Jólahugleiðingar

Jólatré Framundan er hátíðlegasti tími ársins, trúarhátíð kristinna manna um allan heim. Jólin eru í senn hátíð ljóss og friðar. Á slíkri hátíðarstundu hugsum við flest hlýlega til okkar nánustu og fjölskyldur hittast og eiga saman notalega stund. Skammdegið er lýst upp með fallegum ljósum og skreytingum í tilefni hátíðarinnar. Jólin eru kjörið tækifæri til að slappa af; lesa góðar bækur, borða góðan mat og njóta lífsins. Jólin eru ánægjulegasti tími ársins.

En aðventan getur hinsvegar verið öllu þungbærari. Fæstir nýta því miður desembermánuð til þess að bíða og hugleiða raunverulegan anda jólanna, eins og hugtakið aðventa vísar til. Því miður getur streitan sem fylgir ansi oft jólaundirbúningnum verið gífurleg. Fólk gleymir sér í skreytingum, jólakortaskrifum, jólabakstri, gjafakaupum og búðarrápi, svo fátt eitt sé nefnt. Í slíku andrúmslofti, sem getur skapast við þess háttar aðstæður, er mjög brýnt að minnast þeirra sem að þarfnast hjálpar okkar með.

Mörgum finnst það spilla heilagleika jólanna hversu snemma verslanir taka að kynna jólin og auglýsingamennskan vegna þeirra hefst. Dæmi má nefna að það var upp úr miðjum októbermánuði sem jólavörur fóru að verða áberandi í verslunum í Reykjavík. Í byrjun desember taka síðan jólaseríur heimilanna að prýða glugga íbúðarhúsanna. Þetta er orðin nokkuð venjubundin þróun og eftirtektarverð. Mörgum finnst að jólin komi með þessu of snemma og heilagleiki þeirra verði minni en ella. Það er þó almenn skoðun að jólaljósin og jólaandinn lýsi upp mannlífið - gleði hátíðarinnar marki jákvætt andrúmsloft.

Það er megininntak hátíðar kristinna manna að þau færa okkur hamingju og ánægju - færa okkur tækifæri til að njóta gleði. Jólahátíðin lýsir upp hvunndaginn og færir okkur hið gullna tækifæri að njóta gleðistunda með ástvinum og gleyma daglegu amstri. Víða þurfum við því miður að horfa í fjölmiðlum á fréttir af eymd og fátækt um heiminn. Gott dæmi er örbirgðin víða í þróunarlöndunum og slæm staða blasir t.d. víða við í vanþróuðum löndum í kjölfar náttúruhamfara eða annarra vandamála sem setur mark sitt á þjáð samfélagið. Vonandi hafa margir gefið sitt af mörkum í söfnun Hjálpastarfs kirkjunnar - stuðlað að velferð annarra í aðdraganda jólahátíðar.

Það hlýjar um hjartaræturnar að gleðja vini og ættingja með notalegum kveðjum í jólakortum, fallegum gjöfum og njóta gleðistunda saman nú um hátíðirnar. Við megum þó ekki gleyma þeim sem eiga um sárt að binda, þeim sem minna mega sín. Besta gjöfin sem við getum gefið okkar nánustu er kærleikur og ástúð. Hinn sanni jólaandi er jú umfram allt fólginn í því að stuðla að velferð annarra - tryggja að allir njóti gleði í hjarta á þessum heilaga tíma - á trúarhátíð kristinna manna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

gleðileg jól

Ólafur fannberg, 24.12.2006 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband