Ólafur F. segir Spaugstofuþátt svívirðilega árás

Ólafur F. Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, gagnrýndi Spaugstofuna harkalega í Mannamáli hjá Sigmundi Erni á Stöð 2 í kvöld og sagði þáttinn hafa verið svívirðilega árás að mannorði sínu. Það er ekki hægt annað en taka undir það, en greinilegt er að þátturinn hefur orðið mjög umdeildur og fólk hefur skrifað gegn honum, þvert á pólitískar línur.

Veikindatónninn í þætti Spaugstofunnar fór enda yfir öll mörk þess að eiga að teljast grín að einhverju tagi og var þeim Spaugstofumönnum ekki til sóma. Það er eðlilegt að það sé staldrað við og hugleitt hvort að svona framsetning á gríni sé yfir höfuð grín. Ég hef séð að margir hafa velt því fyrir sér. Í sjálfu sér á þetta ekki að vera pólitískt mál, enda er þarna gert grín að veikindum sem hafa hrjáð mun fleiri Íslendinga en Ólaf F. Magnússon og er í sjálfu sér ekkert gamanmál.

Mér finnst að það hafi verið ráðist mjög harkalega gegn Ólafi F. síðustu dagana. Umfjöllun Spaugstofunnar dró gamanþátt þeirra á hið lægsta plan sem sést hefur langa lengi og ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort að það sé eðlilegt að fjalla svona um veikindi, hver standardinn eigi að vera í sjálfu sér. Það er í raun fjarstæða að láta pólitískar línur ráða skoðunum í þessu máli, enda á þetta að vera heilsteyptara mál en það í sjálfu sér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Spaugstofan hefur greinilega sagt sitt síðasta. Það er synd að þeir skuli þurfa að hætta ferli sínum með þessum hætti. Randver hafði þó húmor. Þetta var ekki húmor og ætti Ólafur F. að fara í mál við RÚV. Svo eru menn undrandi á þvi að sjúklingar fari með veikindi sín í felur! Hvar er nú skjól?
Jafnvel þið Spaugstofumenn, bræður mínir!

Júlíus Valsson, 28.1.2008 kl. 01:15

2 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Er þetta ekki óþarfa viðkvæmni?
Atriðið um Ólaf var í sjálfu sér ágætt, en eftir 3ja og 4rða innslag var þetta farið að þynnast. Fannst broddurinn í Villa atriðunum miklu hvassari.
Ef þetta saklausa grín leggst öfugt í Ólaf þá lízt mér ekki á það því sem borgarstjóri á hann eftir að taka á raunverulegum vandamálum og viðkvæmum ákvörðunum sem skipta stórum stærra máli en léttvægt einnota kvöldgrín sem er auk þess háð tíma- og staðbundnum húmorsstuðli landans.
Það er ólíkt þér, Stebbi, að vera ekki búinn að blogga um afdráttarlausan birtingarhátt Sveins Aðalsteinssonar í Silfrinu í dag!?

Þorsteinn Egilson, 28.1.2008 kl. 01:20

3 Smámynd: Ingólfur

Auðvitað er vegist úr öllum áttum að Borgarstjóra sem aðeins hefur stuðning 5% borgarbúa. Hins vegar eru langflestir ekki að gagnrýna Ólaf vegna veikinda hans, það er nóg af öðrum ástæðum, t.d. að hann hefur enga sýnilega málefnalega ástæðu fyrir að sprengja hinn meirihlutann. Hann hafði varamenn sína ekki með í ráðum og sagði samstarfsflokknum ekki frá því að fyrstu tveir varamenn hans styddu hann ekki, fyrr en örfáum mín. fyrir fréttamannafund þar sem samstarfið var tilkynnt. Þar af leiðir er nýi meirihlutinn nánast óstarfhæfur því hann er fallinn við það eitt að Ólafur veikist, og þá á ég ekki við fyrri veikindi hans heldur það að öll veikjumst við endrum og eins, t.d. fáum flensu.

Það eru Sjálfstæðismenn sem tala hæðst um veikindi Ólafs einfaldleg vegna þess að þeim hentar betur að magna upp umræðuna um heilsu hans og hneykslast á henni en að tala um vandræðin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið borgarbúum í.

Það vitlausasta sem Ólafur gat gert var að kvarta yfir spaugstofunni. Vissulega gekk hún langt en það er líka það sem Spaugstofan gerir við alla.

Ef Ólafur vill láta hlífa sér sérstaklega að þá er það eins og það eigi að hlífa honum vegna veikinda hans, sem væri skrítið ef hann er fullfrískur.

Hann hefði frekar átt að reyna að hafa húmor fyrir þessu eða bara hunsa þennan þátt. Hann er langt í frá sá fyrsti sem er tekinn í gegn af spaugstofunni. Það er bara eitthvað sem fólk í áberandi stöðum verður að geta þolað, sérstaklega þegar 95% kjósenda eru óánægðir með hann.

Ingólfur, 28.1.2008 kl. 01:29

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Sigurður:
Það er mikið þroskamerki að uppnefna fólk eins og þú væntanlega veist.

Hjörtur J. Guðmundsson, 28.1.2008 kl. 01:39

5 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Hvaða púretanismi er þetta? Spaugstofan er bara að gera það sama og þeir hafa gert undanfarna áratugi. Eina skiptið sem þeir gengu of langt að mínu mati var þegar þeir sýndu ítrekað framá greindarstig ákveðins þingmanns og ráðherra, en mér fannst það óþægilegt vegna þess að þeir höfðu rétt fyrir sér.

Ef Borgarstjóri hefur ekki nógu þykkan skráp til að taka því sem Spaugstofan býður uppá á í skemmtiþætti á laugardagskvöldum, án þess að líta á það sem árás á fjölskyldu sína, þá má vesta fyrir sér hvort hann kunni að vera í röngu starfi.

Það er engin frekja að ætlast til þess að borgarstjóri, hver sem hann kann að vera, geti staðið fyrir sínu máli og gert hreint fyrir sínum dyrum, en það gat hann aldrei.

En að fara með tárin í augunum í spjallþátt og kvarta undan Spaugstofunni...það er síðasta sort.

Jóhannes Freyr Stefánsson, 28.1.2008 kl. 01:57

6 Smámynd: Andrés.si

Ég sá spaugstofu. Þetta er ekki húumor heldur hreinn moðgun.

Andrés.si, 28.1.2008 kl. 03:30

7 identicon

Hvernig getur það verið grín að taka mann svona gersamlega fyrir vegna veikinda. Það eru margar góðar færslur um þetta hér á blogginu. Læt eina fylgja.

http://ingibjorgelsa.blog.is/blog/ingibjorgelsa/

Gáfnaljós (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 07:57

8 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég verð eiginlega að taka undir með nokkrum skrifurum hér á undan. Maður sem tekur að sér starf borgarstjóra í Reykjavík þarf að hafa .það þykkan skráp  að hann þoli að gert sé grín að honum. Og það er svo merkilegt að það eru aðallega svokallaðir samherjar Ólafs og samstarfsmenn sem eru alltaf að benda á veikindi hans en miklu síður andstæðingar. Þeir benda á að hann hafi nú verið veikur svo að nú verða allir að vera góðir við hann, eða þannig horfir það við mér.

Gísli Sigurðsson, 28.1.2008 kl. 08:35

9 identicon

Það er líka ólíkt þér Stefán, að taka tvö blogg í eina Spaugstofu sem mun oftar hefur verið á grensunni. Þeir fóru vissulega að grensunni en voru að mínu mati mun beittari gagnvart Vilhjálmi Þ.

Skoðum frekar feril málsins sem Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir http://bryndisisfold.blog.is/blog/bryndisisfold/ tók saman. (vonandi leyfist mér þetta Bryndís)

skv. Kjartani Magnússyni:   Tóku meirihlutaviðræðurnar aðeins 1. klst
skv. Ástu  Tóki meirihlutaviðræðurnar u.þ.b. 1 viku
skv. Ólafi   Tóku meirihlutaviðræðurnar u.þ.b. 1 helgi 
Nú þá að meintri tálbeitu, VG enn..

skv. Sjálfstæðismönnum var aldrei talað um það við Ólaf að þeir væri í samningsviðræðum við VG
skv. Ólafi voru Sjálfstæðismenn í samningsviðræðum við VG og þess vegna hoppaði hann í bólið með sjöllunum.
VG hefur þrátt fyrir allt hafna því að hafa verið í nokkrum viðræðum eða þreifingum við Sjálfstæðismenn.

Nú þá að málefnunum.
Skv. Málefna samningi Xd og Ólafs á ekki að taka neinar framtíðarákvarðanir um Flugvöllinn - hann verði kjurr.
Skv. Hönnu Birnu og Gísla langar þeim ekki að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni áfram, heldur að hann fari en þau gerðu þetta bara í smá tíma svo þau gætu fengið völd.  Skv. Ólafi er flugvöllurinn ekkert að fara um langan tíma.

Nú svo eru það húsin á Laugarvegi 4-6
en þau vildu Hanna Birna og Gísli Marteinn að myndu fara en núna af því það er gjöf til Ólafs keyptu þau húsin til baka á hálfan milljarð - auðvitað með peningum borgarbúa.
Að meintu baklandinu:

Skv. Ólafi
hafði hann ekki tíma til að tala við baklandið sitt ( sem að vísu ekki er víst að sé til nema þá kannski í Ástu Þ) 
Skv. Kjartani Magnússyni
fengu ekki allir varaborgarfulltrúar XD tækifæri til að samþykkja nýjan meirihluta vegna hraða á meirihlutasamningunum. (Vikulokin á rúv á laugardag)

skv. Ástu
lagði Ólafur tillöguna um meirihlutasamstarf fram við sitt fólk á lista viku fyrir að tilkynnt var um nýjan  meirihluta.
Samt sagði Ólafur að þetta væri bull og vitleysa að hann væri að semja við Sjálfstæðismenn við Margréti snemma á mánudag...
----

Er þetta og það sem kosningastjóri Ólafs F sagði ekki bloggefni?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 10:04

10 Smámynd: Óðinn

Það er eins og fólk sé alveg að missa sig hérna, hvaða væll er þetta þó tekið sé á manni í Spaugstofunni? Má kannski benda á flestalla vel heppnuðu ádeiluþætti samtímans eins og The Simpsons eða jafnvel South Park, þessir þættir taka á málefnum með hörku og þar fara þeir mun lengra en Spaugstofann nokkurntíma.

Ef eitthvað er tel ég vöntun á svona háðsádeilu-sjónvarpsefni á Íslandi til að venja fólk við svona árásum, sýnir bara hvað flestir eru veikgeðja þegar gert er grín. Ef þið getið komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvað sé fyndið (sem þið munið aldrei ná) þá skal fyrst athuga atferli húmorista okkar Íslendinga. Ekki gera ráð fyrir að þeir fullorðnu menn sem eru að taka á málefnum í grínþætti þekki ekki til þess, það er ástæða fyrir þessu öllu - þið sýnið einfaldlega vanmátt ykkar í að taka og túlka tilgang grínsins, því ef þið vitið hann þá væri þetta ekki fréttnæmt.

Endilega horfið á South Park og farið svo að væla líkt og einstæðar bókstafstrúa húsmæður úr miðríkjum Bandaríkjanna yfir hve illa var farið með einhvern stjórnmálamann í ádeiluþætti - ekki flagga húmorsleysi ykkar þó ykkur sé misboðið - hvernig látiði þegar þið horfið á stríðsfregnir utan af heimi? Þetta er búið til sem húmor og það eru mikilvægari málefni sem hægt er að væla yfir ef verið er að væla á annað borð.

Óðinn, 28.1.2008 kl. 10:18

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ólafur tók þá ákvörðun að stíga inn í ljónagryfjuna og hefur metið það svo að hann og hans fjölskylda þyldi þá umræðu sem því fylgir. Man ekki eftir því að stjórnmálaumræða hafi verið bólgin af hæversku og tillitssemi fram að þessu.

Mannasiðir eru ekki á útsölu á Íslandi.

Venjan er sú að fólk telur sig hafa veiðileyfi á menn í umdeildum áhrifastöðum.

Þarna er ég mjög sammála Þorsteini Egilson og gæti jafnframt þegið að eiga mynd af mér á þessum ljósaskjótta hesti.

Árni Gunnarsson, 28.1.2008 kl. 10:37

12 identicon

Nákvæmlega eins og Jóhannes skrifar hér að ofan, þá er þetta einmitt það sem Spaugstofan hefur verið að gera frá upphafi, það að gera grín að þeim stjórnmálamönnum sem eru við völd að hverju sinni. Síðasti þáttur Spaugstofunnar var óvenju fyndinn og skemmtilegur. Það segir margt um veikindi Ólafs borgarstjóra, að hann skuli ekki hafa nokkurn húmor fyrir þessu. Ég hef verulegar áhyggjur af þessum húmorslausa borgarstjóra, en lengi lifi Spaugstofan !   

Stefán (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 10:54

13 identicon

Það er ennþá tjáningarfrelsi á Íslandi þó svo að íhaldið vildi helst hafa það þannig að Það Íhaldið geti stjórnað því.

Ef Ólafur telur að vegið sé að mannorði hans í þætti spaugstofunnar, þá á hann að sjálfsögðu að verja sig fyrir dómi, líkt og aðrir hafa gert enn ekki haft erindi sem erfiði.

Lifi Spaugstofan

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 12:20

14 identicon

Stebbi:  Fyrir skömmu var Ólafur F. Magnússon einn virtasti stjórnmálamaður í borgarpólítíkinni - fólk úr öllum flokkum gat hugsað sér að kjósa hann en gerði ekki út af fullt af ástæðum - flokkshollustu, tengslum við Frjálslynda, Margréti o.s.frv.

Nú er hins vegar svo komið að Ólafur nýtur lítils sem einskis traust - nema þá helst hjá sjálfstæðismönnum sem áður höfðu hafnað honum.

Ætlar þú virkilega að segja að eina ástæðan fyrir því að þessi breyting hefur orðið sé að vinstri menn séu svo fúlir yfir því að missa meirihlutann?

Af hverju var þá ekki svipað uppi á teningnum í garð Björns Inga þegar hann hoppaði upp í hjá sjálfsæðisflokknum fyrir tæpum tveimur árum?  Eða þegar Jón Baldvin hoppaði upp í hjá Davíð?

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 12:25

15 identicon

Ég er alveg sammála þeim sem gagnrýnt hafa Spaugstofu menn. Nú gengu þeir allt of langt. Ég er ekki sáttur við hvernig nýr borgarstjórnarmeirihluti var myndaður en ég hef þó fulla samúð með Ólafi F. vegna þeirra árása sem hann hefur orðið fyrir. Mikið rosalega getur fólk verið hræsnisfullt og vont.

Ég horfði á Spaugstofuna á laugardagskvöldið en ofbauð allt hnífaflóðið og meðferðin á Ólafi, og reyndar öðrum pólitíkusum einnig. Ég hef nú haft mikið álit á Spaugstofumönnunum en þarna gengu þeir allt of langt. Ég slökkti á sjónvarpinu þegar dóttir mín, fjögurra ára, kvaðst vilja fá svona hníf í bakið eins og mennirnir á skjánum.

Mér finnst að Spaugstofumenn þurfi nú að skoða eigin gjörðir og biðjast afsökunar á framferði sínu.

Eiríkur Sigurjónsson (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 13:32

16 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég hvet Ólaf að fara í meinyrða mál og skil ekki fólk sem hugsar að þetta í lagi. Það virðist sem fólk hafi ekki unnið á venjulegum vinnustöðum. Svona brot eins og fjölmiðlar og sumir pólitíkusar hafa rægt mann með því að staglast á persónulegum málum sem engum kemur við á neinn hátt. Lögreglan ætti að taka á skarið og kæra alla sem að máli komu án þess að´viðkomandi í þessum skrípaleik komi að máli. Þetta var ekki bara spaugstofan en hún er alveg búinn, hvað eru mennirnir á dópi.

Valdimar Samúelsson, 28.1.2008 kl. 17:29

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Af hverju eru menn svona viðkvæmir fyrir hönd Ólafs?  Ég fæ ekki séð að hann fái neitt verri meðhöndlun en Vilhjálmur Þ. sem látinn vera viðutan og getur ekki munað nokkurn skapaðan hlut þátt eftir þátt hjá þeim Spaugstofumönnum.  Eða Halldór Ásgrímsson sem var látinn vera svo mikill fáviti að loks fór þjóðin að trúa því að hann hefði ekkert heilabú.  Og allt vegna þess að maðurinn talaði stundum hægt.

Það var ekkert farið verr með Ólaf en efni stóðu til.  Hitt er annað mál, að fyrst fólki fannst þetta vera of langt gengið, af hverju skipti það ekki um stöð? 

Marinó G. Njálsson, 28.1.2008 kl. 17:41

18 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Mér fannst Randver gera lítið úr sér hvernig hann reyndi að afsaka spaugstofuna. Af hverju ekki að viðurkenna að þeir gengu of langt og biðjast afsökunar ? Þetta var mjög siðlaust og mér finnst hann í fyrsta sinn húmorslaus ef hann skemmtir sér svona yfir veikindum annarra.

Inga Lára Helgadóttir, 28.1.2008 kl. 20:36

19 Smámynd: Karl Ólafsson

Ok, nú eru Spaugstofumenn búnir að koma fram með sinn vinkil á efnistökum þáttarins (Sjá Kastljós í kvöld).
Er einhver tilbúinn til að endurskoða sína afstöðu til þessa máls og reyna að skoða þáttinn út frá þessum vinkli?

Er ekki komin Lúkasarlykt af þessu?

Karl Ólafsson, 28.1.2008 kl. 20:39

20 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Í spaugstofunni hafa menn verið gerðir að þroskaheftum kjánum, stelsjúkum þjófum, siðblindum tækifærissinnum og annað í þeim dúr sem er þá stórlega ýkt skopmynd af einhverju sem finna má í fari eða framgöngu viðkomandi persónu. Reynt er að skapa hverjum og einum sérstöðu þannig að þetta verði ekki einsleitt og leiðigjarnt. Mögum hefur sárnað sú skopmynd sem af þeim hefur verið dregin í Spaugstofunni og áramótaskaupum í gegnum tíðina. Ólafur F Magnússon var settur í skopmynd geðsjúklings af gefnu tilefni. Látin tyggja tugguna (töluna) sem hann margtuggði sjálfur þegar hann var spurður álitinna spurninga af fréttamönnum nú í vikunni. Heilsaði kú-kús-fuglinum þegar hann galaði. Sem sagt meinlaus geðsjúklingur. Vildi hann frekar láta draga upp mynd af sér sem þroskaheftum kjána eða siðblindum tækifærissinna sem vel hefði mátt gera í ljósi framgöngu hans? Ég hugsa að hann hefði kvartað engu minna yfir því.

Ummæli Ólafs um að þáttur Spaugstofunnar hafi verið svívirðileg árás á sig og sína fjölskyldu segja meira um hann sjálfan er þátt spaugstofunnar. Meðlimir Spaugstofunnar hafa enga hagsmuni af því að ráðast á fólk og svívirða eða lítilsvirða. Að gera þeim upp hatur í garð viðkomandi er hlægilegt. Þeirra hlutverk er einfaldlega að draga upp skopmynd af þeim persónum sem eru í brennidepli þjóðlífsins þá stundina og þeim gengur ekkert annað til en að vera fyndnir. Skopskyn áhorfenda er síðan misjafnt og það sem einum þykir fyndið, þykir öðrum hreint ekkert fyndið. Enn öðrum kann að finnast atriðið smekklaust eða jafnvel rætið. Allt fer þetta eftir því hvert viðhorf viðkomandi er til málefnisins sem verið er að gera grín að.

Helgi Viðar Hilmarsson, 28.1.2008 kl. 22:13

21 identicon

Þið sem hafið svo hátt um dónaskap Spaugstofunnar og veikindi Ólafs F ættuð að lesa þennan pistil hér:  http://harpa.blogg.is/2008-01-28/hvad-er-ad-mer/

Brynjar (IP-tala skráð) 28.1.2008 kl. 22:28

22 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Mín skoðun er að Spaugstofan var búin að vera áður en þessi þáttur kom til og eins var með fyrri meirihluta í borgarstjórn. Auðvitað komu þau vel fyrir Tjarnarkvartettinn, falleg, hress og málgefin en svo fór gamanið að kárna þegar Ólafur kom og Margrét fór og farið var að röfla um stefnumál og nefndaskipan. Ég geri greinamun á því að grínast með athafnir manna og svo sjúkdóm sem ég held að hálf þjóðin þekki. Var það ekki í fréttum fyrir nokkrum mánuðum að við ættum eitthvert met í neyslu geðlyfja? Spurningin er hversvegna tók Ólafur ekki gleðipillur eins og hálf þjóðin. Kannski fylgikvillar þeirra lyfja hafi verið fyrirstaða ;) En það er auðséð að Samfylkingin engist :) og ég er sammála Árna, mannasiðir eru ekki í hávegum hafðir á Íslandi í dag. Á ekki við hér " aðgát skal höfð í nærveru sálar " kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 28.1.2008 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband