The Brave One

The Brave One Í kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um spennumyndina The Brave One í leikstjórn Neil Jordan og með Jodie Foster, Terrence Howard, Nicky Katt, Naveen Andrews og Mary Steenburgen í aðalhlutverkum.


The Brave One

Hetjusögur hafa verið meginþema í kvikmyndum alla tíð, gildir þá einu hvort sögð er saga einstaklings sem lendir í aðstæðum sem það ræður ekki við og þarf að takast á við eða baráttu einfarans við sannkallað ofurefli á örlagastundu. Þær eru óteljandi kvikmyndirnar þar sem þetta hefur verið megingrunnur sögunnar og einnig hafa verið sterkar kvikmyndir byggðar á því þema að sterkar persónur missa tökin á baráttunni, grípa til óhefðbundinna aðferða sem verða hið tvíeggjaða sverð. Þessi grunnþema einkenna kvikmyndina The Brave One umfram allt.

Í The Brave One er sögð saga Ericu Bain, sem virðist lifa hinu hamingjusama og fullkomna einkalífi. Hún er í draumastarfinu og er ástfangin upp fyrir haus af draumaprinsinum. Allt ætti að vera heilt í gegn. En svo er ekki. Parið verður fyrir hrottalegri árás. Kærastinn deyr og Erica slasast lífshættulega, en lifir árásina þó af. En hún er ekki söm, dáin hið innra og á erfitt með að fóta sig frá áfallinu mikla sem hefur lagt líf hennar nær í rúst. Hún fær taugaáfall og lokar sig af. Að lokum fer það svo að Erica ákveður að leita hefnda vígbúin og til alls líkleg.

Að mörgu leyti minnir grunnur þessarar myndar mig á kvikmyndina Falling Down með Michael Douglas. Hún var svört, hvöss og ofbeldisfull. Hefnd mannsins sem stóð einn, var í eigin heimi og fannst að sér vegið. Kannski er saga Ericu í og með ekki alveg sú sama, en samt mjög sterk saga þar sem fetað er svipaða slóð. Í örvæntingu sinni verður Erica stórhættuleg, jafnvel hættulegri en þeir sem eyðilögðu líf hennar með árásinni. Erica lærir mikið með hefndinni en það er stundum svo að hefndin leysir ekki allan vanda og jafnvel gæti Erica endað mun verri en árásarmaðurinn.

The Brave One er fyrst og fremst kvikmynd Jodie Foster. Jodie gefur Ericu kraft og fyllingu – hún er auðvitað mjög sterk karakterleikkona og nær sterku valdi á þeim kventýpum sem hún túlkar og er hiklaust ein af allra bestu leikkonum sinnar kynslóðar. Enda hefur hún hlotið mörg verðlaun fyrir leik og hlaut t.d. óskarsverðlaunin fyrir leik í aðalhlutverki tvisvar áður en hún náði þrítugsaldri; afrek sem seint verður sennilega slegið, fyrir túlkun sína á Söruh Tobias í The Accused árið 1988 og Clarice Starling í The Silence of the Lambs árið 1991.

Írinn Neil Jordan er einn besti leikstjóri sinnar kynslóðar. Hann sló eftirminnilega í gegn fyrir fimmtán árum þegar að hann gerði hina stórfenglegu The Crying Game. Jordan hlaut óskarinn fyrir handritið í myndinni og var tilnefndur til leikstjóraverðlaunanna og myndin tilnefnd sem ein hinna bestu árið 1992. Að auki á hann að baki myndir á borð við Interview with the Vampire, The End of the Affair og Michael Collins. Hann hefur verið umdeildur leikstjóri, getað stuðað en vakið með því athygli kvikmyndaáhugamanna. Í The Brave One fetar hann enn nýja slóð að vissu leyti.

Þó að Jodie gnæfi yfir allt í þessari mynd, sem sýnir hana sem kraftmikla hasarhetju eins og í Flightplan og Panic Room, þá er hún ekki ein á skjánum vissulega. Aðrir eiga sínar stundir. Nicky Katt og Terrence Howard standa sig vel í hlutverki lögreglumannanna, Mercer og Vitale. Naveen Andrews gerir mjög gott úr rullu kærastans Davids og Mary Steenburgen er flott sem Carol. En þetta er sterk mynd um eina persónu. Sem slík stendur hún og fellur með túlkun aðalleikarans. Jodie á sína bestu túlkun í kvikmynd árum saman og sýnir og sannar enn og aftur styrk sinn í bransanum.

Í heildina er The Brave One ekta spennumynd með sterkum sálrænum undirtón, baráttu einstaklings gegn hinu illu sem verður tvíeggjuð er yfir lýkur. Verður á stundum beitt og snarkandi hörð, en samt sem áður sterk í gegn. Þeir sem meta leikkonuna mikils og vilja ekta spennu með sálrænum hápunktum innri átaka verða ánægðir með útkomuna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband