Notaleg jólakveðja frá Dominos

Dominos Pizza Kl. 17:02 á aðfangadag fékk ég SMS-jólakveðju frá Dominos Pizzu. Mér fannst það notaleg og góð jólakveðja. Ég er einn dyggra viðskiptavina Dominos og panta oft pizzu þaðan. Eini staðurinn hér sem ég panta mögulega pizzu frá að öðru leyti er Greifinn. Aðrir komast ekki nálægt þeim í gæði með góðar pizzur. Ég ætla ekkert að neita því að ég borða reglulega pizzu og finnst það herramannsmatur. Því var kveðjan mjög notaleg bara.

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins nú á öðrum degi jóla var Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, að kvarta yfir þessum SMS-sendingum á aðfangadag og var ekki ánægður. Taldi hann þarna fyrirtækið vera að misnota sér aðstöðu sína á aðfangadegi. Ég er ekki sammála Jóhannesi. Mér fannst þetta góð kveðja frá fyrirtæki til viðskiptavina sinna. Ég get allavega ekki sagt að mér hafi langað í Dominos Extra á sjötta tímanum á aðfangadegi allavega.

Þetta er merkileg umræða. Eflaust finnst sitt hverjum um þessar skilaboðasendingar. Hvað mig varðar finn ég ekki að þessu. Mér finnst eðlilegt að Dominos sendi viðskiptavinum sínum kveðju og þakki fyrir viðskiptin á árinu. Ekkert nema gott um það að segja að mínu mati. Ég er því ekki beint sammála formanni Neytendasamtakanna í þessum efnum.

Sárasaklaus SMS-skilaboð á aðfangadag hafa varla leitt til þess að fólk sem beið eftir jólasteikinni hafi langað frekar í pizzubita á þessum degi og varla hefur þetta skaðað dómgreind fólks sem þegar hafði pantað sér pizzu frá fyrirtækinu.

Ég vil því nota tækifærið og senda innilega jólakveðju til Dominos. Það eru 110% líkur á því að ég panti mér pizzu þaðan á næsta ári.

Dauðadómur yfir Saddam Hussein staðfestur

Saddam Hussein Í dag, á öðrum degi jóla, hefur áfrýjunardómstóll í Írak vísað frá áfrýjun á dauðadómi yfir Saddam Hussein, fyrrum forseta Íraks. Verður hann líflátinn innan 30 daga. Þetta eru mikil tímamót í þessu máli og óneitanlega kaldhæðnislegt að þau tímamót gerist á jólunum. Það virðist flest benda til þess að endalok Saddams verði því í byrjun nýs árs. Saddam var dæmdur til dauða þann 5. nóvember sl.

Verður Saddam Hussein hengdur verði refsingunni framfylgt. Dómnum var þegar áfrýjað og nú, aðeins 50 dögum síðar, hefur áfrýjun þessa umdeilda einræðisherra, sem ríkti í Írak með harðri hendi á árunum 1979-2003, verið hafnað. Valdaferli Saddams, sem var skrautlegur og hefur verið innlifun í margar bækur og heimildarmyndir, lauk í innrás Bandamanna í landið í marslok 2003 en stjórnin féll með táknrænum hætti í kastljósi heimsfjölmiðlanna þann 9. apríl 2003.

Þrjú ár voru liðin þann 13. desember sl. frá því að Saddam var handtekinn í sveitahéruðum Íraks. Það markaði mikil tímamót, enda hafði honum tekist að komast undan í rúmlega hálft ár og töldu flestir þá að honum yrði aldrei náð. Handtakan var alheimsviðburður og flestum gleymist vart myndirnar af Saddam fúlskeggjuðum og hrörlegum, eftir flóttann og að hafa í raun þurft að lifa sem útigangsmaður væri til að komast undan þeim sem leituðu hans.

Ekki er hægt að segja að dauðadómurinn yfir Saddam Hussein komi óvænt. Það hefur eiginlega blasað við frá handtökunni í desember 2003 að það kæmi til þessarar stundar. Ég hef margoft sagt það í skrifum að ég er ekki hlynntur dauðarefsingum. Það er mjög einfalt mál. Ég verð þó fúslega að viðurkenna að mér er nákvæmlega sama um Saddam Hussein og er ekki mjög áhyggjufullur yfir hans örlögum. Þeir sem hafa lesið um verk hans á valdastóli og vinnubrögð gegn pólitískum andstæðingum eru ekki mjög umhyggjusamir um velferð hans. Ég hef lesið það mikið um pólitísk verk hans að ég ætla ekki að verja þann mann.

Öll munum við eftir fréttamyndunum sem sýndu aftökuna á Elenu og Nicolae Ceausescu, forsetahjónum Rúmeníu, í desember 1989. Við fall einræðisstjórnar þessa kommúnistaleiðtoga voru þau elt uppi sem hundar væru og þau skotin eftir snöggleg réttarhöld. Svipmyndirnar af líkum þeirra fóru um allan heim og vöktu verulega athygli. Rúmenar voru kúgaðir af þessari einræðisstjórn og þar var sú afstaða tekin að drepa þau áður en kommúnistar gætu byggt sig upp aftur. Óttinn um bakslag í byltingunni réði afstöðunni. Ég var tólf ára þegar að ég sá þessar fréttamyndir og þær sitja enn í mér. Ég skildi afstöðu þeirra, þrátt fyrir allt.

Það er erfitt að meta það hvort að einræðisherrar sem halda þjóð sinni í kúgun og drepi pólitíska andstæðinga sína verðskuldi örlög sem þau er þeir velja andstæðingunum og meta eigi þá betur. Þetta er mikið umhugsunarefni. Heilt yfir styð ég ekki dauðarefsingar og á erfitt með að tala fyrir því. En ég hef ekki samúð með Saddam Hussein og er nokkuð sama um hver örlög hans verða. Ekki kippi ég mér mikið við fréttir af þessari niðurstöðu og ætla ekki að tala gegn honum, það er mjög einfalt mál.

mbl.is Dauðadómur yfir Saddam Hussein staðfestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurbjörn biskup og Vladimir Ashkenazy

Hr. Sigurbjörn EinarssonÞað var notalegt að horfa á sjónvarpið á þessu jóladagskvöldi. Þar var fremst í flokki tvenn góð viðtöl við Íslendinga sem sett hafa mark sitt á samtíð sína með ólíkum hætti síðustu áratugina. Báðir hafa fyrir löngu öðlast virðingu þjóðarinnar og öflugan sess í huga hennar.

Viðtal Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var eitt hið besta sem ég hef lengi séð. Vandað og vel gert og Jóhanna Vigdís spurði mjög vel. Sigurbjörn biskup er líklega áhrifaríkasti maður íslensku þjóðkirkjunnar í aldir, hreint út sagt. Hann er einn merkasti Íslendingur 20. aldarinnar og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi. Áhrif hans innan kirkjunnar eru óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.

Sigurbjörn biskup varð 95 ára fyrr á þessu ári. Hann er mjög vel ern miðað við aldurinn; enn að, predikar og ritar reglulega greinar og íhuganir um trúarleg málefni.  Hann talaði í viðtalinu um trúarleg málefni, samtíð sína allt frá unglingsárunum í Meðallandi og til þess tíma að hann vann sem kennari í guðfræðideildinni og biskup þjóðkirkjunnar og um stöðu mála nú á dögum. Hann er einn þeirra manna sem hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo að fólk hlustar. Sigurbjörn biskup talaði fumlaust og af visku í þessu viðtali sem fyrr. Það er þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann.

Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, var ein trúaðasta kona sem ég hef nokkru sinni kynnst og mun nokkru sinni kynnast á minni ævi. Hún kenndi mér að meta og virða kristna trú og það sem felst í henni. Þann fjársjóð met ég alla ævi og virði. Hún kenndi mér líka að virða og meta Sigurbjörn Einarsson biskup. Hún bar alla tíð óttablandna virðingu fyrir honum og vitnaði oft í predikanir og trúarleg verk hans. Þau mat hún mjög og að hennar mati var Sigurbjörn besti leiðtogi þjóðkirkjunnar, hann var að hennar mati sá fulltrúi hennar sem mest áhrif hefði haft ef undan eru aðeins skildir þeir sem fyrst mörkuðu spor kristni á Íslandi.

Mér fannst ómetanlegt að horfa á þetta viðtal. Það var innihaldsríkt og heilsteypt. Sigurbjörn hefur markað sér þau áhrif sem mest má meta og hann mun njóta virðingar þjóðarinnar svo lengi sem menn minnast hans og trúarlegra starfa hans. Það er að ég tel leitun að þeim mönnum sem merkari skref munu skilja eftir sig eftir sinn dag. Þetta viðtal sannfærði mig og eflaust alla aðra sem á það horfðu hversu stór sess hans er og hversu stór hann muni verða í sögu þjóðarinnar. Það er ekki hægt annað en að þakka Ríkissjónvarpinu innilega fyrir þetta viðtal og að gefa okkur þessa kvöldstund með Sigurbirni.

AshkenazySíðla kvölds horfði ég á upptöku af viðtalsþætti Jóns Ársæls Þórðarsonar við meistara Vladimir Ashkenazy á Stöð 2. Þar var rætt við Ashkenazy og eiginkonu hans, frænku mína, Þórunni Jóhannsdóttur, sem ættuð er frá Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal. Það er óþarft að kynna hann fyrir landsmönnum. Í áratugi hefur hann verið einn litríkasti hljómsveitarstjóri og tónsnillingur okkar. Þetta var virkilega gott viðtal. Jón Ársæll hefur það til að bera að geta spurt réttra spurninga og fært okkur karakter og hugsanir viðmælandans fölskvalaust. Jón Ársæll er enda sálfræðingur að mennt og virkar oft á mann sem slíkur á viðtölunum sínum er hann ræðir við gesti sína í þáttunum. Minnir oft á Jónas Jónasson satt best að segja.

Vladimir hefur verið íslenskur ríkisborgari í yfir þrjá áratugi. Hann hefur gefið tónlistarmenningu okkar mikið og verið okkur Íslendingum mikils virði. Ég lít á Vladimir sem Íslending. Hann er Íslendingur og hefur verið glæsilegur fulltrúi okkar alla tíð eftir að hann giftist Þórunni og varð Íslendingur í hjartanu. Í viðtalinu talaði hann um viðskilnaðinn við Sovétríkin sálugu og vék að heimalandinu eins og það lítur út í dag handan einokunar og einræðis kommúnista. Er ég sammála honum í lýsingum hans um Pútín og stjórn hans. Þar er ekki á réttri leið farið til frelsis og því miður minna tilburðir þeirrar stjórnar oft á einræði. Það er sorglegt. Vladimir ræddi um fleiri mál með athyglisverðum hætti.

Þessi tvö viðtöl voru heilsteypt og vönduð - viðeigandi á jóladagskvöldi. Síðla kvölds var svo besta mynd hátíðanna til þessa sýnd - The Aviator í leikstjórn meistara Martin Scorsese (sem átti að hljóta óskarinn á sínum tíma). Yndisleg fimmföld óskarsverðlaunamynd og gríðarlega vel gerð, ramma fyrir ramma. Það var notalegt að sjá enn og aftur stórfenglega óskarsverðlaunaða túlkun Cate Blanchett á drottningu kvikmyndanna, Katharine Hepburn, og svipmikla túlkun Leo DiCaprio á sérvitringnum eftirminnilega, Howard Hughes.


Bloggfærslur 26. desember 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband