5.11.2006 | 22:23
Ástríðan á bak við bloggskrifin
Mörgum hef ég kynnst í gegnum þessi skrif mín í gegnum árin. Ég get ekki hugsað mér lengur að sleppa þessu, þetta er ástríða sem skiptir mig miklu máli. Bæði hef ég skoðanir á málum hversdagsins og hef áhuga á að láta þær standa eftir einhversstaðar.
Bloggskrif stjórnmálamanna hafa aukist til mikilla muna. Það fer varla neinn orðið í gegnum virk stjórnmálastörf, í tengslum við framboð og lykilverkefni nema að skrifa af krafti og með ástríðu að leiðarljósi. Það sést reyndar best milli kosninga hverjir eru í þessum bransa af ástríðu og hverjir ekki. Um leið og það sést af driftinni við að koma upp vefnum hverjir séu duglegir sést það æ betur hvernig vefurinn er svo nýttur.
Þeir vefir sem verða sem steindauð draugahús handan prófkjörsbaráttu og einhverrar maskínuvinnu verða skiljanlega frekar tómlegir. Það er best að halda kraftinum gangandi með því að venja sig við að skrifa. Þetta er heillandi verkefni. Án vinnuþreks við skrifin er til lítils svosem að halda í þetta. Allavega met ég mikils hversu margir lesa hér og ég þakka öllum sem líta hér við fyrir að hafa áhuga á skrifunum. Það verður seint sagt að ég hafi ekki áhuga á þessu.
Það kom mér ekki á óvart við að sjá á góðum vef Guðmundar Magnússonar upptalningu um hverjir skrifi enn virkar bloggfærslur eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar stóð aðeins eitt nafn eftir, er litið var á netvettvanginn með lifandi og hressandi skrif um stjórnmál, virkar skoðanir - ástríðuskrif um stjórnmál. Það var nafn Björns Bjarnasonar.
Það kemur engum að óvörum að hann sé eini maðurinn sem haldi áfram af krafti og nýti lénið sitt skynsamlega með skrifum til kjósenda og annarra lesenda sem vilja kynna sér skoðanir og áherslur hans. Vefur hans er að verða tólf ára gamall og þar hafa verið vikulegar uppfærslur allt frá upphafi og er nú komið líflegt blogg á hverjum degi.
Ég hef lengi dáðst af því hversu kraftmikill stjórnmálamaður Björn er. Hann leggur mikla vinnu í vef sinn og hann má svo sannarlega dást að því hversu flottur hann er. Þar fer allavega ekki stjórnmálamaður án skoðana. Ég undrast mjög að sjá duglega þingmenn og frambjóðendur hætta allt í einu eftir prófkjörsbaráttu og kosningavinnu að skrifa um stjórnmál og áherslur sínar. Það er mjög dapurlegt.
Þetta segi ég sem virkur bloggari, einstaklingur sem geri þetta af ástríðu og áhuga. Það er reyndar grunnforsenda þess að halda út í svona bransa; að hafa áhuga á að skrifa og hafa skoðanir fram að færa. Án þess er vefurinn eins og tómt hús sem maður býr í, án húsgagna og hversdagslegra hluta.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.11.2006 | 20:13
Talningu í prófkjöri frestað til morguns
Hætt hefur verið við að telja atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fór í gær, nú í kvöld vegna veðurhamsins í dag, sem hamlaði því að öll kjörgögn kæmust á einn stað. Skv. reglum kjörnefndar er ekki hægt að hefja talningu fyrr en að öll kjörgögn komast á einn og sama staðinn. Atkvæði verða því talin síðdegis á morgun.
Mikil spenna er yfir prófkjörinu. Þar verður eftirmaður Margrétar Frímannsdóttur á leiðtogastóli kjörinn. Alþingismennirnir Björgvin G. Sigurðsson, Jón Gunnarsson og Lúðvík Bergvinsson sækjast eftir leiðtogasætinu ásamt Róberti Marshall, fjölmiðlamanni og fyrrum forstöðumanni hinnar sálugu fréttastöðvar NFS, en hann nefnir annað sætið líka.
Spennan magnast því og bíður morguns að heyra hver erfir ríki Margrétar í Suðrinu, en Margrét er nú fyrsti þingmaður kjördæmisins og hefur leitt lista á Suðurlandi allan sinn þingmannsferil, eða frá því að hún bauð sig fyrst fram fyrir tveim áratugum, í alþingiskosningunum 1987 fyrir Alþýðubandalagið.
![]() |
Talningu atkvæða frestað til kl. 14 á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2006 | 15:59
Harkalegt rifrildi um innflytjendamál
Ekki féllu þessi orð í kramið hjá þeim stöllum og veittust þær harkalega að Magnúsi Þór og Steinunn Valdís sagði skoðanir Magnúsar Þórs jaðra við rasisma. Þórhildur komst varla að til að tala fyrir tali Magnúsar Þórs sem talaði þær báðar í kaf með frekar ósmekklegum hætti og með hreinum ólíkindum að Egill Helgason skuli ekki hafa haft betri stjórn á þætti sínum en raun bar vitni. Þær tvær höfðu varla í við Magnús Þór sem samkjaftaði svo með ólíkindum var á að horfa. Rætt var um þessi mál eftir viðtal við Jón Magnússon, lögmann, en skoðanir hans á innflytjendamálum hafa verið umdeildar eftir grein hans í Blaðinu.
Mér fannst þetta merkilegar umræður. Ég tek undir skoðanir þær sem fjórði gesturinn í þættinum, Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra og prófkjörsframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, talaði fyrir. Hún horfði að mestu á rifrildi Magnúsar, Steinunnar og Þórhildar, en kom með mjög gott innlegg og málefnalegt. Er ég sammála henni um það.
En það var svo sannarlega show í Silfrinu í dag. Það er greinilegt að Magnús Þór bætir ekki fyrir málstað sínum með þeirri framkomu sem hann kom fram í þættinum, sem er sami gamli yfirgangurinn gegn öllum þeim sem ekki eru sammála honum. Bendi annars öllum á að smella á tengilinn hér að neðan og sjá þessar umræður í þættinum sem urðu heldur betur hvassyrtar í meira lagi.
Silfur Egils - rætt um innflytjendamál
![]() |
Steinunn Valdís segir ummæli Magnúsar Þórs bera keim af kynþáttahatri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.11.2006 | 13:40
Saddam Hussein dæmdur til dauða

Hálfbróðir Saddams, Barzan al-Tikriti, sem var yfirmaður írösku leyniþjónustunnar, var einnig dæmdur til dauða. Taha Yassin Ramadan, fyrrum aðstoðarforseti Íraks, var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir aðild að morðum á 148 íbúum þorpsins Dujail en flestir íbúa þorpsins eru sjíta-múslimar. Búast má við ófriðarbáli meðal stuðningsmanna einræðisherrans fyrrverandi við þessum tíðindum, en þessi tíðindi boða ekki endalok alls málsins. Þetta eru aðeins fyrstu réttarhöldin af mörgum í málum gegn Saddam.
Þrjú ár eru um þessar mundir frá því að Saddam var handtekinn í sveitahéruðum Íraks. Það markaði mikil tímamót, enda hafði honum tekist að komast undan í rúmlega hálft ár og töldu flestir þá að honum yrði aldrei náð. Handtakan var alheimsviðburður og flestum gleymist vart myndirnar af Saddam fúlskeggjuðum og hrörlegum, eftir flóttann og að hafa í raun þurft að lifa sem útigangsmaður væri til að komast undan þeim sem leituðu hans.
Þessi stóru tíðindi dagsins boða viss þáttaskil í málinu en svo sannarlega engin endalok. Þetta er einn áfangi málsins. Ekki er hægt að segja að tíðindin komi að óvörum.
![]() |
Saddam Hussein dæmdur til dauða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2006 | 03:29
Gunnar sigrar í prófkjöri Samfó í Kraganum

Þórunn náði í öðrum tölum kvöldsins í prófkjörinu að skjótast upp í fyrsta sætið, en henni tókst ekki að halda forskotinu til enda. Auk þeirra tveggja sóttist Árni Páll Árnason, lögfræðingur, eftir fyrsta sætinu. Í öðru sæti í prófkjörinu varð Katrín Júlíusdóttir, alþingismaður, en hún varð í fjórða sæti í prófkjörinu fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þórunn, sem setið hefur á þingi frá 1999, lenti í þriðja sætinu þrátt fyrir hetjulega baráttu um leiðtogastólinn. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir hana að ná ekki leiðtogastólnum, enda lítill munur, og að komast ekki ofar á listann en síðast. Þetta er nokkuð áfall fyrir konurnar í flokknum væntanlega.
Árni Páll varð í fjórða sætinu og kemur því nýr inn í forystusveit flokksins í kjördæminu. Þetta er fyrsta prófkjör Árna Páls, en hann var aðstoðarmaður Jóns Baldvins Hannibalssonar í utanríkisráðherratíð hans og naut stuðnings hans í prófkjörinu til forystu. Í fimmta sætinu varð Guðmundur Steingrímsson, fjölmiðlamaður, en hann er virkur Moggabloggari hérna hjá okkur í þessu flotta samfélagi og er auk þess af merkum pólitískum ættum en faðir hans og afi, Steingrímur Hermannsson og Hermann Jónasson, voru báðir forsætisráðherrar og formenn Framsóknarflokksins. Það væri fróðlegt að vita hvort Steingrímur, sem nú er orðinn (h)eldri borgari í Garðabæ, hefði farið á kjörstað til að kjósa Guðmund.
Í sjötta sætinu varð Tryggvi Harðarson, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og bæjarstjóri á Seyðisfirði, en hann gaf eins og kunnugt er kost á sér til formennsku í Samfylkingunni gegn Össuri Skarphéðinssyni á stofnfundi flokksins í maí 2000. Það vekur athygli að hann verði ekki ofar, eftir langan pólitískan feril í kjördæminu. Á eftir honum koma varaþingmenn flokksins, þau Sonja B. Jónsdóttir og Jakob Frímann Magnússon. Sonja var varaþingmaður flokksins í Kraganum eftir alþingiskosningarnar 2003 en Jakob Frímann var á framboðslistanum í Reykjavík suður í kosningunum 2003 og tekið sæti á þingi einu sinni á tímabilinu. Hann færði sig um set í aðdraganda þessa prófkjörs.
Það vekur mikla athygli að Valdimar Leó Friðriksson, alþingismaður, er víðsfjarri því að ná góðu sæti og er um eða rétt við miðju frambjóðendahópsins og því heldur betur á útleið af Alþingi að vori. Valdimar Leó skipaði sjötta sæti framboðslistans í Kraganum í kosningunum 2003 og varð óvænt þingmaður í september 2005 þegar að Guðmundur Árni Stefánsson hætti þátttöku í stjórnmálum og varð sendiherra í Stokkhólmi. Valdimar Leó var reyndar annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu en tók þingsætið eftir að Ásgeir Friðgeirsson, almannatengslafulltrúi Björgólfsfeðga og fyrrum fjölmiðlamaður, gaf þingsæti sitt eftir sem hann hefði ella fengið. Úrslitin nú hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir Valdimar Leó.
Sögur ganga á spjallvefum um að plott hafi verið í gangi milli stuðningsmanna Gunnars og Katrínar um að kjósa hvort annað í efstu sætin. Það sé plott Guðmundar Árna Stefánssonar og Lúðvíks Geirssonar. Það skal ósagt látið, en úrslitin vekja upp vissar spurningar auðvitað. Það er allavega svo að Gunnar hefur tekið við sess Guðmundar Árna (sem vann prófkjörið 2002 og var kjördæmaleiðtogi fyrri hluta kjörtímabilsins) sem fulltrúi Hafnfirðinga og Katrín svo við sess Rannveigar sem fulltrúi Kópavogs. Eftir situr óneitanlega Þórunn í sama sæti og síðast, með Katrínu nú fyrir ofan sig. Merkilegt mjög. Það er áhugavert að sjá hvað sumir sendiherrar á Norðurlöndum eru oft örlagaríkir í innri plottum flokkanna sinna hér heima.
Gunnar Svavarsson er sonur hins þekkta skemmtiþáttastjórnanda, tónlistarmanns og hljómplötuútgefanda, Svavars Gests, sem allt fram í andlátið árið 1996 var með vinsæla útvarpsþætti á Rás 2 á sunnudagsmorgnum og víðfróður um íslenska tónlist. Hann var til fjölda ára giftur söngkonunni Elly Vilhjálms. Það verður seint sagt að Gunnar sé mjög þekktur í stjórnmálum, nema af verkum sínum í pólitíkinni í Hafnarfirði, en hann er einn af arkitektum veldis Samfylkingarinnar þar í bæ og er formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Það verður áhugavert að fylgjast með pólitískum verkum hans á nýjum vettvangi.
![]() |
Gunnar efstur í prófkjöri Samfylkingar í SV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)