Reffilegur Árni á prófkjörsskrifstofunum

Árni og Björn

Hef verið að fara yfir vefi prófkjörsframbjóðandanna í Reykjavík. Vel gerðar heimasíður og gaman að sjá hversu vel frambjóðendur standa sig í þessum efnum. Það skiptir verulega miklu máli í dag að vera með góða heimasíðu ætli fólk í prófkjör. Heimasíðu með innihaldi og krafti. Það vill enginn sjá lengur illa uppfærða og lítt hugsaða vefi, þeir eru mun frekar til marks um dugleysi frambjóðandanna en hitt.

Gladdist mjög að skoða myndasíður á vefum Björns Bjarnasonar, Sigurðar Kára og Ástu Möller. Þar eru myndir af frænda mínum, Árna Helgasyni úr Stykkishólmi með frambjóðendunum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hann er ern og hress. Árni og móðir mín eru systkinabörn. Hefur mér alla tíð þótt mjög vænt um Árna og metið hann mikils. Hann er landsþekktur fyrir störf sín og flokksstarf í þágu Sjálfstæðisflokksins. Ennfremur er hann vel þekktur fyrir að vera rómaður bindindismaður.

Árni er 92 ára að aldri – reffilegur og virðulegur heiðursmaður. Hann hefur setið alla landsfundi frá árinu 1944 og vel þekktur innan flokksins. Árni er fæddur og uppalinn á Eskifirði. Flutti hann í Hólminn í upphafi fimmta áratugarins og hefur búið þar síðan. Þangað fluttu ennfremur tveir bræður móður minnar, Kristinn og Guðni Friðrikssynir. Settu þeir ekki síður svip á samfélagið þar en Árni.

Ragnhildur, Ásta og Árni

Voru þeir til fjölda ára allir öflugir í starfi flokksins í bænum og var Ellert Kristinsson, frændi minn, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins um tíma í bæjarstjórn Stykkishólms. Árni var árinu yngri en amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir. Voru þau æskufélagar og hélst vinátta þeirra alla tíð. Það er því gaman að sjá þessar myndir og greinilegt að Árni fylgist vel með stjórnmálunum enn og er vel inn í málum í prófkjörsmálunum.

Birti hérna mynd af Árna með Birni Bjarnasyni og hin sýnir hann með Ástu Möller og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband