Sigríður Anna Þórðardóttir gefur ekki kost á sér

Sigríður Anna Þórðardóttir

Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og fyrrum ráðherra, tilkynnti á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í kvöld að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum. Það eru nokkur tíðindi að Sigríður Anna hafi ákveðið að draga sig í hlé, en hún hefur verið öflug í forystusveit flokksins undanfarin 15 ár og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Hún var kjörin til setu á Alþingi Íslendinga árið 1991. Hún gegndi formennsku í menntamálanefnd Alþingis 1991-2002, utanríkismálanefnd 2002-2003 og umhverfisnefnd 2003-2004. Sigríður Anna var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003.

Sigríður Anna Þórðardóttir er eini þingmaðurinn í sögu Sjálfstæðisflokksins sem gegnt hefur embætti umhverfisráðherra, en hún sat á ráðherrastóli 2004-2006. Hún var vinnusöm og dugleg sem ráðherra, eins og í öðrum verkum. Fannst mér hún standa sig betur en nokkur annar ráðherra málaflokksins til fjölda ára og hún leiddi fjölda mála innan ráðuneytisins af miklum krafti. Það segir mest um verk hennar að meira að segja stjórnarandstæðingar sáu eftir henni er hún hætti sem ráðherra. Það var okkur sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði að hún skyldi ekki verða áfram ráðherra við uppstokkunina innan ríkisstjórnarinnar við afsögn Halldórs Ásgrímssonar í sumar.

Persónulega vil ég þakka Siggu öll verk hennar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, nú við þessi þáttaskil hennar. Hún hefur verið duglegur félagi í flokksstarfinu og lagt sig alla fram í verkin fyrir hönd flokks og þjóðar á sínum stjórnmálaferli. Sérstaklega vil ég þakka allt sem hún hefur gert fyrir mig í minni pólitík, t.d. gestapistilinn góða sem ég bað hana að skrifa til okkar ungliðanna á sus.is fyrir um ári, og lagt af mörkum fyrir okkur flokksfélaga hér fyrir norðan, en hún hélt hér öflugan fund um umhverfismál í samráði við Sjálfstæðisfélag Akureyrar hér í sinni ráðherratíð og sýndi okkur hvers hún mat flokksstarfið hér á svæðinu.

Það er mikil eftirsjá af Siggu að mínu mati og við hæfi að henni sé þakkað fyrir sitt góða verk. Ég vil óska henni alls góðs á nýjum vettvangi, þegar að stjórnmálaferlinum lýkur.


mbl.is Sigríður Anna Þórðardóttir hyggst hætta á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón staðfestir sögusagnir um borgarframboð

Jón Sigurðsson

Mér skilst á því sem kemur fram á vef Steingríms Ólafssonar í kvöld að nú hafi Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnt formlega um það sem allir vissu, þ.e. að hann ætli að gefa kost á sér í Reykjavík nú í komandi þingkosningum að vori. Allt frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar og því er Jón Sigurðsson kom inn í ríkisstjórn hefur verið rætt um það sem næstum öruggan hlut að Jón færi fram í borginni og það var svo staðfest í raun þegar af honum sjálfum er fram kom að hann færi ekki gegn sitjandi kjördæmaleiðtogum flokksins í aðdraganda kosninganna við að stilla upp lista.

En það er svo hinsvegar staðreynd að ekki er beint um auðugan garð að gresja í borginni fyrir framsóknarmenn. Björn Ingi Hrafnsson komst naumlega inn í borgarstjórnarkosningunum í vor og skv. könnunum hefur flokkurinn aðeins 5% fylgi í báðum borgarkjördæmunum. Það er því ljóst að formaður flokksins er ekki öruggur um kjör í borginni skv. stöðunni á þessari stundu. Það verður verkefni hans að vinna að því að efla flokkinn á kosningavetrinum í borginni og víða um land. Staða Framsóknarflokksins er veikust í þéttbýlinu og þar er hann vart að mælast reyndar nú.

Í gærkvöldi flutti Jón Sigurðsson jómfrúrræðu sína á þingi. Það var vissulega mjög settleg viðhafnarræða, en ekki full af eldmóð eða baráttuhug svosem. Það var svolítið undarlegt að Jón skyldi ekki gefa meira upp um sínar skoðanir og áherslur í stjórnmálum. Hann þarf kynningar við, enda er hann ekki stjórnmálamaður frá fornu fari. Jón er ekki þekktur stjórnmálamaður og þarf að gefa meira upp um afstöðu sína í málum og kynna manninn á bakvið þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins. Það verður verkefni hans á þessum vetri, tel ég.

Þetta verður örlagavetur Framsóknar. Nái hann ekki að eflast undir forystu hins nýja formanns gæti svo farið að framtíðarfólk hans falli allt út og eftir standi lið fortíðar fyrrum forystu og þá er hann á leið í stjórnarandstöðu. Það blasir við að hann endar í því hlutskipti fái hann ekki yfir 10% sem hann hefur verið að mælast með undanfarnar vikur hjá Gallup.

Mamma sextug

Vilborg Friðriksdóttir

Móðir mín, Vilborg Guðrún Friðriksdóttir, er sextug í dag. Ég vil í tilefni dagsins óska henni því að sjálfsögðu innilega til hamingju með daginn.

Hún er stödd á Benidorm nú þessar vikurnar í tilefni afmælisins. Hátíðarhöld verða því ekki í fjölskyldunni vegna afmælis hennar fyrr en heim er komið. Við systkinin komum þó saman í dag hér á Akureyri og fengum okkur létt og gott afmæliskaffi en heyrðum í afmælisbarninu á þessum merkisdagi með sínum hópi úti. 

Merkileg umræða um varnarmál á þingi

Alþingi

Ég fylgdist áðan lauslega með umræðum um varnarmál á Alþingi. Þar flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, munnlega skýrslu um niðurstöðu varnarviðræðnanna við Bandaríkin og fór yfir stöðu mála á þeim þáttaskilum að bandaríski herinn hélt héðan á brott um síðustu helgi. Það markaði endalok 66 ára hersetu á Íslandi og þar af lykilbreytingar á 55 ára gömlum varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Forsætisráðherra flutti ítarlega ræðu um málið og við tók umræða um stöðuna sem uppi er nú við þessi þáttaskil í varnarmálum landsins. Það var miklu fróðlegra að hlusta á umræðuna, en ég hafði búist við áður, þó að ég átti von á að þar kæmu fram ólíkar skoðanir.

Það fer ekki á milli mála hversu ólíkar meginlínur liggja í öryggis- og varnarmálum milli t.d. Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þær komu mjög áberandi fram bæði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi og ekki síður í umræðunni á þingi í dag. Greinilegt er að Samfylkingin firrir sig allri ábyrgð á varnarmálum og spilar sig stikkfría. Þetta eru svosem engin stórtíðindi, en teljast þó stór í sögulegri merkingu sé litið til þess hvaðan að Samfylkingin er ættuð. Einu sinni áður en þetta allrahanda vinstritól var stofnað átti það að sækja rætur inn í gamla Alþýðuflokkinn. Utanríkispólisía Samfylkingarinnar á ekkert skylt við þær rætur. Svo mikið er víst.

Eitt sinn var það nú svo að lýðræðisflokkarnir íslensku studdu allir sem einn það sem vestrænar þjóðir voru að gera og voru með viss áþekk meginstef í utanríkismálum. Nú hefur það greinilega gerst að gamla Alþýðubandalagið hefur náð yfirhöndinni í Samfylkingunni í utanríkismálum. Það blasir við öllum sem horfa á þá stefnu sem frá þingmönnum flokksins kemur. Þar eru enda nú í forystusveit rauðsokkur og gamlir sófakommar. Ég hélt að ég myndi aldrei skrifa eða segja þetta en jæja hér læt ég flakka það: ég sakna áherslna og skoðana gömlu kratanna í utanríkismálum, einkum varnar- og öryggismálum. Þær skoðanir eru orðnar algjört eyland í því vinstrajukki sem Samfylkingin er. Þar eru áherslur og hjal gamaldags sossa í forgrunni og virðast vera ráðandi í stefnutali.

Þetta er merkileg niðurstaða umræðnanna í dag. En mér fannst forsætisráðherra komast vel að orði og fara vel yfir stöðu mála. En enginn hefur reyndar orðað Samfylkinguna og ráðleysi hennar betur en Davíð Oddsson. Hann var flottur á þingi fyrir tveim árum er hann kom í pontu og sagði að Samfylkingin væri eins og hver annar afturhaldskommatittsflokkur. Það er nú sem þá rannsóknarefni fyrir sagnfræðingana að greina hvað varð um kratana og áherslur þeirra í öryggis- og varnarmálum eftir að Alþýðuflokkurinn varð hornreka aumingi innan Samfylkingarinnar.

mbl.is Furðar sig á því að Samfylkingin firri sig ábyrgð á varnarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rudolph Giuliani myndi sigra Hillary Clinton

Rudolph Giuliani og Hillary Clinton

Skv. nýrri könnun NBC-sjónvarpsstöðvarinnar myndi Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, sigra Hillary Rodham Clinton, öldungadeildarþingmann í New York, í forsetakjöri í Bandaríkjunum, yrði kosið á milli þeirra. Vaxandi líkur eru á því í könnunum meðal flokksmanna stóru flokkanna í Bandaríkjunum að þau njóti mests fylgis þeirra. Telja má fullvíst að bæði muni gefa kost á sér. Það hefur verið rætt um framboð þeirra lengi og enginn yrði hissa þó að þau færu á fullt í forsetaframboð á næstu mánuðum. Fyrstu skref fjáröflunar undir merkjum annars vettvangs af hálfu þeirra er reyndar þegar hafinn.

Það eru enn tvö ár í forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þær eiga að fara fram í nóvemberbyrjun 2008. Það er þó mikið verkefni að halda í forsetaframboð þar og krefst allt að eins og hálfs árs grunni við uppbyggingu maskínu til verka. Það má því gera ráð fyrir að línur um hverjir fari fram þar muni ráðast fyrir mitt næsta ár. Það vekur athygli að Giuliani hafi svo sterkt forskot á Hillary Rodham Clinton á þessum tímapunkti. Persónulega taldi ég að hún væri sterkari, enda hefur hann ekki verið sýnilegur mikið á stjórnmálavettvangi undanfarin ár. En það er greinilegt að hann nýtur mikils stuðnings vegna forystu sinnar í New York á örlagatímum í alþjóðamálum haustið 2001.

Flestir töldu að þau myndu takast á í öldungadeildarkjörinu í New York árið 2000, en Giuliani fór þá ekki fram vegna veikinda, en hann greindist með krabbamein árið 2000. Þess í stað hlaut Hillary auðvelda kosningu og þurfti ekki að há harðan slag. En nú stefnir mjög margt í að það verði þau sem takist á um forsetaembættið í Bandaríkjunum þegar að George W. Bush lætur af embætti. Það mun verða spennandi slagur, ef af verður. En fyrst taka við forkosningar stóru flokkanna. Það verða gríðarleg átök inni í báðum flokkum, enda er hvorugt þeirra með öllu óumdeild innan sinna raða.

mbl.is Giuliani vinsælli en Hillary Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilhugalíf stjórnarandstöðunnar

Stjórnarandstaðan

Nú er stjórnarandstaðan búin að líma sig saman á kosningavetri. Er það nokkur furða, að svo fari? Það er varla við öðru að búast. Skil þó ekki í andstöðunni að vera ekki í alvöru kosningabandalagi og gefa kjósendum þann skýra kost. Við það fækkar valkostum kjósenda. Skýrar línur eru svosem alltaf góðar. Það er greinilegt að Samfylkingin leggur ekki í að fara svo langt, verandi með svipað fylgi og VG í flestum skoðanakönnunum Gallups og vilji halda öllum hlutum opnum.

Annars finnst mér merkilegt að sjá í nýjustu fylgiskönnun Gallups, þá einkum hversu víða munar litlu á milli vinstriflokkanna tveggja á meðan að Frjálslyndir virðast vera að hrynja fyrir ætternisstapann. Er annars ekki fínt að fara yfir tölur í könnun Gallups og kanna hvernig staðan er:

Reykjavík norður: SF: 30% - VG: 23%
Reykjavík suður: SF: 24% - VG: 21%
Suðvesturkjördæmi: SF: 28% - VG: 17%
Norðvesturkjördæmi: SF: 18% - VG: 23%
Norðausturkjördæmi: SF: 23% - VG: 23%
Suðurkjördæmi: SF: 31% - VG: 14%

Þetta eru mjög merkilegar tölur. Það sem ég tók strax eftir við tölurnar er hversu lítill munur er á vinstriflokkunum í borgarkjördæmunum og það að VG er stærri í Norðvestri og flokkarnir séu jafnstórir í Norðaustri. Stærst er Samfylkingin í Suðurkjördæmi og þar mælist munurinn auðvitað mestur. En það er alveg greinilegt að VG hefur styrkst mjög víða og stendur á lykilstöðum ekki fjarri Samfylkingunni.

Sælir eru annars aumingjagóðir að muna eftir smælingjum eins og Frjálslyndum, sem mælast varla í könnunum.

mbl.is Sameiginlegar áherslur stjórnarandstöðunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi kosningabarátta í Bandaríkjunum

Þinghúsið

Það stefnir í spennandi kosningar í Bandaríkjunum til öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Repúblikanar eiga í vök að verjast á mörgum vígstöðvum. Ofan á allt annað veikir það stöðu flokksins nú að einn þingmanna repúblikana í fulltrúadeildinni, Mark Foley, hrökklaðist frá þingsetu í kjölfar þess að fjölmiðlar birtu vafasama kynferðistengda tölvupósta og skilaboð sem hann hafði sent til unglingspilta sem vinna sem sendiboðar í þinghúsinu í Washington. Í kjölfar þess hafa raddir orðið háværar um að Dennis Hastert, forseti fulltrúadeildarinnar, víki. Hefur George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, slegið skjaldborg um Hastert og um leið fordæmt Foley.

Kosningar verða í Bandaríkjunum eftir nákvæmlega mánuð. Þetta hneykslismál virðist í fljótu bragði geta skaðað flokkinn það mjög að hann missi fulltrúadeildina hið minnsta. Fari svo að Hastert hrökklast frá forsetaembættinu í fulltrúadeildinni fyrir kosningar mun það aðeins skaða flokkinn. Reyndar má með ólíkindum teljast að Hastert skuli ekki hafa brugðist fyrr við í tilfelli Foleys og farið nánar í saumana hvað varðar óásættanlega framkomu hans. Þetta allt eru erfiðar umræður fyrir repúblikana. Það eina sem þeir geta gert er að verja Hastert og reyna með því að vona að umræðan róist. Ekkert við þetta mál er þó gott og hæglega má fullyrða að jafnt verði í deildinni.

Lieberman og Bush

Staðan í öldungadeildinni er ekki heldur það sterk að öruggt geti talist miðað við umræðuna vestra þessa dagana. Mesta spennan ríkir væntanlega um þingsætið í Connecticut. Í forkosningum demókrata í fylkinu í ágústbyrjun varð Joe Lieberman, öldungadeildarþingmaður, undir í slag við hinn lítt þekkta Ned Lamont. Hann háði baráttuna gegn Lieberman á þeim grunni að þingmaðurinn væri stuðningsmaður Íraksstríðsins og hefði stutt Bush forseta á vettvangi þingsins. Lamont notaði óspart myndskeið frá ræðu forsetans í sameinuðum deildum þingsins snemma árs 2005 þar sem að Bush gekk til Lieberman og kyssti hann á kinnina. Lieberman tapaði kosningunum á Íraksstríðinu.

Staða hans er hinsvegar vænleg í væntanlegum kosningum í fylkinu, þar sem hann fer fram sem óháður frambjóðandi gegn Lamont. Lieberman hefur haft yfirhöndina í nær öllum skoðanakönnunum síðustu vikurnar og stefnir að óbreyttu því í sigur hans. Eins og staðan er t.d. nú hefur Lieberman forskot upp á 5-10%. Flestir forystumenn demókrata sem studdu Lieberman í forkosningunum styðja nú Lamont. Það yrði mikið áfall fyrir demókrata ef Lieberman tekst að halda þingsæti sínu nú sem óháður. Lieberman var varaforsetaefni Al Gore árið 2000 og gæti orðið þeim óþægur ljár í þúfu haldist hann áfram inni. Lieberman hefur setið á Bandaríkjaþingi frá árinu 1989.

En þetta verða spennandi kosningar. Það stefnir í átök á öllum vígstöðvum og verður sérstaklega athyglisvert að fylgjast með hversu illa þetta hneykslismál skaðar repúblikana í fulltrúadeildinni. Stóra spurning baráttunnar er þó hvort repúblikanar halda velli. Það verður sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig fer með öldungadeildina. Ég mun á næstu vikum fara nánar yfir stöðuna vestra, eftir því sem styttist sífellt í kjördaginn.

Bloggfærslur 4. október 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband