd, þó Atonement sé vissulega að reyna að skjótast upp á milli þeirra. Þó að Atonement hafi fengið gullhnöttinn er ekkert öruggt um möguleika hennar, þar sem að sigurvegarinn í dramaflokknum hefur ekki unnið óskarinn fyrir bestu mynd síðustu þrjú árin. Það vakti t.d. mikla athygli að hvorki James McvAvoy né Keira Knightley fengu óskarstilnefningu fyrir leik sinn í myndinni.
Coen-bræður urðu sigursælir á SAG og tóku einnig DGA-leikstjóraverðlaunin, en það er mjög sjaldgæft að sigurvegarinn þar fái ekki óskarinn. Það yrði vissulega sögulegt ef að Coen-bræður ynnu leikstjóraóskarinn saman, en það hefur aðeins gerst einu sinni áður í sögu bæði DGA og Óskarsverðlaunanna að tveir menn deili saman DGA-skildi og leikstjóraóskar, en það voru þeir Robert Wise og Jerome Robbins fyrir hina ódauðlegu söngvamynd, West Side Story, snemma á sjöunda áratugnum. Coen-bræður þekkja vel til óskarsins, en Joel var tilnefndur fyrir Fargo á sínum tíma, en eiginkona hans, Frances McDormand, fékk óskarinn fyrir stórleik sinn í myndinni.
Daniel Day-Lewis fékk verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki fyrir There Will Be Blood, þar sem hann á stjörnuleik í hlutverki olíujöfursins Daniel Plainview. Sýnist hann nokkuð öruggur um að fá óskarinn eftir mánuð. Flestir kvikmyndagagnrýnendur telja þetta bestu túlkun hans síðan í My Left Foot fyrir tveim áratugum, en hann hlaut óskarinn fyrir þá rullu og var algjörlega frábær sem hinn fatlaði Christy Brown, sem gat aðeins hreyft vinstri fótinn og málaði með honum. Ein besta túlkun kvikmyndasögunnar að mínu mati, ótrúlega sönn og sterk. Ekki var hann síðri í Gangs of New York. Tel hann nokkuð öruggt veðmál hvað varðar Óskarinn.
Julie Christie hlaut aðalleikkonuverðlaunin fyrir hina glæsilegu túlkun á Alzheimer-sjúklingnum Fionu í Away From Her. Þetta er besta leikframmistaða Christie í áratugi; síðan að hún lék í Darling (sem hún hlaut óskarinn fyrir á sjöunda áratugnum), Doctor Zhivago og McCabe and Mrs. Miller. Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta í fyrsta skiptið sem hún vinnur SAG-verðlaunin og fær alvöru verðlaun, fyrir utan óskarinn fyrir margt löngu og gullhnöttinn. Christie hefur gefið í skyn að þetta hafi verið síðasta leikframmistaða sín. Þær sem ógna henni í óskarsslagnum eru Marion Cotillard, sem Edith Piaf, og hin tvítuga Ellen Page, sem brillerar í Juno.
Spánverjinn Javier Bardem virðist á löngu verðskuldaðri sigurbraut á öllum verðlaunahátíðum þessa dagana. Vann gullhnöttinn og nú SAG fyrir leik í aukahlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á hinum vægðarlausa leigumorðingja Anton í No Country for Old Men. Hann fær örugglega óskarinn og hefur fyrir löngu unnið fyrir honum. Var yndislegur í Before Night Falls og Mar Adentro (það var reyndar skandall að hann fékk ekki einu sinni tilnefningu fyrir síðarnefndu myndina). Nokkuð öruggt veðmál að spá honum óskarnum. Held að það hafi aldrei gerst áður að spænskur leikari fái óskarinn, man ekki eftir því. Það væri sætt að sjá Bardem fá gullkallinn.
Rudy Dee vann SAG fyrir flotta túlkun á ættmóðurinni Mama Lucas í American Gangster. Þegar að ég skrifaði kvikmyndadóm um myndina í desember nefndi ég sérstaklega Ruby sem eina helstu stjörnu þeirrar myndar og vonaðist til að hún fengi óskarstilnefningu. Hún fékk hana, ein fárra aðila myndarinnar, sem hlaut náð fyrir augum akademíunnar. Ekki fékk Ridley Scott tilnefningu, þó hann væri greinilega að reyna heilla akademíuna, og Denzel Washington sat eftir, þó flottur væri sem Frank. Cate Blanchett fékk gullhnöttinn fyrir túlkun sína á Bob Dylan og gæti fengið óskarinn, þó vissulega væri sætt ef Ruby tæki hann, rétt eins og SAG.
Day-Lewis og Christie unnu merkilega sigra á SAG. Það eru stórtíðindi að tveir breskir leikarar hampi saman svo stórum verðlaunum fyrir leik í Hollywood. Fái þau bæði óskarinn verður það í fyrsta skiptið frá 1964 sem tveir breskir leikarar fengju saman aðalleikverðlaun frá kvikmyndaakademíunni. Þá fékk Julie Andrews óskarinn fyrir Mary Poppins og Rex Harrison fyrir My Fair Lady. Þau höfðu brillerað saman á sviði fyrir My Fair Lady, Andrews fékk ekki að leika Elízu í kvikmyndaútfærslunni en náði samt óskarnum, sem barnfóstran söngelska. Breskur sigur þeirra nú yrði því sögulegur í meira lagi.
En óskarinn skiptist oft nokkuð kaldhæðnislega á milli þess að vera fyrirsjáanlegur og að koma á óvart. Aldrei gott að vita hvenær að hann kemur á óvart. Margir töldu Day Lewis öruggan um óskar fyrir Gangs of New York fyrir fimm árum en hann fór tómhentur heim, tapaði fyrir Adrien Brody (sem hefur ekkert afrekað mikið síðan) fyrir Pianist. En nú er ekki óvarlegt að spá honum óskarnum, finnst ekki koma annað til greina en að hann vinni, rétt eins og ég vona að Christie fái verðlaunin. En þetta verður að ráðast.
Fannst þó stund kvöldsins vera þegar að Daniel Day-Lewis tileinkaði Heath Ledger verðlaun sín, en hann lést í síðustu viku langt fyrir aldur fram - og á hátindi ferils síns. Glæsilega gert hjá Day-Lewis sem talaði af virðingu um hina föllnu ungstjörnu.
No Country for Old Men besta myndin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2008 | 01:18
Ódauðlegur stjörnuljómi hæfileikaríks leikara
Staða hans sem eins hæfileikaríkasta leikara minnar kynslóðar hefur verið staðfest með afgerandi hætti síðustu dagana, eiginlega mun meira en mér hefði órað fyrir er andlátið varð opinbert. Var viss um að umfjöllunin yrði mikil en það hversu víðtæk sorgin hefur verið í Bandaríkjunum og víðar um heim minnir hreinlega á það þegar að James Dean dó, einmitt þegar að hann var að ná tindi á sínum ferli. Dean varð íkon heillar kynslóðar og hefur verið minnst mjög og persónugerður í svo mörgum myndum að ekki er tölu á það komandi í raun.
Því verður ekki neitað að Heath Ledger var á góðri leið með að verða einn þeirra bestu er ævi hans lauk með svo sorglegum hætti. Það er vissulega kaldhæðnislegt að andlát hans mun verða til að styrkja enn frekar undirstöður hans sem frábærs leikara og hann verður ávallt ungstjarnan mikla. Annars þorir maður varla að hugsa um það hvernig James Dean hefði verið minnst hefði hann lifað lengur. Það verður ekki um það deilt að myndirnar þrjár sem Dean gerði; Giant, Rebel without a Cause og East of Eden, eru algjör stórvirki í kvikmyndagerð sjötta áratugarins. Ledger lék í fleiri myndum vissulega en átti glæsilega hápunkta sem festa hann ávallt í sessi.
Það leikur enginn vafi á því að hlutverkið í Brokeback Mountain kom honum endanlega í sess þeirra bestu og verður helsti minnisvarðinn um hann. Það er reyndar skelfilegt að heyra hommahatara hóta honum öllu illu eftir lát hans og að þeir ætli jafnvel að reyna að varpa skugga á kveðjuathafnir um Ledger. Þvílíkt virðingarleysi og ómennska. Og þetta ómerkilega fólk predikar sig sem trúað fólk. Það greinilega hefur ekki kynnst mannkærleikanum vel þetta falstrúarlið evangelístanna. Myndin er vissulega umdeild, en það að fólk sem skreytir sig með trú geti ekki séð mun á leik og raunveruleika er fyrir neðan allar hellur.
Það verður sérstakt að sjá Batman-myndina í sumar, síðustu leiktúlkun Ledgers. Það verður væntanlega stórmynd sumarsins og það verður sérstakt að sjá viðbrögðin við svanasöng þessarar ungu stjörnu. Myndin er allavega örugg í sessi um kynningu og hún verður þekkt sem síðasta mynd Heath. Það er sorglegt að hann fékk ekki fleiri leiktækifæri, en þrátt fyrir það lætur hann eftir sig mjög merkilegt ævistarf. Heath Ledger mun aldrei gleymast, það sést vel á sorg kvikmyndaáhugamanna um allan heim þessa janúardaga.
Ledger brenndi kerti sitt í báða enda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2008 | 10:28
Sviplegt fráfall ungstjörnu - sögusagnir um Ledger
Það hefur verið mjög óraunverulegt að fylgjast með fréttunum í gærkvöldi og í morgun um andlát Heath Ledger. Það er alltaf sviplegt og sorglegt þegar að einstaklingur í blóma lífsins deyr svo sviplega og eftir séu aðeins spurningar, algjörlega án augljósra svara. Sögusagnirnar og kjaftasögurnar eru það versta í slíkri stöðu og þær grassera núna, vægast sagt. Fjölmiðlarnir eru misjafnlega kurteisir í svona erfiðum aðstæðum, sumir hafa verið frekar ónærgætnir sýnist mér.
Finn mjög til með foreldrum, systkinum, dóttur og fyrrum konu Heath Ledger. Held að allir sem hafa tilfinningataug hugsi til þeirra sem upplifa missi og það svo opinberlega, án svigrúms til að syrgja. Sá í morgun stuttan blaðamannafund þar sem foreldrarnir og systirin komu fram fyrir utan heimili sitt, með sólgleraugu og þerrandi tárin, og faðirinn las upp yfirlýsingu. Styrkur þeirra var alveg aðdáunarlega mikill. Það hefur reyndar komið fram núna að þau heyrðu fyrst af dauða hans í útvarpsfréttum í Ástralíu. Þau fengu ekkert tækifæri til að heyra fregnirnar áður eða melta þær áður en fjölmiðlar birtu fréttina örstuttu eftir að hann hafði verið úrskurðaður látinn.
Mér fannst það mjög ónærgætið að fjölmiðlar skyldu beina til þeirra spurningum. Þeim svöruðu þau auðvitað ekki og héldu beint inn að þessu loknu. En þarna skiptir forsíðuuppslátturinn einn máli. Það er vissulega svo að þetta er stórfrétt og hún fær þann stimpil og ekki einu sinni nánasta fjölskylda fær að heyra fregnina áður en fjölmiðlar opinbera hana og það aðeins andartökum eftir látið. En svona er nútíminn í dag bara og erfitt að breyta gangi fjölmiðlaaldarinnar sem við erum á. Þegar að lík Ledgers var flutt burt frá fjölbýlishúsinu í Soho-hverfinu voru þar allir fjölmiðlar og andrúmsloftið minnti á óraunverulegt atriði úr kvikmynd, þar sem allir börðust um fyrstu fréttina.
Það er mörgum spurningum ósvarað. Vonandi fæst heilsteypt mynd fram á dauða Heath Ledger með rannsókn á málinu og krufningunni. Það er það sorglegasta ef ekkert verður raunar öruggt og ekki verður fengið í ljós nákvæmlega hvað gerðist í þessum mikla harmleik. Það er langt síðan að ég hef séð önnur eins sorgarviðbrögð vegna fráfalls stjörnu, eins og er hvað varðar Heath. Hans er minnst á flestöllum vefsíðum um allan heim og það eru mjög margir undrandi, eðlilega, enda var hann svo lifandi og hress í hugum fólks.
Vinir hans í leikarastéttinni eru auðvitað í rusli. Fannst ein sterkasta kveðjan vera frá Ástralanum Mel Gibson - hann veitti Heath tækifærið mikla í The Patriot, þar sem Heath varð alvöru dramatískur leikari og byggði að mínu mati mest og best undir styrk hans sem leikara og kenndi honum svo mikið. Mel var stóra fyrirmynd Heath og þeir voru mjög nánir. Það eru sannar tilfinningar í hverju orði Mel - leikkonurnar frá Eyjaálfu eru líka heilsteyptar í sínum orðum. Beðið er nú yfirlýsingar Jake Gyllenhaal, náins vinar Ledger.
Við svona aðstæður verður andlát auðvitað óraunverulegt og vafamálin eru hið sorglegasta af öllu hinu sorglega. Vonandi fæst spurningunum áleitnu svarað.
Segja Ledger hafa látist af slysförum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.1.2008 | 01:12
Sorgleg örlög Heath Ledger
Heath Ledger fæddist í Perth í Ástralíu í apríl 1979. Hann var ungur og ákveðinn maður, staðráðinn frá æskuárum að verða frægur og skráði sig á leiklistarnámskeið. Þegar að Heath var sautján ára ákvað hann ásamt vini sínum að rífa sig upp og halda til Sydney og freista gæfunnar. Þá stóð hann uppi með tvær hendur tómar og þurfti að vinna sig upp. Hann var eitt af fögru andlitunum, átti auðvelt með að komast langt á þokka sínum og stjörnuljóma. Að vissu leyti var hann ferskt andlit í fjöldanum og fyrstu tækifæri sín fékk hann vegna þess að hann þótti myndarlegur og lofa góðu sem ungstjarna.
Fyrsta hlutverk sitt fékk hann í ódýrri og lítt eftirminnilegri mynd, Blackrock, árið 1997. Rullan var smá og fáum hefði órað fyrir er hún kom út að þessi myndarlegi strákur í jaðarhlutverki ætti eftir að verða heimsfrægur og fá öll heimsins leiktækifæri. Hann vann sig upp hægt og hljótt, fékk fleiri auðgleymanleg aukahlutverk en vakti þó æ meiri athygli í heimalandi sínu og varð kyntákn þar á skömmum tíma, heillaði ástralskar ungmeyjar upp úr skónum og þótti vænn kvenkostur. Stóra tækifærið hans Heath kom árið 1997 er hann lék í framhaldsþáttunum Roar, sem urðu vinsælir um allan heim, t.d. hér á Íslandi, og Ledger varð frægur utan Ástralíu.
Hann ákvað að freista gæfunnar í Bandaríkjunum, rétt eins og margir landar hans sem höfðu náð frægð sem leikarar, stökk í djúpu laugina án þess að vita nema að hann færi kannski með skottið á milli lappanna og niðurlægður aftur heim. Með Roar varð hann heimsþekkt nafn í fyrsta skiptið og vakti athygli. Þættirnir gengu í þrjú ár og urðu aðalstarf hans allan þann tíma og þar til að hann varð stórt nafn í Hollywood. Framundan var átta ára leikferill sem færði Heath öll þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða og frægð og frama með öllum pakka stjörnutilverunnar, með hæðum og lægðum - tæplega 20 hlutverk, sem spönnuðu allan skalann og sýndu allar hliðar á persónu hans.
Fyrsta stóra tækifæri hans til að ná heimsfrægðinni langþráðu, utan Roar, kom í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999. Myndin varð mjög vinsæl og ungt fólk dáði hana mjög, sló í gegn. Heath átti stjörnuleik í burðarhlutverki Patricks og með honum var ungt fólk, sem hefur orðið misjafnlega mikið frægt en hann varð stjarnan í hópnum og óumdeilanlega andlit myndarinnar. Heath sló endanlega í gegn í stjörnurullunni miklu í The Patriot árið 2000. Ástralski leikarinn og leikstjórinn Mel Gibson sá mikið efni í Heath og valdi hann til að leika son karaktersins síns, Gabriel, í myndinni sem hann auðvitað leikstýrði líka.
Myndin færði Heath stjörnuljómann sem varð honum vegarnestið það sem eftir var ferilsins. Á næstu árum tók hann nokkur mjög góð hlutverk, en líka ekkert sérstök. Nægir þar að nefna hlutverk Sir Thatchers í A Knight´s Tale, Sonny í Monster´s Ball, Ned Kelly, Harry í The Four Feathers, Skip í Lords of Dogtown og auðvitað Alex í The Order. Heath hafði er þarna kom sögu rétt fyrir miðjan áratuginn markað sér stöðu í bransanum sem ungi súkkulaðisæti gaurinn með sjarmann og flotta lúkkið sem var hin sterka ímynd karlmennskunnar. Hlutverkin voru þó misjöfn, í mörgum þeirra þurfti hann að sýna tilfinningar. Hann varð ekki bara sæta andlitið, eins og jafnvel var raunin í upphafi, heldur sýndi alvöru tilfinningar og karakter.
Fyrir þrem árum lék Heath í þeirri mynd sem ég tel að verði einn helsti minnisvarði hans. Það þurfti mikið hugrekki fyrir hann að taka að sér hlutverk Ennis Del Mar í Brokeback Mountain. Rullan var allt annað en hann hafði nokkru sinni leikið áður, það var túlkun á öllum skalanum, með sönnum tilfinningum og sálarflækjum. Ástarsaga var það heillin, ekkert nýtt fyrir hann. En þetta var ástarsaga tveggja kúreka sem kynnast er þeir reka sauðfé yfir fjallið Brokeback - falla fyrir hvor öðrum og eiga erótískt ástarsamband í leyni árum saman og búa sér til annað líf, meðfram því sem þeir eiga með konum sínum, með sannri ástríðu.
Ég tel Brokeback Mountain eina sterkustu mynd áratugarins. Hún var sönn ástarsaga, ekkert öðruvísi en margar en hún tók á áleitnu efni og gerði það heilsteypt og svo innilega traust. Það stóð vissulega í mörgum að fjalla um ást í meinum af þessu tagi. Sumir vildu ekki viðurkenna myndina og vildu ekki veita henni verðlaunasess. Sagan mun held ég dæma hana sem tímamótamynd, enda opnaði hún nýjar hliðar á stjörnutilverunni og sýndi tilfinningar samkynhneigðra með öðrum hætti en margar aðrar myndir - og hún fór víðar en margar aðrar slíkar. Það má deila um hvort boðskapurinn sé réttur, en eftir stendur að sagan er heilsteypt.
Heath Ledger fékk mikið lof fyrir glæsilega túlkun sína. Hann snerti mig mjög mikið með leik sínum, enda tók hann þar meiri hæðir en hann hafði nokkru sinni sýnt áður í leiktúlkun sinni og hann toppaði það aldrei í þeim örfáu myndum sem hann gerði síðar á þessum fáu árum sem hann lifði. Hann hlaut enda mörg kvikmyndaverðlaun og var hrósað mjög. Var hin sanna stjarna myndarinnar og sýndi tilfinningar ráðvillts manns með glæsibrag. Ástarsorg er áleitið umfjöllunarefni en það fékk eiginlega nýja meiningu í Brokeback Mountain og samleikur hans og Jake Gyllenhaal var sannarlega sterkur og eftirminnilegur. Yndislegur leikur hjá þeim.
Heath var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn og átti stærstu stjörnustund sína á ferlinum kvöldið sem óskarinn var afhentur fyrir tveim árum í Los Angeles. Deilt hafði verið mikið um hversu mikla möguleika hann átti á verðlaununum. Margir töldu myndina örugga um öll helstu verðlaunin og íhaldssemi kvikmyndaakademíunnar myndi ekki verða fjötur um fót. Þegar á hólminn kom fór svo að akademían treysti sér ekki til að verðlauna Heath og Jake fyrir glæsilega túlkun sína né heldur að veita myndinni verðlaunin sem besta kvikmynd ársins 2005. Aðeins Ang Lee fékk alvöru verðlaun á hátíðinni. En túlkun Heath mun lifa lengi, enda sönn.
Öll heimsins tækifæri blöstu við Heath Ledger á síðustu árum ævi sinnar og hann nýtti mörg þeirra mjög vel. Hann kynntist stóru ást ævi sinnar, leikkonunni Michelle Williams, við gerð Brokeback Mountain árið 2005, en hún lék konu hans í myndinni. Saman eignuðust þau dóttur og virkuðu sæl og loga af lífi og krafti við afhendingu óskarsverðlaunanna fyrir tveim árum. En upp úr sambandi þeirra slitnaði og undir lokin á ævi sinnar var Heath einn á báti, vann mikið og var með nokkrar myndir í vinnslu og á teikniborðinu er hann féll í valinn.
Það verður mikið talað um andlát Heath Ledger á næstu dögum. Hann var stór og skær stjarna á stjörnuhimninum, var vonarstjarna í bransanum. Andlát hans er óvænt og er mjög mikill harmleikur. Það verður rætt um hvað hafi verið banamein þessa hæfileikaríka leikara og þegar eru sögurnar farnar af stað.
En minningin um glæsilegan og traustan leikara með mikla hæfileika mun lifa, þó stjarna hans hafi slökknað alltof fljótt. Af honum er vægast sagt mikil eftirsjá fyrir kvikmyndaáhugafólk um allan heim.
Heath Ledger látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt 23.2.2009 kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2008 | 11:17
Sorgleg örlög ungstjörnunnar Brad Renfro
Leikarinn Brad Renfro, sem nú er látinn langt um aldur fram, aðeins 25 ára gamall, var eitt ungstirnanna í leikbransanum sem reis upp úr fjöldanum, náði athygli kvikmyndaáhorfenda með frábærri leiktúlkun í stjörnurullu og naut vinsælda en féll síðar í duftið, lenti í viðjum óreglunnar; eiturlyfja- og áfengisneyslu, og náði aldrei að byggja sig upp eftir það. Sorgarsaga hans er fjarri því einsdæmi, öðru hverju erum við minnt á hverfulleika frægðarinnar þegar að ungar stjörnur missa fótanna, sumar ná að byggja sig upp aftur en aðrar falla í valinn.
Brad var aðeins tólf ára þegar að hann náði heimsathygli með túlkun sinni á Mark Sway í lagaþrillernum The Client, kvikmynd leikstjórans Joel Schumacher, árið 1994. Sway, varð ásamt bróður sínum vitni að því er lögmaður, sem er flæktur í glæpsamlegt athæfi, svipti sig lífi og varð aðalvitni lögreglunnar í málinu. Áður en lögmaðurinn sviptir sig lífi upplýsir hann Sway um mikilvægt atriði, hvar öldungadeildarþingmaður sem mafían kom fyrir kattarnef er grafinn. Mafían veit að hinn ungi Sway hefur upplýsingarnar og reynir að þagga niður í honum áður en hann segir lögreglunni.
The Client var ein af bestu kvikmyndum ársins 1994. Susan Sarandon átti þar stjörnuleik í hlutverki lögfræðingsins Reggie Love, og hlaut tilnefningu til óskarsverðlaunanna og var nærri því að ná gullkarlinum, en fékk hann árið eftir fyrir Dead Man Walking sællar minningar, og Tommy Lee Jones var skemmtilega illkvittinn í hlutverki saksóknarans Foltrigg, sem reynir að ná upplýsingunum úr stráknum með öllum tiltækum ráðum áður en mafían nær honum. Renfro átti stjörnuleik í myndinni og varð heimsfrægur á einni nóttu. Hann var límið sem hélt myndinni saman, persónan sem skipti mestu máli og hann var alveg stórfenglegur sem Sway.
Í kjölfarið fékk hann mörg leiktækifæri og voru í sjálfu sér allir vegir færir. Árið eftir lék hann Stikilsberja-Finn í kvikmyndaútfærslu Peter Hewitt á frægri sögu Mark Twain á móti Jonathan Taylor Thomas, öðru ungstirni. Renfro lék um miðjan tíunda áratuginn Michael Sullivan (á yngri árum) í kvikmyndinni Sleepers, er fjallaði um misnotkun á drengjum á heimili fyrir afbrotaunglinga) sem skartaði sannkölluðum stjörnufans; t.d. Robert De Niro, Brad Pitt (lék Sullivan er hann var eldri), Dustin Hoffman og Kevin Bacon. Myndin fékk víða góða dóma og fjallaði um áleitið efni í sannri sögu, en deilt var þó um margar sagnfræðilegar hliðar.
Árið 1998 lék hann í myndinni Apt Pupil á móti Sir Ian McKellen, hinni fínustu mynd sem segir frá samskiptum unglings og manns í hverfinu hans, sem reynist vera nasistahöfðingi úr seinna stríðinu. Svolítið vanmetin mynd sem segir merkilega sögu sem er áhugaverð, þó það séu vissulega nokkrar gloppur inn á milli. Samt með því besta sem Renfro gerði er hann varð unglingur og áherslur hans sem leikara breyttust í kjölfar Sleepers, sem markaði unglinginn Renfro sem alvarlegri stjörnu en þann sem lék aðeins hlutverk þar sem æskuljóminn einn var í forgrunni.
Eftir því sem Brad Renfro varð eldri tók hann að sér enn harðari hlutverk, oftar en ekki lék hann unglinga í neyslu og í viðjum óreglunnar; heimi sem hann festist sjálfur í er yfir lauk og markaði síðustu ár ævi hans. Dæmi um myndir af því tagi eru Telling Lies in America, Bully, Tart (þar sem fókusinn er ansi svæsinn á kynlíf og eiturlyf), American Girl og Deuces Wild. Hann átti svo góða innkomu í költ-myndinni Ghost World, sem fékk góðar viðtökur gagnrýnenda.
Undir lokin á ferlinum lék hann í sálfræðiþrillernum The Jacket, seinþroska bróður James Marsden í 10th & Wolf og hann endaði ferilinn fyrir aðeins nokkrum mánuðum í kvikmyndinni The Informers, sem brátt er væntanleg, þar sem hann var í sannkölluðum stjörnufans, með Billy Bob Thornton, Brandon Routh, Winonu Ryder, Mickey Rourke og Kim Basinger, svo aðeins nokkrir leikarar séu nefndir. Eftir að hafa lent í fangelsi í nokkra daga á árinu 2006 virtist hann hafa náð tökum á lífi sínu.
Það hefur svosem ekki verið upplýst hvað varð Brad Renfro að bana en það virðist vera sem að hann hafi verið einn þeirra ungstjarna sem missti tökin á lífi sínu og féll í viðjar óreglunnar, sem kostaði hann að lokum lífið. Þetta er vissulega sorgarsaga, enda hafði hann hæfileika og hafði átt margar ágætar leiktúlkanir þó engin þeirra á seinni árum jafnist á við leiksigurinn í The Client, rulluna sem gerði hann heimsþekktan á einni nóttu.
Leikarinn Brad Renfro látinn 25 ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)