10.12.2006 | 23:20
Spaugstofan hittir naglann á höfuðið

Ekki var síðra að sjá senuna um Frjálslynda flokkinn. Þar var sögusviðið yfirfært á Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson. Átti vel við í ljósi stöðunnar innan flokksins. Pálmi Gestsson og Edda Björg voru þar alveg frábær. Skemmtileg yfirfærsla yfir á stöðuna hjá Frjálslyndum og kómíkin alveg mögnuð. Þetta var einn besti þáttur vetrarins hjá þeim félögum fannst mér.
10.12.2006 | 21:26
Tímamót í Chile - eðalmyndin Missing

Eins og fyrr sagði hér í kvöld kom aldrei til þess að Pinochet myndi svara til saka fyrir verk sín á valdastóli, grimmdarlega stjórn sína á landinu og aftökur á pólitískum andstæðingum. Það var oft reynt, en mistókst alltaf. Það var vissulega dapurt að ekki tókst að rétta yfir honum í kjölfar atburðanna 1998, en svo fór sem fór. Mér sýnist fólk um allan heim gráta það mest á þessum degi. Dauði Pinochets kemur auðvitað engum á óvart og léttir einkennir skrif fólks og pælingar á stöðunni. Nú ætti að vera hægt að horfa fram á veg án skugga valdaferils Pinochets.
Margt gott efni lýsir vel stöðunni sem var í Chile eftir valdaránið 1973 þegar að Salvador Allende var drepinn og herstjórn Pinochets tók völdin. Það var upphaf valdaferils sem enn setur mark á stjórnmálin í S-Ameríku. Fyrst nú geta vonandi íbúar Chile horft fram á veginn. Það féllu margir í valinn í þeim hildarleik. Um þetta hafa verið samdar bækur og gerðar kvikmyndir sem áhugavert er að kynna sér.

Eins og Terry Gunnel hefur bent á nýtir Costa-Gavras hæfileika Lemmons sem gamanleikara með því að setja hann í harmrænt hlutverk. Samúð okkar með Horman vex jafnt og þétt og verður að djúpri vorkunnsemi sem við fylgjumst með honum tapa sakleysi sínu og ganga á hönd örvæntingarinnar.
Svipmikil og vönduð mynd - ein af allra bestu kvikmyndatúlkunum Jack Lemmon, sem þarna sýndi ekta dramatískan leik af mikilli snilld. Ég ætla mér að horfa á hana nú á eftir og hvet sem flesta til að líta á hana sem það geta.
![]() |
Íbúar í Santiago dansa á götum úti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2006 | 18:07
Augusto Pinochet látinn

Á þeim tveim áratugum sem hann var leiðtogi herstjórnarinnar og hersins í Chile létu stjórnvöld drepa um 3.000 pólitíska andstæðinga sína, samkvæmt opinberum tölum frá Chile. Sérstaklega var hin svokallaða Kondór-áætlun illræmd en henni var framfylgt í Chile og í fleiri löndum í Suður-Ameríku. Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita/elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum.
Pinochet var margoft formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 manns sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet tókst alla tíð að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill og hrumur hin síðari ár. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999.
Frægt varð er Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann hinsvegar niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var allt ótrúlega kómískt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. Undir lok ævi hans þótti flest stefna í stundina sem flestir biðu eftir en tækifærið rann að lokum út í sandinn í Chile.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2006 | 17:13
Enn um andstöðu við neyslustýringu
Ég átti von á viðbrögðum þegar að ég ákvað að skrifa um neyslustýringu ríkisins en satt best að segja ekki eins miklum og reyndin varð. En það er gleðiefni. Mér fannst mikilvægt að skrifa um þetta og benda á skoðanir mínar. Mér fannst sum kommentin vissulega athyglisverðari en önnur. Þar fannst mér koma vel fram skoðanamunur til hægri og vinstri, þeirra sem vilja að ríkið hugsi fyrir sig og sína og þeirra sem gera það ekki. Einnig sá ég að Ingimundur Kjarval skrifaði athyglisvert innlegg um greinina á málefnin.com.
Ingimundur leggur þetta út með þeim hætti að ég sé að hvetja foreldra til að hella kók í börnin sín og eða að berjast á móti almennu heilbrigði. Það er alveg fjarri lagi að ég sé að hvetja fólk til að gefa skít í heilsu sína og hugsa ekki um hvað það lætur ofan í sig. Ég var aðeins að segja ofur einfaldlega að það er ekki verkefni ríkisins að stjórna því hvað við látum ofan í okkur. Ég vona að fólk sé ekki svo einfalt að telja að ég hafi með skrifum mínum að hvetja til þess að fólk horfði ekki gagnrýnið á eigin forsendum á það hvað það lætur ofan í sig. Ég er aðeins að segja að valið á að vera okkar, ekki ríkisins. Mjög einfalt mál það.
Finnst merkilegt að tala sérstaklega um börnin. Yfir skrifum Ingimundar og annarra hafði ég á tilfinningunni að þau teldu að ríkið ætti að ala upp börnin. Sé það vandamál að börn drekki of mikið af gosdrykkjum og hámar í sig skyndibitafæði og óhollustu er það vandamál foreldranna. Þeir bera ábyrgð á börnunum sínum og hvað þau borða. Sé heilsufarslegt vandamál að aukast í tilfelli barna er það heimatilbúinn vandi, sem ríkið getur minnt á vissulega en ekki lagað. Foreldrar og forráðamenn verða að horfa í spegil og viðurkenna þá að eitthvað sé bogið við stöðuna á heimavelli. Það verður enginn vandi til fyrir einskæra tilviljun. En þarna komum við að meginpunktinum. Ríkið getur ekki hugsað fyrir okkur.Mér finnst neyslustýring fáranleg og stend við þau orð. Er á hólminn kemur er það mitt mál hvað ég borða og ég get engum kennt um það nema sjálfum mér. Ég skal alveg taka undir að það er í lagi að benda á skaðsemi óhollra matvæla eða minna á að mikil sykurneysla getur verið hættuleg og skaðleg til lengri tíma litið. En þar eiga mörkin að liggja.
Það getur enginn lagt börnum lífsreglurnar nema foreldrarnir. Sé uppeldi ábótavant eða krakkinn kominn á kaf í kókþamb eða pizzuát er það engum um að kenna nema ástandinu á heimavelli. Það má vel vera að menn líti á Siv Friðleifsdóttur sem móðurímynd allra landsmanna, en mér finnst það of mikið verkefni fyrir hana að taka á sig uppeldi allra barna landsins. Það er líka hlægilegt verkefni finnst mér. En eru foreldrarnir þarna að kasta frá sér uppeldishlutverkinu?
Við eigum því að benda á meginþætti með áberandi hætti en þar liggja mörkin. Við eigum að treysta fullorðnu fólki til að taka eigin ákvarðanir og börnin verða að vera undir eftirliti foreldra sinna, enginn annar getur tekið við uppeldishlutverkinu. Miðstýring ríkisins er engin lausn. Ég hugsa ekki allavega um það úti í búð hvort ein vara sé skattlögð meira en aðrar, vilji ég kaupa eitthvað og finn innri freistingu myndast fyrir því að kaupa mér vöruna stöðvar varla nokkuð þá ákvörðun.
En þarna mætumst við augliti til augliti þeir sem vilja frelsi einstaklingsins og þeir sem vilja miðstýringu ríkisins í líf fólks. Þetta er skýrt dæmi þess að mínu mati. En mín skoðun er alveg ljós. Við verðum að hafa vit fyrir okkur sjálf, ekki ríkið og krumla "stóra bróður".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2006 | 16:06
Umdeild pólitísk endurkoma Árna Johnsen

Það hefur komið vel fram í fréttum að andstaðan innan Sjálfstæðisflokksins við Árna hefur verið til staðar. Ályktanir LS og SUS segja sína sögu og skrif almennra flokksmanna. Tek ég undir það sem stjórnmálafræðiprófessor segir að þetta sé óþægindamál sem verði að komast botn í sem fyrst. Framhjá því verður ekki litið að Árni fékk umboð í prófkjöri, stuðning fólks til verka. Það virðist ekki bera á minna fylgi í Suðurkjördæmi, en í öllum öðrum kjördæmum. Það segir sína sögu að mínu mati. Ég tel einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn muni eiga erfitt vegna þessa máls um allt land nema einmitt þar. Nöpur staða það.
Það leikur enginn vafi á því að Sjálfstæðisflokkurinn mun lenda í verulegum vandræðum í öllum kjördæmum nema Suðurkjördæmi vegna Árna. Það er því miður bara þannig. Það verður erfitt fyrir flokksmenn um allt land að bera þetta mál inn í kosningabaráttuna. Mín skrif hér hafa fyrst og fremst verið til að staðfesta að ég muni ekki gera það. Það hefur of mikið gerst og staðan orðin of heit til að ég og eflaust einhverjir fleiri geti talað máli Árna í þeirri kosningabaráttu. Ég finn það á viðbrögðum þeirra sem hafa haft samband við mig að ég er ekki einn um þessa skoðun.
Ég tek undir það sem einn benti mér á að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi velur sinn framboðslista. Sá listi er ekki enn kominn fram. Kjördæmisþing er þar eftir. Það er enginn framboðslisti kominn í Suðurkjördæmi fyrr en kjördæmisþing hefur staðfest listann og alla þætti þess. Það er þó ekki endastöð. Miðstjórn verður að staðfesta alla framboðslista. Muni miðstjórn staðfesta listann með efstu sætum í þeirri röð sem liggur fyrir nú er miðstjórn að leggja blessun sína á framboð Árna. Hún verður þá að bera þann kross sem því fylgir að mínu mati, fari illa.
Mín skrif hafa fyrst og fremst verið til að sýna það með afgerandi hætti að ég get ekki stutt pólitíska endurkomu Árna, eins og staða mála er. Þó að ég sé sjálfstæðismaður get ég ekki kvittað undir allt sem í flokknum er og hefur gerst. Það er mjög einfalt mál. Þetta er of heit kartafla til að ég leggi í að bjóða fram krafta mína til varnar stöðunni. Það er bara þannig og heiðarlegt að það liggi bara fyrir.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessu máli muni ljúka. Mér er ekki akkur svosem að neinu en að því ljúki svo sómi sé að fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Forysta flokksins verður að sætta ólík sjónarmið og reyna að stýra þessu vel og sómasamlega fyrir alla aðila. Það er alveg ljóst að tekist er á um þetta mál og verður væntanlega þar til að ljóst er hvernig listinn í Suðurkjördæmi verður endanlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook
10.12.2006 | 15:06
Lengja þarf starfstíma Alþingis

Starfstími Alþingis hefur lengi verið mjög umdeildur. Hann hefur í áratugi verið eins. Þingið kemur fyrst saman þann 1. október, eða næsta virka dag og fundað er til um 10. desember. Svo hefjast fundir aftur um eða eftir 20. janúar og fundað fram í maíbyrjun. Það verður auðvitað ekki nú, enda lýkur þingstörfum í mars, þar sem kosningabaráttan til Alþingis hefst bráðlega af vaxandi þunga og skiljanlega þarf hún sinn tíma.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að lengja verði starfstíma Alþingis og fundir í þingsalnum eigi að verða lengur en bara þessa nokkra mánuði ársins. Það hefur alltaf verið skoðun mín að þingið eigi að koma saman í lok ágúst eða fyrstu viku september, funda til svona um 20. desember, hefja störf á nýju ári í kringum 5. janúar, funda fram að páskum og svo út maímánuð hið minnsta. Starfstími þingsins okkar einkennist af liðnu ráðslagi og úreltum tímum. Það á að sitja lengur við störf í þingsalnum. Með því má koma í veg fyrir örvæntingafullt verklag þar sem mál renna eins og á færibandi í niðursuðuverksmiðju gegnum þingið.
Sum mál þurfa lengri tíma en önnur. Athyglisvert er að sjá lög um fjármál stjórnmálaflokkanna renna í gegn með skelfilegum hraða. Ég er algjörlega á móti svona vinnubrögðum og tel mikilvægt að krefjast betri vinnuferlis og mál fái lengri og betri tíma til vinnslu, í umræðum og yfirferð. Þetta með fjármál flokkanna er sérstaklega ömurlegt vinnuferli og þinginu að mínu mati til skammar. En það var rétt hjá okkur í SUS að koma með mótmæli og fara yfir frumvarpið. Það hvernig það rann í gegn með kóuðum hætti með óvönduðum hætti er ekki þinginu til sóma.
Þetta verður að bæta og lengja þarf starfstíma þingsins. Mér finnst þetta grunnkrafa frá þeim sem vilja að þingið fari betur yfir mál og leggi lengri tíma til verka.
![]() |
Þingfundum á Alþingi frestað til 15. janúar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |