24.12.2006 | 16:00
Gleðileg jól

Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund.
Ég færi öllum lesendum vefsins mínar innilegustu óskir um góða og gleðilega jólahátíð!
jólakveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætur svörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
oss Drottins birta kringum skín.
Oss öllum mikinn fögnuð flytur
sá friðarengill skær:
Sá Guð, er hæst á himni situr,
er hér á jörð oss nær.
Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
varð hold á jörð og býr með oss.
Guðs lýður, vertu' ei lengur hræddur
og lát af harmi' og sorg.
Í dag er Kristur Drottinn fæddur
í Davíðs helgu borg.
Hann fjötrum reifa fast er vafinn,
í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn.
Hann þína tötra tók á sig,
að tign Guðs dýrðar skrýði þig.
Á himni næturljósin ljóma
svo ljúft og stillt og rótt,
og unaðsraddir engla hljóma
þar uppi' um helga nótt.
Ó, hvað mun dýrðin himins þýða,
og hvað mun syngja englaraustin blíða?
Um dýrð Guðs föður, frið á jörð
og föðurást á barnahjörð.
Ó, dýrð sé þér í hæstum hæðum,
er hingað komst á jörð.
Á meðan lifir líf í æðum,
þig lofar öll þín hjörð.
Á meðan tungan má sig hræra,
á meðan hjartað nokkuð kann sig bæra,
hvert andartak, hvert æðarslag
Guðs engla syngi dýrðarlag.
Valdimar Briem
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2006 | 15:34
Yndislegur aðfangadagur

Nú eftir hádegið fór ég upp í kirkjugarð. Þar hvíla vinir og ættingjar sem ég met mikils. Það er við hæfi að minnast þeirra á þessum degi. Það var notalegt og gott veður þegar að ég fór þangað með friðarljós og átti þar notalega stund í góðri ró og sannkallaðri kyrrð.
Það hefur alla tíð verið rík hefð hjá mér og mínum fyrir því að fara upp í garð og að leiðum þeirra sem maður metur mikils. Þetta tel ég grunnatriði á þessum degi að sinna. Ég get ekki haldið gleðileg jól, nema að hafa sinnt þessu. Eftir þessa notalegu stund var gott að fá sér heitt kakó og smákökur. Nú tekur svo heilagasta stund ársins við.
Gleði í sálinni fæst með svo mörgu, mest að ég tel með að gefa af sér, bæði kærleika og góðan hug til annarra. Kærleikur er ekki mældur í peningum, hann er ómetanlegur. Fólk nær aldrei árangri í lífi sínu nema með því að hugsa um aðra á mikilvægum stundum, gefa af sér einhvern hluta af góðu hjartalagi í það minnsta.
Ég hef oft farið eftir þessu og það á best við á jólunum, á heilögustu stund ársins.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2006 | 11:44
Jólahugleiðingar

En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með.
Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Það er þó almenn skoðun að jólaljósin og jólaandinn lýsi upp mannlífið - gleði hátíðarinnar marki jákvætt andrúmsloft.
Það er megininntak hátíðar kristinna manna að þau færa okkur hamingju og ánægju - færa okkur tækifæri til að njóta gleði. Jólahátíðin lýsir upp hvunndaginn og færir okkur hið gullna tækifæri að njóta gleðistunda með ástvinum og gleyma daglegu amstri. Víða þurfum við því miður að horfa í fjölmiðlum á fréttir af eymd og fátækt um heiminn. Gott dæmi er örbirgðin víða í þróunarlöndunum og slæm staða blasir t.d. víða við í vanþróuðum löndum í kjölfar náttúruhamfara eða annarra vandamála sem setur mark sitt á þjáð samfélagið. Vonandi hafa margir gefið sitt af mörkum í söfnun Hjálpastarfs kirkjunnar - stuðlað að velferð annarra í aðdraganda jólahátíðar.
Það hlýjar um hjartaræturnar að gleðja vini og ættingja með notalegum kveðjum í jólakortum, fallegum gjöfum og njóta gleðistunda saman nú um hátíðirnar. Við megum þó ekki gleyma þeim sem eiga um sárt að binda, þeim sem minna mega sín. Besta gjöfin sem við getum gefið okkar nánustu er kærleikur og ástúð. Hinn sanni jólaandi er jú umfram allt fólginn í því að stuðla að velferð annarra - tryggja að allir njóti gleði í hjarta á þessum heilaga tíma - á trúarhátíð kristinna manna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)