Færsluflokkur: Kvikmyndir
3.3.2008 | 23:30
Zeta orðin of gömul fyrir ástaratlot kvikmyndanna
Velska þokkadísin Zeta varð fyrst virkileg stjarna með túlkun sinni í hinum ógleymanlegu framhaldsþáttum Maíblómunum, The Darling Buds of May, í byrjun tíunda áratugarins og eftir að leika á heimavelli um nokkuð skeið náði hún frægð og frama í Bandaríkjunum. Þokki hennar heillaði leikarann Michael Douglas undir lok tíunda áratugarins og þau tóku saman. Bæði voru þau reyndar fædd sama daginn, 25. september, en á milli voru þó heil 25 ár - Zeta fædd árið 1969 en Douglas árið 1944. Eftir að Zeta tók saman við Douglas og átti börn með honum hefur hún þó skref fyrir skref tekið upp aðrar áherslur í leik.
Það er merkilegt að Zeta skuli með þessari yfirlýsingu gefa þau skilaboð að kynæsandi hlutverk og ástaratlotin henti ekki fertugri leikkonu. Eiginmaður hennar, Michael Douglas, tók kvikmyndahlutverk með mjög miklum ástarsenum allt fram að sextugsaldrinum eiginlega. Hann var orðinn 48 ára gamall er hann lék á móti Sharon Stone í Basic Instinct, en þeirrar myndar verður einna helst minnst fyrir kynlífssenurnar umtöluðu sem þau léku saman í og hann var í heitum senum á móti Demi Moore í Disclosure árið 1994, þegar að hann varð fimmtugur. Reyndar hefur auðvitað fylgt sögunni að Douglas hafi verið hreinn kynlífsfíkill.
Michael Douglas var líka þekktur fyrir það að leika á móti sér mun yngri leikkonum er hann varð eldri og t.d. ekki mörg ár síðan að hann var að leika ástarförunaut Gwyneth Paltrow í A Perfect Murder árið 1998, er hann varð 54 ára gamall, en hún er fædd árið 1972, og því 26 ára gömul. Þá reyndar ofbauð mörgum og hann hefur verið að tóna sig niður hin seinni árin. En svo virðist sem að konan hans, þokkadísin velska, ætli sér ekki að feta í þau fótspor og leika svæsnar senur fram að sextugu eins og makinn og ætla að tóna sig þess í stað niður.
En kannski er þetta bara ein yfirlýsingin til að ná í athygli, en það hefur löngum verið þekkt að Douglas-hjónin hafa viljað mikla athygli og umtal, þó á þeim augnablikum er þau sjálf vilja. En kannski er þetta ekta og Douglas-frúin Zeta bara að fara að tóna sig niður og leika miðaldra húsmæður án tilfinninga til að markaðssetja sig sem ráðsetta húsmóður, þó ekki aðþrengd eiginkona eins og sumar leikkonur vilja túlka. Hver veit.
Of gömul í kynlífssenur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2008 | 13:26
Sögulega lágt áhorf á áttræðisafmæli Óskarsins
Það þurfti að vera mikill kvikmyndaáhugamaður til að sitja yfir prógramminu og mér persónulega fannst gaman af hátíðinni, en það er auðvitað einkum vegna þess að ég hef fylgst með óskarnum í tvo áratugi og hef gaman af þessu. Það er löngu þekkt staðreynd að fáir hafa gaman af tækni- og umgjörðarverðlaunum kvikmyndanna og því hefur verið kryddað vel inn á milli af góðri tónlist, skemmtilegum klippum og góðum atriðum þar sem fjallað er um kvikmyndir með öðruvísi hætti.
Tónlistaratriðin voru beinlínis hundleiðinleg að þessu sinni. Það voru óvenjulega slöpp lög tilnefnd sem besta kvikmyndalagið að þessu sinni og gerðu atriðin með tilnefndu lögunum lítið til að lyfta hátíðinni upp. Svo vantaði tilfinnanlega að farið væri betur yfir óskarssöguna með veglegri klippum, með því að heiðra leikara og hafa þá saman á sviðinu, eins og gert var 1998 og 2003 og var velheppnað og tónlistarupprifjun á þeim lögum sem hafa unnið óskarinn. Burt Bacharach setti saman eftirminnilegt tónlistarprógramm á óskarnum fyrir sjö árum sem lyfti þeirri hátíð vel upp og slíkt hefði verið vel þegið nú.
Það er því orðið svo að það eru allra hörðustu aðdáendur kvikmyndanna og hátískunnar sem sitja yfir prógramminu, sumir gefast upp í biðinni eftir flottustu verðlaununum og stórtíðindunum. Það gerðist reyndar nú að þeim var dreift meira um dagskrána en hefur oft verið. Með þessu fékkst ágætis dreifing á spennandi lykilatriði kvöldsins. Það sem vantaði var gott krydd inn á milli af tónlist og kvikmyndasögu og sérstaklega þar sem þetta var afmælishátíð.
Kynnirinn Jon Stewart stóð sig hinsvegar mjög vel og var með góða brandara, stóð sig mun betur en þegar hann kynnti fyrir tveim árum. Það er því ekki honum að kenna að áhorfið hafi náð botni. Það sem vantaði var almenn afþreying, enda eru ekki allir til í að sitja yfir sjónvarpinu vel á fjórða tímann yfir tækni- og umgjörðarverðlaunum kvikmyndanna í bið eftir stóru verðlaununum, án þess að fá einhverja létta og góða skemmtun inn á milli.
Áhorf á Óskarsverðlaun í lágmarki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.2.2008 | 08:45
Coen-kvöld í Hollywood - evrópskur leiksigur
Margt fór eftir bókinni í nótt, annað ekki. Sigur Marion Cotillard í aðalleikkonuflokknum var mjög verðskuldaður en margir höfðu talið að hún gæti myndi ekki geta sigrað Julie Christie. En hún kom, sá og sigraði. Tilda Swinton vann aukaleikkonuóskarinn mörgum að óvörum og sló við mörgum sterkum keppinautum um hnossið mikla. Sigur Daniels Day-Lewis og Javier Barden voru ekki óvæntir en ánægjulegir, enda stóðu þeir sig vel í rullum sínum.
En þetta var svo sannarlega kvöldið þeirra Coen-bræðra. Vel verðskuldað. Þetta var kvöld evrópskra leiksigra. Evrópskir leikarar tóku leikverðlaunin og mörkuðu sér sögulegan sess, þar sem enginn bandarískur leikari var verðlaunaður af akademíunni. Þetta var t.d. aðeins í þriðja skiptið sem leikari var verðlaunaður fyrir að leika á öðru tungumáli en ensku í kvikmynd, er Marion Cotillard vann fyrir La Vie en Rose.
Skrifaði nokkrar færslur gegnum nóttina og birti hér tengla á þær svo fólk geti lesið beint. Einnig bendi ég á óskarsspána mína frá í gærkvöldi.
- Spádómar um Óskarsverðlaun 2008
- Fróðleiksmolar um Óskarsverðlaunin
- Óskarsverðlaunahátíðin hafin í Los Angeles
- Javier Bardem hlýtur aukaleikaraóskarinn
- Tilda Swinton hlýtur aukaleikkonuóskarinn
- Marion Cotillard hlýtur aðalleikkonuverðlaunin
- Hinna látnu minnst í Hollywood
- Munu Coen-bræður taka kvöldið á Óskarnum?
- Daniel Day-Lewis vinnur aðalleikaraóskarinn
- Coen-bræður vinna leikstjóraóskarinn
- No Country for Old Men valin kvikmynd ársins
Coen bræður sigursælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.2.2008 | 05:38
No Country for Old Men valin kvikmynd ársins
Það var því vel við hæfi að Martin Scorsese afhenti þeim verðlaun, en hann var seint og um síðir tekinn í hóp hinna stóru í englaborginni fyrir aðeins ári með sigrinum fyrir The Departed. Það er reyndar mjög skemmtilegt að spennumynd hafi verið valin mynd ársins og virðist vera sem að óskarinn sé að breytast úr hátíð hinna stífelsuðu og að vera verðlaunahátíð fyrir aðeins ævisagna- og vandamálamyndir, sem hafa löngum verið sigursælar þar.
Allavega er áhugavert hversu sterkir hinir margfrægu utangarðsmenn kvikmyndavaldsins eru á Óskarnum. Auk merkilegs sigurs Coen-bræðra var auðvitað stórmerkilegt að allir leikverðlaunahafar kvöldsins voru frá Evrópu og hefur það aldrei gerst fyrr að bandaríska kvikmyndaakademían verðlauni aðeins leikara utan Bandaríkjanna á óskarsverðlaunahátíð. Gleðileg tíðindi það.
Þetta var virkilega skemmtileg hátíð; margar góðar stundir. Það var virkilega skemmtilegt að sjá fyrrum fatafelluna sem samdi handritið í Juno vinna og svona mætti lengi telja. Tek kvöldið betur saman í pistli síðar í dag. En í heildina; fínasta kvöld og góð skemmtun fyrir kvikmyndafíklana - já og Stewart stóð sig bara vel og með ansi flotta brandara inn á milli.
25.2.2008 | 04:52
Coen-bræður vinna leikstjóraóskarinn
Sigur þeirra er sögulegur, en það hefur aðeins gerst einu sinni áður að tveir menn vinni saman leikstjóraóskarinn. Það voru Jerome Robbins og Robert Wise fyrir West Side Story árið 1961. Ekki amalegt að fara í hóp með þeim snillingum.
Rakti áðan stóru myndirnar þeirra í biðtímanum eftir leikstjóraverðlaunum og óþarfi að endurtaka það. Ég sem aðdáandi þeirra og kvikmyndaverkanna sem þeir hafa gert er alsæll með sigur þeirra á þessu kvöldi.
25.2.2008 | 04:47
Daniel Day-Lewis vinnur aðalleikaraóskarinn
Mér hefur alltaf þótt Daniel Day-Lewis vera frábær leikari og á flestar mynda hans. Hann velur jafnan hlutverk af kostgæfni, aðeins leikið í 25 myndum á ferlinum og hann hefur t.d. enga mynd á teikniborðinu núna á þessari stundu. Hann hefur aðeins leikið í átta myndum frá því að hann hlaut óskarinn áður, fyrir átján árum. Meðal þeirra eru traustar stórmyndir á borð við In the Name of the Father, The Crucible, The Age of Innocence og The Last of the Mohicans.
Daniel Day-Lewis hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á hinum fatlaða Christy Brown í My Left Foot, sem gat aðeins hreyft vinstri fótinn og málaði með honum. Það er ein besta túlkun kvikmyndasögunnar að mínu mati, ótrúlega sönn og sterk.
Day-Lewis hefur aðeins leikið í einni annarri mynd frá því að hann var tilnefndur til verðlaunanna síðast, árið 2002 fyrir Gangs of New York, en það var stórleikur eins og þeir gerast allra bestir og voru reyndar flestir undrandi þá að hann fékk ekki verðlaunin. En þetta er kvöldið hans og auðvitað beygði Daniel sig fyrir "drottningunni" Helen Mirren er hann tók við óskarnum.
25.2.2008 | 04:30
Munu Coen-bræður taka kvöldið á Óskarnum?
Coen-bræður eru snillingar í kvikmyndagerð. Myndir á borð við Fargo, Raising Arizona, Hudsocker Proxy, The Man who wasn´t there, O Brother Where Art Thou?, Barton Fink, Big Lebowski, Blood Simple og Miller´s Crossing segja allt sem segja þarf. Þetta eru meistaraverk og löngu kominn tími til að þeir fái leikstjóraverðlaunin og ég vona að þeir fái þau.
Fargo er reyndar ein traustasta mynd seinni tíma. Flottur tónn og hvernig blandað er saman kaldrifjuðum húmor í alla stemmningu blóðs og glæpa. Tær snilld. Þeir vonandi slá við óskarsárangrinum með Fargo í nótt.
25.2.2008 | 04:19
Hinna látnu minnst í Hollywood
Það er alltaf eitt af stóru augnablikunum við afhendingu óskarsverðlaunanna þegar að sýnd er klippa til minningar um þá sem hafa látist frá síðustu óskarsverðlaunahátíð. Hilary Swank kynnti klippuna áðan og þar voru svipmyndir af þekktum leikurum og leikstjórum sem hafa kvatt þennan heim, sumir langt um aldur fram en aðrir háaldraðir.
Meðal þeirra leikstjóra sem hafa látist síðasta árið eru Michelangelo Antoniani og Ingmar Bergman, sem voru með þeim bestu á síðustu áratugum og mörkuðu stór skref í kvikmyndasögunni. Kvikmyndatökumaðurinn Freddie Francis lést líka, en hann var í mörgum af bestu myndum síðustu áratuga. Frægir leikarar á borð við Deborah Kerr, Lois Maxwell (sem lék Moneypenny), Jane Wyman (sem var fyrri eiginkona Ronalds Reagans, forseta Bandaríkjanna) og Miyoshi Umeki. Auk þess Jack Valenti og Michael Kidd svo nokkrir séu nefndir.
Í lok klippunnar var minnst Heath Ledger, sem lést langt fyrir aldur fram í síðasta mánuði og var harmdauði fyrir alla þá sem tengjast kvikmyndum með einum eða öðrum hætti, enda var hann að ná hátindi á ferli sínum er hann kvaddi þennan heim.
25.2.2008 | 03:35
Marion Cotillard hlýtur aðalleikkonuverðlaunin
Hafði einhvern veginn aldrei heyrt af þessari leikkonu fyrr en ég heyrði að hún hefði verið valin til að leika Edith Piaf og efaðist um valið þar sem hún var ekki mikið fræg fyrir utan Frakkland. En það voru svo sannarlega óþarfar áhyggjur. Það er mjög áhugavert að sjá myndina, bæði fyrir þá sem þekkja lítið tónlistarferil og ævi Piaf og eins þeir sem eru sérfræðingar um hana. Myndin er einfaldlega frábær. Þið sem eigið eftir að sjá hana smellið ykkur á eintak í næstu búð fljótlega!
Nokkur lög eru með hinni einu sönnu Edith í spilaranum. Edith Piaf hefur verið ein af uppáhaldssöngkonum mínum alla tíð og ekki að ástæðulausu; þvílík rödd og þvílíkur karakter. Algjörlega einstök og Cotillard túlkar hana með þeim hætti í myndinni. Túlkun sem einhvern veginn verður miklu stærri en myndin sem slík og það er öllum ljóst sem sjá myndina að þarna er komin til sögunnar frábær stjarna í leik.
Og með þessu markar Cotillard söguna enda er hún aðeins þriðji leikarinn í sögu akademíunnar sem fær óskarinn fyrir að leika á öðru tungumáli en ensku. Sophia Loren fékk óskarinn árið 1961 fyrir sína ógleymanlegu rullu í La Ciociara (Two Women) og Roberto Benigni fyrir að túlka Guido í La Vita é Bella (Life is Beautiful) árið 1998 - mynd sem er algjörlega einstök. Bæði töluðu auðvitað á ítölsku.
En já, nú er komið tilefni til að setja La Vie en Rose í dvd-spilarann á morgun! Frábær mynd og þetta er mögnuð túlkun.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 03:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2008 | 03:21
Tilda Swinton hlýtur aukaleikkonuóskarinn
Man eiginlega fyrst eftir Tildu Swinton í The Beach og Vanilla Sky en hún varð fyrst virkilega heimsfræg sem leikkona fyrir glæsilega túlkun sína á Valerie Thomas í Adaptation - þeirri frábæru kvikmynd sem verður alltaf betri og betri eftir því sem maður sér hana oftar.
En já, þarna tókst akademíunni samt að gera mig hissa. Hafði búið mig undir að Amy Ryan tæki þetta, enda fannst mér hún svo flott í Gone Baby Gone, eða þá að Blanchett myndi vinna, en það er mjög stutt síðan hún vann og ekkert sem kallaði á að hún fengi annan óskar.
En já, segiði svo að óskarinn sé ekki spennandi.