Framboð Árna mun skaða Sjálfstæðisflokkinn

Könnun (nóv 2006) Það er athyglisvert að fara nánar yfir könnun Gallups, sem birt var í vikunni. Þar sést mikið fylgistap Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu og hér í Norðausturkjördæmi missum við rúm 6 prósentustig. Mér finnst þetta of mikið einhliða fylgistap hjá okkur til að kenna bara innflytjendatali Frjálslynda flokksins um, eins og ég hef áður sagt hér á vefnum. Það hefur ekkert mál verið meira rætt í flokknum undanfarið en framboð Árna Johnsen.

Ég spáði því þegar að ólgan hófst vegna þessa máls að við myndum tapa fylgi um allt nema einmitt í Suðurkjördæmi. Það er að koma all illilega á daginn og með áþreifanlegum hætti. Tap Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og í Suðvesturkjördæmi er sérstaklega sláandi, þykir mér. Í Reykjavík norður missir flokkurinn tíu prósentustig og í Reykjavík suður rétt innan við það. Í Kraganum minnkar fylgið um 10 prósentustig. Þetta hefur aðallega áhrif á konurnar í baráttusætunum. Færi þetta svona myndu hvorki Sigríður Andersen né Ragnheiður Ríkharðsdóttir ná kjöri á þing að vori og Birgir Ármannsson myndi falla af þingi.

Hér í Norðausturkjördæmi mældumst við í síðustu könnun hér með fjóra þingmenn og 37%. Þeir eru þrír núna og fylgistapið er rétt um sjö prósentustig, þó að prófkjör hefði farið fram í mánuðinum. Flokkurinn er aðeins jafnstór og síðast í Norðvesturkjördæmi en mikið fylgistap blasir annars við. Í Suðurkjördæmi hækkar flokkurinn um tvö prósentustig. Athygli vakti að fréttastofa Útvarpsins auglýsti þetta sem svo að Árni Johnsen væri að sópa til sín fylgi. Mér finnst það verulega brenglað fréttamat, enda er hækkunin ekki mikil milli mánaða en hún verður meiri í mönnum talið vegna fylgistaps Samfylkingarinnar þar. En þetta er mikið umhugsunarefni vissulega.

Allir flokkar verða fyrir áfalli í þessari skoðanakönnun nema Frjálslyndir og VG mögulega, þó þeir séu greinilega að byrja að dala á viðkvæmum tímapunkti. Athygli vekur að Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með sjö þingmenn. Það er ekki gleðiefni miðað við helstu áherslur þeirra, t.d. í innflytjendamálum. Þær áherslur virðast reyndar á góðri leið með að kljúfa flokkinn, sbr. uppsögn Margrétar Sverrisdóttur og innri væringar því tengt. Það er annars greinilegt að Samfylkingin á í verulegri krísu. Hún mælist nú aðeins með 16 þingsæti og draumar um stjórnarforystu virðast fjarlægir.

En þessi könnun er fyrst og fremst verulegt áfall Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er þarna í áþekkri stöðu og í kringum síðustu kosningar. Á þessum vanda verður að taka og það fljótlega. Fylgistap Sjálfstæðisflokksins á sér eðlilegar ástæður að mínu mati. Það verður að horfa til Suðurkjördæmis í þeim efnum og á þessu verður að taka, sem fyrst. Það er mjög einfalt mál í mínum huga.

mbl.is Skora á Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er mikilvægt að skrifa um þetta, enda blasir við að illa mun fara verði Árni ofarlega á lista. Þessi könnun sýnir okkur það alveg kristaltært. Menn verða að taka á því.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.12.2006 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband