Bresk gleði á SAG - línur um Óskarinn skýrast

Daniel Day Lewis SAG-verðlaunin fóru fram með glamúr og gleði í gærkvöldi, ólíkt Golden Globe fyrr í mánuðinum, þar sem aðeins var blaðamannafundur haldinn án glyss, þar sem sigurvegarar voru kynntir. SAG-verðlaunin eru fagmannsverðlaun í Hollywood, þar sem línur eru lagðar fyrir Óskarinn, þó jafnan veki SAG minni athygli. Það gæti þó breyst ef handritshöfundaverkfallið er óleyst í febrúarlok. Þar er vel fylgst með sérstaklega hverjir taki leikverðlaunin og voru engin óvænt tíðindi þar.

Virðist vera að slagurinn um aðalverðlaunin fyrir bestu mynd á óskarnum verði á milli There Will Be Blood, myndar Paul Thomas Anderson, og No Country for Old Men, myndar Coen-bræðra um bestu mynd, þó Atonement sé vissulega að reyna að skjótast upp á milli þeirra. Þó að Atonement hafi fengið gullhnöttinn er ekkert öruggt um möguleika hennar, þar sem að sigurvegarinn í dramaflokknum hefur ekki unnið óskarinn fyrir bestu mynd síðustu þrjú árin. Það vakti t.d. mikla athygli að hvorki James McvAvoy né Keira Knightley fengu óskarstilnefningu fyrir leik sinn í myndinni.

Coen-bræður urðu sigursælir á SAG og tóku einnig DGA-leikstjóraverðlaunin, en það er mjög sjaldgæft að sigurvegarinn þar fái ekki óskarinn. Það yrði vissulega sögulegt ef að Coen-bræður ynnu leikstjóraóskarinn saman, en það hefur aðeins gerst einu sinni áður í sögu bæði DGA og Óskarsverðlaunanna að tveir menn deili saman DGA-skildi og leikstjóraóskar, en það voru þeir Robert Wise og Jerome Robbins fyrir hina ódauðlegu söngvamynd, West Side Story, snemma á sjöunda áratugnum. Coen-bræður þekkja vel til óskarsins, en Joel var tilnefndur fyrir Fargo á sínum tíma, en eiginkona hans, Frances McDormand, fékk óskarinn fyrir stórleik sinn í myndinni.

Daniel Day-Lewis fékk verðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki fyrir There Will Be Blood, þar sem hann á stjörnuleik í hlutverki olíujöfursins Daniel Plainview. Sýnist hann nokkuð öruggur um að fá óskarinn eftir mánuð. Flestir kvikmyndagagnrýnendur telja þetta bestu túlkun hans síðan í My Left Foot fyrir tveim áratugum, en hann hlaut óskarinn fyrir þá rullu og var algjörlega frábær sem hinn fatlaði Christy Brown, sem gat aðeins hreyft vinstri fótinn og málaði með honum. Ein besta túlkun kvikmyndasögunnar að mínu mati, ótrúlega sönn og sterk. Ekki var hann síðri í Gangs of New York. Tel hann nokkuð öruggt veðmál hvað varðar Óskarinn.

Julie Christie hlaut aðalleikkonuverðlaunin fyrir hina glæsilegu túlkun á Alzheimer-sjúklingnum Fionu í Away From Her. Þetta er besta leikframmistaða Christie í áratugi; síðan að hún lék í Darling (sem hún hlaut óskarinn fyrir á sjöunda áratugnum), Doctor Zhivago og McCabe and Mrs. Miller. Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta í fyrsta skiptið sem hún vinnur SAG-verðlaunin og fær alvöru verðlaun, fyrir utan óskarinn fyrir margt löngu og gullhnöttinn. Christie hefur gefið í skyn að þetta hafi verið síðasta leikframmistaða sín. Þær sem ógna henni í óskarsslagnum eru Marion Cotillard, sem Edith Piaf, og hin tvítuga Ellen Page, sem brillerar í Juno.

Spánverjinn Javier Bardem virðist á löngu verðskuldaðri sigurbraut á öllum verðlaunahátíðum þessa dagana. Vann gullhnöttinn og nú SAG fyrir leik í aukahlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á hinum vægðarlausa leigumorðingja Anton í No Country for Old Men. Hann fær örugglega óskarinn og hefur fyrir löngu unnið fyrir honum. Var yndislegur í Before Night Falls og Mar Adentro (það var reyndar skandall að hann fékk ekki einu sinni tilnefningu fyrir síðarnefndu myndina). Nokkuð öruggt veðmál að spá honum óskarnum. Held að það hafi aldrei gerst áður að spænskur leikari fái óskarinn, man ekki eftir því. Það væri sætt að sjá Bardem fá gullkallinn.

Rudy Dee vann SAG fyrir flotta túlkun á ættmóðurinni Mama Lucas í American Gangster. Þegar að ég skrifaði kvikmyndadóm um myndina í desember nefndi ég sérstaklega Ruby sem eina helstu stjörnu þeirrar myndar og vonaðist til að hún fengi óskarstilnefningu. Hún fékk hana, ein fárra aðila myndarinnar, sem hlaut náð fyrir augum akademíunnar. Ekki fékk Ridley Scott tilnefningu, þó hann væri greinilega að reyna heilla akademíuna, og Denzel Washington sat eftir, þó flottur væri sem Frank. Cate Blanchett fékk gullhnöttinn fyrir túlkun sína á Bob Dylan og gæti fengið óskarinn, þó vissulega væri sætt ef Ruby tæki hann, rétt eins og SAG.

Day-Lewis og Christie unnu merkilega sigra á SAG. Það eru stórtíðindi að tveir breskir leikarar hampi saman svo stórum verðlaunum fyrir leik í Hollywood. Fái þau bæði óskarinn verður það í fyrsta skiptið frá 1964 sem tveir breskir leikarar fengju saman aðalleikverðlaun frá kvikmyndaakademíunni. Þá fékk Julie Andrews óskarinn fyrir Mary Poppins og Rex Harrison fyrir My Fair Lady. Þau höfðu brillerað saman á sviði fyrir My Fair Lady, Andrews fékk ekki að leika Elízu í kvikmyndaútfærslunni en náði samt óskarnum, sem barnfóstran söngelska. Breskur sigur þeirra nú yrði því sögulegur í meira lagi.

En óskarinn skiptist oft nokkuð kaldhæðnislega á milli þess að vera fyrirsjáanlegur og að koma á óvart. Aldrei gott að vita hvenær að hann kemur á óvart. Margir töldu Day Lewis öruggan um óskar fyrir Gangs of New York fyrir fimm árum en hann fór tómhentur heim, tapaði fyrir Adrien Brody (sem hefur ekkert afrekað mikið síðan) fyrir Pianist. En nú er ekki óvarlegt að spá honum óskarnum, finnst ekki koma annað til greina en að hann vinni, rétt eins og ég vona að Christie fái verðlaunin. En þetta verður að ráðast.

Fannst þó stund kvöldsins vera þegar að Daniel Day-Lewis tileinkaði Heath Ledger verðlaun sín, en hann lést í síðustu viku langt fyrir aldur fram - og á hátindi ferils síns. Glæsilega gert hjá Day-Lewis sem talaði af virðingu um hina föllnu ungstjörnu.

mbl.is No Country for Old Men besta myndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband