6.11.2006 | 23:58
Björgvin sigrar í Suðrinu - Róbert inn og Jón út

Sigur Björgvins er þónokkuð afgerandi. Hann hlaut 1681 atkvæði í fyrsta sætið. Sigur hans var orðinn vel ljós tæpum klukkutíma fyrir lokatölur og hann var efstur í gegnum alla talninguna. Það er greinilegt að Björgvin hefur hlotið afgerandi stuðning Margrétar Frímannsdóttur (lærimóðir BGS í pólitík) og stuðningsmanna hennar, en Margrét sigraði naumlega í prófkjörinu 2002 í leiðtogaslag gegn Lúðvík Bergvinssyni. Björgvin er með þessu orðinn kjördæmaleiðtogi, 36 ára að aldri, og hefur stimplað sig heldur betur inn sem einn af forystumönnum Samfylkingarinnar. Hans staða er orðin heldur betur gríðarlega sterk í Suðurkjördæmi.
Það hljóta að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Lúðvík Bergvinsson, alþingismann, að verða annar eins og síðast og hafa aldrei í allri talningunni átt raunhæfa möguleika á leiðtogasætinu, en hluta talningarinnar 2002 var hann yfir Margréti, sem vann á lokasprettinum. Hann varð þriðji í fyrstu tölum, lækkaði svo rúmlega 18:30 niður í fjórða sætið og var undir lok talningarinnar tæpur í annað sætið. Barátta hans og Ragnheiðar Hergeirsdóttur, leiðtoga Samfylkingarinnar í Árborg, var mjög spennandi og um tíma virtist sem Ragnheiður myndi hafa slaginn um sætið, en svo tók Lúðvík fram úr og sigraði. Það er þó ljóst að staða Lúðvíks hefur nú veikst mjög mikið innan flokksins.
Róbert Marshall, er rétt eins og Björgvin, sigurvegari þessa prófkjörs. Hann var rekinn frá 365 í september er fréttastöðin NFS var lögð niður og var verkefnalaus. Hann skellti sér í slaginn og hafði líf og fjör í baráttunni. Hann uppsker vel og er kominn í öruggt þingsæti fyrir Samfylkinguna og fer á þing með vorinu. Litlu munaði að hann yrði ofar á listanum en Lúðvík Bergvinsson og hefði það orðið svo sannarlega saga til næstu bæja, eða kjördæma skulum við segja. Róbert vinnur góðan sigur og hlaut þriðja sætið með glans. Hann hafði þriðja sætið í höndum sér alla talninguna eftir að aðrar tölur voru kynntar kl. 18:40. Það verður fróðlegt að sjá til verka hans á þingi. Hann hefur þó verið í pólitík en fyrir áratug var hann formaður ungra allaballa.
Jón Gunnarsson, alþingismaður, er fallinn niður í sjötta sætið. Hann varð fimmti en fellur niður fyrir Guðrúnu Erlingsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum, vegna kynjakvóta. Jón er því á útleið af þingi. Honum tókst að komast á þing með eftirminnilegum hætti í stormasamri atkvæðatalningu á utankjörfundaratkvæðum undir morgun á kosninganótt í þingkosningum 2003 og missir sætið sitt nú í ekki síður stormasamri talningu. Hann var í fimmta sætinu alla talninguna og eru úrslitin mikill skellur fyrir hann. Úrslitin þýða það að Suðurnes á engan fulltrúa í topp fimm sætum og hljóta flokksmenn þar að vera gríðarlega ósáttir við sinn hlut. Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður, sem féll í prófkjöri 2002, komst aldrei á blað nú.
Ragnheiður Hergeirsdóttir hlýtur að vera sár við að vera fjórða, miðað við gang talningarinnar. Henni vantaði aðeins 25 atkvæði til að slá Lúðvíki við og hljóta öruggt þingsæti. Mikið drama augljóslega á Selfossi í kvöld. En úrslitin eru semsagt ljós. Þetta var lífleg talning og mikið fjör að fylgjast með stöðu mála. Athygli vekur að Lúðvík og Jón yfirgáfu Hótel Selfoss, þar sem talið var, talsvert áður en lokatölur lágu fyrir. Varla eru þeir sáttir við stöðu mála. Jón er fallinn af þingi og Lúðvík þarf nú að sætta sig við Björgvin G. Sigurðsson, sem hefur setið átta árum skemur en hann á þingi, sem kjördæmaleiðtoga. Vonbrigði þeirra hljóta að vera gríðarlega mikil.
Konur hljóta svo að vera ósáttar, enda eru þrír karlmenn í þrem efstu sætum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, virkaði frekar vandræðaleg á talningarstað í kvöld, en vart var annað rætt í viðtali í tíufréttum Sjónvarps en það að engin kona verður í öruggu sæti skv. skoðanakönnunum nú, þó að Samfylkingin sé stærst á landsvísu einmitt í Suðrinu í könnunum Gallups. Það verður allavega seint sagt að prófkjör Samfylkingarinnar um allt land séu afgerandi sigur kvenna.
![]() |
Björgvin sigraði - Lúðvík náði öðru sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2006 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.11.2006 | 21:45
Sigur Björgvins - hörkubarátta um annað sætið


Svo er merkilegt að þó Jón Gunnarsson sé fimmti fær hann væntanlega ekki sætið vegna kynjakvótanna. Flest stefnir í að Guðrún Erlingsdóttir í Eyjum fái það, þó sjötta sé vegna reglna um kynjaröðun. Það er því nokkuð ljóst að Jón hefur misst þingsætið sem hann vann svo dramatískt við lok talningar árið 2003.
![]() |
Ragnheiður aftur í annað sætið - munar þrem atkvæðum á henni og Lúðvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2006 | 18:48
Björgvin með forystu í spennandi talningu

Það stefnir í sigur Björgvins G. Sigurðssonar í prófkjörinu. Athyglisvert er að sjá það pólitíska áfall sem Lúðvík Bergvinsson er að verða fyrir eftir tæplega tólf ára þingmannsferil, en hann er nú kominn í óöruggt sæti skv. skoðanakönnunum og Jón Gunnarsson virðist fallinn skv. þessu úr þingsæti. Athyglisverður er árangur Björgvins og Ragnheiðar, sem koma af svipuðu svæði, og hafa greinilega gert með sér öflugt bandalag.
Það stefnir því í að Björgvin G. Sigurðsson verði eftirmaður Margrétar Frímannsdóttur sem leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðrinu. Það verður væntanlega fylgst með því hvernig fer í Suðurkjördæmi. Flokkurinn hlaut þar flest atkvæði í kosningunum 2003 og fjóra þingmenn kjörna, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn veiktist vegna klofningsframboðs. Skv. nýjustu mánaðarkönnun Gallups er Samfylkingin stærst þó á landsvísu í Suðrinu með tæp 30% og þrjú sæti.
Viðbót - kl. 20:20
Þegar að talin hafa verið 3500 atkvæði nú í kvöld á Selfossi er röð efstu manna óbreytt frá því sem var kl. 18.40 er aðrar tölur voru lesnar. Skv. vef Samfylkingarinnar munar nú aðeins fjórum atkvæðum á Ragnheiði Hergeirsdóttur og Lúðvík Bergvinssyni í annað sætið. Það stefnir í spennandi lokastundir talningarinnar, en alls eru 5146 atkvæði. Úrslit ættu að vera ljós fyrir kl. 22.00.
Viðbót - kl. 20:55
Þegar talin hafa verið 4000 atkvæði er staðan óbreytt. Munurinn á Ragnheiði og Lúðvík í annað sætið er nú örlítið meiri, en þó aðeins 13 atkvæði. Mesti slagurinn virðist nú vera um það hvort að Lúðvík haldi sínu öðru sæti.
Viðbót - kl. 21:20
Þegar talin hafa verið 4700 atkvæði hefur Björgvin sigrað prófkjörið. Forskot hans er orðið það mikið að enginn getur náð honum. Lúðvík hefur náð öðru sætinu af Ragnheiði, sem féll í það fjórða við það. Þrír karlmenn eru því nú í þrem efstu sætunum.
![]() |
Björgvin efstur í prófkjöri Samfylkingar á Suðurlandi skv. fyrstu tölum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2006 | 16:36
Dauðadómur yfir Saddam Hussein

Ég skrifaði aðeins um þetta í gær og fór yfir stöðu mála. Eftir það fékk ég tölvupóst frá lesanda sem vildi fá að heyra um skoðanir mínar á dauðarefsingum. Ég hef margoft sagt það í skrifum að ég er ekki hlynntur dauðarefsingum. Það er mjög einfalt mál. Ég verð þó fúslega að viðurkenna að mér er nákvæmlega sama um Saddam Hussein og er ekki mjög áhyggjufullur yfir hans örlögum. Þeir sem hafa lesið um verk hans á valdastóli og vinnubrögð gegn pólitískum andstæðingum eru ekki mjög umhyggjusamir um velferð hans. Ég hef lesið það mikið um pólitísk verk hans að ég ætla ekki að verja þann mann.
En það er alveg rétt sem Tony Blair segir að barátta gegn dauðarefsingum getur ekki gengið í eina átt. Öll munum við eftir fréttamyndunum sem sýndu aftökuna á Elenu og Nicolae Ceausescu, forsetahjónum Rúmeníu, í desember 1989. Við fall einræðisstjórnar þessa kommúnistaleiðtoga voru þau elt uppi sem hundar væru og þau skotin eftir snöggleg réttarhöld. Svipmyndirnar af líkum þeirra fóru um allan heim og vöktu verulega athygli. Rúmenar voru kúgaðir af þessari einræðisstjórn og þar var sú afstaða tekin að drepa þau áður en kommúnistar gætu byggt sig upp aftur. Óttinn um bakslag í byltingunni réði afstöðunni. Ég var tólf ára þegar að ég sá þessar fréttamyndir og þær sitja enn í mér. Ég skildi afstöðu þeirra, þrátt fyrir allt.
Það er erfitt að meta það hvort að einræðisherrar sem halda þjóð sinni í kúgun og drepi pólitíska andstæðinga sína verðskuldi örlög sem þau er þeir velja andstæðingunum og meta eigi þá betur. Þetta er mikið umhugsunarefni. Heilt yfir styð ég ekki dauðarefsingar og á erfitt með að tala fyrir því. En ég hef ekki samúð með Saddam Hussein og er nokkuð sama um hver örlög hans verða. Ekki kippi ég mér mikið við fréttir af þessum dómi og ætla ekki að tala gegn honum, það er mjög einfalt mál.
![]() |
Blair á móti dauðarefsingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2006 | 14:45
Sigur stóriðjusinna - hugleiðingar um prófkjör
Sigur Kristjáns Möllers í Norðausturkjördæmi og Gunnars Svavarssonar í Suðvesturkjördæmi í prófkjörum helgarinnar hjá Samfylkingunni eru athyglisverð, svo ekki sé meira sagt. Þar fara menn sem hafa með áberandi hætti talað fyrir stóriðju og stutt hana víða í orði og verki. Kristján var mikill baráttumaður fyrir Kárahnjúkavirkjun, rétt eins og Austfirðingurinn Einar Már, sem hélt sínu öðru sæti, og var frekar vandræðalegur þegar að umhverfisstefna flokksins, sem var úr hinu augljósasta gerviefni, var kynnt. Sigur Kristjáns er táknrænn og afgerandi. Það er allavega orðið ljóst að bæði eru KLM og Gunnar orðin ráðherraefni innan Samfylkingarinnar, þó að greinilega sé það ISG ekki gleðiefni.
Gunnar hefur í bæjarstjórn Hafnarfjarðar tekið afstöðu með stækkun Alcan í Straumsvík, enda er hann forseti bæjarstjórnar. Reyndar munu víst bæjarbúar hafa örlög málsins í höndum sér. En Gunnar er ekki andvígur stækkuninni. Það er ljóst að sigur hans á Þórunni Sveinbjarnardóttur í prófkjörinu er táknrænn og áberandi. Einkum og sér í lagi í ljósi þess að Þórunn var önnur þingmanna flokksins sem tók afstöðu með Kárahnjúkavirkjun. Hinn þingmaðurinn var Rannveig Guðmundsdóttir, fráfarandi leiðtogi flokksins í kjördæminu. Þórunn talaði í prófkjörsbaráttunni gegn stækkun Alcan. Hún var ótrúlega nærri því að sigra Hafnarfjarðaveldið um helgina. Gunnar er hinsvegar ekki með sterkt umboð sem leiðtogi.
Það væri áhugavert að heyra meira af því hvernig að Akureyringum innan Samfylkingarinnar líður. Miðað við nýjustu kannanir verður Lára Stefánsdóttir áfram varaþingmaður og Bensa Sig var hafnað, meira að segja af flokksfélögum í bænum, þó mjög þekktur sé og áberandi í bænum. Lára og Bensi sóttu að þingmönnum flokksins og urðu undir. Prófkjörið varð ósigur öflugra fulltrúa Akureyringa í prófkjörinu. Það er örugglega mikið spáð og spekúlerað þar. Björn Þorláksson sagði einmitt að það hefði slegið þögn á Akureyringana í Lárusarhúsi við fyrstu tölur á laugardaginn. Ekki er ég hissa á því, svo mikið er víst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.11.2006 | 13:50
Spennandi kosningar í Bandaríkjunum

Kosið er um alla fulltrúadeildina og hluta sæta í öldungadeildinni. Repúblikanar hafa ráðið í fulltrúadeildinni frá kosningunum 1994, þegar að meirihluti demókrata féll eftir fjögurra áratuga samfellda valdasetu. Demókratar náðu öldungadeildinni á sitt vald á árunum 2001-2003, en hafa annars verið valdalausir þar líka frá 1994. Ósigur repúblikana yrði um leið ósigur George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Segja má að kosningarnar séu einskonar kosningar um forsetann og pólitísk verk hans umfram allt annað. Þar séu átakapunktarnir í raun. Hvort fólk styðji hans stefnu eður ei.
Bush hefur síðustu daga reynt að leggja hönd á plóg fyrir flokk sinn í erfiðri stöðu. Það hefur gengið upp og ofan. Bush forseti er kominn að leiðarlokum á sínum stjórnmálaferli. Þetta er hans síðasta kosningabarátta sem í raun skiptir hann máli. Forsetinn getur ekki boðið sig fram í forsetakosningunum eftir tvö ár og því er hann að berjast fyrir áhrifum sínum á lokaspretti valdaferilsins. Það verður snúið fyrir hann í stöðunni missi flokkurinn annaðhvort fulltrúadeildina eða jafnvel báðar deildir þingsins. Staða mála mun sjást betur í fulltrúadeildinni þar sem öll sæti eru undir, en í öldungadeildinni eru aðeins nokkur sæti undir. Meirihluti repúblikana er 15 sæti í fulltrúadeildinni en 6 í öldungadeildinni.
Svo gæti farið að sigurvegari morgundagsins verði Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni. Myndu demókratar sigra yrði Pelosi forseti fulltrúadeildarinnar, fyrst kvenna. Hún myndi því taka við af Dennis Hastert, sem stýrt hefur deildinni allt frá árinu 1999, og er orðinn með þaulsetnustu forsetum í sögu deildarinnar. Fall repúblikana í deildinni yrði sögulegt og um leið myndi sigur á morgun byggja demókrata upp fyrir komandi átök, t.d. um Hvíta húsið. Það er öllum ljóst að Bush og hans innsti valdakjarni fer frá eftir rúm tvö ár og fer ekki aftur í kosningar. Það munu blasa við nýjar áherslur innan Repúblikanaflokksins er nýtt forsetaefni stígur þar fram.
Það verður fróðlegt að fylgjast með á morgun og sjá hvernig fer. Það stefnir allt í mjög spennandi og sviptingamiklar kosningar í Bandaríkjunum.
![]() |
Spennandi kosningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2006 | 02:28
Örvænting Frjálslyndra í vondri stöðu
Yfirgangur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í umræðu um innflytjendamál í Silfri Egils nú um helgina sýnir vel örvæntinguna innan forystusveitar flokksins. Það dugar ekki fyrir frjálslynda að koma með kvótamálin enn einar kosningarnar sem umræðuefni. Þar þarf eitthvað nýtt. Þeir veðjuðu rétt á kvótamálin árið 2003 og græddu á því að mikið var talað um málin og náðu meiru fylgi til sín á þeirri umræðu en Samfylkingin sem talaði fyrir fyrningarleiðinni. Frjálslyndir fengu fylgissveiflu út á umræðuna, þó óljósar hugmyndir hafi einkennt talandann. Sama varð í kosningunum 1999. Þá tókst frjálslyndum að komast inn á kvótaumræðu aðeins fyrir vestan.
Ég verð að segja það eins og er að mér hugnast ekki talsmáti varaformanns Frjálslynda flokksins í þessum efnum. Það verður vissulega að hafa reglurammann í lagi í þessum efnum, sem og öðrum. En mér finnst kuldalegt hvernig talað er og þetta eru ekki skoðanir sem mér líkar. Það er hinsvegar greinilegt að Frjálslyndir ætla sér að reyna að gera út á afstöðu og bjarga sér frá niðurlægingu í kosningum að vori með því. Ekki verður það frýnileg barátta tel ég og það verður kostulegt að sjá þá félaga Magnús og Jón, eftir að lögmaðurinn hefur verið hafinn upp til skýjanna í framboði í Reykjavík.
Ég verð aldrei þessu vant að taka undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í skrifum á vef hennar. Strategía Frjálslyndra er að reyna að koma sér frá skelli í kosningunum með því að reyna að hala sig inn á þessari áherslu. Það blasir við öllum sem sáu Silfur Egils í dag. Það er ýmislegt svosem alltaf reynt í lífróðri í pólitík. Það gildir um Frjálslynda flokkinn eins og flest annað greinilega.
![]() |
Magnús Þór segir að það rigni yfir hann stuðningsyfirlýsingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |