Hátíðleg jólastund

AkureyrarkirkjaAðfangadagskvöldið var stund hátíðleika og helgi í huga mér og eflaust allra annarra sem vefinn lesa. Kl. 18:00, eftir að hafa óskað hvoru öðru gleðilegra jóla, var borðaður notalegur og góður matur. Svo tóku við hefðbundnar stundir að lesa jólakortin og opna pakka. Það er hefð á mínum slóðum lífsins að lesa kortin á undan og fara svo í pakkana. Ég held að ég hafi aldrei fengið eins mörg kort og var nú á þessum jólum. Yngstu fjölskyldumeðlimum fannst mjög merkilegt að ég skyldi fá jólakort frá sjálfum forsætisráðherranum þessi jólin, en það hefur nú vissulega gerst áður.

Eftir hefðbundnar stundir var kveikt á sjónvarpstækinu og horfðum við saman á aftansöng jóla í Ríkissjónvarpinu. Þar predikaði biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson, í Áskirkju þar sem bróðir hans, Árni Bergur Sigurbjörnsson heitinn, var prestur í áratugi. Það var hugheil og vel mælt predikun eins og Karls er von og vísa. Sterkast við Karl á biskupsstóli hefur mér alla tíð þótt hversu góður predikari hann er. Þegar að hann talað er mælt af innlifun og sannri meiningu. Tókst honum mjög vel til og tónlistin var stórfengleg. Þetta var notaleg og góð stund á aðfangadagskvöld.

Kl. 23:30 fór ég í Akureyrarkirkju, sóknarkirkjuna mína í miðnæturmessu. Miðnæturmessan bar yfirskriftina englamessa. Þar predikaði sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. Mæltist honum vel og var predikun hans vönduð og vel flutt. Mér líkar mjög vel áherslur og verk Óskars Hafsteins á prestsstóli hér og tel hann mjög öflugan í sínum verkum Kammerkórinn Hymnodia söng og var Eyþór Ingi Jónsson organisti þessa heilögu kvöldstund í aðdraganda jólanætur, heilögustu næturstundar ársins. Hymnodia fór algjörlega á kostum. Nýlega söng söngflokkurinn með Óskari Péturssyni á geislaplötu hans og brilleraði þar. Frábært að hlusta á þau syngja.

Er heim kom hlustaði ég á upptöku af söngskemmtun Hvítasunnusafnaðarins sem var flutt á sama tíma og ég var á miðnæturmessunni. Það er stórfenglegt að hlusta á jólatónleika Hvítasunnumanna og er á hverju ári. Þvílík tónfegurð og þvílík listagáfa af Guðs náð. Þetta voru stórfenglegir tónleikar og þeir fylltu mann gleði og krafti. Þetta var yndislegt, í einu orði sagt. Sérstaklega var notalegt að hlusta á Björgvin Halldórsson syngja með Gospelkórnum nokkur jólalög. Heims um ból í blálok söngskemmtunarinnar var svo listilega vel flutt. Þeir Hvítasunnumenn eiga heiður skilið fyrir glæsilega tónleika sína og vandað yfirbragð þeirra.

Ég fór að sofa fljótlega eftir tónleikana, enda var maður eiginlega úrvinda eftir síðustu daga. Mikið um að vera og notalegt að hvíla sig vel. Nú í dag hefur maður farið vel yfir jólagjafirnar. Það er svona handan við hornið að byrja að lesa nokkrar eðalbækur sem ég fékk í jólagjöf. Þar eru efstar á lestrarlistanum ævisaga sr. Matthíasar Jochumssonar, sóknarprests og heiðursborgara okkar Akureyringa, en ævisaga hans er listilega rituð af Þórunni Valdimarsdóttur, Óvini ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson, og Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson, þar sem lýst er ævi Gunnars Gunnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar. Allar eru tilnefndar til bókmenntaverðlaunanna.

Svo fékk ég mynddiska með stórfenglegum tónleikum Björgvins Halldórssonar og Bubba Morthens. Alveg yndisleg tónlist. Leit aðeins á tónleika Björgvins. Alveg meistaralegur umbúnaður utan um tónleikana og ekki feilnóta slegin. Björgvin kann sitt fag. Bubbi sló í gegn með tónleikunum sínum í sumar sem endanlega sönnuðu kraft hans og snilli. Þetta eru algjörir kóngar í íslenskri tónlist í dag. Engin spurning. Auk þess fékk ég frá Krissa bróður þrjá mynddiska í öskju um sögu 20. aldarinnar. Það myndefni heillaði mig mest og ég horfði á einn diskinn nú eftir hádegið áður en haldið er út í jólaboð. Krissi þekkir mig og veit hvað ég vil. Yndislegir diskar sem ég gleymdi mér yfir. :)

En semsagt, yndisleg og góð jól - hátíð í bæ. Vona að þið hafið það öll sem best á þessum hátíðlega tíma.

Gleðileg jól!


mbl.is Íhugun og ró á aðfangadag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband