Hairspray

HairsprayÍ kvikmyndagagnrýni á film.is skrifa ég um stuðbombuna Hairspray í leikstjórn Adams Shankmanns og með John Travolta, Nikki Blonsky, Zac Efron, Christopher Walken, Michelle Pfeiffer og Allison Janney í aðalhlutverkum.


Hairspray
Á gullaldarárum Hollywood voru dans- og söngvamyndir það form kvikmynda sem jafnan halaði inn mestum peningum og voru eitt mesta aðdráttarafl fólks úr ólíkum áttum samfélagsins til að fara í bíó, upplifa ævintýraheima. Fjöldi kvikmyndaáhugamanna átti sína eftirminnilegustu bíóupplifun við að horfa á t.d. Singin´ in the Rain, My Fair Lady, The Sound of Music, Oliver!, A Star is Born, Mary Poppins, An American in Paris, Oklahoma, Guys and Dolls, Gigi, Show Boat, Kiss Me Kate, Carousel, South Pacific, The King and I og West Side Story – þær urðu með þeim bestu í kvikmyndasögunni og lögin í þeim öðluðust sjálfstætt líf og dansatriðin urðu ódauðleg.

Síðar kom aftur sama bylgjan í öðru formi, en samt eftirminnilegum, og á þeim tíma upplifðu nýjar kynslóðir myndir á borð við Grease, The Rocky Horror Picture Show, Bugsy Malone, Hair, The Blues Brothers, Little Shop of Horrors, Cats, Fame, Flashdance, Jesus Christ Superstar, Annie, Tommy og All That Jazz og heilluðust af forminu. Að því kom að dans- og söngvamyndir þóttu hallærislegar og magurt skeið tók við. Woody Allen þótti djarfur þegar að hann gerði Everyone Says I Love You fyrir áratug en þar sungu allir aðalleikarar myndina í gegn nema Drew Barrymore eins og frægt er orðið (meira að segja Allen sjálfur).

Sagt er jafnan að allt fari í hringi. Fyrir nokkrum árum varð Moulin Rouge örlagavaldur þessa kvikmyndaforms í upphafi nýrrar aldar. Það halaði að nýju inn peninga í massavís - nýjar kynslóðir öðluðust trú á dans- og söngvamyndir. Moulin Rouge var tilnefnd til óskarsverðlauna. Ári síðar vann Chicago óskarinn sem besta mynd ársins, og varð þar með fyrsti söngleikurinn frá dögum Olivers! á sjöunda áratugnum til að verða valin besta kvikmynd síns árs, og Catharine Zeta Jones fékk óskarinn fyrir að túlkandi syngjandi skassið þar. Aðrar myndir urðu vinsælar: nægir þar að nefna Dreamgirls, Rent og The Phantom of the Opera.

Hairspray sprettur auðvitað upp af þessum vinsældum. Hún er þó engin framlengingarsnúra á þessar myndir sem fyrr eru nefndar og hafa slegið í gegn á undanförnum árum. Hún er hinn ferski vindblær í sumarlogninu að mjög mörgu leyti og kemur með hliðar sem fyrri söngvamyndir undanfarinna ára hafa ekki komið með. Þessi mynd er ekki hin þunga stórmynd með öflugum söngatriðum og dómínerandi stórum bakgrunni. Þetta er hin létta stuðmynd sem hefur allt sem þarf til að prýða sannkallaðan smell; grípandi lög, líf og fjör, litríkan bakgrunn og umfram allt hæfileikaríka talenta í bland við reynda leikara.

Ég hef verið lúmskur aðdáandi dans- og söngvamynda, kannski ekki sá villtasti í aðdáuninni en samt sem áður einn þeirra sem hef gaman af forminu. Það er einmitt það besta við Hairspray að hún er ekki að kópera eitt né neitt, sprettur fram í eigin nafni og fangar anda sem minnir mig helst á fjörið í Grease og Blues Brothers. Stuð út í gegn og andinn fangar jafnt unglinga sem þá eldri. Hún er létt í grunninn og færir manni gleði sem jafngildir hressandi vítamínssprautu. Kemur allavega sem sannur yndisauki í haustrokinu hérna heima. Við eigum svona lauflétt fjör skilið eftir misdýnamískar hasar- og framhaldsmyndir.

Að mínu mati er þetta ein af bestu söngvamyndunum sem hafa komið á undanförnum árum. Pakkinn er í heildina ansi skotheldur. Fjörið er heilt í gegn, ekkert óekta við það, leikurinn í klassaflokki að mestu leyti, tónlistin er dúndrandi góð með sannkölluðum ofursmellum, gamansemin í senn mjög sönn og mögnuð og andrúmsloftið er heilt í gegn brilljansinn uppmálaður. Það er því ekki hægt að segja annað en að þetta sé mynd sem passar vel fyrir þá sem vilja upplifa eitthvað pottþétt og skemmtilegt í bíó.

Hairspray er eins og flestir vita endurgerð hinnar samnefndu myndar John Waters frá árinu 1988 sem skartaði Divine (í einni síðustu rullu sinni), Sonny Bono, Ricki Lake og Deborah Harry. Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir snilli Waters og met nokkuð mikils eldri myndina og þann húmor sem var aðalsmerki hans í gegnum tíðina. Það er gaman að sjá hann í nettu hlutverki í endurgerðinni. Divine var auðvitað hreinræktaður snillingur og hann lést aðeins nokkrum mánuðum eftir að Hairspray var frumsýnd á sínum tíma. Það var ein hans besta túlkun á ferlinum og er sannkallaður minnisvarði um þennan svipmikla karakter.

John Travolta ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur að feta í fótspor Divine í hlutverki Ednu Turnblad. Travolta hefur átt misjafna daga á ferlinum, toppaði í gamla góða daga sem diskóboltinn Tony í Saturday Night Fever og töffarinn Danny í Grease á áttunda áratugnum og átti comeback eftir magra daga síðar í Look Who´s Talking og Pulp Fiction og hrapaði aftur á botninn í Battlefield Earth. Hefur rokkað til og frá síðan. Túlkun hans á Ednu er fyndin upp að vissu marki en endar þó í svæsnum og súrum ofleik sem kemst ekki nærri túlkun Divine.

Þessi mynd stendur hinni eldri þó í heildina mun framar. Sterkari pakki og betri upplifun hvað sem manni finnst um túlkun Travolta. Ungstirnin Zac Efron, Nikki Blonsky, Brittany Snow, Amanda Bynes, og Elijah Kelly gera mjög gott úr sínum rullum og standa sig virkilega vel – stimpla sig enn betur inn í harðasta kjarna bransans. Gömlu brýnin Christopher Walken, Michelle Pfeiffer, Allison Janney, Queen Latifah og James Marsden klikka auðvitað aldrei og eiga góða stund í sínum túlkunum. Walken er og verður einn mesti leiksnillingur sinnar kynslóðar og stendur hér sannarlega undir nafni sem slíkur.

Ég var því í sæluvímu eftir myndina að mestu leyti og mjög sáttur. Þó að ég geti ekki beint sagt að ég sé harðasti aðdáandi kvikmyndanna sem Adam Shankman hefur fært á hvíta tjaldið til þessa finnst mér þessi mynd sýna okkur nýja hlið á honum sem leikstjóra og vona að kappinn sé að bæta verklagið í stíl við þetta. Öll viljum við helst gleyma disasterum á borð við The Wedding Planner, takk fyrir kærlega!

Hairspray anno 2007 er í heildina sannarlega nett syngjandi stuð og sæla frá upphafi til enda og öll ættum við að hafa gaman af slíku í haustrokinu. Þetta er gleðibomba út í gegn sem ætti að vera við hæfi flestra. Feel good movie of the year segi ég og skrifa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband