2.12.2006 | 23:17
Líður að lokum hjá Fidel Castro

Það eru gamalkunn tíðindi að það að vera ráðandi í stjórnmálum snúist að mörgu leyti um það að koma vel fram og vera áberandi leiðtogi sem minnir á nærveru sína. Betur en margir aðrir þjóðarleiðtogar veit Fidel Castro þetta afskaplega vel. Hann hefur stjórnað með sýnilegu valdi á Kúbu í tæpa hálfa öld, þar sem stormandi boðskapur hans hefur skipt sköpum fyrir hann að hafa haldið völdum og getað ríkt þar þetta lengi. Þar hefur enda allt snúist um persónu hans.
Að því kemur á ævi hans sem og allra annarra að halla tekur undan fæti. Það er óhjákvæmilegt, sama hver um er að ræða. Framkoma í stjórnmálum á okkar fjölmiðlatímum snýst oftast nær um það hvernig fólk kemur fram. Komi það ekki fram eða er fjarverandi hlýtur kastljósið að beinast að fjarverunni. Í landi eins og Kúbu snýst allt um að sýna fram á vald sitt. Það hefur Castro gert og gerði margoft meðan að hann var veikur fyrir nokkrum árum er hann féll illa á opinberri samkomu og lærbrotnaði.
Það vekur því auðvitað talsverða athygli að það sem sjáist til Castro nú séu aðeins myndir af honum alvarlegum á svip í adidas jogging-galla (talandi um sannkallaða kaldhæðni) og greinilega fölan á brá að reyna að staulast nokkur skref með dagblaði í hendi sem sýnir tímasetninguna. Þetta er eins og í gíslatöku þegar að gíslinn er sýndur með nýjasta dagblaðið í hendinni, til að sýna að hann sé örugglega enn þessa heims. Þetta er í senn bæði skondið og skemmtilega óraunverulegt í sinni fyndnustu merkingu. Reyndar hafa slíkar myndir ekki birst síðan í endaðan október.
Það þarf ekki þaulreyndan sérfræðing í alþjóðastjórnmálum til að sjá hvert stefnir. Þegar að Castro deyr mun væntanlega Raul, bróðir hans, taka við. Hann er maður sömu kynslóðar og bróðir hans. Það mun lítið breytast stefnulega við valdatöku hans, en því fylgir auðvitað að völd einræðisstjórnarinnar veikjast og einræðisstjórn kommúnista þarna missir með áþreifanlegum hætti krumluna af stöðunni. Það var alltaf óhjákvæmilegt að allt breyttist þegar að Castro myndi deyja og það fer svo, enda er allt byggt á persónu hans og krafti hans sem leiðtoga.
Það gerist nær alltaf þegar að svona sterkur leiðtogi deyr að þá veikist einræðisstjórnin sem á bakvið hann var. Það er enda mjög erfitt að vera yfirgnæfandi í lokuðu samfélagi eins og Kúbu, með einræði og engum alvöru kosningum, þar sem leiðtoginn er heilsuveill og sá sem með völdin á að fara á meðan sést varla heldur. Það er því varla undrunarefni að það gerist fyrr en síðar að reynt sé að loka á orðróminn. Þetta var vandræðalegt í tilfelli Leonid Brezhnev og ekki síður Boris Yeltsin, þegar að reynt var að telja fólki trú um að hann væri heilsuhraustur.
Að því kemur væntanlega fyrr en síðar að þessi staða mála, með leiðtogann greinilega fárveikan, veki kúbverja til meðvitundar í samfélagi sem hefur vanist einræði og einum leiðtoga, án kosninga, til áratuga og þá sem fylgjast með einræðinu fjarri eymd kommúnismans, sem enn ómar í ríki einræðisherrans.
![]() |
Kastró mætti ekki í afmælisveisluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2006 | 20:37
Ingibjörg Sólrún greinir vanda Samfylkingarinnar
Þrátt fyrir minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins vegna Árnamálsins hækkar Samfylkingin ekki milli mánaða og hefur ekki gert lengi. Um þessar mundir eru fjögur ár síðan að borgarstjóraferli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur lauk snögglega eftir að hún tók fimmta sætið á lista flokksins í Reykjavík. Henni tókst ekki að komast á þing í kosningunum 2003 en varð varaformaður flokksins sama árið, eftir að Margrét Frímannsdóttir steig til hliðar fyrir Ingibjörgu. Hún varð þingmaður við afsögn Bryndísar Hlöðversdóttur og formaður flokksins sama ár.
Það hefur því ekki gengið neitt né rekið pólitískt hjá Ingibjörgu Sólrúnu eftir að hún felldi svila sinn Össur í hörðu formannskjöri fyrir einu og hálfu ári. Nú er staða mála þannig að Samfylkingin mælist með 16 þingsæti. Samfylkingin mælist með 7 þingmenn í Reykjavík, 4 í Kraganum, 1 í Norðvesturkjördæmi og 2 í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Það er ekki beint sú uppskera sem Ingibjörg Sólrún hefur stefnt að. Það virðist óravegur frá þeirri Ingibjörgu Sólrúnu sem var borgarstjóri og svo þeirri sem leiðir Samfylkinguna. Hún hefur aldrei fundið sig í landsmálunum.
Það hefur blasað við um langt skeið að Samfylkingin hefur ekki tiltrú landsmanna og þar hefur hringlandagangur staðið flokknum verulega fyrir þrifum og veikt stöðu hans. Það eru mikil pólitísk tíðindi að Ingibjörg Sólrún gangi hreint til verks og viðurkenni nú loksins þessa stöðu mála fyrir kjósendum.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Ætla að sjá til þess að Samfylkingin vinni ötullega í nýrri ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2006 | 15:00
Framboð Árna mun skaða Sjálfstæðisflokkinn

Ég spáði því þegar að ólgan hófst vegna þessa máls að við myndum tapa fylgi um allt nema einmitt í Suðurkjördæmi. Það er að koma all illilega á daginn og með áþreifanlegum hætti. Tap Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi er sérstaklega sláandi, þykir mér. Í Reykjavík norður missir flokkurinn tíu prósentustig og í Reykjavík suður rétt innan við það. Í Kraganum minnkar fylgið um 10 prósentustig. Þetta hefur aðallega áhrif á konurnar í baráttusætunum. Færi þetta svona myndu hvorki Sigríður Andersen né Ragnheiður Ríkharðsdóttir ná kjöri á þing að vori og Birgir Ármannsson myndi falla af þingi.
Hér í Norðausturkjördæmi mældumst við í síðustu könnun hér með fjóra þingmenn og 37%. Þeir eru þrír núna og fylgistapið er rétt um sjö prósentustig, þó að prófkjör hefði farið fram í mánuðinum. Flokkurinn er aðeins jafnstór og síðast í Norðvesturkjördæmi en mikið fylgistap blasir annars við. Í Suðurkjördæmi hækkar flokkurinn um tvö prósentustig. Athygli vakti að fréttastofa Útvarpsins auglýsti þetta sem svo að Árni Johnsen væri að sópa til sín fylgi. Mér finnst það verulega brenglað fréttamat, enda er hækkunin ekki mikil milli mánaða en hún verður meiri í mönnum talið vegna fylgistaps Samfylkingarinnar þar. En þetta er mikið umhugsunarefni vissulega.
Allir flokkar verða fyrir áfalli í þessari skoðanakönnun nema Frjálslyndir og VG mögulega, þó þeir séu greinilega að byrja að dala á viðkvæmum tímapunkti. Athygli vekur að Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með sjö þingmenn. Það er ekki gleðiefni miðað við helstu áherslur þeirra, t.d. í innflytjendamálum. Þær áherslur virðast reyndar á góðri leið með að kljúfa flokkinn, sbr. uppsögn Margrétar Sverrisdóttur og innri væringar því tengt. Það er annars greinilegt að Samfylkingin á í verulegri krísu. Hún mælist nú aðeins með 16 þingsæti og draumar um stjórnarforystu virðast fjarlægir.
En þessi könnun er fyrst og fremst verulegt áfall Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er þarna í áþekkri stöðu og í kringum síðustu kosningar. Á þessum vanda verður að taka og það fljótlega. Fylgistap Sjálfstæðisflokksins á sér eðlilegar ástæður að mínu mati. Það verður að horfa til Suðurkjördæmis í þeim efnum og á þessu verður að taka, sem fyrst. Það er mjög einfalt mál í mínum huga.
![]() |
Skora á Árna Johnsen |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)