Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár

Elísabet II EnglandsdrottningÍ dag eru 55 ár liðin frá því að Georg VI Englandskonungur lést og dóttir hans, hin 25 ára gamla, Elísabet, varð drottning Englands. Elísabet II hefur verið áberandi persóna í sögu bresku konungsfjölskyldunnar og sett mikið mark á samfélag þjóðar sinnar og leitt konungsveldið á umbreytingatímum í sögu þess. Það segir sig sjálft að þjóðhöfðingi sem hefur setið vel á sjötta áratug hefur haft áhrif, mótað þjóðina og sögu hennar.

Elísabet II hefur í ljósi margs verið eftirminnilegur þjóðhöfðingi og niðjar hennar hafa ekki verið síður áberandi. Þegar að hún fæddis í desember 1926 hefði fáum órað fyrir að hún yrði æðsti valdhafi bresku krúnunnar. Hún fæddist enda ekki sem erfðaprinsessa. Örlög Elísabetar mótuðust í desember 1936 þegar að föðurbróðir hennar, Edward VIII, sagði af sér konungdómi til að giftast unnustu sinni, hinni tvífráskildu og bandarísku, Wallis Warfield Simpson. Með því dæmdi hann sig í ævilanga útlegð frá fjölskyldu sinni.

Með afsögn Edward VIII var Elísabet orðin erfðaprinsessa krúnunnar. Föður hennar var alla tíð illa við þau örlög að taka við þjóðhöfðingjahlutverkinu. Elísabet, eiginkona hans, leit alltaf á konungdóm hans sem bölvun yfir honum og fjölskyldunni. Hann var stamandi og órólegur og leit á verkefnið sem tröllvaxið sem það varð. Leiðarljós hans í gegnum verkefnin voru eiginkonan og dæturnar, Elísabet og Margrét. Staða krúnunnar þótti veik eftir skammarlega afsögn bróður konungsins, sem var konungur í ellefu mánuði, og þeir voru ólíkir sem dagur og nótt. Georg og Elísabet drottning, móðir Elísabetar II, unnu hug og hjörtu Breta í seinni heimsstyrjöldinni með vaskri framgöngu sinni.

Georg VI greindist með krabbamein síðla árs 1951 og heilsu hans fór ört hrakandi í raun síðustu árin vegna ýmissa kvilla. Veikindum hans var haldið leyndum fyrir þegnum landsins. Dauði hans kom þó óvænt. Hann lést einsamall í herbergi sínu í Sandringham House í Norfolk að morgni 6. febrúar 1952. Hann er eini handhafi bresku krúnunnar sem dó einn og án þess að nokkur væri dánarbeðið. Elísabet var stödd ásamt Filippusi, hertoga af Edinborg, í opinberri heimsókn í Kenýa er faðir hennar lést. Hún var stödd á afskekktu gistiheimili í sveitahéruðum Kenýa er henni voru færðar fregnirnar um dauða föður síns, fregnir sem mótuðu líf hennar fyrr en hún hafði átt von á.

Hún hélt til Englands þegar í stað og sneri aftur sem drottning heimsveldis, stórs heimsveldis. Hún var kona sinnar kynslóðar, mótuð af stríðsátökunum sem mörkuðu valdaferil föður hennar. Hún einsetti sér frá fyrsta degi að gera eins og foreldrar hennar, sem höfðu endurreist veg og virðingu krúnunnar eftir skammarlega brottför Edward VIII. Verkefnið hlýtur að hafa verið tröllvaxið 25 ára gamalli konu. En hún tók við og gerði krúnuna að sinni og tók upp sína siði og sitt verklag með áberandi hætti. Sér við hlið hafði hún ráðgjafann sem hún ráðfærði sig mest við; móður sína sem 52 ára gömul stóð eftir án hlutverks. Elísabet bjó móður sinni opinberan titil drottningamóður.

Elísabet II er sennilega áhrifamesta kona í sögu 20. aldarinnar, sú mest myndaðasta og mest áberandi. Hún hefur verið andlit heimsveldis, vissulega hnignandi heimsveldis, en þó enn áberandi og áhrifamikils heimsveldis, í yfir hálfa öld. Hún eignaðist fjögur börn með eiginmanni sínum, Filippusi; Karl, Önnu, Andrés og Játvarð. Öll hafa þau sett ekki síðra mark á breskt samfélag. Það þótti skandall fyrir ættina þegar að Margrét, systir drottningar, skildi við Snowdon lávarð, mann sinn, á áttunda áratugnum og hún átti í opinberum ástarsamböndum í kastljósi fjölmiðla sem systur hennar og móður mislíkuðu mjög. Það varð þó ekki toppur skilnaðanna í ættinni.

Meiri athygli vakti einkalíf barna drottningar. Er árið 1992 rann í aldanna skaut höfðu þrjú hin elstu öll skilið. Mesta athygli vakti án vafa skilnaður Karls, prins af Wales, og eiginkonu hans, Díönu, prinsessu af Wales. Díana og Karl deildu er á hólminn kom hart á hvort annað. Lögskilnaður þeirra í desember 1992 markaði ekki endalok þess. Bæði veittu fræg sjónvarpsviðtöl þar sem þau sögðu sína hlið skilnaðarins og ellefu ára hjónabands þeirra. Elísabet drottning fékk nóg af stöðunni og skipaði þeim að ganga frá skilnaði. Það tók fjögur að landa skilnaði. Í ágúst 1996 tók hann formlega gildi. Elísabet og Filippus töldu sig þar með hafa heyrt hið síðasta frá Díönu. Svo fór þó ekki.

Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997. Snögglegur dauði hennar varð sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Þegar að komið var með kistu hennar til London síðla daginn sem hún dó varð öllum ljós að stórviðburður væri framundan. Hún dó í kastljósi fjölmiðla og var kvödd með sama hætti. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og um raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Þegar að sýnt var að staðan var að fara úr böndunum tveim dögum fyrir jarðarför prinsessunnar í London sneri drottningin af leið. Hún var allt að því neydd af Tony Blair, forsætisráðherra, sem tekið hafði við völdum nokkrum vikum áður á bylgju velvildar og mestu vinsælda í breskri stjórnmálasögu, til að viðurkenna sess prinsessunnar og votta henni virðingu opinberlega. Drottningin mætti sorgmæddum lýðnum á götum Lundúna, blandaði geði við þá, tók við blómum sem þöktu strætin utan við Buckingham-höll og vottaði prinsessunni hinstu (og mestu virðinguna) í ógleymanlegu sjónvarpsávarpi kl. 17.00 síðdegis þann 5. september 1997.

Það var í annað skiptið sem drottningin ávarpaði landa sína utan hefðbundins jólaávarps. Hið fyrra var upphaf Persaflóastríðsins. Ávarpið var sögulegt að öllu leyti. Þar sýndi drottningin tilfinningar og hugljúfheit, það sem landsmenn höfðu óskað eftir. Hún bjargaði sess sínum og konungdæminu sem tekið var að riðla til falls. Landsmenn tóku drottninguna í sátt og hún ávann sér að nýju þann sess sem hún hafði fyrir lát Díönu. Í minningu um prinsessuna var fánanum á Buckingham-höll, ríkisfánanum margfræga, flaggað í hálfa stöng. Það hafði aldrei gerst áður, ekki einu sinni er faðir hennar var jarðaður í febrúar 1952. Dauði Díönu breytti konungveldinu að eilífu.

Áratug eftir lát Díönu situr drottningin á friðarstóli, mælist vinsælust allra í fjölskyldunni. Margir hafa sagt að móðir hennar hafi verið sú sem að lokum ráðlagði drottningunni að fara til London og mæta fjöldanum - lækna sárin og laga stöðuna. Drottningamóðirin dó árið 2002, en hún var táknmynd fjölskyldunnar í átta áratugi og virtust þeirra allra. Hún varð 101 árs. Það virðist sem að drottningin hafi erft langlífi hennar og góða heilsu. Ef drottningin ríkir enn eftir níu ár slær hún frægt met Viktoríu, ömmu sinnar, er ríkti í 64 ár.

Hver veit nema það gerist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

Beta er klassi

Ólafur fannberg, 6.2.2007 kl. 23:51

2 Smámynd: Adda bloggar

kvitt

Adda bloggar, 7.2.2007 kl. 01:54

3 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Vér þökkum góða samantekt

Sigríður Jósefsdóttir, 7.2.2007 kl. 16:23

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 8.2.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband