Færsluflokkur: Vefurinn

Heima er best - Steingrímur Sævarr farinn

Vinsælasti bloggarinn hér um slóðir síðustu mánuðina, Steingrímur Sævarr Ólafsson, ritstjóri Íslands í dag, yfirgaf Moggabloggið í vikunni og hélt á nýtt bloggvefsetur hjá 365-fjölmiðlaveldinu, af skiljanlegum ástæðum. Slíkra síðubreytinga mun ekki að vænta hjá mér. Hér líður mér mjög vel og ætla að skrifa áfram á þessum vettvangi. Það eru spennandi vikur framundan og maður reynir að vera eins duglegur og mögulegt má vera við að skrifa.

Hef verið hér síðan í september og líður vel hér. Engin ástæða til að breyta því eitthvað. Þar sem hugurinn á heima líður nefnilega hjartanu best. Hinsvegar ætla ég eitthvað að hressa upp á útlit vefsins brátt, en það mun ég vinna vel með tæknisérfræðingunum hérna sem standa sig vel við stöðu mála almennt séð.

Steingrímur Sævarr hefur fjórum sinnum bent okkur á slóð nýja vefsins síns á gamla vefnum. Fannst það spes og veit ekki hvað skal segja um það. Það verður fróðlegt hvort og hvaða bloggvinir eða félagar hér á Moggablogginu muni færa sig yfir. Allavega mun ég vera hér áfram. Hér er gott að vera.

Bloggvinir

Eitt af því skemmtilegasta við þetta vefumsjónarkerfi er bloggvinasystemið. Það er hægt að eignast góða bloggvini í gegnum skrifin, bæði þá sem vilja tengjast manni og maður sjálfur óskar eftir að hafa tengingu við. Þetta er gott að því leyti að koma á bloggböndum, þetta eru vefir sem fá tengil á síðu bloggvinarins og öfugt, tengsl myndast og hver og einn eignast leskjarna. Þetta auðveldar að sjá þegar að uppfærslur eru og líta á það sem er nýjast hverju sinni. Líkar mjög vel við þetta.

Ég hef eignast marga bloggvini hér - bæði þá sem ég hef kynnst í gegnum lífið og eins fólk sem ég hef aldrei hitt. Með þessu myndast góð bönd. Það er hið besta mál. Ég raða ekki bloggvinum upp eftir eigin mati. Þeir birtast hér í þeirri röð sem mbl gefur upp. Ég hef þar engu breytt - finnst það heldur ekki rétt að gera upp á milli þeirra sem ég vil hafa sem bloggvin og eins þeirra sem hafa óskað eftir tengingu við mig.

Sé farið að raða upp að þá koma upp hugleiðingar af hverju þessi eða hinn sé ofar í huga þess sem á vefinn. Ég tek ekki þátt í því og raða bloggvinum upp eftir því sem stafrófsröð eða röð bloggkerfisins er, enda er stundum svo að sá sem skrifar er birtur eftir nafni sínu í stafrófsröð en ekki bloggheitinu. En ég semsagt birti listann hér óbreyttan.  Þannig á það líka að vera. Ég met alla bloggvini mína enda jafnt.

En þetta er góður fítus og myndar skemmtileg tengsl.... sem gaman er af á netinu. Þetta er enda mjög skemmtileg vefumsjónarkerfi, enda fer það alltaf stækkandi.


Meiriháttar klúður á Moggablogginu

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar að ég ætlaði að fara hingað inn á öðrum tímanum en komst ekki inn. Skýringin beið mín í tölvupóstinum - það væri búið að skipta um lykilorð því það fyrra hafði verið opinberað á bloggsíðunni vegna mistaka þjónustuaðila síðunnar. Ergó: leynilegasta tenging milli mín og síðunnar var opinberuð! Þetta er meiriháttar klúður - einfalt mál. Sannkallaður stórskandall þeirra sem halda úti Moggablogginu. Það er ekkert annað hægt að segja um málið.

Hef verið lítið við tölvu í dag og því lítið getað skrifað og kynnt mér málið. En ég las þessa frétt og blogg nokkurra annarra hér sem skrifa og eru auðvitað ekki sáttir. Það er ég líka. Finnst þetta mjög slæmt mál og skil ekki í þessu sleifarlagi satt best að segja. Það þýðir ekki að segja bara að svona komi ekki fyrir aftur. Þetta er mjög alvarlegt mál svo vægt sé að orði komist. Það að einhver sem lesi hér geti séð lykilorðið og breytt stillingum er alvarlegt mál.

Þetta er ekki til vegsauka fyrir Moggabloggið og á svona vandræðalegu klúðri þarf að taka!

mbl.is Lykilorð sýnileg á blog.is fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100.000 gestir á bloggvefnum

Fyrir stundu kom 100.000 gesturinn hingað á bloggvefinn minn. Þetta eru vissulega nokkuð ánægjuleg og góð tímamót fyrir mig og vefinn, sem verið hefur hér á Moggablogginu í rúma fjóra mánuði. Ég byrjaði að skrifa hér þann 18. september sl. og hef haft mjög gaman af þessu. Það hefur allavega verið um nóg að skrifa þessa mánuði hérna.

Ég vil þakka ykkur sem hingað lítið kærlega fyrir að líta í heimsókn á vefinn þennan tíma og þakka fyrir góð samskipti og pælingar um málin. Það eru spennandi mánuðir framundan í pólitískum pælingum og nóg sem um verður að skrifa. Það verður því engin lognmolla á næstunni.

En enn og aftur kærar þakkir fyrir að lesa vefinn!


Takk..... en nei takk við stjörnunum

Aðeins einu sinni hef ég efast um þá ákvörðun að færa mig hingað yfir á moggabloggið, já bara aðeins einu sinni lesendur góðir. Það var í gærkvöldi þegar að ég upplifði bloggvefinn minn sem vettvang einkunnagjafar með stjörnum af tagi Leonards Maltins. Ég vil ekki sjá þetta, hreint út sagt.

Ég veit ekki hverjum datt þetta í hug og hver ákvað að gera þetta. En ég vil ekki sjá þetta.... og ég var að aftengja þennan fítus.

Til hamingju Baggalútur!

Baggalútur Fastur liður í byrjun vefrúntarins míns á hverjum degi, fyrir utan fréttavefi, er hinn óborganlegi vefur félaganna á Baggalút. Stórskemmtilegur og flottur vefur með góðu gríni. Allavega hentar hann vel mínum húmor. Finnst þeir félagar þar algjörir snillingar. Lög þeirra hafa létt mörgum lundina. Á hverju ári bíðum við svo eftir sykursætu aðventulagi vefsins og vel rokkuðu jólalaginu.

Finnst plöturnar þeirra virkilega góðar. Sú fyrsta: Pabbi þarf að vinna..., var með flottum lögum og góðum húmor, eins og þeirra er von og vísa. Sérlega eru flott þar titillagið og svo auðvitað Settu brennivín í mjólkurglasið vina.... Alveg eðall. Platan þeirra í sumar: Aparnir í Eden, er ekki síðri og t.d. er lagið Allt fyrir mig með Bo Hall rosalega gott og grípandi. Textinn stuðaði suma, en hann er nettur og hress að hætti Baggalútsmanna. Svo var jólaplatan algjört yndi - fastur liður á jólum hér eftir!

Í dag fékk Baggalútur íslensku vefverðlaunin fyrir besta afþreyingarvefinn. Svo sannarlega verðskuldað. Öll höfum við þörf fyrir húmor þeirra á Baggalút og metum hann mjög mikils. Húmorinn hjá þeim passar allavega vel við núna um háveturinn. Það jafnast enda einfaldlega ekkert á við að brosa. Eitt bros getur enda dimmu í dagsljós breytt, eins og skáldið sagði. :)

mbl.is Vefur Icelandair talinn sá besti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilfjörlegir spjallheimar barnalands

Computer geek Ég ákvað að líta í dag á spjallsíðuna Barnaland og lesa umræðuna sem þar hafði verið í gangi um sambandsslit Magna Ásgeirssonar og það sem þar hafði verið rætt, eftir að ég las fréttir í gær um umræðuna þar. Mér fannst nokkuð merkilegt að fara yfir umræðuna sem þar var í gangi. Það var orðið nokkuð um liðið frá því að ég hafði lesið skrifin og sá að lítið var breytt í þeim efnum frá því að ég gerði mér netferð þangað síðast.

Það leikur lítill vafi á því að heiti vefsins er mikið rangnefni á þeim vettvangi. Að spjallvefur með svona yfirbragð og innihald gangi undir heitinu barnaland er þónokkuð umhugsunarefni. Það þarf ekki sérfræðing í netmálum til að finnast lítið til um umræðurnar þar koma og í raun merkilegt að spjallvefurinn gangi enn eftir allan þennan tíma og umræðuna um innihald hans undir þessu nafni. Spjallvettvangur Barnalands hefur lengi verið umdeildur og breyta þessi skrif um Magna og einkalíf hans engu þar um svosem, það hefur lítið batnað yfir þar í gegnum tímans rás.

Spjallvefir af þessu tagi eru annars oft athyglisverður vettvangur umræðu á netinu. Ég hef fylgst lengi með spjallvefunum og var til nokkurs tíma virkur notandi þeirra. Ég skrifaði bæði á innherjavefinn og málefnin.com um tíma, en lít orðið einu sinni til tvisvar á dag (hámark) á málefnin. Það er oft ágæt umræða svosem þar, sumir kunna þá list að geta skrifað yfirvegað og farið yfir málin undir nafnleynd. Mun fleirum er það ekki nógu tamt og úr vill æði oft verða níð og rógur um nafngreint fólk og almennt skítkast. Það er fylgifiskur umræðu af þessu tagi því miður, og hefur sá menningarheimur ekki batnað mikið að mínu mati. Það er eins og það er bara eflaust.

Mér finnst margt á barnalandi vera frekar lítilfjörlegt. Margt af því skýrir sig sjálft þegar að spjallsvæðið þar er skoðað. Þessi umræða um einkalíf Magna er ekki stóra málið svosem sem vakið hefur þar athygli, mörg önnur dæmi eru til staðar. Það væri eflaust verðugt verkefni fyrir einhvern sérfræðinginn að rannsaka þetta umræðusamfélag. Nafnleynd er vissulega fróðlegt fyrirbæri og hvernig fólk hegðar sér undir henni er oft á tíðum með ólíkindum. Það þekkja þeir best sem lesið hafa spjallvefi hvernig fólk getur gengið of langt í umræðu með þeim hætti. Það býr oft margt í myrkrinu.

Eflaust er hægt að segja miklu meira um spjallvefi. Ég hef aldrei legið á skoðunum mínum um spjallvefi og stöðu þeirra, einkum innviði þeirra, og flestum ættu þær skoðanir að vera kunnar. Kannski maður skrifi meira um þetta síðar.

Þrír mánuðir

þrír Um þessar mundir hef ég bloggað hér á Moggablogginu í þrjá mánuði. Á þeim tíma hef ég skrifað mikið og fengið góð komment, eignast líka fína bloggvini, sem ég þekkti suma ekki áður. Vefurinn hefur fengið góðar viðtökur og hér hafa verið 50.000 lesningar á þessum tíma. Þetta hefur allavega verið notalegur og góður tími.

Þakka ég þeim sem lesa vefinn fyrir góðar viðtökur á nýjum stað og svo auðvitað þakka ég þeim sérstaklega sem sent hafa komment og eða skrifað hér í gestabók.

Ég er maður ársins hjá TIME

TIME Ég hef verið valinn maður ársins 2006 af TIME-tímaritinu. Þetta er enginn smáheiður sem mér hlotnast með þessu. Reyndar er ég ekki einn um heiðurinn. Já, þú skilur, þú ert reyndar maður ársins líka. Það er nefnilega þannig mál með vexti að hinn nafnlausi veraldarvefsnotandi er maður ársins hjá TIME árið 2006.

TIME kemur öllum á óvart með valinu í ár. Það er bæði frumlegt og djarft. Mjög flott hjá þeim. Notendur alls þess sem gerist á veraldarvefnum eiga þennan heiður skilið. Ég hef bloggað í rúm fjögur ár samfellt, án nokkurs hlés, og skrifað ótalmargar netfærslur. Þetta hefur því verið líf manns og yndi.

Notandi veraldarvefsins er skv. skýringum blaðsins valinn fyrir þátt sinn í að almannavæða veraldarvefinn með því að halda úti bloggsíðum, setja myndefni inn á vefsvæðið YouTube og fleiri grunnvefum netsamfélagsins.

Hafi TIME kæra þökk fyrir frumlegt og gott val. Það markar tímamót.

Ástríðan á bak við bloggskrifin

Björn Bjarnason Bloggskrif eru lifandi og skemmtileg. Sjálfur hef ég bloggað mjög reglulega í fjögur ár. Þetta form tjáningar er einstakt í raun og gefur góð tækifæri til að kynna skoðanir sínar betur fyrir þeim sem gefa sér tíma til að lesa.

Mörgum hef ég kynnst í gegnum þessi skrif mín í gegnum árin. Ég get ekki hugsað mér lengur að sleppa þessu, þetta er ástríða sem skiptir mig miklu máli. Bæði hef ég skoðanir á málum hversdagsins og hef áhuga á að láta þær standa eftir einhversstaðar.

Bloggskrif stjórnmálamanna hafa aukist til mikilla muna. Það fer varla neinn orðið í gegnum virk stjórnmálastörf, í tengslum við framboð og lykilverkefni nema að skrifa af krafti og með ástríðu að leiðarljósi. Það sést reyndar best milli kosninga hverjir eru í þessum bransa af ástríðu og hverjir ekki. Um leið og það sést af driftinni við að koma upp vefnum hverjir séu duglegir sést það æ betur hvernig vefurinn er svo nýttur.

Þeir vefir sem verða sem steindauð draugahús handan prófkjörsbaráttu og einhverrar maskínuvinnu verða skiljanlega frekar tómlegir. Það er best að halda kraftinum gangandi með því að venja sig við að skrifa. Þetta er heillandi verkefni. Án vinnuþreks við skrifin er til lítils svosem að halda í þetta. Allavega met ég mikils hversu margir lesa hér og ég þakka öllum sem líta hér við fyrir að hafa áhuga á skrifunum. Það verður seint sagt að ég hafi ekki áhuga á þessu.

Það kom mér ekki á óvart við að sjá á góðum vef Guðmundar Magnússonar upptalningu um hverjir skrifi enn virkar bloggfærslur eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar stóð aðeins eitt nafn eftir, er litið var á netvettvanginn með lifandi og hressandi skrif um stjórnmál, virkar skoðanir - ástríðuskrif um stjórnmál. Það var nafn Björns Bjarnasonar.

Það kemur engum að óvörum að hann sé eini maðurinn sem haldi áfram af krafti og nýti lénið sitt skynsamlega með skrifum til kjósenda og annarra lesenda sem vilja kynna sér skoðanir og áherslur hans. Vefur hans er að verða tólf ára gamall og þar hafa verið vikulegar uppfærslur allt frá upphafi og er nú komið líflegt blogg á hverjum degi.

Ég hef lengi dáðst af því hversu kraftmikill stjórnmálamaður Björn er. Hann leggur mikla vinnu í vef sinn og hann má svo sannarlega dást að því hversu flottur hann er. Þar fer allavega ekki stjórnmálamaður án skoðana. Ég undrast mjög að sjá duglega þingmenn og frambjóðendur hætta allt í einu eftir prófkjörsbaráttu og kosningavinnu að skrifa um stjórnmál og áherslur sínar. Það er mjög dapurlegt.

Þetta segi ég sem virkur bloggari, einstaklingur sem geri þetta af ástríðu og áhuga. Það er reyndar grunnforsenda þess að halda út í svona bransa; að hafa áhuga á að skrifa og hafa skoðanir fram að færa. Án þess er vefurinn eins og tómt hús sem maður býr í, án húsgagna og hversdagslegra hluta.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband