Björgvin sigrar í Suðrinu - Róbert inn og Jón út

Björgvin G. Sigurðsson Úrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, sigraði í prófkjörinu og verður leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu í stað Margrétar Frímannsdóttur, sem setið hefur á þingi allt frá 1987, og var á löngum stjórnmálaferli t.d. formaður Alþýðubandalagsins og varaformaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Björgvin hefur setið á þingi frá 2003, en hann var varaþingmaður Suðurlandskjördæmis 1999-2003 og framkvæmdastjóri flokksins 1999-2002.

Sigur Björgvins er þónokkuð afgerandi. Hann hlaut 1681 atkvæði í fyrsta sætið. Sigur hans var orðinn vel ljós tæpum klukkutíma fyrir lokatölur og hann var efstur í gegnum alla talninguna. Það er greinilegt að Björgvin hefur hlotið afgerandi stuðning Margrétar Frímannsdóttur (lærimóðir BGS í pólitík) og stuðningsmanna hennar, en Margrét sigraði naumlega í prófkjörinu 2002 í leiðtogaslag gegn Lúðvík Bergvinssyni. Björgvin er með þessu orðinn kjördæmaleiðtogi, 36 ára að aldri, og hefur stimplað sig heldur betur inn sem einn af forystumönnum Samfylkingarinnar. Hans staða er orðin heldur betur gríðarlega sterk í Suðurkjördæmi.

Það hljóta að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Lúðvík Bergvinsson, alþingismann, að verða annar eins og síðast og hafa aldrei í allri talningunni átt raunhæfa möguleika á leiðtogasætinu, en hluta talningarinnar 2002 var hann yfir Margréti, sem vann á lokasprettinum. Hann varð þriðji í fyrstu tölum, lækkaði svo rúmlega 18:30 niður í fjórða sætið og var undir lok talningarinnar tæpur í annað sætið. Barátta hans og Ragnheiðar Hergeirsdóttur, leiðtoga Samfylkingarinnar í Árborg, var mjög spennandi og um tíma virtist sem Ragnheiður myndi hafa slaginn um sætið, en svo tók Lúðvík fram úr og sigraði. Það er þó ljóst að staða Lúðvíks hefur nú veikst mjög mikið innan flokksins.

Róbert Marshall, er rétt eins og Björgvin, sigurvegari þessa prófkjörs. Hann var rekinn frá 365 í september er fréttastöðin NFS var lögð niður og var verkefnalaus. Hann skellti sér í slaginn og hafði líf og fjör í baráttunni. Hann uppsker vel og er kominn í öruggt þingsæti fyrir Samfylkinguna og fer á þing með vorinu. Litlu munaði að hann yrði ofar á listanum en Lúðvík Bergvinsson og hefði það orðið svo sannarlega saga til næstu bæja, eða kjördæma skulum við segja. Róbert vinnur góðan sigur og hlaut þriðja sætið með glans. Hann hafði þriðja sætið í höndum sér alla talninguna eftir að aðrar tölur voru kynntar kl. 18:40. Það verður fróðlegt að sjá til verka hans á þingi. Hann hefur þó verið í pólitík en fyrir áratug var hann formaður ungra allaballa.

Jón Gunnarsson, alþingismaður, er fallinn niður í sjötta sætið. Hann varð fimmti en fellur niður fyrir Guðrúnu Erlingsdóttur, fyrrum bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum, vegna kynjakvóta. Jón er því á útleið af þingi. Honum tókst að komast á þing með eftirminnilegum hætti í stormasamri atkvæðatalningu á utankjörfundaratkvæðum undir morgun á kosninganótt í þingkosningum 2003 og missir sætið sitt nú í ekki síður stormasamri talningu. Hann var í fimmta sætinu alla talninguna og eru úrslitin mikill skellur fyrir hann. Úrslitin þýða það að Suðurnes á engan fulltrúa í topp fimm sætum og hljóta flokksmenn þar að vera gríðarlega ósáttir við sinn hlut. Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður, sem féll í prófkjöri 2002, komst aldrei á blað nú.

Ragnheiður Hergeirsdóttir hlýtur að vera sár við að vera fjórða, miðað við gang talningarinnar. Henni vantaði aðeins 25 atkvæði til að slá Lúðvíki við og hljóta öruggt þingsæti. Mikið drama augljóslega á Selfossi í kvöld. En úrslitin eru semsagt ljós. Þetta var lífleg talning og mikið fjör að fylgjast með stöðu mála. Athygli vekur að Lúðvík og Jón yfirgáfu Hótel Selfoss, þar sem talið var, talsvert áður en lokatölur lágu fyrir. Varla eru þeir sáttir við stöðu mála. Jón er fallinn af þingi og Lúðvík þarf nú að sætta sig við Björgvin G. Sigurðsson, sem hefur setið átta árum skemur en hann á þingi, sem kjördæmaleiðtoga. Vonbrigði þeirra hljóta að vera gríðarlega mikil.

Konur hljóta svo að vera ósáttar, enda eru þrír karlmenn í þrem efstu sætum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, virkaði frekar vandræðaleg á talningarstað í kvöld, en vart var annað rætt í viðtali í tíufréttum Sjónvarps en það að engin kona verður í öruggu sæti skv. skoðanakönnunum nú, þó að Samfylkingin sé stærst á landsvísu einmitt í Suðrinu í könnunum Gallups. Það verður allavega seint sagt að prófkjör Samfylkingarinnar um allt land séu afgerandi sigur kvenna.

mbl.is Björgvin sigraði - Lúðvík náði öðru sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Hansson

Lúðvík er lélegur tapari. það er ljóst.

Jón Hansson, 7.11.2006 kl. 01:28

2 identicon

Mér finnst nú full harkalega til orða tekið þegar þú talar um að Margrét hafi sigrað Lúðvík naumlega fyrir 4 árum.

Margrét hlaut 1167 atkvæði í 1. sætið fyrir 4 árum, Lúðvík 934. Munurinn 233 atkvæði.

Heimild: http://www.mbl.is/myndir/gagnasafn/2002/11/12/G4A6J36P.jpg

Sigurður (IP-tala skráð) 7.11.2006 kl. 10:19

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þar erum við ósammála. Margrét, hafði verið kjördæmaleiðtogi þarna í 15 ár og lykilforustumaður innan Samfylkingarinnar. Það munaði ekki miklu að hún tapaði prófkjörinu lengi vel en hún bætti stöðu sína eftir því sem tölurnar komu inn. Hún var undir framan af talningu. Man vel eftir þessum sunnudegi þegar að talið var, enda var lengi vel haldið að Lúðvík hefði unnið hana.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.11.2006 kl. 12:21

4 identicon

Það er sama upp á teningnum í pólitík og fótboltanum, það er ekki nóg að vera yfir í hálfleik ef þú tapar svo leiknum þegar 90 mínúturnar eru komnar á töfluna.
Margrét fékk tæplega 25% fleiri atkvæði en Lúlli, fjarstæða að kalla slíkt nauman sigur, þótt lúlli hafi verið yfir í einhverjum tölum þá eru það lokatölurnar sem skipta máli.

Sigurður (IP-tala skráð) 7.11.2006 kl. 12:31

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Margrét sigraði í kosningunni. Á því leikur svo sannarlega enginn vafi, en Lúðvík sótti mjög að henni. Það var mjög spennandi talning, sem lauk með sigri Margrétar eins og allir vita. En Lúðvík kom sterkur út úr stöðu mála þó en kemur veikur út úr prófkjörinu nú og fær skell, búinn að fá Björgvin upp fyrir sig sem kjördæmaleiðtoga.

Stefán Friðrik Stefánsson, 7.11.2006 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband