Spennandi tímar framundan fyrir bíófíklana

Óskarinn Það eru spennandi mánuðir framundan fyrir okkur kvikmyndafíklana. Það eru margar góðar kvikmyndir væntanlegar fljótlega í bíó. Það sést vel af tilnefningum til Golden Globe verðlaunanna sem kynntar voru í vikunni að áhugaverðar og flottar myndir eru í hverju plássi og leikframmistöðurnar sem tilnefndar eru líta hver annarri betur út. Það má búast við að þessar tilnefningar setji mark sitt ennfremur á Óskarsverðlaunin, en t.d. hlutu allir sigurvegar leikaraverðlaunanna á Óskarnum í febrúar Golden Globe mánuði áður.

Þessi árstími og fyrstu mánuðir ársins eru oftast nær besti tími ársins í bíó, en þá koma Óskarsverðlaunamyndirnar og helsta gæðaefnið á hverju ári. Sérstaklega hlakkar mér til að sjá myndir á borð við Dreamgirls (kvikmynd Bill Condon) sem sögð er alveg virkilega góð og hefur hlotið mikið lof kvikmyndagagnrýnenda sérstaklega fyrir góðan leik Jennifer Hudson og Eddie Murphy, Little Children (kvikmynd Todd Field) með Kate Winslet og Jennifer Connelly, Bobby (kvikmynd leikarans Emilio Estevez) sem lýsir atburðunum á Ambassador hótelinu 5. júní 1968 - daginn sem Bobby Kennedy var myrtur, og Little Miss Sunshine með Toni Collette.

Það sem kom mér mest í opna skjöldu með Golden Globe var að Babel skyldi verða tilnefnd til fleiri verðlauna en The Departed. Ég hef heyrt mikið um það að Babel sé reyndar gríðarlega sterk og öflug kvikmynd, sem jafnvel geti komið á óvart á Óskarnum. Babel er leikstýrð af Alejandro González Iñárritu og skartar Brad Pitt og óskarsverðlaunaleikkonunni Cate Blanchett, sem hlaut Óskarinn árið 2005 fyrir The Aviator. Þessi mynd er að mér skilst alveg fullkomin og með allan pakkann. Kemur líka úr nokkuð óvæntri átt, enda áttu menn ekki von á henni svona sterkri í verðlaunapakkann eins og raun ber vitni. Sérstaklega lofa menn leik Brad Pitt í henni og hann sýni þar sitt allra besta til þessa í leik. Þetta er allavega mynd sem ég ætla mér að sjá.

Önnur mynd sem ég tel lofa góðu og verða sigursæla er The Last King of Scotland, en þar leikur Forest Whitaker sjálfan Idi Amin, fyrrum harðstjóra í Úganda, víst með svo miklum bravör að farið er að slá því föstu að hann fái bæði Golden Globe og Óskarinn. Hún er víst sögð allt í senn heillandi, óvægin, magnþrungin og blóðug. Þetta er mynd sem mun klárlega verða vinsæl í bíó er á klakann kemur. Whitaker hefði fyrir löngu átt að verðlauna fyrir sínar góðu leikframmistöður, t.d. fannst mér hann mjög góður í hlutverki Jody í The Crying Game, kvikmyndaperlu írska leikstjórans Neil Jordan. Svo ætla ég hiklaust að sjá Blood Diamond, en þar sýnir Leonardo DiCaprio víst ekki síðri snilldartakta en í The Departed.

Peter O´Toole á glæsilegt comeback skilst manni í myndinni Venus, og það er mynd sem ég verð að sjá sem mikill aðdáandi kvikmynda þessa 75 ára leikara. O´Toole er tilnefndur til Golden Globe og fær væntanlega Óskarstilnefningu. Hann hefur þegar hlotið átta slíkar á löngum og glæsilegum leikferli, en aldrei unnið. Hann hlaut heiðursóskarinn árið 2003 og þáði hann með þeim orðum að hann hefði nú helst viljað fá þann gyllta með öðrum hætti. O´Toole mun víst tjá karakterinn sinn í myndinni, Maurice, með miklum glæsibrag og spurning hvort hann fái loks aðalleikaraóskar eftir langa og stranga bið. Það er reyndar með ólíkindum að hann fékk ekki verðlaunin fyrir Lawrence of Arabia eða The Ruling Class.

Spænski leikstjórinn Pedro Almodovar er mikill snillingur. Hann hefur nokkrum sinnum hlotið óskarinn og Golden Globe, bæði fyrir myndir sínar og kvikmyndahandrit. Nú kemur frá honum enn ein eðalmyndin að manni skilst, Volver. Þar mun Penolope Cruz eiga mikinn stórleik og hún nokkuð trygg með óskarstilnefningu. Sem mikill aðdáandi kvikmynda Almodovars er bókað að ég sjái auðvitað Volver. Dame Judi Dench er enn einu sinni tilnefnd, nú fyrir leik sinn í kvikmyndinni Notes on a Scandal, þar sem hún leikur með Cate Blanchett. Enn ein myndin á listann. Maggie Gyllenhaal mun eiga stjörnuleik í kvikmynd sem ber heitið SherryBaby, hef heyrt vel talað um myndina og leik hennar. Nauðsynlegt að sjá hana.

Áður hef ég hér fjallað um kvikmyndina The Queen, en ég tel að Helen Mirren fái óskarinn fyrir að leika Elísabetu II drottningu. Hún hefur verið í bíó og kemur væntanlega fyrr en síðar á kvikmyndaleigurnar. En lengi má telja upp. Margar eðalmyndir á leiðinni og spennandi tími framundan eftir jólin í bíói hjá okkur kvikmyndafíklunum. Ef þið hafið fleiri myndir í pottinn en þessar er velkomið að bæta við og fara betur yfir þetta allt.

mbl.is Ólíklegt að Eastwood og DiCaprio fá tvöföld Óskarsverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristján Þór skrifar um dramadrottningu

Kristján Þór Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri og nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kallar Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, borgarfulltrúa, dramadrottningu í nýjum pistli á bloggvef sínum þar sem hann svarar umfjöllun Steinunnar Valdísar á sviptingasömum stjórnarfundi Landsvirkjunar, sem var síðasti stjórnarfundur þeirra beggja innan Landsvirkjunar en ríkið hefur nú keypt hluti bæði Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu. Auk þessa hættir Kristján Þór sem bæjarstjóri á Akureyri þann 9. janúar nk. og verður þá forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar.

Orðrétt segir Kristján Þór á bloggvef sínum:

"Steinunni Valdísi Óskarsdóttur er eflaust margt til lista lagt en það liggur ekki sérlega vel fyrir henni að lýsa veruleikanum með raunsönnum hætti og beinir hún þeim tilmælum til fólks að það ,,geti bara bloggað úr sér pirringinn” ef eitthvað er að angra það."

"Það skal fúslega viðurkennt að við Vilhjálmur lögðum ekki undir flatt og hlýddum uppnumdir í anda jólanna á þennan margflutta boðskap. Við leyfðum okkur að vera á öndverðri skoðun. Af einhverjum ástæðum kýs Steinunn Valdís að reyna að spinna úr því mikið drama um karlrembu, horka og diss.  Pirringurinn í kolli hennar virðist hafa verið það mikill eftir stjórnarfundinn að dramadrottningin hefur tekið völdin og drifið sig á bloggið til að fá útrás."

Lífleg og góð bloggsíða hjá kjördæmaleiðtoga okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Fagna því enn og aftur hér á þessum vettvangi að Kristján Þór heldur áfram að blogga eftir þingprófkjörið í síðasta mánuði. Það er greinilegt að þetta verður lifandi vettvangur Kristjáns Þórs áfram í pólitík, á nýjum vettvangi í kosningabaráttunni sem hefst formlega eftir jólin.


mbl.is Steinunn Valdís vildi bíða þess að ríkið yfirtæki Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt

Minningarkrossinn í Kirkjugarði Akureyrar Það er sorglegt að heyra af enn einu banaslysinu í umferðinni, nú aðeins rúmri viku fyrir jólin. Árið 2006 er að verða sorglegasta árið í umferðinni hérlendis. 30 hafa nú látist í umferðarslysum hérlendis. Það er nístandi sársauki sem fylgir því að heyra fréttir af öllum þessum umferðarslysum, þau eru orðin svo mörg á þessu ári að maður veit að margar fjölskyldur verða í sárum þessi jólin, sem senn hefjast.

Í grunninn séð vekja þessi sorglegu umferðarslys okkur öll til lífsins í þessum efnum, eða ég ætla rétt að vona það. Dapurleg umferðarslys seinustu vikna og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er lykilverkefni að mínu mati.

mbl.is Banaslys á Álftanesvegi í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

90 ára afmæli Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn Framsóknarflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Hann er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins (stofnaður sama ár og Alþýðuflokkurinn) og hefur í áratugi verið ráðandi um stjórn landsmála og sveitarstjórna. Sex formenn Framsóknarflokksins hafa orðið forsætisráðherrar Íslands. Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem tók við formennsku flokksins í ágúst af Halldóri Ásgrímssyni, fyrrum forsætisráðherra, skrifar langa og athyglisverða grein um sögu flokksins og markmið hans á afmælinu í Fréttablaðinu í dag.

Staða Framsóknarflokksins hefur oftast í lýðveldissögunni verið með þeim hætti að hann hefur verið í oddastöðu við stjórnarmyndanir. Hann hefur oft getað myndað stjórnir eða verið í lykilhlutverki við að byggja upp ríkisstjórn. Þetta sást mjög vel er viðreisnarstjórnin féll árið 1971 og árið 1978 er vinstriflokkarnir, sigurvegarar þeirra kosninga með 28 þingsæti af 60, gerði Ólaf Jóhannesson að forsætisráðherra, en í þeim kosningum hafði Framsókn tapað stórt, misst fimm þingsæti í erfiðri stöðu. Framsókn var svo í oddastöðu við myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens og er þriggja flokka stjórn Þorsteins Pálssonar féll árið 1988.

Framsóknarflokkurinn hefur nær samfellt verið í ríkisstjórn frá árinu 1971, er viðreisnarstjórnin féll. Hann var utan stjórnar meðan minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sat 1979-1980 og svo meðan að Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sat 1991-1995. Frá alþingiskosningunum 1995 hefur Framsóknarflokkurinn verið í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var forsætisráðherra samstarfsins 1995-2004, en Halldór Ásgrímsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra 2004-2006.

Í kjölfar ákvörðunar Halldórs um að hætta í stjórnmálum í sumar varð Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, og Framsóknarflokkurinn gaf eftir stjórnarforsætið með athyglisverðum hætti. Á afmælisárinu mælist þessi tímamótaflokkur með innan við 10% fylgi í skoðanakönnunum og hefur dalað verulega í sveitarstjórnum þar sem flokkurinn hafði gríðarleg áhrif í; t.d. varð Framsóknarflokkurinn fyrir gríðarlegu áfalli í sveitarstjórnarkosningunum 2006 bæði á Akureyri og í Kópavogi.

Á afmælisárinu stendur því þessi elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins á krossgötum og á fyrir höndum erfiða kosningabaráttu, þar sem flest stefnir í að fylgi hans minnki umtalsvert.


Formannatal Framsóknarflokksins

Ólafur Briem 1916-1920
Sveinn Ólafsson 1920-1922
Þorleifur Jónsson 1922-1928
Tryggvi Þórhallsson 1928-1932
(forsætisráðherra 1927-1932)
Ásgeir Ásgeirsson 1932-1933
(forsætisráðherra 1932-1934)
Sigurður Kristinsson 1933-1934
Jónas Jónsson 1934-1944
Hermann Jónasson 1944-1962
(forsætisráðherra 1934-1942; 1956-1958)
Eysteinn Jónsson 1962-1968
Ólafur Jóhannesson 1968-1979
(forsætisráðherra 1971-1974; 1978-1979)
Steingrímur Hermannsson 1979-1994
(forsætisráðherra 1983-1987; 1988-1991)
Halldór Ásgrímsson 1994-2006
(forsætisráðherra 2004-2006)
Jón Sigurðsson frá 2006

mbl.is Framsóknarflokkurinn 90 ára í dag; fylgið sjaldan minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndislegir jólatónleikar í Glerárkirkju

Glerárkirkja Þeir voru alveg yndislegir jólatónleikarnir sem ég fór á í Glerárkirkju í kvöld. Maður komst endanlega í þessa eðalgóðu jólastemmningu þessa góðu kvöldstund, rúmri viku fyrir jólin. Okkur viðskiptavinum Sparisjóðs Norðlendinga var boðið til sannkallaðrar tónlistarveislu og þakka ég kærlega stjórnendum Sparisjóðsins fyrir höfðinglegt og gott boð.

Á tónleikunum fluttu Regína Ósk Óskarsdóttir, Karlakór Eyjafjarðar og stúlknakór Akureyrarkirkju gullfalleg jólalög, sem nutu sín vel í sneisafullri kirkjunni, en tveir tónleikar af þessu tagi voru haldnir í kvöld. Mikil aðsókn var á tónleikana, enda ekki á hverjum degi sem viðskiptavinum er boðið hér til slíkrar tónlistarveislu. Fór ég á fyrri jólatónleikana, kl. 20:00.

Senuþjófur tónleikanna var svo sannarlega Regína Ósk, en hún er svo sannarlega ein af bestu söngkonum landsins. Auk nokkurra jólalaga flutti hún nokkur lög af nýrri geislaplötu sinni, t.d. Eurovision-lagið Þér við hlið, sem varð í öðru sæti í undankeppninni hér heima í febrúar. Hefur mér alltaf fundist að það lag hefði átt að vinna og fara út fyrir okkar hönd, enda besta lagið í keppninni.

En þetta var semsagt notalegt og gott kvöld. Gestur Einar Jónasson fór alveg á kostum sem kynnir á tónleikunum og kom með góða og netta brandara svona inn á milli atriða sem léttu þessa kvöldstund enn frekar. Við sem vorum á tónleikunum fórum allavega glöð í hjarta heim á leið að tónleikum loknum.

Þakka enn og aftur Sparisjóði Norðlendinga fyrir gott boð og tónlistarfólkinu fyrir að koma okkur endanlega í hið eina sanna jólaskap. Nú styttist mjög í jólin og sem betur fer er ég búinn að nær öllu fyrir jólin.

Bloggfærslur 16. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband