Spaugstofan í vörn - umdeild "gamansemi"

Úr Spaugstofunni Það hefur um fátt verið meira talað síðustu dagana en þátt Spaugstofunnar á laugardag þar sem dregin var upp sú mynd af Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, að hann vissi varla í þennan heim eða hinn vegna margumtalaðra veikinda hans. Spaugstofan hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni í þessu máli, sennilega einni mestu á verk sín á tveggja áratuga ferli. Enda margir ósáttir við þá.

Eðlilega hafa þeir nú gripið til varna og reynt að eyða neikvæðu tali í sinn garð með því að snúa málinu á þann veg að ekki hafi verið um persónulega árás á Ólaf F. að ræða. Má vera að þeir hafi ekki viljað gera honum neitt illt, en þeir eru mjög margir sem hafa gagnrýnt þá, og það þvert á allar flokkslínur, enda á pólitík varla að skipta máli þegar að fjallað er um veikindi með svo ónærgætnum hætti og allt að því lágkúrulega. Hafa skoðanir vissulega verið skiptar, en það stendur eftir að mörgum var verulega misboðið og hafa talað hreint út.

Heldur fannst mér þó vörn Karls Ágústs Úlfssonar í Kastljósi í kvöld léleg, en þar vildi hann meina að "gamansemin" um Ólaf F. hafi verið grín á fjölmiðlaumfjöllunina um veikindin. Það var ekki það sem mér datt í hug er ég sá þáttinn. Þar sá ég manninn tekinn fyrir og bæði tjargaður og fiðraður, ráðist að honum sem persónu. Enda fór þetta svo langt yfir strikið að ég man ekki nein dæmi þess að svo ómerkilega hafi nokkur verið túlkaður í þættinum. Segi ég eins og svo margir að einn skets á þetta hefði kannski verið skiljanlegur, en svona var Ólafur F. Magnússon leikinn í gegnum þáttinn. Þetta var einfaldlega of mikið, þetta var lágkúra.

Fannst Ólína Þorvarðardóttir orða þetta vel í Kastljósi kvöldsins. Ekki verður hún sökuð um að vera stuðningsmaður borgarstjórans í stjórnmálum eða meirihlutans sem Ólafur F. Magnússon gegnir trúnaðarstörfum fyrir. Tek undir allt sem hún sagði í þættinum og ég hef reyndar bent á áður hér. Spaugstofan varð sér til skammar með þessum þætti og hvernig Ólafur F. var túlkaður.

Ég hef bæði gagnrýnt og hrósað Spaugstofunni, oftar þó hrósað þeim. Þeir hafa margt gott gert. En þarna fóru þeir yfir strikið og þeir eiga að biðja Ólaf F. afsökunar. Heiðarlegt mat.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Algjörlega sammála þessu/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 29.1.2008 kl. 00:53

2 identicon

Tek undir hvert orð - mér fannst þetta drengilegt af Ólínu, sem allir vita að er Samfylkingarkona og hefur bloggað mikið gegn þessum nýja meirihluta. Gott hjá henni að koma fram opinberlega og fordæma þetta geðveikistal. Ég var líka sammála þvi sem hún sagði um Björn Inga ... það vakti mig til umhugsunar.

Kristín Helga (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 00:58

3 Smámynd: Tiger

Ég er að vísu sammála því að veikindamál voru einum of mikið í brennidepli í þættinum - en yfir höfuð fannst mér þátturinn þó vera mjög spaugilegur og með þeim betri sem ég hef séð um all langt skeið.

Þó ég sé kannski ekki alveg sáttur við veikindapartana í þættinum, þá lít ég allt öðruvísi á þá umfjöllun en flestir hugsa ég.

Mér datt fyrst í hug, er ég horfði á þáttinn, og var með það í huga allan tímann að öll þessi veikindasena væri útaf því að Ólafur væri svona "veikur sem borgarstjóri" að hann væri með lítinn sem engan á bakvið sig og því mjög veikt að taka upp meirihlutasamstarf við hann - hann er jú bara einn maður og allt hitt liðið er úr sjálfstæðisflokknum. Þess vegna stjanaði öll hersingin úr sjálfstæðisflokknum svona við "sjúkrarúmið" hans og gætti þess að ekkert kæmi fyrir því þá myndi meirihlutinn "þessi veiki meirihluti" springa í loft upp.

Þarna á meðan ég horfði á þáttinn - hvarlaði ekki að mér að verið væri að veitast beint að þunglyndi eða einhverjum erfiðleikum sem persónan Ólafur á við að stríða. Þrátt fyrir það hef ég ætíð talið best að það hefði verið gert minna úr þessum "veikindaparti" því flest annað í þættinum fannst mér lukkast prýðilega.

En mér finnst samt núna vera komið mikið meira en nóg af umræðuþráðum um veikindi eða umræðu um umræður um ætluð veikindi borgarstjóra og mér finnst að við ættum að láta karlgreyið í friði og hætta að velta honum hérna fram og til baka eins og gert hefur verið á blogginu frá því þátturinn var sýndur. Ef hann er sannarlega ekki fyllilega tilbúinn í að standa undir því sem gerst hefur, valdabrölt eða hvað það má kallast - þá kemur það bara í ljós en ef hann á eftir að standa sig - þá er það bara gott mál.

P.s. ég gef nýja meirihlutanum sirka 3 vikur.

Tiger, 29.1.2008 kl. 03:06

4 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Ef þeir eiga að biðja Ólaf afsökunar, gildir þá það sama ekki um Vilhjálm Þ, Björn Inga, Árna Johnsen og fleiri sem hefur sárnað umfjöllunin um sig? Halldór Ásgrímsson sættist reyndar við þá þegar þeir mættu í afmælið hans á dögunum.


Þetta var sauðmeinlaust grín miðað við margt annað sem ég hef séð, en það eru greinilega tabúið geðsjúkdómar sem veldur þessu uppnámi.

Helgi Viðar Hilmarsson, 29.1.2008 kl. 07:19

5 Smámynd: Kári Tryggvason

Ég get ekki verið sammála þér Stefán en get þó vel skilið  þitt viðhorf. Það er nú svo að hver og einn hefur rétt á sinni skoðun. Mér finnst blogg hennar Hörpu Hreinsdóttur mjög gott innlegg í umræðuna:http://gthg.blog.is/blog/gthg/#entry-428184

Kári Tryggvason, 29.1.2008 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband