Harðvítug valdabarátta innan Frjálslynda flokksins

Margrét Sverrisdóttir Harðvítug valdabarátta virðist í uppsiglingu innan Frjálslynda flokksins eftir að forysta flokksins ákvað að reka Margréti Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra þingflokksins með kuldalegum hætti í gærkvöldi. Í fimmfréttum útvarpsins var viðtal við föður Margrétar, Sverri Hermannsson, fyrrum ráðherra og bankastjóra, sem stofnaði flokkinn árið 1998. Þar sagði hann að Guðjón Arnar Kristjánsson, eftirmaður hans á formannsstóli, væri í úlfakreppu eftir innrás Jón Magnússonar, lögmanns, í flokkinn.

Sagði Sverrir að sannleikurinn um uppsögn Margrétar væri sá að forysta flokksins væri að reyna að ryðja henni úr vegi og snúa flokknum til annarrar áttar, t.d. í innflytjendamálum, þar sem Margrét hefur verið málsvari mildari og mannlegri áherslna en t.d. Jón Magnússon og varaformaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson, sem hljóma eins og sálufélagar í þessum málum. Ergja stofnendahóps flokksins, herráðs Sverris, með stjórn flokksins er greinileg og er að ná hámarki.

Er greinilegt að feðginin eru að leggja til atlögu við forystu flokksins eftir þessa augljósu aðför að Margréti og hún svarar þessum vinnubrögðum í viðtali við RÚV með þeim orðum að hún láti ekki hrekja sig úr Frjálslynda flokknum með bolabrögðum. Sverrir er eins og fyrri daginn mun beinskeyttari og sparar ekki stóru orðin nú síðdegis, ekki frekar en í Silfri Egils um síðustu helgi. Tal Guðjóns Arnars í viðtali við Rósu Björk og Heimi í Íslandi í bítið í morgun um uppsögn Margrétar var mjög ósannfærandi og þeirri spurningu fékkst í raun aldrei svarað hversvegna Margréti væri sagt upp með svo kuldalegum hætti ef samstaða væri um störf hennar og virðing borin fyrir þeim.

Sverrir HermannssonSverrir gekk reyndar svo langt í viðtalinu nú klukkan fimm að segja að greinilegt væri að Guðjón Arnar hefði gert Jón Magnússon að ráðningarstjóra sínum og þeir kumpánar vildu skipta um áhöfn á skútunni. Framundan er landsþing Frjálslynda flokksins í næsta mánuði. Þar verður forysta flokksins í kosningabaráttunni kjörin. Heldur verður nú að teljast líklegt að það landsþing verði þing átaka og uppgjörs milli hinna augljósu fylkinga í flokknum. Ekki kæmi það á óvart færi Margrét Sverrisdóttir þar í formanns- eða varaformannsframboð og reyndi að steypa forystumönnum þar. Öllum er allavega ljóst að flokkurinn logar í óeiningu.

Fróðlegt er að sjá skrif Valdimars Jóhannessonar í Fréttablaðinu í dag. Þessi kostulegi maður, sem leiddi framboð Nýs afls hér í Norðausturkjördæmi með litlum árangri, virðist vera kominn þangað inn aftur, en hann leiddi Frjálslynda í Reykjaneskjördæmi hinu forna í kosningunum 1999. Hann yfirgaf flokkinn með Gunnari Inga Gunnarssyni árið 2001 vegna eftirminnilegra átaka við Sverri og Margréti. Hann virðist kominn aftur til að hefna gamalla misklíða ef marka má pistilinn sem ber allt yfirbragð hefndaþorsta í garð tiltekinna aðila.

Það er öllum ljóst að Frjálslyndi flokkurinn logar stafnanna á milli. Uppsögn Margrétar og hörð orð stofnandans í garð formannsins og félaga hans sýnir það svo ekki verði um villst.


mbl.is Guðjón segir Margréti þurfa tíma í aðdraganda kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Mér finnst nú ekki Sverrir ganga langt þegar hann segir að þeir vilji skipta um áhöfn… Ég er viss að svo sé.  

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.12.2006 kl. 22:03

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Logar stafnanna á milli segirðu , ekki hefi ég nú orðið vör við það enda við alvön siglingum í þrætuvolki með smá brimgjöfum sitt á hvað.

Hvað með ykkur Sjálfstæðismenn, er búið að kveikja á friðarkerti í flokknum  um ályktanir allra handa um Eyjajarlinn ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 2.12.2006 kl. 03:23

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæl Guðrún María

Það sjá allir sem með fylgja deilurnar í Frjálslynda flokknum. Dóttur stofnanda flokksins er sagt upp með kuldalegum hætti og ávirðingar ganga á milli, meira að segja núverandi og fyrrverandi formanns um þessi mál.

Hvað varðar Árna Johnsen eru mikil átök um hann. Ég hef skrifað mikið um þau mál og ekkert verið feiminn að gera það allt upp.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.12.2006 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband