Málefnaþing SUS um helgina

SUS

Málefnaþing SUS verður haldið nú um helgina í Reykjanesbæ. Stefnir í hörkufjör og mikla skemmtun. Yfirskrift þingsins að þessu sinni er: Umhverfið er okkar. Munum við ungir sjálfstæðismenn því líta til umhverfismála, ræða þau í okkar hópi og tjá skoðanir okkar á málaflokknum. Ennfremur verður ráðstefna um umhverfismál á þinginu og öflug umræða um þau.

Hefst þingið með ráðstefnu um umhverfismál síðdegis. Fyrstur flytur ávarp Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Að því loknu flytja ræður þeir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður umhverfisnefndar Alþingis og Andri Snær Magnason, rithöfundur. Í pallborði sitja þau Friðrik, Guðlaugur Þór, Andri Snær, Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, og Unnur Brá Konráðsdóttir, sveitarstjóri.

Þetta verður lífleg og góð helgi í Reykjanesbæ. Það verður ánægjulegt að hitta góða félaga og samherja allsstaðar að um landið og eiga góða helgi saman. Þingin hjá okkur í SUS eru alltaf frábær. :)

Svavar, Stasi og Jón Baldvin

Jón Baldvin

Það er vandræðalegt fyrir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, að nú hafi komist upp að hann hafi viljað rannsaka fortíð Svavars Gestssonar, samráðherra hans í ríkisstjórn 1988-1991, með tilliti til þess hvort hann hefði starfað fyrir austurþýsku leyniþjónustuna Stasi á námsárum sínum í Þýskalandi. Mun sú athugun hafa farið fram meðan að báðir voru ráðherrar á fyrrnefndu tímabili. Það hefur margt komið fram í þessari viku. Greinaskrif Þórs Whitehead hafa afhjúpað ýmislegt. Þar vísar hann á að Jón Baldvin hafi falið Róbert Trausta Árnasyni, fyrrum sendiherra, þetta verk og hefur Róbert Trausti fjallað nú seinustu dagana um það.

Takast nú Jón Baldvin og Róbert Trausti á í fjölmiðlum um málið af hörku. Eins og Svavar Gestsson sjálfur hefur bent á er erfitt fyrir hann að taka afstöðu með öðrum þeirra, enda vitað mál að annar þeirra greinir rangt frá. Er þetta mál hið vandræðalegasta fyrir Jón Baldvin eftir þær uppljóstranir hans að skrifstofusími hans hafi verið hleraður. Er merkilegast af öllu að mun þessi athugun eiga að hafa farið fram í umboði Jóns Baldvins og Steingríms Hermannssonar, þáv. forsætisráðherra. Athygli vekur að Steingrímur hefur ekki viljað tjá sig um þetta mál. Ef rétt reynist er um að ræða mikinn álitshnekki yfir viðkomandi ráðherrum.

Í Kastljósi í gærkvöldi var rætt við Margréti Frímannsdóttur, síðasta formann Alþýðubandalagsins, um þessi mál. Virtist hún hella sér yfir Jón Baldvin og hafði fá góð orð um hans framgöngu að segja. Er greinilegt að vinstrimenn eru ekki lengur sameinaðir í því að standa með Jóni Baldvin í öllum þessum málum. Róttækasti hluti Samfylkingarinnar er hættur að verja hann og hans frásögn. Er enda alveg ljóst að þar hefur hann orðið margsaga og þetta mál er allt hið versta fyrir Jón Baldvin, sem var þegar í erfiðri stöðu að mörgu leyti. Merkilegast var að heyra í Svavari Gestssyni sjálfum sem greinilega gefur sér ekki að Jón Baldvin segi rétt frá.

Þetta er allt hið merkilegasta mál.

Velheppnað umferðarátak

Stopp-merki

Árið 2006 hefur verið mjög erfitt í umferðinni. Margir hafa látið lífið í umferðinni, fjöldi alvarlegra slysa verið með ólíkindum mikill og fjöldi fólks í sárum vegna banaslysa í umferðinni. Fyrir nokkrum vikum var stofnað til umferðarátaksins Nú segjum við stopp. Tæp 40.000 manns rituðu nafn sitt í vefsöfnun átaksins og niðurstöður hraðamælinga á höfuðborgarsvæðinu sýna víst að hraðinn minnkaði eitthvað. Þetta átak var nauðsynlegt til að minna okkur á að það verður að hugsa þessa hluti upp á nýtt og reyna að stilla hraðanum í hóf.

mbl.is ,,Nú segjum við stopp!" bar greinilegan árangur að mati Umferðarstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband