Kristján Þór nýr leiðtogi - tvær konur í þrem efstu

Kristján Þór Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sigraði í prófkjörinu og er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu - hann hlaut 1.461 atkvæði í leiðtogasætið í baráttu við Arnbjörgu Sveinsdóttur og Þorvald Ingvarsson. Kristján Þór mun því taka við af Halldóri Blöndal, sem setið hefur á þingi í tæpa þrjá áratugi og leitt lista hér í rúma tvo áratugi.

Í öðru sæti varð Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún hlaut 1.596 atkvæði í 1 - 2. sætið. Arnbjörg hefur setið á þingi nær samfellt frá árinu 1995 og það er greinilegur vilji flokksmanna að hún verði áfram í forystusveit flokksins við komandi kosningar. Hún fær góða kosningu í annað sætið greinilega. Ólöf Nordal er án nokkurs vafa stjarna þessa prófkjörs en hún nær þriðja sætinu með 1.426 atkvæðum. Þetta er hennar fyrsta prófkjör og greinilegt að hún stimplar sig inn af miklum krafti. Þær fá góðar mjög gott umboð og staða kvenna mjög glæsileg því hér.

Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri, var í þriðja sætinu í fyrstu tölum en féll svo niður í það fjórða og fékk það sæti að lokum. Hann hlaut 1.635 atkvæði í 1. - 4. sætið. Þorvaldur verður fyrir nokkru áfalli í prófkjörinu, en hann sóttist eftir fyrsta sætinu. Hann skipaði sjötta sætið á lista flokksins hér í kjördæminu í síðustu kosningum, en hann var þá nýliði í stjórnmálum. Það verður vonandi baráttumál okkar allra hér að tryggja kjör Þorvaldar Ingvarssonar inn á þing úr fjórða sætinu. Í fimmta sætinu er svo Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, en hún var þingmaður árin 2001-2003 og er núverandi varaþingmaður. Sjötti er ungliðinn Steinþór Þorsteinsson, sem nær góðum árangri þrátt fyrir stutta veru í flokknum.

Sigur Kristjáns Þórs Júlíussonar er nokkuð afgerandi og glæsilegur. Ég vil óska honum innilega til hamingju með gott kjör. Það verður hans nú að leiða flokkinn að vori og taka við af Halldóri Blöndal. Verkefni næstu mánaða verður að tryggja að Kristján Þór verði fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og ráðherra í næstu ríkisstjórn. Kristján Þór Júlíusson var bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, á Ísafirði 1994-1997 og hefur verið bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri allt frá árinu 1998 og leitt flokkinn hér í bænum í þrennum kosningum. Kristján Þór hefur verið lengi virkur í stjórnmálum og unnið ötullega fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Mér finnst þessi listi sterkur. Þarna eru þrjár konur í sex efstu sætum og þar af tvær konur í þrem efstu. Það er öflugur Akureyringur í leiðtogasæti og tveir Austfirðingar í tveim næstu sætum. Öll svæði ættu því að geta verið ánægð með stöðu mála. Athygli vekur góð kosning kvenna í prófkjörinu. Það er mikið gleðiefni. Þetta er framboðslisti sem gæti fært okkur fjögur þingsæti að vori. Nú er það næsta verkefni. Það verður ánægjulegt að taka þátt í þeirri góðu baráttu.

mbl.is Kristján Þór varð í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór leiðir - Ólöf fer upp fyrir Þorvald

Sjálfstæðisflokkurinn Þegar að talin hafa verið 2500 atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er orðið ljóst að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, er nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu. Nú hefur Ólöf Nordal komist upp fyrir Þorvald Ingvarsson í þriðja sætið.

Röð efstu sex er 2500 atkvæði hafa verið talin:

1. Kristján Þór Júlíusson
2. Arnbjörg Sveinsdóttir
3. Ólöf Nordal
4. Þorvaldur Ingvarsson
5. Sigríður Ingvarsdóttir
6. Steinþór Þorsteinsson

Lokatölur liggja fyrir fljótlega.

mbl.is Kristján Þór efstur í prófkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór leiðir í fyrstu tölum - Arnbjörg önnur

Sjálfstæðisflokkurinn Fyrstu tölur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi liggja nú fyrir. Talin hafa nú verið 1500 atkvæði af 3.032. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, leiðir í fyrstu tölum, en Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, er önnur.

Röð efstu sex í fyrstu tölum

1. Kristján Þór Júlíusson
2. Arnbjörg Sveinsdóttir
3. Þorvaldur Ingvarsson
4. Ólöf Nordal
5. Sigríður Ingvarsdóttir
6. Steinþór Þorsteinsson

Næstu tölur liggja fyrir fljótlega.

Talning atkvæða hafin á Akureyri

Sjálfstæðisflokkurinn Talning á atkvæðaseðlum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem fram fór í gær, hófst nú eftir hádegið og hefur farið vel af stað. Fyrstu tölur í prófkjörinu liggja formlega fyrir kl. 18:00 og verða lesnar upp á Hótel KEA af Önnu Þóru Baldursdóttur, formanni kjörstjórnar. Þar verða frambjóðendur og munu fjölmiðlar væntanlega gera tölum góð skil.

Fyrstu tölur verða lesnar upp í kvöldfréttatíma Útvarps og á Stöð 2 og Sjónvarpinu verða fréttamenn með beina útsendingu. Það verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur og stöðu mála skýrast hægt og rólega. Ekki gekk illa að koma kjörgögnum til Akureyrar og talning hófst á tilsettum tíma í dag. Kjörsókn var mjög góð, 3.032 greiddu atkvæði en 3.289 voru á kjörskrá.

Við flokksmenn og þau sem höfum verið að vinna í þessu prófkjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn með einum eða öðrum hætti erum því auðvitað mjög sátt með stöðuna og teljum þetta gefa okkur góð sóknarfæri fyrir vorið í væntanlegri kosningabaráttu. En það eru spennandi klukkutímar framundan hér á Akureyri og brátt ræðst hverjir flokksmenn völdu til forystu hér.

Góð skrif Björns - pólitísk sáluskil í Framsókn

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skrifar ítarlegan pistil um ummæli Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra og formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi um Íraksmálið. Þar vék Jón klárlega af braut yfirlýsinga Halldórs Ásgrímssonar, verðandi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, sem var utanríkisráðherra á árunum 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006, í þeim málum.

Virðist það einna helst líta út sem örvænting vegna stöðu flokksins, enda hefur Jón áður ekki tekið svo sterkt til orða og í frægu viðtali við Helga frænda minn Seljan á Stöð 2 í sumar vildi hann ekki taka svona til orða og fór í mikla og augljósa vörn fyrir Halldór í þessu máli, en segja má að Íraksmálið hafi mála mest sett mark á forsætisráðherraferil Halldórs og skaðað hann pólitískt gríðarlega mikið. Deilur um þetta mál voru innan flokksins en Halldór gerði það ekki upp áður en hann hætti.

Mér finnst Björn skrifa um þetta mál mjög vel, eins og hans er von og vísa. Enda löngu ljóst að Björn er sá þingmanna flokksins sem mesta þekkingu hefur á utanríkis- og varnarmálum. Er ég sammála Birni í því að það veki mikla athygli að nýr formaður annars stjórnarflokksins, sem að auki á engan pólitískan bakgrunn í forystusveit íslenskra stjórnmála, ræði um fjögurra ára gamla atburði sem meginpunkt pólitískrar stefnuræðu á vettvangi flokksins og skilji við slóð og forystu Halldórs Ásgrímssonar, svo skömmu áður en hann heldur til starfa í Kaupmannahöfn. Það er öllum ljóst að Jón telur þetta mál vera steinbarn fyrir flokkinn og slítur á tengsl fyrri tíma.

Jón Sig Mér finnst það vera orðið átakanlegt fyrir Framsóknarflokkinn hversu tómur formaður þeirra er í raun. Þar vantar alvöru pólitískt bit við að greina mál dagsins í dag. Það er svolítill blanko-svipur yfir Jóni, það er bara þannig. Hann er mikill heiðursmaður tel ég og vandaður í alla staði, en mér finnst pólitík hans vera mjög ósýnileg. Það er orðið mjög áberandi.

Ég hélt þegar að Jón var kjörinn formaður á flokksþinginu í ágúst, eftir snarpan slag við Siv Friðleifsdóttur, að hann myndi þá þegar hefjast handa við að kynna sig og sína pólitík. Síðan hefur hann haldið spilum sínum mjög fast að sér. Staða flokksins hefur ekki skánað hætishót eftir kjör hans og fyrri væringar og sundrung lama enn innviði flokksins. Enn er ekki heldur vitað hvaða áhrif fall Sleggjunnar í Norðvestri hefur og enn veit enginn hver þessi formaður er pólitískt.

Stjórnmálamaðurinn Jón Sigurðsson flutti sína fyrstu alvöruræðu í stjórnmálum sem sáluskil yfir síðustu misserum stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar og hreinsaði loft væringa og óeiningar innan flokksins. Þar sáum við enga framtíð, enga stefnu né grunnpunkta þess sem Jón ætlar að verða flokknum. Þar var litið í baksýnisspegil átakanna og þau vissulega greind. Vel má vera að það gagnist eitthvað þessum flokki sem hefur upplifað annus horribilis ekki bara síðasta árið heldur öll ár kjörtímabilsins til þessa. Sorgarsaga er rétta orðið. Í ræðunni sáum við ekki neitt nýtt til framtíðar.

Hver er Jón Sigurðsson? spurði ég í pistli í ágúst eftir formannskjör. Í nóvember er þeirri spurningu enn ósvarað. Er Framsóknarflokknum á vetur setjandi með blanko formann? Stórt spurt, svörin vantar.

Hver er Jón Sigurðsson? - pistill í ágúst 2006

mbl.is Björn: Ríkisstjórn Íslands bar enga ábyrgð á innrásinni í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög ánægður með prófkjörið okkar

SjálfstæðisflokkurinnÉg verð að segja það alveg eins og er að ég er mjög ánægður með prófkjörið okkar hér í Norðausturkjördæmi. Það kusu yfir 3000 í þessu prófkjöri, mun fleiri en t.d. í prófkjöri Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Mér fannst þessi dagur ganga virkilega vel og við erum sátt hér. Nú bíðum við bara úrslitanna, sem verða ljós eftir rúma tólf tíma. Biðin er svo sannarlega spennandi.

Ég skellti mér einmitt í bæinn í kvöld og ræddi þar við fjölda fólks og fórum við einmitt sérstaklega yfir stjórnmálin. Mikið og gott spjall. En nú bíðum við sjálfstæðismenn úrslitanna. Þeirra er að vænta á morgun. Ég var nokkuð spurður um þetta allt í kvöld. Flestir bíða úrslitanna með áhuga. Það verða því allra augu á fyrstu tölum.

Nú höfum við ákveðið að lesa fyrstu tölur á Hótel KEA en ekki í Kaupangi. Líst vel á það, enda tryggir það meiri stemmningu og gott andrúmsloft þar meðan að talningin fer fram í Kaupangi. Talningin hefst innan nokkurra klukkutíma er allir atkvæðaseðlar hafa skilað sér hingað til Akureyrar. Fyrir dagslok hefur nýr leiðtogi tekið við forystu flokksins í kjördæminu. Það verður fróðlegt að sjá hvern flokksmenn völdu í prófkjörinu.


mbl.is 3.032 greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. nóvember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband