12.11.2006 | 23:55
Gerald Ford langlífastur bandarískra forseta

Gerald Ford var þingmaður repúblikana í fulltrúadeildinni fyrir Michigan á árunum 1949-1973. Nær allan feril Ford í fulltrúadeildinni voru repúblikanar í minnihluta þar, þeir náðu ekki meirihluta þar fyrr en árið 1994, og það með sögulegum hætti, en misstu hann svo aftur nú í kosningunum í vikunni. Ford var leiðtogi minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni á árunum 1965-1973. Það ár sagði Spiro Agnew, varaforseti í stjórn Richard M. Nixon, forseta, af sér embættinu vegna hneykslismála. Nixon ákvað að tilnefna Ford sem nýjan varaforseta og fór hann fyrir öldungadeildina og var staðfestur sem varaforseti í desember 1973.
Á þeim tíma sem Ford tók við varaforsetaembættinu var um fátt meira talað um Watergate-hneykslið, mál sem tengdist inn í helstu innviði stjórnkerfisins. Skref fyrir skref veikti málið sífellt stöðu Nixons forseta og lykilsamherja hans. Að því kom að sannanir sýndu svo ekki var um villst að Nixon vissi af málinu áður en hann hafði sagt áður. Honum varð ekki sætt eftir að þingið ákvað að stefna honum fyrir embættisafglöp og flest benti til að hann yrði rekinn frá embætti með skömm. Hann sagði af sér þann 9. ágúst 1974 og með því varð Ford fyrsti forseti Bandaríkjanna sem aldrei hafði verið kjörinn af landsmönnum sem forseta- eða varaforsetaefni. Hann tók við erfiðu búi. Stjórnkerfið var lamað vegna hneykslismála og erfiðleika.
Ford ákvað að náða Nixon skömmu eftir afsögn hans. Það olli miklum deilum og leiddi til óvinsælda forsetans sem náði aldrei að hrista skuggann af sér. Ford þótti vandvirkur stjórnmálamaður og standa sig vel miðað við aðstæður í forsetaembættinu, en hans biðu miklir erfiðleikar og lömuð ríkisstjórn hvað almenningsálitið varðaði, enda höfðu bæði forsetinn og varaforsetinn sem kjörnir voru í kosningunum 1972 hrökklast frá vegna alvarlegra hneykslismála. Staðan var breytt og forsendur mála við forsetakjörið 1972 hafði algjörlega breyst, enda hvorugur þeirra sem þá hlutu kjör eftir í embættum sínum.
Ford gaf kost á sér í forsetakosningunum 1976. Það gekk þó ekki auðveldlega fyrir hann að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins sem forsetaefni hans, en hann tókst á við Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóra í Kaliforníu, um útnefninguna og hafði betur eftir harðan slag. Forsetatign Fords réði þar úrslitum. Reagan átti síðar eftir að verða kjörinn forseti Bandaríkjanna í sögulegum forsetakosningum árið 1980, elstur forseta við völd og sat í átta ár. Ford valdi Bob Dole (sem varð forsetaefni repúblikana árið 1996) sem varaforsetaefni sitt. Tókst Ford á við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, um embættið. Vann Carter nauman sigur á forsetanum eftir tvísýna og spennandi atkvæðatalningu.
Gerald Ford vék úr sviðsljósi stjórnmálanna, eftir tapið í forsetakosningunum 1976, er hann lét af embætti þann 20. janúar 1977, er kjörtímabili Richards M. Nixon lauk formlega. Til greina kom þó við forsetakosningarnar 1980 að Ronald Reagan myndi velja Ford sem varaforsetaefni sitt. Svo fór ekki og Reagan valdi George H. W. Bush í staðinn. Það er sennilega kaldhæðni örlaganna að eftir að Carter lét af embætti árið 1981, eftir að hafa tapað fyrir Reagan, hafa Gerald og Betty Ford orðið perluvinir Jimmy og Rosalynn Carter.
Heilsa Ford var jafnan upp á hið allra besta en henni hefur þó hrakað jafnt og þétt seinustu tvö árin. Hann kemur nú ekki lengur fram opinberlega og hefur oft á þessu ári verið lagður inn á sjúkrahús vegna veikinda og greinilegt að mjög er tekið að halla undan fæti hjá honum.
Æviágrip Gerald Ford á vef Hvíta hússins
12.11.2006 | 21:23
Össur skrifar sig pent frá tveim konum
Ingibjörg Sólrún fékk innan við 70% atkvæða í fyrsta sæti flokksins, þó að enginn væri annar í framboði um sætið. Það vekur mikla athygli í ljós þess að þar fer formaður flokksins, "sameiningartákn" R-listans og vinsæll borgarstjóri í níu ár og síðast en ekki síst vonarstjarna vinstrimanna, eins og hún var kölluð æ ofan í æ fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þessi kona var sótt af kjörnefnd eftir prófkjörið í nóvember 2002 og talin svo mikilvæg að henni var valinn sess í baráttusæti, sem leiddi reyndar til þess að samstarfsflokkar hennar sviptu hana því sem var henni kærast; borgarstjórastólnum sínum og með því öllum völdum og áhrifum sem mest hana skiptu.
Ingibjörg Sólrún hefur verið eins og vafrandi vingull eftir að hún missti borgarstjórastólinn. Hún er eins og gamall vonarneisti með flottustu fiðlu heims í farteskinu, en fiðlan er orðin svo fölsk að enginn vill hlusta á vonarneistann spila lengur lögin sín. Það er enginn eftir nema fastagestirnir sem vilja hlusta á fagnaðarerindið. Það er kannski ekki skaðlegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að fá ekki nema þessi prósentustig en það er niðurlægjandi fyrir hana í sínu fyrsta prófkjöri, þar sem átti nú að sanna í eitt skipti fyrir öll að hún væri hin afgerandi leiðtogi Samfylkingarinnar; hún væri hin eina og sanna sem gæti stillt Samfylkingunni upp sem sigursveit og valkosti vinstrimanna.
Össur skrifar um úrslitin eins og Ingibjörg Sólrún, sem felldi hann af formannsstólnum, sé ekki til og hafi ekki verið í kjöri. Það er ekki minnst orði einu á stöðu hennar sem leiðtoga flokksins í Reykjavík. Skilaboðin geta vart verið skýrari en þetta. Össur ber enn harm sinn í brjósti. Það var ráðist að honum með heift og kergju á sínum tíma. Honum átti að bola út fyrir að þekkja ekki sinn vitjunartíma og "leyfa ekki" Ingibjörgu Sólrúnu að vera formaður. Formannsslagurinn var harðvítugur. Össur barðist hetjulegri og öflugri baráttu en varð undir. Hann var særður en ekki veginn í þeim slag. Hann lifir enn sínu pólitísku lífi á eigin vegum og minnti vel á stöðu sína með öflugum vefskrifum.
Guðrún Ögmundsdóttir er ekki nefnd á nafn í pistli Össurar. Hún fékk mest áberandi skellinn í þessu prófkjöri, þann sem eftir situr í einhverjum eflaust. Guðrún, sem varð fimmta í prófkjörinu í nóvember 2002, lenti nú í því ellefta og þingmannsferli hennar er að ljúka. Enginn vafi á því og Guðrún er greinilega særð þó hún beri sig vel, enda kjarnakona með stáltaugar. Guðrún vann sín verk af heilindum og heiðarleika en var ekki fljúgandi á milli glanstímaritanna og fréttastofanna. Hún var þó áberandi á mörgum sviðum. Einhverjir eiga eftir að missa þar hauk í horni. Það vekur mikla athygli að Össur sér ekki ástæðu til að víkja einu orði að örlögum Gunnu Ö við dagslok átakanna.
Guðrún er heilsteypt þegar að hún birtir heildarreikning prófkjörsframboðs síns og minnir væntanlega aðra í prófkjörinu á að birta skuli reikninga. Það er merkilegt að líta yfir tölurnar og hvernig þær skiptast. Þetta er merkilegur reikningur. Enn merkilegri eru þó reikningsskil Össurar við þessar tvær konur þegar að hann gerir upp prófkjörið. Þessar fyrrum fylgiskonur Kvennalistans sem fengu skell með mjög ólíkum hætti sjást þar ekki og þær eru ekki áberandi í yfirferð fyrrum formanns Samfylkingarinnar, sem enn er að jafna sig á hjaðningavígum ársins 2005 í Samfylkingunni. Þeirra sést enn merki með kostulegum hætti, ekki satt?
![]() |
Guðrún Ögmundsdóttir birtir kostnaðartölur vegna nýafstaðins prófkjörs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2006 | 17:30
Beiskur sigur ISG - lítil nýliðun - Guðrún fellur

Um var að ræða beina og breiða braut fyrir formanninn. Þetta er því varla gleðiefni fyrir hana. Í Silfri Egils laust eftir hádegið voru Ingibjörg Sólrún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýr kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, að fara yfir tíðindi gærdagsins og mátti greina beiskju í tali ISG. Hún sagði að í Samfylkingunni tíðkaðist nú svo sannarlega ekki að menn fengju rússneskar kosningar. Þetta var ekki sannfærandi tal hjá flokksformanninum, sem var án allra kosninga krýnd sem forsætisráðherraefni, frambjóðandi í Reykjavík norður árið 2003 og varaformaður Samfylkingarinnar.
Kjörsókn hjá Samfylkingarmönnum var heldur ekkert til að hrópa ferfalt húrra fyrir. Þar kusu innan við 5000, færri en í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suður- og Suðvesturkjördæmi í gær. Miðað við að þarna var um að ræða galopið prófkjör vekur þetta allverulega athygli. Sjálfstæðismenn fengu vel yfir 10.000 manns til að kjósa í lokuðu prófkjöri í Reykjavík í lok síðasta mánaðar. Ingibjörg Sólrún hlýtur ekki sterkt umboð sem leiðtogi í Reykjavík, miðað við að hafa verið borgarstjóri í níu ár og auk þess ein í kjöri auðvitað um sætið. Það var allavega ekki sannfærandi að hlusta á hana tala um þetta. Þess má reyndar geta að þetta er fyrsta prófkjörið hennar.
Þetta var prófkjör hinna sitjandi þingmanna heilt yfir sagt. Í sjö efstu sætunum eru sitjandi þingmenn, sem raða sér þar upp. Össur Skarphéðinsson heldur leiðtogastól sínum í Reykjavík og fær nokkuð góða kosningu, miðað við allt sem á hefur gengið hjá honum. Hann missti flokksformennskuna fyrir einu og hálfu ári þegar að svilkonan Ingibjörg Sólrún lagði í hann. Össur má vel við una og hefur risið upp aftur pólitískt svo um munar. Gratúlera með hinum vestfirska sagnamanni. Jóhanna Sigurðardóttir missti leiðtogastólinn sinn og verður í öðru sætinu á lista leiddum af Ingibjörgu Sólrúnu. Jóhanna er eins og flestir vita starfsaldursforseti þingsins.

Um sjöunda sætið tókust undir lok talningarinnar þau Mörður Árnason og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Mörður hafði sætið að lokum og Steinunn Valdís varð áttunda. Það hljóta að teljast mikil vonbrigði fyrir Steinunni Valdísi að hafa ekki komist ofar, sé tekið mið af því að hún var borgarstjóri fyrir Samfylkinguna undir lok stormasamrar valdasögu R-listans og borgarfulltrúi fyrir flokkinn allt frá stofnun. Steinunn Valdís stefndi á fjórða sætið, en endar sem fjórða á öðrum listanum í borginni. Þetta er skv. skoðanakönnunum ekki tryggt þingsæti. Níunda varð Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, en hún var sjötta í fyrstu tölum, og hlýtur hún að vera sár með að hafa ekki halast inn ofar.
Valgerður Bjarnadóttir, ekkja Vilmundar Gylfasonar og dóttir Bjarna Benediktssonar (og því systir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra) varð tíunda í prófkjörinu. Vala hefur lengi verið virk í stjórnmálum. Hún var stoð og stytta Vilmundar á stormasömum stjórnmálaferli og vann ötullega með honum í blíðu og stríðu. Hún hvarf úr íslensku þjóðlífi að mestu eftir sviplegt fráfall Vilmundar. Fyrir nokkrum árum sneri hún aftur og varð virk innan Samfylkingarinnar og fór nú fram í fyrsta skipti. Ég taldi að hún yrði ofar, en ég hefði haldið að Vala yrði öflugur liðsmaður fyrir flokkinn í öruggt sæti. Heilt yfir er því staða mála sigur sitjandi þingmanna og aðeins einn nýliði í átta efstu.

Tíðindi prófkjörsins er því sigur sitjandi þingmanna, beiskur 70% sigur ISG í fyrsta sætið þar sem enginn slagur var í raun og fall Guðrúnar Ögmundsdóttur. Ofan á allt annað situr eftir merkilega lítil kjörsókn miðað við galopið prófkjör í sjálfri höfuðborginni. Var ekki Bingi annars að segja á vef sínum að þetta sé svipað og var í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík í janúar? Ekki held ég að ISG verði hrifin af þeim samanburði, hreint út sagt.
![]() |
Niðurstaðan ljós í prófkjöri Samfylkingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2006 | 13:34
Sigur Árnanna í Suðrinu - þrír þingmenn falla

Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, snýr aftur og vinnur góðan sigur í prófkjörinu. Hann er aftur á leið á þing. Árni Johnsen er svo sannarlega ekki óvanur þingmennsku, en hann var alþingismaður á árunum 1983-1987 og 1991-2001, en hann varð þá að segja af sér vegna hneykslismáls. Hann tók út sína refsingu og dvaldi m.a. á Kvíabryggju. Hann hlaut uppreist æru síðsumars af handhöfum forsetavalds. Endurkoma Árna í stjórnmálin er umdeild. Mér líkar ekkert alltof vel þessi endurkoma, hreint út sagt. Þetta á eftir að verða umdeilt að flestu leyti. En flokksmönnum í Suðurkjördæmi gafst færið á að kjósa og ekki betur hægt að sjá en að þeir vilji Árna aftur í fremstu víglínu hjá sér.

Það vekur gríðarlega athygli að Drífa Hjartardóttir, alþingismaður, sem tók við leiðtogastöðu kjördæmisins við andlát Árna Ragnars Árnasonar árið 2004, fær verulegan skell og verður í sjötta sæti. Hennar þingmannsferill er á enda. Ég verð að harma þá útreið sem að hún fær í kosningunni. Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson voru undir meginhluta talningarinnar. Er á leið tókst Guðjóni að komast upp í þriðja sætið, falla svo niður í það fjórða og detta svo aftur niður í óvissuna í sjöunda sætið.
Gunnar Örn, sem gekk í Sjálfstæðisflokkinn vorið 2005 eftir að hafa verið kjörinn þingmaður Frjálslynda flokksins vorið 2003, fékk mikinn skell og verður ekki í framboði fyrir flokkinn. Kristján Pálsson, sem fór í sérframboð árið 2003 eftir að hafa verið hafnað á kjördæmisþingi, fékk gríðarlegan skell og varð ellefti af þrettán frambjóðendum. Það er því mörgum sparkað eftir þetta prófkjörið og fyrir suma er skellurinn sárari en aðra. Það er með ólíkindum að sjá hversu miklar breytingar verða. En þetta eru greinilega mjög skýr skilaboð.
Þetta er því prófkjör sviptinganna. Þingmönnum er hafnað eftir langt starf, sumum eftir skemmra starf. Tveim af þrem efstu frá því síðast er sparkað með augljósum hætti. Þetta eru gríðarlega mikil tíðindi, sem eiga eftir að vekja athygli og það langt út fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
![]() |
Kjartan endaði í þriðja sæti í Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2006 | 04:43
Árni Johnsen aftur á þing - sviptingar í Suðrinu
Mikil spenna er nú í Tryggvaskála á Selfossi þar sem líður nú að lokum talningar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Árni M. Mathiesen og Árni Johnsen hafa verið í fyrsta og öðru sætinu alla talninguna. Miklar sviptingar hafa þó orðið eftir því sem liðið hefur á nóttina. Um eittleytið féll Drífa Hjartardóttir, sem verið hefur leiðtogi flokksins í kjördæminu frá árinu 2004, eða frá andláti Árna Ragnars Árnasonar, niður í sjötta sætið, en hún var í því fjórða í fyrstu tölum. Björk Guðjónsdóttir hafði sætaskipti við Drífu. Annað óbreytt.
Nú laust fyrir þrjú komu nýjar tölur og höfðu þá verið talin 4000 atkvæði af 5200. Þá var Guðjón Hjörleifsson, alþingismaður, kominn upp í þriðja sætið og Kjartan Ólafsson fallinn niður í það sjöunda. Skömmu síðar komu tölur er talin höfðu verið 4400 atkvæði og þá var Kjartan aftur þriðji en Guðjón fjórði. Björk var þar með fallin aftur í sjötta sætið og Drífa komin í sjöunda sætið. Þetta eru ótrúlegar sviptingar og sér jafnvel ekki fyrir endann á þeim. Athygli vekur að eins og staðan er nú eru fjórir karlmenn í efstu sætunum. Ennfremur er orðið vel ljóst að fátt fær því breytt að Árni Johnsen nái öruggu sæti.
Það verður fróðlegt að fylgjast með lokastund talningar. Þetta er vel þess virði að vaka eftir, þó staddur sé ég í öðru kjördæmi. Það verður spennandi að sjá lokaröðun sex efstu sætanna. Síðast þegar ég vissi var Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, í tíunda sætinu, svo að það er greinilegt að hann er að falla af þingi. En spennan eykst - atkvæðum fækkar sem telja þarf. Það verða klárlega miklar pólitískar sviptingar á Selfossi í nótt.
Viðbót - kl. 05:10
Þegar talin hafa verið 5000 atkvæði, eða nærri öll atkvæði, í prófkjörinu er Drífa Hjartardóttir komin upp í fjórða sætið og Guðjón Hjörleifsson fallinn niður í sjöunda sætið.
Fyrri færsla - skrifuð 00:19 (uppfærð tvisvar)
Þegar að helmingur atkvæða í prófkjöri sjálfstæðismanna hefur verið talinn á Selfossi er staðan frá fyrstu tölum óbreytt. Árni Johnsen er enn í öðru sætinu og greinilega á leið á þing aftur að vori. Það er alveg augljóst nú og það kemur ekkert í veg fyrir það. Árni M. Mathiesen leiðir listann og fyrir neðan þá Árnana eru eins og áður; Kjartan Ólafsson, Drífa Hjartardóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Björk Guðjónsdóttir.
Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson virðast á útleið af þingi ef marka má þetta, en hvorugur þeirra hefur komist á blað enn. Kristján Pálsson, fyrrum alþingismaður, er ekki heldur sjáanlegur og virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði. Það verður fróðlegt að sjá hvert stefnir í talningunni. Úrslitin ráðast einhverntímann í nótt væntanlega. Endurkoma Árna virðist staðreynd, hún verður umdeild. Meira segi ég ekki um það á þessari stundu.
Það eru því sviptingar í Suðrinu. Tveir þingmenn úti í kuldanum og einn umdeildur þingmaður aftur að fara á þing. Unnur Brá, vinkona mín, er að vinna góðan sigur í fimmta sætið, sem hún óskaði eftir og Björk í Reykjanesbæ kemur sterk til leiks. Það verður fróðlegt að sjá endanlegar tölur og þær fleiri sem koma á eftir.
Viðbót - kl. 01:15
Þegar talin hafa verið 3200 atkvæði í prófkjörinu er Björk Guðjónsdóttir komin í fjórða sætið og Drífa Hjartardóttir fallin í það sjötta.
Viðbót - kl. 03:10
Þegar talin hafa verið 4000 atkvæði er Guðjón Hjörleifsson kominn upp í þriðja sætið og hefur fellt Kjartan Ólafsson niður í það sjöunda.
![]() |
Árni Johnsen í 2. sæti í prófkjöri í Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)