Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Í minningu Árna frænda

Árni Helgason Frændi minn, Árni Helgason í Stykkishólmi, lést í gær, 93 ára að aldri. Það er margs að minnast þegar að hugsað er til Árna, en hann er einn litríkustu og traustustu manna sem ég hef nokkru sinni kynnst. Móðir hans, Vilborg Árnadóttir, var systir afa míns, Friðriks Árnasonar, og var móðir mín nefnd eftir henni. Það voru alltaf sterkar taugar á milli fjölskyldu minnar og Árna - hann reyndist mínu fólki alla tíð mjög góður og var ávallt til staðar.

Hefur mér alla tíð þótt mjög vænt um Árna og metið hann mikils. Hann var aðeins örfáum mánuðum yngri en amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, en þau voru æskuvinir á Eskifirði og höfðu samskipti alla tíð. Árni var fyrsti skólafélaginn hennar eftir að hún fluttist til Eskifjarðar árið 1923 og héldust þau vinabönd alla tíð - hann skrifaði fallega minningargrein um hana þegar að hún lést aldamótaárið sem mér þótti svo innilega vænt um.

Árni var einfaldlega traustur og sannur maður. Hann var trúr sínum lífsskoðunum og baráttumálum. Hann lagði engum illt til. Á ættarmótum Högnastaðafjölskyldunnar var Árni sjálfkjörinn í að setja saman fróðleik og vísur, en hann var rómaður hagyrðingur sem setti saman vísur við öll tilefni og skilur hann eftir sig merkilegt safn fallegra vísna, sem fjalla vel um bæði stjórnmál og mannlífið sjálft.

Það var alltaf virkilega notalegt að fylgjast með eljunni í Árna. Hann var alltaf að, skrifaði greinar í Morgunblaðið nær alveg fram í andlátið, skrifaði dagbókina sína þar til daginn áður en hann dó og hafði skoðanir á öllum málum. Áhugi á þjóðfélagsmálum var honum sem í blóð borið og það var honum mikilvægt að fylgjast vel með. Það mátti alltaf stóla á að hann væri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hann sat landsfundi í yfir sextíu ár  - var vel með á alla hluti og algjör fróðleiksbrunnur.

Mér þótti mjög vænt um að sjá hann á sambandsþingi SUS í Stykkishólmi haustið 2005. Þar var hann, rúmlega níræður, einn af fundarmönnum nær allt þingið. Hann sat yfir þingstörfum og fylgdist mjög vel með, einkum á laugardeginum þegar að farið var yfir ályktanir og ræddi málin við okkur. Tók spjall við mig um hvernig staðan væri með þetta mál hjá okkur og hitt. Þannig var Árni, hann var áhugasamur um það sem við vorum að gera og fylgdist með.

Árni var rómaður bindindismaður og varði þau gildi sín alla tíð, oftast nær í greinum í Morgunblaðinu. Það var gagnlegt og fróðlegt að lesa skrif Árna um áfengismál og hann lét ekki sinn hlut í þeirri baráttu, var einlægasti og traustasti bindindismaður sem ég hef kynnst. Hann var um áratugaskeið fréttaritari Moggans - hann unni blaðinu og vann því vel alla tíð. Það væri gaman að vita, nú að leiðarlokum, hversu margar greinar hann skrifaði í blaðið.

Og trúr var hann Sjálfstæðisflokknum. Það var alltaf yndislegt að heyra sögur Árna af samskiptunum við forystumenn flokksins, en hann þekkti þá alla persónulega, nema Jón Þorláksson sennilega. Árni var í hópi þeirra sem fyrstur tók þátt í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og varð eftir það traustur vinur og bandamaður Gunnars Thoroddsens, sem var um tíma þingmaður Snæfellinga.

Þrátt fyrir að Árni frændi væri heiðursborgari í Stykkishólmi var hann ekki úr Hólminum, þó að hann sé einn þeirra manna sem helst eru tengdir við staðinn. Hann var Eskfirðingur, en fluttist vestur í upphafi fimmta áratugarins og bjó þar alla tíð síðan. Þangað fluttu ennfremur tveir bræður móður minnar, Kristinn og Guðni Friðrikssynir. Settu þeir sterkan svip á samfélagið þar.

Að leiðarlokum kveð ég Árna frænda minn með virðingu og þakklæti fyrir allt sem hann gerði fyrir fjölskyldu mína. Hann var trúr sínu fólki og var í góðum samskiptum við móður mína síðustu mánuðina sem hann lifði og sendi henni notalegar kveðjur í veikindum hennar, skrifaði henni meðan að kraftar entust og hafði símasamband við okkur.

Það er skarð fyrir skildi við andlát Árna. Guð blessi minninguna um þennan heilsteypta og vandaða mann.

mbl.is Árni Helgason látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bekkjarmót - fyndin gömul mynd

Við bekkjarfélagarnir í öll þessi ár, 77-árgangurinn, ætlum að fara að hittast og undirbúa bekkjarmót. Fínn hópur. Gott að kynnast aftur þeim sem maður hefur ekki hitt lengi og svo bara að spjalla við þá sem maður hefur þó haldið kontakt einhverjum við. Stína, bekkjarsystir, stýrir þessu af sinni alkunnu snilld.

Var að skoða myndasíðuna sem Nonni bekkjarbróðir setti saman og er með bekkjarmyndunum af okkur. Set hér tengil á eina myndina, en þetta er myndin af tíunda bekk árið 1993, þegar að skyldunáminu lauk með glans.

Fyrir þá sem ekki vita alveg nákvæmlega hvar ég er, er ég í endaröðinni á endanum í bláu flottu merkjapeysunni.

ahaha þetta er alveg brill mynd, segi ekki annað sko.

Bekkjarmynd 1993

Reffilegur Árni á prófkjörsskrifstofunum

Árni og Björn

Hef verið að fara yfir vefi prófkjörsframbjóðandanna í Reykjavík. Vel gerðar heimasíður og gaman að sjá hversu vel frambjóðendur standa sig í þessum efnum. Það skiptir verulega miklu máli í dag að vera með góða heimasíðu ætli fólk í prófkjör. Heimasíðu með innihaldi og krafti. Það vill enginn sjá lengur illa uppfærða og lítt hugsaða vefi, þeir eru mun frekar til marks um dugleysi frambjóðandanna en hitt.

Gladdist mjög að skoða myndasíður á vefum Björns Bjarnasonar, Sigurðar Kára og Ástu Möller. Þar eru myndir af frænda mínum, Árna Helgasyni úr Stykkishólmi með frambjóðendunum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hann er ern og hress. Árni og móðir mín eru systkinabörn. Hefur mér alla tíð þótt mjög vænt um Árna og metið hann mikils. Hann er landsþekktur fyrir störf sín og flokksstarf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Ennfremur er hann vel þekktur fyrir að vera rómaður bindindismaður.

Árni er 92 ára að aldri – reffilegur og virðulegur heiðursmaður. Hann hefur setið alla landsfundi frá árinu 1944 og vel þekktur innan flokksins. Árni er fæddur og uppalinn á Eskifirði. Flutti hann í Hólminn í upphafi fimmta áratugarins og hefur búið þar síðan. Þangað fluttu ennfremur tveir bræður móður minnar, Kristinn og Guðni Friðrikssynir. Settu þeir ekki síður svip á samfélagið þar en Árni.

Ragnhildur, Ásta og Árni

Voru þeir til fjölda ára allir öflugir í starfi flokksins í bænum og var Ellert Kristinsson, frændi minn, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um tíma í bæjarstjórn Stykkishólms. Árni var árinu yngri en amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir. Voru þau æskufélagar og hélst vinátta þeirra alla tíð. Það er því gaman að sjá þessar myndir og greinilegt að Árni fylgist vel með stjórnmálunum enn og er vel inn í málum í prófkjörsmálunum.

Birti hérna mynd af Árna með Birni Bjarnasyni og hin sýnir hann með Ástu Möller og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra.

Mamma sextug

Vilborg Friðriksdóttir

Móðir mín, Vilborg Guðrún Friðriksdóttir, er sextug í dag. Ég vil í tilefni dagsins óska henni því að sjálfsögðu innilega til hamingju með daginn.

Hún er stödd á Benidorm nú þessar vikurnar í tilefni afmælisins. Hátíðarhöld verða því ekki í fjölskyldunni vegna afmælis hennar fyrr en heim er komið. Við systkinin komum þó saman í dag hér á Akureyri og fengum okkur létt og gott afmæliskaffi en heyrðum í afmælisbarninu á þessum merkisdagi með sínum hópi úti. 

Laufskálaviðtal við Ellu Möggu



Vinkona mín, Elín Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar Akureyrarbæjar, var í Laufskálaviðtali í morgun á Rás 1. Virkilega skemmtilegt viðtal og áhugavert. Bendi lesendum á viðtalið við Ellu Möggu hérmeð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband