20.12.2006 | 22:46
Syrtir í álinn fyrir Bush - líður að leiðarlokum

Í dag hélt Bush forseti síðasta blaðamannafund sinn í Hvíta húsinu á þessu ári. Eftir hálfan mánuð munu demókratar taka við völdum í þinginu og þá verða leiðtogar flokksins, Nancy Pelosi og Harry Reid, þingleiðtogar og mun Pelosi verða fyrsta konan sem forseti fulltrúadeildarinnar og jafnframt verða þá valdamesta konan í sögu Bandaríkjanna og önnur í valdaröðinni, á eftir Dick Cheney, varaforseta. Á blaðamannafundinum var auðvitað spurt út í yfirvofandi valdasambúð repúblikana og demókrata næstu tvö árin og stöðuna í Írak. Hvort tveggja er viðkvæmt umræðuefni fyrir forsetann skiljanlega.
Val forsetans á Robert Gates sem nýjum húsbónda í Pentagon bætir fyrir milli repúblikana og demókrata, enda hefði verið mjög hart á milli aðila með Rumsfeld áfram á sínum stað. Uppstokkun í Pentagon var nauðsynleg í þessari stöðu. Það var enda mjög áberandi að enginn þingmaður demókrata greiddi atkvæði gegn Gates, en tveir repúblikanaþingmenn greiddu atkvæði gegn honum og voru ekki par hrifnir með að hann tæki við völdum í Pentagon. Gates hefur þótt fara vel af stað, hann þykir vera mildari málsvari í varnarmálum og hefur t.d. náð breiðum stuðningi með því að fara bil beggja í mestu hitamálunum sem nú geisa. Talið er að hann muni njóta fylgis í embætti langt út fyrir raðir repúblikana, einkum vegna þess.
Það sem brátt verður mál málanna vestanhafs í stjórnmálaumræðu eru forsetakosningarnar eftir tæp tvö ár. Aðeins eru þrettán mánuðir þar til að forkosningar flokkanna hefjast í fylkjunum og valferlið hefst með formlegum hætti. Búast má þó við að flest forsetaefnin fari að lýsa yfir framboði sínu eftir jólin. Talið er að John McCain og Rudolph Giuliani muni tilkynna um forsetaframboð sín í janúar og öruggt má telja að Hillary Rodham Clinton fari af stað snemma á nýju ári. Mikið er rætt um hvað þeldökki þingmaðurinn Barack Obama muni gera, en það má telja öruggt að hann fari ekki af stað nema vita hug Hillary í þessum efnum. John Edwards mun vera nær öruggur um að fara í framboð og margir bíða eftir því hvað Al Gore gerir.
George W. Bush mun sitja á forsetastóli til 20. janúar 2009. Það er enn langur tími til stefnu þar til hann heldur alfarinn til Crawford í náðuga daga ellilífeyris en vald og áhrif sitjandi forseta sem getur ekki farið fram aftur fer jafnan hægt og rólega minnkandi eftir miðtímabilskosningar. Þær eru nýafstaðnar. Valdamissir repúblikana var áfall fyrir forsetann og rýrir vald hans mun hraðar en ella hefði orðið. Það stefnir í miklar breytingar með næstu forsetakosningum.
Það má enda telja að öruggt að eftirmaður Bush, sem verður 44. forseti Bandaríkjanna, verði ólíkur honum um margt, sama hvort það verður demókrati eða repúblikani.
![]() |
Bush: Erum hvorki að sigra né tapa í Írak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2006 | 18:51
Snjólaust á Akureyri - brjálað rok og hláka

Skv. fréttum nú er Akureyrarflugvöllur orðinn umflotinn vatni. Mikið vatnsveður og leysingu hefur gert hér í bænum enda var hér talsverður snjór kominn áður en veðurhamurinn hófst. Hefur vatn flætt í kjallara á íbúðarhúsum. Holræsakerfi bæjarins hefur ekki haft undan í þessu veðri og hefur slökkvilið Akureyrar þurft í verstu tilfellunum að leggja slöngur til að dæla vatni í burtu. Hlíðarbraut grófst í sundur við Glerárbrú og einnig fór Súluvegur ofan bæjarins í sundur. Veður hefur lagast mikið í dag en rok er þó enn talsvert, en mesta hættan á vatnsleka virðist frá. Skarð kom svo í Hlíðarbraut, við Glerárbrú.
Fram í Eyjafirði féll aurskriða við bæinn Grænuhlíð og á veginn við bæinn Kolgrímustaði. Um tíma var svo talið að íbúar sveitabæjarins Melbrekku væri komið í sjálfheldu vegna vatnsflaums, en þeim tókst að komast í burtu áður en þyrla Landhelgisgæslunnar hélt af stað til bjargar þeim. Jarðvegsstífla brast svo við uppistöðulón ofan við rafstöð í Djúpadal. Flóðið rauf veginn beggja megin við brú á Eyjafjarðarbraut yfir Djúpadalsá. Mikill vöxtur hefur verið í Eyjafjarðará og svo má heyra í fréttum af því að hækki mjög í Þjórsá og Hvítá fyrir sunnan.
Þetta er merkilegt veður á þessum árstíma og við hér fyrir norðan eigum svo sannarlega ekki að venjast því að fá svona asahláku rétt fyrir jólahátíðina, sem betur fer má eiginlega segja.
![]() |
Ekki talin sérstök hætta á frekari aurskriðum í Eyjafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2006 | 18:10
Styttist í jólin
Það styttist í jólin. Eftir nákvæmlega fjóra sólarhringa, á slaginu 18:00, hefst þessi mikla hátíð ljóss og friðar. Ég kláraði það síðasta tengt jólunum í gærkvöldi er ég keypti síðustu jólagjafirnar, en ég átti bara tvær eftir. Jólakortin eru svo komin í póst, en þau skrifaði ég fyrir mánuði síðan. Finnst alltaf gott að vera búinn að þessu fyrir afmælið mitt sem er í blábyrjun sjálfra jólanna, eins og þeir vita sem þekkja mig.
Ég var að koma áðan úr jarðarför Snæborgar, frænku minnar, sem var jarðsungin frá Akureyrarkirkju nú eftir hádegið. Það er óhætt að segja að hún hafi dáið södd lífdaga og verið fyrir löngu farin í huganum frá ættingjum sínum en það er alltaf eftirsjá þegar að nánir ættingjar hverfa úr þessum heimi auðvitað. Annars byrjaði þetta ár erfiðlega fyrir mig með andláti Kidda, ömmubróður míns. Það dauðsfall kom á vondum tíma fyrir mig og ég var nokkurn tíma að vinna mig frá því. Það er bara eins og það er.
En jólin koma auðvitað. Ég settist niður seint í gærkvöldi og hlustaði á fallega jólatónlist og hugsaði með mér hversu yndislegt það sé að vera búinn að öllu fyrir jólin og vera ekki partur af þessu skelfilega jólastressi sem mætti mér í búðunum seint í gærkvöldi. Það er notalegt að byrja þennan undirbúning snemma og klára hann snemma líka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2006 | 17:43
Þrír mánuðir

Þakka ég þeim sem lesa vefinn fyrir góðar viðtökur á nýjum stað og svo auðvitað þakka ég þeim sérstaklega sem sent hafa komment og eða skrifað hér í gestabók.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2006 | 13:11
Byrgið hefur skilað einum ársreikningi frá 2003

Það er með ólíkindum að félagsmálaráðuneytið hafi ekki fyrr en nú beðið Ríkisendurskoðun um að taka út rekstur Byrgisins. Er það vel að það sé gert nú, en hefði átt að gera áður en samningur var gerður árið 2003 sem fjallað hefur verið um. Finnst mér þetta aðalatriði málsins. Það hlýtur að vera áfellisdómur yfir ríkinu að þar hafi verið greitt til fjölda ára án þess að peningaleg staða meðferðarheimilisins væri könnuð til fulls. Er þetta með algjörum ólíkindum og hlýtur að vekja margar spurningar. Þeim verður að svara, tel ég, og bíða menn nú eftir athugun ríkisendurskoðanda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)