Sigurbjörn biskup og Vladimir Ashkenazy

Hr. Sigurbjörn EinarssonÞað var notalegt að horfa á sjónvarpið á þessu jóladagskvöldi. Þar var fremst í flokki tvenn góð viðtöl við Íslendinga sem sett hafa mark sitt á samtíð sína með ólíkum hætti síðustu áratugina. Báðir hafa fyrir löngu öðlast virðingu þjóðarinnar og öflugan sess í huga hennar.

Viðtal Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, var eitt hið besta sem ég hef lengi séð. Vandað og vel gert og Jóhanna Vigdís spurði mjög vel. Sigurbjörn biskup er líklega áhrifaríkasti maður íslensku þjóðkirkjunnar í aldir, hreint út sagt. Hann er einn merkasti Íslendingur 20. aldarinnar og áhrifamesti predikari þjóðarinnar frá upphafi kristni á Íslandi. Áhrif hans innan kirkjunnar eru óumdeild; sem kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og biskup Íslands í tvo áratugi mótaði hann kynslóðir presta og varð andlegur leiðtogi í huga landsmanna allra.

Sigurbjörn biskup varð 95 ára fyrr á þessu ári. Hann er mjög vel ern miðað við aldurinn; enn að, predikar og ritar reglulega greinar og íhuganir um trúarleg málefni.  Hann talaði í viðtalinu um trúarleg málefni, samtíð sína allt frá unglingsárunum í Meðallandi og til þess tíma að hann vann sem kennari í guðfræðideildinni og biskup þjóðkirkjunnar og um stöðu mála nú á dögum. Hann er einn þeirra manna sem hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo að fólk hlustar. Sigurbjörn biskup talaði fumlaust og af visku í þessu viðtali sem fyrr. Það er þjóðinni mikilvægt að eiga andlegan leiðtoga á borð við hann.

Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, var ein trúaðasta kona sem ég hef nokkru sinni kynnst og mun nokkru sinni kynnast á minni ævi. Hún kenndi mér að meta og virða kristna trú og það sem felst í henni. Þann fjársjóð met ég alla ævi og virði. Hún kenndi mér líka að virða og meta Sigurbjörn Einarsson biskup. Hún bar alla tíð óttablandna virðingu fyrir honum og vitnaði oft í predikanir og trúarleg verk hans. Þau mat hún mjög og að hennar mati var Sigurbjörn besti leiðtogi þjóðkirkjunnar, hann var að hennar mati sá fulltrúi hennar sem mest áhrif hefði haft ef undan eru aðeins skildir þeir sem fyrst mörkuðu spor kristni á Íslandi.

Mér fannst ómetanlegt að horfa á þetta viðtal. Það var innihaldsríkt og heilsteypt. Sigurbjörn hefur markað sér þau áhrif sem mest má meta og hann mun njóta virðingar þjóðarinnar svo lengi sem menn minnast hans og trúarlegra starfa hans. Það er að ég tel leitun að þeim mönnum sem merkari skref munu skilja eftir sig eftir sinn dag. Þetta viðtal sannfærði mig og eflaust alla aðra sem á það horfðu hversu stór sess hans er og hversu stór hann muni verða í sögu þjóðarinnar. Það er ekki hægt annað en að þakka Ríkissjónvarpinu innilega fyrir þetta viðtal og að gefa okkur þessa kvöldstund með Sigurbirni.

AshkenazySíðla kvölds horfði ég á upptöku af viðtalsþætti Jóns Ársæls Þórðarsonar við meistara Vladimir Ashkenazy á Stöð 2. Þar var rætt við Ashkenazy og eiginkonu hans, frænku mína, Þórunni Jóhannsdóttur, sem ættuð er frá Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal. Það er óþarft að kynna hann fyrir landsmönnum. Í áratugi hefur hann verið einn litríkasti hljómsveitarstjóri og tónsnillingur okkar. Þetta var virkilega gott viðtal. Jón Ársæll hefur það til að bera að geta spurt réttra spurninga og fært okkur karakter og hugsanir viðmælandans fölskvalaust. Jón Ársæll er enda sálfræðingur að mennt og virkar oft á mann sem slíkur á viðtölunum sínum er hann ræðir við gesti sína í þáttunum. Minnir oft á Jónas Jónasson satt best að segja.

Vladimir hefur verið íslenskur ríkisborgari í yfir þrjá áratugi. Hann hefur gefið tónlistarmenningu okkar mikið og verið okkur Íslendingum mikils virði. Ég lít á Vladimir sem Íslending. Hann er Íslendingur og hefur verið glæsilegur fulltrúi okkar alla tíð eftir að hann giftist Þórunni og varð Íslendingur í hjartanu. Í viðtalinu talaði hann um viðskilnaðinn við Sovétríkin sálugu og vék að heimalandinu eins og það lítur út í dag handan einokunar og einræðis kommúnista. Er ég sammála honum í lýsingum hans um Pútín og stjórn hans. Þar er ekki á réttri leið farið til frelsis og því miður minna tilburðir þeirrar stjórnar oft á einræði. Það er sorglegt. Vladimir ræddi um fleiri mál með athyglisverðum hætti.

Þessi tvö viðtöl voru heilsteypt og vönduð - viðeigandi á jóladagskvöldi. Síðla kvölds var svo besta mynd hátíðanna til þessa sýnd - The Aviator í leikstjórn meistara Martin Scorsese (sem átti að hljóta óskarinn á sínum tíma). Yndisleg fimmföld óskarsverðlaunamynd og gríðarlega vel gerð, ramma fyrir ramma. Það var notalegt að sjá enn og aftur stórfenglega óskarsverðlaunaða túlkun Cate Blanchett á drottningu kvikmyndanna, Katharine Hepburn, og svipmikla túlkun Leo DiCaprio á sérvitringnum eftirminnilega, Howard Hughes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ég hef mjög lengi borið ómælda virðingu fyrir sr.Sigurbirni ekki hvað síst fyrir hans kveðskap í formi sálma þar sem speki og vizku er að finna í hverju orði.

Sá ekki viðtalið en finnst virðingarvert að fá viðtal við hann á þessari hátíð.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.12.2006 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband