Spennandi prófkjör í Suðurkjördæmi

Suðurkjördæmi

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi samþykktu á kjördæmisþingi í dag að halda prófkjör laugardaginn 11. nóvember nk. Það stefnir í spennandi prófkjör og það verður vettvangur mikilla átaka milli reyndra stjórnmálamanna með bæði langa pólitíska sögu og merkilega. Það er ljóst að leiðtogaslagurinn verður slagur Árnanna Johnsen og Mathiesen. Það vekur verulega athygli að Árni Johnsen gefi upp boltann með leiðtogaframboð eftir það sem á undan hefur gerst. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, er reyndur stjórnmálamaður og leggur mikið undir með því að færa sig um kjördæmi. Þetta verður því mjög harður slagur þarna milli manna.

Það markar prófkjörið að enginn afgerandi leiðtogi er á svæðinu. Árni Ragnar Árnason sem leiddi framboðslista flokksins árið 2003 lést ári síðar eftir erfið veikindi. Drífa Hjartardóttir tók við þeim skyldum eftir fráfall Árna Ragnars og í raun að mestu sinnt því á tímabilinu. Greinilegt er að Árni M. og Drífa virðast í nokkru bandalagi, en Drífa tilkynnti sama dag og Árni gaf upp boltann með leiðtogaframboð og tilfærslu úr kraganum þar yfir að hún vildi annað sætið og styddi Árna. Hún berst við Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson um annað sætið. Þeir tveir síðarnefndu vildu auk Drífu leiða listann árið 2003 en urðu undir fyrir Árna Ragnari í uppstillingu.

Um næstu sæti fyrir neðan berjast Gunnar Örlygsson, alþingismaður, Kári Sölmundarson, sölustjóri, Helga Þorbergsdóttir, varaþingmaður, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Halldóra Bergljót Jónsdóttir, bæjarfulltrúi á Höfn og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri Rangárþingi eystra. Gunnar kemur inn nýr á svæðið, en hann er þó vissulega frá Njarðvík upphaflega og af frægri körfuboltaætt þar, en bróðir hans Teitur Örlygsson er landsfrægur körfuboltakappi í Njarðvíkunum. Gunnar leiddi Frjálslynda flokkinn í kraganum í kosningunum 2003 en sinnaðist við menn þar og skipti um flokk. Nú mun koma vel í ljós hver staða hans er innan síns nýja flokks.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða kona nær sterkri stöðu. Þarna berjast mjög sterkar konur um að komast ofarlega á lista. Sérstaklega fagna ég framboði Unnar Brár, vinkonu minnar, en ég ætla rétt að vona að hún nái markmiði sínu með fimmta sætinu, enda þar um að ræða mikla kjarnakonu. En þetta er allavega nokkur kvennaslagur á svipuð sæti og spurning hvaða áhrif það hefur á stöðu kvenna varðandi að hljóta þessi sæti í slag við karlana, en það vekur athygli að þær sækja allar sem ein neðar en karlarnir öflugustu, utan Drífu auðvitað, sem hefur vissulega mun sterkari stöðu sem þingmaður allt frá árinu 1999 og kjördæmaleiðtogi stóran hluta þess tíma.

En þetta verður mest spennandi vegna slagsins um fyrsta sætið. Staða Árna M. Mathiesen hlýtur að teljast fyrirfram sterkari, en það verður hart barist og allt lagt í sölurnar. Það eitt að Árni Johnsen taki fram möguleikann á fyrsta sætinu skapar líflega kosningu og alvöru átök, en lengi vel stefndi í að Árni færi einn fram í fyrsta sætið. En þetta er mikill þingmannaslagur. Þarna eru sjö núverandi og fyrrverandi þingmenn að gefa kost á sér, þar af tveir sem færa sig úr Suðvesturkjördæmi. Ekki fá allir það sem þeir vilja og spennan verður um hverjir hellast úr lestinni og verða undir.

mbl.is Sjálfstæðismenn á Suðurlandi með prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um Silfur Egils?

Egill Helgason

Pólitíkin er heit þessar haustvikurnar. Prófkjör framundan og mikið spáð og spekúlerað í stjórnmálunum. Það vekur athygli að auglýstur þáttur af Silfri Egils var ekki sýndur í hádeginu á tilsettum tíma á dagskrá Stöðvar 2. NFS er öll og því hlýtur þátturinn að verða á Stöð 2, eins og auglýst var. Í staðinn var sýnt hádegisviðtal við Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, um þingstörf en Alþingi kemur saman á morgun. Á eftir tóku svo við Nágrannarnir áströlsku. Engin var því pólitíkin á auglýstum tíma og analíseringarnar um hana á þessum heita sunnudegi í stjórnmálum, þegar að fólk er út um allt að spá og spekúlera um stöðu mála. Hvað verður um Egil?

Dr. Guðfinna Bjarnadóttir í framboð

Guðfinna S. Bjarnadóttir

Dr. Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, hefur ákveðið að gefa kost á sér í þriðja sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem fram fer í lok þessa mánaðar. Þetta eru vissulega stór tíðindi. Guðfinna á að baki langan og farsælan feril í menntamálum. Hún var ennfremur forstjóri LEAD Consulting í Bandaríkjunum 1991-1998 en hefur verið rektor HR frá stofnun árið 1998 og byggt skólann upp sem eina kraftmestu menningarstofnun í landinu. Það er fengur fyrir sjálfstæðismenn að fá slíka kjarnakonu til verka og að hún sýni áhuga á framboði.

Þegar að Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis og fyrrum dómsmálaráðherra, tilkynnti að hún ætlaði að draga sig í hlé og gefa ekki kost á sér í prófkjörinu var mikið talað um að konur yrðu kannski ekki áberandi í prófkjörsslagnum. Það er ljóst að með framboði Guðfinnu og Daggar Pálsdóttur koma öflugar konur til verka og það verður því nóg af kvenkostum fyrir flokksmenn að velja úr á listann. Þegar hefur Ásta Möller, alþingismaður, sem tók sæti á þingi við brotthvarf Davíðs Oddssonar, gefið kost á sér í þriðja sætið.

Það stefnir í spennandi prófkjör í borginni og svo mikið er víst að úr góðum kostum verður að velja fyrir sjálfstæðismenn þegar gengið verður að kjörborði eftir fjórar vikur.

mbl.is Guðfinna S. Bjarnadóttir í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg afmælisveisla Sjónvarpsins

Sjónvarpið

Í gær voru 40 ár liðin frá fyrsta útsendingarkvöldi Ríkissjónvarpsins. 30. september 1966 hófust útsendingar með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar, útvarpsstjóra, skemmti- og afþreyingarþáttum, að ógleymdum blaðamannafundi þar sem dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sat fyrir svörum. Halldór Kiljan Laxness, skáld, las svo upp úr bók sinni, Paradísarheimt. Fyrsti framhaldsþátturinn í Sjónvarpinu var á dagskrá það kvöld, en það var Dýrlingurinn, með Roger Moore, sem síðar lék njósnara hennar hátignar, sjálfan James Bond, í aðalhlutverki. Mun Savanna-tríóið hafa verið með fyrsta skemmtiþáttinn. Merkileg dagskrá.

Að baki er 40 ára eftirminnileg og glæsileg saga. Hvað svo sem segja má rekstrarfyrirkomulag þessarar stofnunar, sem ég hef verið allnokkuð ósáttur við í gegnum árin, má þó fullyrða að þessi stofnun hefur átt merka sögu og glæsilega hápunkta sem vert er að minnast. Það hefur t.d. verið gaman að fylgjast með eftirminnilegum hápunktum úr þessari sögu í góðum, en alltof stuttum, upprifjunarþáttum síðustu vikurnar. Efnið sem Sjónvarpið á í sínum fórum eru menningargersemar sem standa verður vörð um. Það mætti reyndar endursýna meira af íslenska leikna efninu, sem eru svo sannarlega algjörar perlur.

Afmælinu var fagnað með glæsilegri afmælisveislu í útsendingu í útvarpshúsinu við Efstaleiti í gærkvöldi. Ég missti af útsendingunni í gær en horfði á hana nú eftir hádegið í endursýningu. Þetta var alveg yndisleg útsending og ánægjulegt að fylgjast með. Vel stýrt af Evu Maríu, Þórhalli, Sigmari, Jóhönnu og Ragnhildi Steinunni. Innilega til hamingju með afmælið Sjónvarpsfólk. Að baki er merk saga og íslenskt þjóðlíf hefði orðið miklu fátækara án Sjónvarpsins. Það er því ástæða til að gleðjast á svona tímamótum og minnast þess sem eftir stendur. Það er rík og eftirminnileg saga, tel ég.


Illuga í forystusveit í Reykjavík!

Illugi Gunnarsson

Í dag opnar Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, kosningaskrifstofu sína á Suðurlandsbraut vegna prófkjörs sjálfstæðismanna í borginni síðar í þessum mánuði. Það er mikill fengur fyrir flokkinn að Illugi hafi ákveðið að bjóða sig fram og það er mikilvægt að hann fái góða kosningu í þessu prófkjöri. Illugi Gunnarsson er vaxandi pólitísk stjarna að mínu mati. Það leikur enginn vafi á því í mínum huga að Illugi sé efnilegt þingmannsefni fyrir flokkinn í komandi þingkosningum.

Það er spennandi prófkjör framundan og mikilvægt að vel takist til með röðun á lista í Reykjavíkurkjördæmunum. Það er mikið af góðu fólki búið nú þegar að gefa kost á sér og í vikunni mun endanlega skýrast hversu margir bætast við hóp þingmannanna, en þegar er ljóst að Sólveig Pétursdóttir mun ekki fara fram og ekki er vitað með Guðmund Hallvarðsson. Það er ljóst að allar forsendur eru fyrir okkur sjálfstæðismenn að vel takist til.

Sérstaklega er mikilvægt að saman fari í forystu listanna reynsla og svo ferskleiki. Ég tel t.d. mikilvægt að Geir H. Haarde og Björn Bjarnason, ólíkir en traustir menn í forystu Sjálfstæðisflokksins, leiði listana. Á eftir þeim er mikilvægt að komi öflugir menn og sterkar kjarnakonur, einvalalið fólks með reynslu í stjórnmálum og jafnframt einstaklinga með nýja og ferska sýn.

Það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Illugi verði ofarlega á öðrum listanum og því vil ég senda honum góðar kveðjur héðan frá Akureyri nú þegar að hann fer af stað með kosningaskrifstofuna. Ég kemst því miður ekki við opnunina en mun líta þangað á næstu dögum þegar að ég fer suður. En já, Illuga í forystusveitina. Þetta er í mínum huga mjög einfalt mál!

Herinn farinn

F4-þota

Þáttaskil hafa orðið á Miðnesheiði. Bandaríski herinn er farinn og nú blaktir aðeins íslenski fáninn í varnarstöðinni. Þetta voru lágstemmd þáttaskil en þau skipta verulega miklu máli. Síðustu bandarísku hermennirnir eru farnir og nú hefur sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli tekið yfir alla gæslu á varnarsvæðinu. Nú taka reyndar við stórar ákvarðanir og nægt er af viðfangsefnum. Ákveða þarf framtíð svæðisins og nýtingu þess eftir að herinn er nú farinn. Það verður allavega í nægu að snúast þar. En þáttaskil eru þetta og við stöndum á krossgötum í kjölfar þessarar breytinga.

mbl.is Íslenski fáninn blaktir einn á varnarstöðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband