Marion Cotillard hlýtur aðalleikkonuverðlaunin

Marion Cotillard sem Edith Piaf Franska leikkonan Marion Cotillard hlaut rétt í þessu óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á einni bestu söngkonu 20. aldarinnar, Edith Piaf, í La Vie en Rose. Það þarf ekki að koma neinum að óvörum að Cotillard hafi fengið óskarinn. Hún var stórfengleg í hlutverkinu, túlkaði Piaf á ólíkum aldursskeiðum og var óaðfinnanleg, algjörlega frábær í hlutverkinu. Gerði þetta að sínu.

Hafði einhvern veginn aldrei heyrt af þessari leikkonu fyrr en ég heyrði að hún hefði verið valin til að leika Edith Piaf og efaðist um valið þar sem hún var ekki mikið fræg fyrir utan Frakkland. En það voru svo sannarlega óþarfar áhyggjur. Það er mjög áhugavert að sjá myndina, bæði fyrir þá sem þekkja lítið tónlistarferil og ævi Piaf og eins þeir sem eru sérfræðingar um hana. Myndin er einfaldlega frábær. Þið sem eigið eftir að sjá hana smellið ykkur á eintak í næstu búð fljótlega!

Nokkur lög eru með hinni einu sönnu Edith í spilaranum. Edith Piaf hefur verið ein af uppáhaldssöngkonum mínum alla tíð og ekki að ástæðulausu; þvílík rödd og þvílíkur karakter. Algjörlega einstök og Cotillard túlkar hana með þeim hætti í myndinni. Túlkun sem einhvern veginn verður miklu stærri en myndin sem slík og það er öllum ljóst sem sjá myndina að þarna er komin til sögunnar frábær stjarna í leik.

Og með þessu markar Cotillard söguna enda er hún aðeins þriðji leikarinn í sögu akademíunnar sem fær óskarinn fyrir að leika á öðru tungumáli en ensku. Sophia Loren fékk óskarinn árið 1961 fyrir sína ógleymanlegu rullu í La Ciociara (Two Women) og Roberto Benigni fyrir að túlka Guido í La Vita é Bella (Life is Beautiful) árið 1998 - mynd sem er algjörlega einstök. Bæði töluðu auðvitað á ítölsku.

En já, nú er komið tilefni til að setja La Vie en Rose í dvd-spilarann á morgun! Frábær mynd og þetta er mögnuð túlkun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég sá Piaf á sviði hér heima og mér fannst þessi stúlka túlka þetta mjög vel.

Ásdís Sigurðardóttir, 25.2.2008 kl. 03:50

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, Brynhildur Guðjónsdóttir var alveg frábær sem Piaf hér á sviði heima. Virkilega flott sýning. Einhvern veginn var sú sýning algjörlega fullkomin. Með betri sýningum sem ég hef séð í íslensku leikhúsi. Þetta var stjörnutúlkun. Þessi mynd með Cotillard er virkilega góð, hún eiginlega verður stærri en allt annað í henni. Ekta stjörnurulla.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.2.2008 kl. 03:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband